17.03.1961
Efri deild: 75. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1018 í B-deild Alþingistíðinda. (995)

152. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að um langt skeið undanfarið hafa fyrirtæki í sjávarútvegi ekki fengið nægilegt fjármagn til langs tíma vegna þeirra framkvæmda, sem þau hafa ráðizt í eða þurft að ráðast í. Þetta hefur hins vegar leitt til þess, að fyrirtækin hafa fest rekstrarfé sitt í framkvæmdunum, og það á hinn bóginn haft í för með sér, að um rekstrarfjárskort hefur verið að ræða mjög tilfinnanlegan og vaxandi undanfarin ár.

Ríkisstj., sem nú situr, lét þetta mál í upphafi til sín taka og stofnaði til allvíðtækrar athugunar á því, hvernig fjárhagsmálum sjávarútvegsins væri komið, hversu miklu fé hann þyrfti á að halda, eða réttara sagt, hversu mikinn aukinn gjaldfrest hann þyrfti til þess, að fjárhagsmál hans kæmust á réttan kjöl.

Þessar athuganir leiddu til þess, að ríkisstj. þótti fyrir síðustu áramót brýna nauðsyn bera til að gera þá þegar sérstakar ráðstafanir til að bæta úr rekstrarfjárörðugleikum útvegsins, og þess vegna gaf ríkisstj. út brbl. þau, sem þetta frv. er til staðfestingar á. Meginefni þess er það, að stofnlánadeild sjávarútvegsins við Seðlabankann er heimilað að opna nýja lánaflokka í því skyni að bæta fjárhagsaðstöðu þeirra fyrirtækja, sem stunda sjávarútveg og fiskvinnslu og hafa ekki á undanförnum árum fengið nógu mikið fjármagn til langs tíma til þeirra framkvæmda, sem þau hafa ráðizt í. Ætlunin er síðan, að slíkar lánveitingar stofnlánadeildarinnar til langs tíma, 10–20 ára, komi í stað lánveitinga viðskiptabankanna til þessara fyrirtækja, — lána, sem eru óumsamin eða þá til stutts tíma, þ.e., að í stað þess að útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki nú hafa ósamningsbundnar eða stuttar skuldir í viðskiptabönkum, eigi þau fyrir milligöngu þessara sömu viðskiptabanka og með ábyrgð þeirra kost á því að fá lán til lengri tíma í stofnlánadeild sjávarútvegsins. Það er gert ráð fyrir því, að lánin séu aðeins veitt gegn veði í fiskiskipum, vinnslustöðvum og vélum sjávarútvegsins, en jafnframt, að þau skuli vera með ábyrgð viðskiptabanka hlutaðeigandi fyrirtækis. Gert er ráð fyrir, að lánstíminn verði 20 ár, ef um lán út á fasteignir er að ræða, 15 ár, ef um lán út á skip er að ræða, og 10 ár, þegar um lán út á vélar er að ræða. Vaxtakjörin á stjórn stofnlánadeildarinnar að ákveða að höfðu samráði við ríkisstj. Í frv. er enn fremur gert ráð fyrir því, að ef stjórn stofnlánadeildarinnar telur, eftir að hún hefur fengið um það umsögn frá viðskiptabanka hlutaðeiganda, þörf á sérstakri athugun á fjárhag umsækjanda, áður en unnt er að afgreiða lánbeiðni frá honum, þá geti stofnlánadeildin tilkynnt skiptaráðanda það, og skal það þá hafa í för með sér, að hvers konar kyrrsetning eða aðför vegna skuldbindingar lánbeiðanda skuli óheimil á hendur honum og ábyrgðarmönnum hans, þangað til lánsumsókn hefur verið afgreidd, en þó ekki til lengri tíma en loka yfirstandandi árs, og má þá ekki heldur taka bú lánbeiðanda til gjaldþrotaskipta á því tímabili.

Þetta er meginefni frv. Um það hefur ekki verið ágreiningur, að brýna nauðsyn ber til að gera ráðstafanir til að bæta úr rekstrarfjárþörf sjávarútvegsins. Óskir hafa komið fram um það, að hliðstæðar ráðstafanir verði gerðar fyrir aðra atvinnuvegi og þá sérstaklega fyrir landbúnaðinn. Er það mál nú í athugun hjá ríkisstj., en hún er ekki reiðubúin til þess á þessu stigi að leggja fram ákveðnar till. í þeim efnum.

Ég vildi að svo mæltu, herra forseti, leggja til, að þessu frv. yrði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.