28.11.1961
Neðri deild: 27. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1207 í B-deild Alþingistíðinda. (1004)

13. mál, ráðstafanir vegna ákvörðunar um nýtt gengi

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. í þessum umr. hefur nokkuð verið vikið að sjálfri gengislækkuninni. Hún er ekki hér til umr., og skal ég þess vegna ekki fara langt út í þá sálma. En ég vil einungis ítreka það, sem áður er nógsamlega vitað, að allir skynibornir menn, sem kynnt höfðu sér aðstæður, vissu Það fyrir fram, að af svo almennri mikilli kauphækkun sem varð á s.l. sumri mundi gengislækkun verða óhjákvæmileg. Þetta sannaðist berlega í þeim umr., sem urðu um það mál hér á dögunum, og var raunar áður vitað, og skal ég ekki fara lengra út í það.

Hitt er svo einnig kunnugt, að sjávarútvegurinn á við mikla örðugleika að etja. Það er ekki vegna gengislækkunarinnar, heldur af allt öðrum ástæðum. Varðandi bátaflotann er það fyrst og fremst vegna kauphækkananna fyrr á þessu ári. Með gengislækkuninni og þessu frv. var reynt að firra þeim vandræðum, sem af þessu höfðu stafað. Það hefur að nokkru leyti tekizt nú þegar og mun takast enn betur, þegar útvegurinn fer að njóta góðs af ýmsum ákvæðum þessa frv., því að það er rangt, að með 7. og 8. gr. þessa frv. sé verið að skattleggja útveginn. Þar er þvert á móti verið að gera ráðstafanir útveginum til hjálpar, ráðstafanir, sem voru óhjákvæmilegar, úr því sem komið var, og ekki var hægt að gera á annan veg, þannig að honum kæmi að gagni betur en með þessu móti.

Hitt er svo annað mál, að togaraútvegurinn á við enn aðra örðugleika að etja. Auðvitað bitna kauphækkanirnar einnig á honum, og er þó þess að gæta, að togarasjómenn munu ekki hafa fengið neina kauphækkun á þessu ári. En togaraútgerðin á fyrst og fremst að etja við örðugleika vegna hins geigvænlega aflaleysis, sem togararnir eiga nú við að stríða.

Hv. síðasti ræðumaður, hv. 5. þm. Norðurl. v., sagði, að úr því að togaraútgerðin gæti ekki borið sig, þá ætti einfaldlega að leggja hana niður, og það væri nú komið í ljós, að togaraútgerðin bæri sig a.m.k. mun verr en bátaútvegurinn. En þá er einnig á það að líta, að bátaútvegurinn hefur nú eftir stækkun fiskveiðilandhelginnar fengið forréttindi til veiða langt umfram togaraútgerðina, þannig að með þeirri stækkun fiskveiðilögsögunnar hefur verið gengið á hlut togaranna til hags fyrir bátana. Við vitum öll um þær ástæður, sem til þessa liggja. En þetta er engu að síður staðreynd, sem við komumst ekki hjá. Og samtímis hefur það orðið, að togararnir fiska mun verr á fjarlægum miðum en þeir áður gerðu, einkanlega á árinu 1958 og fyrri hluta ársins 1959. Við vonum öll, að sá tími komi, að ný mið finnist eða verði til, sem samsvari þeim ágætu miðum, sem togararnir öfluðu á á því tímabili, sem ég nú talaði um. En meðan slík mið eru ekki fyrir hendi og togararnir njóta jafnlítilla réttinda innan íslenzku fiskveiðilögsögunnar og þeir gera í dag, er eðlilegt, að þröngt sé í búi hjá þeim.

Hv. 4. þm. Austf. hefur réttilega að mínu viti sagt bæði í þessum umr. og fyrr í umr. á Alþingi nú í vetur, að vandamál togaraútgerðarinnar væri alveg sérstaks eðlis, í raun og veru að verulegu leyti óviðkomandi hinu almenna efnahagsástandi í landinu og þeim ráðstöfunum, sem gerðar eru til viðréttingar því og jafnvægis í þeim efnum. Þó að okkur komi ekki saman um allt, þá kemur okkur alveg saman um þetta — og einnig hitt, að togaraútgerðin er og hefur verið þjóðinni miklu meira virði en svo, að bráðabirgðaörðugleikar, sem hún verður fyrir, megi verða til þess, að við sláum því föstu, að það eigi að leggja togaraútgerð á Íslandi niður og hún beri sig ekki. Það er hægt að orða slíkt í gamanmáli, eins og hv. 5. þm. Norðurl. v. er títt að flytja hér, en í alvöru hygg ég, að engum, hvorki á Alþ. né utan Alþingis, geti komið til hugar, að svona megi fara að. Jafnvel í dag, í þeim þrengingum, sem togaraútgerðin á, leggur hún þó til verulegan hluta af þjóðartekjum okkar, og er ósýnt, hvernig við kæmumst af, ef þeirri stoð yrði kippt undan þjóðarbúinu.

Það er þess vegna mikið vandamál, sem þarfnast úrlausnar og úrlausn hefur enn ekki verið fundin á, — það skal ég játa, — hvaða sérstakar ráðstafanir þurfi að gera til hjálpar útgerðinni, meðan hún á í þessum örðugleikum. Þar kemur til álita að horfast hreinskilnislega í augu við það, hvort menn telji ráðlegt að veita þeim meiri fiskveiðiréttindi innan fiskveiðilandhelginnar en nú hefur verið gert. Ef þannig væri farið að, mundi því áreiðanlega vera haldið fram, að með því væri gengið á hlut bátaflotans frá því, sem verið hefur hin síðustu ár, alveg eins og togararnir geta haldið því fram, að vegna bátanna hafi verið á þeirra hlut gengið þetta árabil. Hér er um að ræða mikinn hagsmunaágreining milli þegna þjóðfélagsins, sem allir eiga sömu kröfu til, að þeir njóti landsins gæða. Og ég spyr: Hver er kominn til þess fyrir fram að fullyrða, að við þessum vanda sé til einfalt og alveg ábrigðult svar? Ég minnist þess, að í umr. fyrr á þessu ári vitnaði hv. 4. þm. Austf. til þess, að ég sagði á sumrinu 1958, skömmu eftir að reglugerðin um stækkun fiskveiðilögsögunnar hafði verið gefin út, að ég óttaðist, að með þeim ákvæðum, sem þá voru sett, væri hlutur togaranna um of skertur. Og ég hélt þessu einmitt fram í ræðu, sem ég hélt á Vestfjörðum, vegna þess að ég vissi, að Vestfirðingar yfirleitt mundu hafa aðra skoðun, fagna útilokun togaranna. En ég taldi nauðsynlegt, að þeim yrði ljós sá vandi, sem hér væri á ferðum, og efasamt væri, að þarna væri fullnaðarlausn á miklu vandamáli fundin. Svo hefur reynzt, sem ég þarna sagði fyrir eða benti á, að togararnir sýnast ekki hafa þolað þá veiðiskerðingu, sem þeir hafa orðið fyrir.

Ef menn — ég segi: ef — ef menn telja óráðlegt að víkka veiðiheimildir togaranna innan fiskveiðilögsögunnar, þá hlýtur mjög að koma til íhugunar, hvernig á annan hátt sé hægt að bæta þeirra hlut. Ég veit ósköp vel, að það er ekki vinsælt að segja, að annað hvort sé eðlilegt, að þeir fái rýmri fiskveiðiheimildir innan fiskveiðilögsögunnar eða þeir fái einhverjar fjárbætur, á meðan þeir komast ekki af og hægt er að rekja að verulegu leyti þeirra erfiðleika til skerðingar á veiðiréttindum þeirra. Ég veit ósköp vel, að margir mundu segja: Er ekki einhver þriðja leið til örðugleikalaus, sem við engan komi, til þess að bæta hag þeirra manna, ekki aðeins útvegsmanna, heldur einnig sjómanna og landverkafólks og þar með þjóðarheildarinnar, - bæta það skakkafall, sem allir þessir aðilar verða fyrir af þessum sökum? Ég hef ekki enn heyrt þau úrræði, og ég er hræddur við, að hér eins og ella fari svo, að ef á að bæta hlut annars, þá verði það að vera gert á kostnað hins, að það verði ekki jöfnuð metin, nema tekið sé frá einhverjum öðrum til þess að jafna metin. Ég er ekki kominn til þess í dag að segja, hver úrræði eigi í þessu að velja, en ég tel fyllilega tímabært að vekja sérstaka athygli á þessu vandamáli, bæði vegna ummæla hv. 5. þm. Norðurl. v. og hv. 4. þm. Austf.

Þá get ég ekki heldur látið hjá líða að víkja að því, hversu ásakanirnar á ríkisstj. nú eins og oft ella stangast illilega. Annars vegar er hún sökuð um að hafa gefið út brbl., en hins vegar fyrir það, að í þessum brbl. sé ekki gerð nóg grein fyrir, hvernig eigi að verja því fé, sem til ráðstöfunar er samkvæmt þeim. Eins og á stóð í sumar, var óhjákvæmilegt að gera þessar ráðstafanir, bæði að fela Seðlabankanum að kveða á um nýja skráningu krónunnar og eftir að hann hafði gert það áð gera þær ráðstafanir, sem í þessu frv. eru. En jafnframt var eðlilegt, að ríkisstj. léti það bíða síðari ákvörðunar, þ.e.a.s. ákvörðunar Alþingis, hins reglulega handhafa löggjafarvaldsins, hvernig einstökum atriðum yrði skipað, þeim einstöku atriðum, sem þurftu nánari íhugunar og máttu vel bíða. Og þá á ég einkanlega við fyrirkomulag og nánari ráðstöfun á þeim tekjum, sem til ráðstöfunar eru samkv. 7. og 8. gr. þess frv., sem hér liggur fyrir. Ef ríkisstj. hefði ráðstafað þessu í einstökum atriðum, hefði vissulega mátt saka hana um einræði, að hún vildi segja Alþingi fyrir verkum. En hún lét einmitt mörg mikilvæg atriði í þessu standa opin, vegna þess að hún taldi eðlilegt, að um þau yrðu fyrst teknar ákvarðanir eftir og þegar Alþingi fengi málið til venjulegrar meðferðar.

Ég sé nú, að klukkan er orðin fjögur, og ég á töluvert eftir af ræðu minni, svo að ég hygg, að það væri e.t.v. bezt, að ég frestaði máli mínu. (Forseti: Ef hæstv. ráðh. vildi gera hlé á ræðu sinni...). Ég mundi á næsta fundi vilja halda áfram og ljúka ræðunni þá. [Frh.]