30.11.1961
Neðri deild: 28. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1210 í B-deild Alþingistíðinda. (1006)

13. mál, ráðstafanir vegna ákvörðunar um nýtt gengi

Forsrh. (Bjarni Benediktsson) [frh.]:

Hæstv. forseti. Því var haldið fram af andmælendum þessa frv., að ekki væri sambærilegt, að renna skyldi til ríkissjóðs gengishagnaður vegna vörubirgða til útflutnings í landinu, við svipuð ákvæði áður og þá einkanlega 1960 og 1958. Það má auðvitað endalaust deila um, hvað sé sambærilegt eða ekki, og oft vill fara svo, að þeim, er eitthvað ákveður sjálfur, þyki það ekki sambærilegt, þó að annar ákveði hið sama. Og hefur þess einkum þótt kenna um hv. framsóknarmenn, að þeir væru hneigðir til þess að skoða málin í slíku ljósi. Er mér nær að halda, að þetta eigi við í þessu tilfelli, eins og oft endranær. En látum það vera. Mér er nær að halda, að svo mikil ástæða sem kann að hafa verið til þess oft áður að taka slíkan ágóða af framleiðendum eða hindra, að þeir fengju hann, þá sé enn þá ríkari ástæða til þess nú en þá. Oft hefur það dregizt og yfirleitt dregizt mjög úr hófi, að gerðar væru nauðsynlegar efnahagsráðstafanir, þannig að komið hefur verið í mikil vandræði, þegar framkvæmdar voru aðgerðir til þess að létta af þessum vandræðum. Nú var hins vegar brugðið miklu skjótar við en tíðkanlegt hefur verið. Ætlunin var að firra því, að vandræðin sköpuðust, en ekki einungis að bæta úr langvarandi vandræðaástandi, eins og t.d. var gert 1960, 1958 og oft endranær. Þess vegna er það óumdeilanlegt, að mestur hluti þeirrar framleiðslu, sem var í landinu, þegar gengisbreytingin var gerð, hafði verið framleiddur undir allt öðru eða við allt annað verðlag en tók gildi eftir gengisbreytinguna og raunar allt annað verðlag en var að skapast, þegar gengisbreytingin var gerð. Meginhluti framleiðslunnar hafði orðið til, áður en hinar almennu kauphækkanir urðu á s.l. sumri. Framleiðendur höfðu þess vegna hvorki haft kostnað af kauphækkununum né heldur kostnað þann, sem leiddi af gengisbreytingunni, en hana leiddi aftur, eins og kunnugt er, af kauphækkununum.

Þess vegna var nú ríkari ástæða en nokkru sinni fyrr til þess, að framleiðendur fengju ekki þann ágóða, sem þeir hefðu hlotið vegna hækkunar á afurðunum, ef ekki hefði verið að gert. Og úr því að sams konar ákvæði eru látin gilda um aðrar vörur í landinu, þær vörur, sem framleiddar höfðu verið fyrir innanlandsmarkað og fluttar inn í landið, að bannað var að hækka verðlag á þeim til hags fyrir framleiðendur eða eigendur, þá var mjög erfitt að komast hjá því, að hliðstæð ákvæði væru sett um útflutningsframleiðsluna.

Hitt má svo deila um, hvort slík bönn almennt séu hyggileg eða æskileg. Kaupmenn og framleiðendur benda á, að með þessu sé í raun og veru verið að hafa af þeim fé, vegna þess að hin nýja vara, sem komi í staðinn fyrir þær vörur, sem þeir áður áttu og höfðu aflað sér, verði dýrari og þess vegna sé þarna verið að hafa af þeim fé. Þetta eru nokkur rök. En úr því að þau eru ekki virt varðandi aðra, sýnist hæpið að virða þau fremur varðandi framleiðendur á útflutningsmarkaði, einkanlega þegar þannig stendur á, eins og ég tók fram, að meginhluti birgðanna hafði verið framleiddur við allt annað og lægra verðlag.

Þarna eru auðvitað nokkur takmarkatilfelli, nokkur hluti framleiðslunnar, sem verður fyrir hinum almennu kauphækkunum, nokkur hluti birgða í landinu, sem ekki er að fullu framleiddur og nýr kostnaður leggst á, eins og hv. 4. þm. Austf. benti á. En þá er líka á það að líta, að varan er auðvitað ekki framleidd að fullu, fyrr en framleiðslunni er lokið, og það er gert ráð fyrir því í sjálfum lögunum, að þarna kunni að rísa vafaatriði, sem ríkisstj. er ætlað að skera úr. Enn kann að vera, að þar fyrir utan verði kostnaður vegna útflutningsvörunnar hærri en ella hefði verið og leggist þess vegna á framleiðandann. Það finnst mér rétt að skoða nánar í nefnd, hvort taka beri tillit til þess að einhverju leyti.

En einnig er rétt að hafa í huga, að hv. andmælendur þessa frv. hafa fullyrt, að framleiðendur gætu ekki einungis tekið á sig kauphækkanirnar til bráðabirgða, sem urðu í sumar, heldur um alla framtíð, án þess að til gengisbreytingar þyrfti að koma. Þeir töldu sem sagt hag framleiðenda svo góðan, að engar sérstakar ráðstafanir þyrfti að gera varðandi framtíðina þeim til hags, og er þá einkennilegt að heyra hina sömu menn halda því fram, að framleiðendur geti nú ekki verið án þessarar verðhækkunar á þeirri framleiðslu, sem þeir höfðu látið vinna, áður en kauphækkanirnar og hinn aukni tilkostnaður kom til. Hér stangast illilega á í röksemdum hjá þessum aðilum. Ég fullyrði þess vegna, að hafi verið ástæða til þess áður að láta slíkan hagnað renna til annarra en framleiðendanna, þá eru enn sterkari rök fyrir því nú, þó að hér eins og ella verði að skoða hvert tilfelli fyrir sig og stoði ekki einungis að vitna til þess, sem áður hefur verið, heldur gera upp sinn hug um, hvað sanngjarnt sé í því tilfelli, sem við nú eigum að leysa.

Hv. 1. þm. Austf. hélt því fram, að ekkert tilsvarandi ákvæði hefði verið varðandi gengislækkunina 1950. Ég lít þannig á, að þetta sé misskilningur. Í lögum um fiskábyrgð, sem giltu allt þangað til gengislækkunarlögin 1950 tóku gildi, var ákvæði um, að ef vara, sem framleidd væri, meðan fiskverðsábyrgðin var í gildi, yrði seld fyrir hærra verð en ábyrgðarverðinu næmi, ætti það hærra verð að renna til ríkissjóðs, þangað til allur halli hans af fiskábyrgðinni væri greiddur. Ég skil þessi ákvæði svo, að þau hafi leitt til þess, að af framleiðslunni, þangað til gengislækkunarlögin 1950 gengu í gildi, hafi þess vegna fyrst arðið að borga halla ríkissjóðs af fiskábyrgðinni, og samkv. því, sem mér er tjáð eftir aðalútflytjendum á þeim tíma, þá var einmitt sá háttur hafður á að meginstefnu, að gengishagnaðurinn var af þeim tekinn, þó að þeir fengju að halda einhverjum hluta hans vegna samkomulags milli þeirra og ríkisstj. En það má halda því fram, að 1950 hafi staðið töluvert öðruvísi á vegna fiskábyrgðarinnar og mikilla vandræða, sem útgerðin þá var í, heldur en nú, og mér kemur ekki til hugar að halda því fram, að þessi tilfelli séu að öllu leyti sambærileg við það, sem nú er. En rétt er, að það komi fram engu að síður, hver háttur þá var á hafður, eftir því sem ég hef helzt að komizt.

Það var spurt um það hér, hversu mikill þessi gengishagnaður mundi verða. Mér skilst, að það sé áætlað, að hann muni verða eitthvað nærri 120 millj. kr. Það er ekki hægt að fullyrða neitt um það á þessu stigi, en þó talið líklegt, að það mundi láta nærri að nema þeirri upphæð.

Að öðru leyti verður það vitanlega á valdi nefndar og þingsins að athuga þessi mál nánar, íhuga, hvort rétt sé að taka tillit til þeirra takmarkatilfella, sem ég gat áðan um. Einnig að öðru leyti hefur þingið það á valdi sínu, hvernig þessu fé skuli varið.

Það er rétt, að hér er um allháa upphæð að ræða. En hún hrekkur þó engan veginn til þess að mæta þeim halla, sem ríkissjóður hefur orðið fyrir vegna ábyrgða, sem á hann hafa fallið vegna atvinnuveganna og hann einhvers staðar að verður að fá fé til þess að standa undir. Þær ábyrgðir, sem hér eru mestar, munu ekki sízt vera frá sjávarútveginum, og þess vegna eðlilegt, að hann sé með einum eða öðrum hætti og þá ekki sízt af ágóða, sem þannig er til kominn eins og þessi, látinn standa undir greiðslunum.

Hitt er svo allt annað mál, eins og ég tók fram, að í þessum brbl. og frv. eru ekki heimildir til þess fyrir ríkisstj. að gefa eftir einstakar skuldir útvegsmanna. Um þá eftirgjöf gilda sérstakar reglur samkv. lögum um ríkisábyrgðir, sem nýlega hafa verið sett. Og það kemur auðvitað því frekar til álita að gefa þær skuldir formlega eftir, ef ríkissjóður hefur fengið fé til greiðslu þeirra með þessum eða öðrum hætti. Þá fyrst skapast undirstaða til eftirgjafar í einstökum tilfellum. En það, sem ég lagði áherzlu á í ræðu minni og mér virtist hv. 4. þm. Austf. að nokkru leyti misskilja, var, að þó að viðurkennt sé, að eftirgjafir til einstakra skuldunauta séu teknar til athugunar, þá er ekki verið að veita stjórninni neina nýja heimild til einstakra eftirgjafa með þessu frv. Það er mál, sem verður að skoða fyrir sig og meta eftir því, hvað sanngjarnt er í hverju einstöku tilfelli.

Hv. andmælendur frv., sem í sumar, eins og ég gat um áðan, töldu og í öðru orðinu enn telja, að útvegurinn hafi verið svo vel stæður, að hann hafi getað tekið á sig kauphækkanirnar hinar almennu, án þess að nokkrar þvílíkar ráðstafanir þyrfti að gera, eins og ákveðnar voru með lögunum um gengisskráningu og með þessum brbl., þeir halda því í hinu orðinu fram, að útvegsmenn hafi engar bætur fengið með þessum ráðstöfunum, sem þeir þó telja þá sárlega þurfandi fyrir. Það, hvort menn telja, að útvegsmenn fái bætta aðstöðu vegna ráðstafananna í sumar, verður auðvitað algerlega að metast eftir því, hvort menn telja, að ákvæðin í 7. og 8. gr. þessa frv, komi útveginum til gagns eða ekki. Ef menn trúa því raunverulega, eins og a.m.k. hv. 4. þm. Austf. lét í veðri vaka, að hér sé einungis um beina ríkisskatta á útveginn að ræða, þá er auðvitað rétt, að útvegurinn ber skarðan hlut frá borði, og þá mætti einnig segja, eins og hv. 1. þm. Austf. hélt fram, að verið væri að taka upp nýtt uppbótakerfi með ákvæðunum í 7. gr. um greiðslu tryggingargjalda úr ríkissjóði. En hér vantar algerlega undirstöðuna fyrir þessari rökfærslu hinna hv. þm., vegna þess að óumdeilanlegt er, að það fé, sem innheimt er samkv. 7. og 8. gr., kemur útveginum til gagns. Og það er einmitt fullvíst, að það væri ekki hægt að bæta hans hag á nokkurn hátt, sem honum væri gagnsamlegri en með þeirri skipun, sem ákveðin er í 7. og 8. gr. þessa frv. Þetta veit ég, að allir hv. þm. viðurkenna, þegar þeir skoða málið ofan í kjölinn, og hv. 4. þm. Austf. raunar viðurkenndi það einnig í öðru orðinu, þegar hann taldi, að með ákvæðum 7. gr. og raunar 8. gr. einnig væri gengið á hlut sjómanna útvegsmönnum til hags. Og þá taldi hann allt í einu, að útvegurinn væri búinn að fá of mikið, þó að hann að öðru leyti héldi því a.m.k. stundum fram, að útvegsmenn væru svo illa staddir, að þeirra hag yrði að bæta miklu meira en ráðgert er í þessu frv.

Einnig í þessu eins og í öðrum atriðum málflutnings hv. þm. rekst illilega á það, sem hann heldur fram í hverju einstöku tilfelli, sem kemur af því, að hann veit, að í raun og veru var hér um algera nauðsynjaframkvæmd að ræða, óhjákvæmilega, fyrst breytingu á gengisskráningunni og síðan einmitt svipaðar ráðstafanir þeim, sem í 7. og 8. gr. eru ákveðnar. Af pólitískum ástæðum vill hann bera brigður á þetta, en sökum greindar sinnar verður hann að játa í öðru orðinu það, sem hann neitar í hinu, þannig að allt er þetta botnleysa, sem hann heldur fram. Sannleikurinn er sá, að það fé, sem af útveginum er tekið í 7. og 8. gr., er í raun og veru fé útvegsins sjálfs, sem á ekki að takast af honum fyrir fullt og allt, heldur ráðstafa með þeim hætti, að það komi honum að sem allra mestum notum. Þegar af þeirri ástæðu er eðlilegt, að mjög verði stuðzt við óskir útvegsmanna um það, hvernig þessu fé sé varið. Það mun rétt, að útvegsmenn sjálfir eru því andstæðir, að verulegur hluti þessa fjár renni til stofnlánadeildar, eins og í frv. er lagt til. Ég gat þess þegar í framsöguræðu minni, að þetta væri sjálfsagt að athuga nánar eftir tilmælum útvegsmanna. Og ég efast ekki um. að Alþingi muni íhuga þeirra tillögur og meta síðan, hvort þær hafi við rök að styðjast eða ekki.

En óumdeilanlegt er, að útvegurinn, einkum þegar til lengdar lætur, hlýtur að hafa mikið gagn af því, að fé renni til stofnlánadeildarinnar. því hefur verið haldið hér fram, að óeðlilegt væri, að sjávarútvegurinn stæði sjálfur undir fjáröflun til þeirra lánsstofnana, sem gera ættu honum gagn. Og hv. 4. þm. Austf. sagði, að öðruvísi mundi þetta vera í Noregi. Norskur sérfræðingur mundi hafa bent ríkisstj. á, að þetta væri ekki heppileg tilhögun. Vel má vera, að þetta sé með öðrum hætti í Noregi. En þar er sá meginmunur á, að norskur sjávarútvegur er engan veginn slíkur grundvallaratvinnuvegur allrar þjóðarinnar eins og sjávarútvegur Íslendinga er fyrir hina íslenzku þjóð. Þess vegna er vel skiljanlegt, að Norðmenn hafi efni á og geti styrkt sjávarútveg sinn með framlögum frá öðrum atvinnugreinum. Þetta horfir allt öðruvísi við á Íslandi, þar sem sjávarútvegurinn er aðaltekjulind þjóðarinnar. Frá sjávarútveginum fáum við meginhluta þess gjaldeyris, sem við kaupum okkar erlendu þarfir fyrir. Það væri mjög æskilegt, ef fleiri ámóta sterkir atvinnuvegir væru í landinu, þannig að við værum ekki jafngersamlega háðir sjávarútveginum eins og raun ber vitni. Og einmitt þess vegna er vaxandi skilningur á þörf fyrir það, að hér byggist upp fleiri atvinnuvegir og þá einkanlega í iðnaði, bæði smáiðnaður og stóriðnaður, ef hægt er að koma því við að öðru leyti, þannig að íslenzka þjóðin geti vel við unað. Ef fleiri slíkir sterkir atvinnuvegir væru til í landinu, gætu skapazt miklu fremur en nú möguleikar til þess að geta létt undir með sjávarútveginum. Slíkt yrði sjávarútveginum ekki til tjóns, eins og sumir virðast halda fram, heldur til þess að létta af honum byrðum og gera mögulegt að gera aðstöðu hans í landinu að ýmsu leyti betri en hún er nú.

Það er alveg eins og á fyrstu árum Framsfl., þá fjandskapaðist hann ákaflega mikið við sjávarútveginn og flutning fólksins úr sveitum í kaupstaði og þorp. Nú er, sem betur fer, kominn töluvert annar skilningur í raun og veru hjá framsóknarmönnum á þessu atriði heldur en þeir áður höfðu. Ég minnist þess, að í sumar kom ég í hérað á Austurlandi og hitti þar einn ágætan framsóknarmann, sem sagði, að það væri hin mesta lyftistöng fyrir bændurna þar í héraðinu, að þorp þar í nágrenninu væru að vaxa upp með blómlegri atvinnu. Ef slíku hefði verið haldið fram af framsóknarmanni fyrir 20–30 árum, hefði það þótt ótrúlegt og menn hefðu vart trúað sínum eigin eyrum. Eins hygg ég, að fara muni, að sá fjandskapur, sem t.d. í dag kemur fram í málgagni hv. 4. þm. Austf. gegn hugsanlegri stóriðju á Íslandi, muni breytast, áður en langt um líður, að jafnvel hans flokksbræður muni skilja, að Það er allri þjóðarheildinni til blessunar, ef fleiri atvinnuvegir vaxa hér upp, m.a. vegna þess, að þá er mögulegt, að sjávarútvegurinn fái, eins og ég sagði, rýmri kjör að ýmsu leyti en hægt er að veita honum nú, meðan hann enn er aðalundirstöðuatvinnuvegur landsins, og þess vegna ekki hægt að sækja til annarra styrki honum til handa. Þetta hefur gert það að verkum, að hingað til hefur orðið að byggja upp lánastofnanir sjávarútvegsins með allt öðrum hætti en t.d. lánastofnanir landbúnaðarins. Þetta vitum við. Það væri æskilegt, að svona þyrfti ekki að fara að, en eins og enn háttar til, er ákaflega erfitt að komast fram hjá því. Þess vegna fer því fjarri, að sjávarútveginum sé sýndur fjandskapur eða verið sé að hafa af honum fé, þó að lagt sé til, að af honum sé tekið fé til þess að byggja upp nauðsynlega lánastofnun, er hann geti sátt fé í, eftir því sem þarfir hans kalla á. Hitt má vel vera, að eins og sakir standa nú, séu aðrar þarfir brýnni, og ef útvegsmenn meta það svo, þá er eðlilegt, að á þá sé hlustað og tekið sé tillit til þeirra óska.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um einstök atriði frv. eða einstakar aths., sem fram komu. Margt af því, sem hv. andmælendur frv. færðu fram, var þess eðlis, að það hlýtur að koma til athugunar þá fyrst, þegar sett verða nánari fyrirmæli um það, hvernig því fé skuli varið, sem samkv. 7. og 8. gr. á að heimta inn. Ég tók það fram í ræðu minni í fyrradag, að hér er í raun og veru einungis um rammalöggjöf að ræða, sem ætlað er að fylla út í, annaðhvort við meðferð frv. sjálfs á Alþingi eða þá með sérstakri löggjöf, sem raunar hefur verið ráðgerð, bæði um tryggingakerfið og hlutatryggingasjóðinn. Þangað til ákveðnar tillögur um einstök atriði þessa efnis koma fram hér á Alþingi, tel ég alveg þýðingarlaust að vera að ræða um, hvernig þessu skuli skipað frekar. Tími verður fyrst til þess, þegar séð verður, hverjar þær tillögur eru, sem ríkisstj. ber fram um ráðstöfun Þessa fjár að athuguðu máli.