30.11.1961
Neðri deild: 28. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1215 í B-deild Alþingistíðinda. (1007)

13. mál, ráðstafanir vegna ákvörðunar um nýtt gengi

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það kom fram hjá hæstv. forsrh. í fyrri hluta þeirrar ræðu, sem hann var nú að enda við að flytja, sú stefna, að það væri eðlilegt, að bátaútgerðin stæði að einhverju leyti undir eða hlypi undir bagga með rekstri togaraflotans vegna taps á togurunum.

Ég vil fyrir mitt leyti mótmæla þessu sjónarmiði. Bátaútvegurinn er útflutningsatvinnugrein, sem hefur harða samkeppni frá framleiðendum í öðrum löndum, og bátaútvegurinn fær því alls ekki staðið undir böggum eins og þeim að taka á sig töp togaraútgerðarinnar. Það er heldur enginn vottur af sanngirni í því, að bátaútvegurinn og þar með þau byggðarlög, sem á honum byggja, taki sérstaklega á sig þessar byrðar. Að því leyti, sem óhjákvæmilegt dæmist að hlaupa undir bagga með togaraútgerðinni vegna aflabrests, verður að kosta slíka hjálp eða aðstoð af sameiginlegu fé þjóðarinnar. Þess vegna m.a. þarf að mínum dómi að breyta 8. gr. þessa frv., þar sem sýnilega er gert ráð fyrir því, að bátaútvegurinn greiði aukin útflutningsgjöld í aflatryggingasjóð, sem renni til togaraflotans.

Mín skoðun er sú, að það verði hver grein sjávarútvegsins að vera út af fyrir sig í aflatrygginga- eða hlutatryggingasjóði, eins og verið hefur. Þetta er mjög þýðingarmikið stefnuatriði, að mínu viti.

Þá var hæstv. forsrh. í fyrri hluta ræðu sinnar út frá sama hugsunarhætti, að því er virtist, að greina frá því, að til athugunar væri í ríkisstj. að hleypa togurunum inn á bátamiðin í landhelginni. Sagði hæstv. ráðh. þetta mál í athugun hjá ríkisstj. Þessi ummæli hæstv. ráðh. hafa vakið geysilega athygli og mikinn kvíða og ótta um, að þetta standi til. slík ráðstöfun væri að mínum dómi að fara úr öskunni í eldinn. Ef þetta ætti að gerast í þeim mæli, að verulega drægi fyrir togarana, mundi þetta stórspilla fyrir bátaflotanum og stefna að því að leiða yfir bátaútveginn sams konar vanda og togaraútgerðin býr nú við. Og hvað væri togaraútgerðin sjálf bættari, þegar svo væri komið um fiskimiðin innan landhelginnar, og hvar væri þjóðin stödd, ef vandkvæði togaranna verða leyst að einhverju litlu leyti í bili, en fyrir slíka bráðabirgðalausn væri goldið með rányrkju bátamiðanna?

Bátafiskimiðin við ströndina í landhelginni eru fjöregg þjóðarinnar, og það er hagnýting þeirra, bátamiðanna, fyrst og fremst og gæði þeirra, sem valda því, að þjóðin getur lifað hér góðu lífi í landinu. Einmitt nú er mikill beygur í mönnum út af því, að ofveiði muni vera á þessum miðum, og uppi ýmsar skynsamlegar tillögur um friðun hrygningarsvæða o.fl. í því sambandi. Ég skora á hæstv. ríkisstj. að láta ekki tímabundna, — ég segi: vonandi tímabundna erfiðleika togaraútgerðarinnar hrinda sér út í að hleypa togaraflotanum inn á bátamiðin. Ég skora á hæstv. ríkisstj. að leita annarra leiða með beinum stuðningi þjóðfélagsins, ef þarf, við togaraútgerðina og útbúnaði sem beztum, til þess að togararnir geti notið sín á fjarlægari fiskislóðum og þeim fiskislóðum umhverfis landið, sem þeir nú þegar eiga aðgang að.

Ég vil einnig biðja hæstv. ríkisstj. að íhuga afstöðuna út á við í landhelgismálinu í þessu sambandi. Ég vil mega vona, að hæstv. forsrh. hafi þær fréttir að færa okkur nú við Þessa umr., þegar hann talar næst, að þótt ríkisstj. hefði athugað þetta, hefði hún komizt að þeirri niðurstöðu, að alls ekki væri fært að hleypa togurunum inn á bátamiðin eða lengra inn í landhelgina en ákvarðað var á sínum tíma. Ég vil mega vona, að hann lýsi þessu yfir, og ég bið hann að gera það til þess að létta af mönnum ótta í þessu efni.

En fari svo, mót von minni, að forsrh. vilji ekki lýsa þessu yfir, þá fer ég þess á leit, að hann lýsi yfir því, að þetta mál verði lagt fyrir Alþingi og að ríkisstj. muni ekkert aðhafast í því, fyrr en Alþingi hefur um það fjallað. Hagnýting fiskimiðanna við ströndina er eitt mesta mál þjóðarinnar, og þótt ríkisstj. hafi vald til að skipa þessum málum með reglugerð, þá er á allan hátt eðlilegast, að um það sé fjallað á Alþingi, þar sem það á nú setu, enda hefur hæstv. forsrh. beinlínis leitt málið inn í þingið í þessum umr. Ég vona því, að hæstv. ráðh. taki þessum tilmælum vel.

Þá vil ég loks í sambandi við þetta alvarlega mál benda hæstv. ríkisstj. á, að sumarið 1958, Þegar ákvarðað var, að hve miklu leyti togarar skyldu eiga rétt á að fiska innan nýju landhelginnar, var fjallað um það mál af sérstökum fulltrúum sjávarútvegsins, tilnefndum úr öllum landsfjórðungum sérstaklega, ásamt fulltrúum frá togaraeigendum. Og síðan, eftir því sem ég bezt veit, var fjallað um málið í nefnd, sem var til ráðuneytis ríkisstj. í landhelgismálinu og var skipuð fulltrúum allra stjórnmálaflokka. Ég beini því til hæstv. ríkisstj. og hæstv. forsrh. sérstaklega að láta þetta mál nú fá sams konar skoðun, ef ekki er hægt að fá Því yfirlýst nú af ríkisstj. hendi, að ekki komi til greina, að réttur togaranna til veiða í landhelginni verði aukinn. En auðvitað væri langæskilegast, að hægt væri að fá slíka yfirlýsingu nú strax.

Varðandi þær umr., sem hér hafa farið fram að öðru leyti, langar mig til þess að bæta við nokkrum orðum. Ég hélt því fram um daginn, að Þetta frv. sýndi, ásamt öðru, sem áður hefði fram komið, að gengislækkunin í sumar hefði verið gersamlega að ófyrirsynju eða að ástæðulausu og alls ekki verið knúin fram af þörf atvinnuveganna. Ég hélt því fram, að þetta frv. væri enn ein sönnunin fyrir þessu, og fór nokkru nánar út í það. Hæstv. forsrh, svaraði þessu mjög litlu. Hann svaraði því í raun og veru bara með einni setningu, sem hann hafði yfir, og hún var á þá lund, að skynibornir menn vissu, að út af jafnmikilli kauphækkun og varð í sumar hlyti gengislækkun að vera óhjákvæmileg. Síðan sagði hæstv. ráðh.: Ég skal ekki fara lengra út í það. — Þetta voru rök hæstv. ráðh., ef rök skyldi kalla. Ég get vel skilið, að hæstv. ráðh. kinoki sér við að fara lengra út í það. En hjá því verður alls ekki komizt, að út í það verði lengra farið.

Ég vil í þessu sambandi endurtaka það, sem ég hef áður sagt um þetta, og óska eftir því, að hæstv. forsrh. hnekki þeim rökum, ef hann treystir sér til. Í fyrsta lagi vil ég benda á, að þrátt fyrir kauphækkun þá, sem varð s.l. sumar, hækkaði verð á síldarafurðum, bæði í bræðslu og salt, þrátt fyrir kauphækkunina. Ég vil enn fremur leyfa mér að benda á, að kauphækkun hjá sjómönnum kom fram í byrjun vertíðar s.l. vetur og var því komin inn í dæmið, þegar samið var um fiskverð á þeirri vertíð og fyrir s.l. ár. Þá vil ég rifja upp, að kaupgjaldskostnaður í frystihúsunum, fiskiðjuverunum, er a.m.k. að meðaltali ekki yfir 20% af útflutningsverðinu, samkv. alveg óyggjandi gögnum, sem ég hef haft í höndum um það mál síðustu mánuðina. Og er þessu gersamlega ómótmælt, enda ekki hægt að mótmæla því. Það þýðir, að kauphækkun sú, sem varð s.l. sumar umfram það, sem hæstv. ríkisstj. sagði að efnahagskerfið þyldi, gat aldrei numið meira en sem svaraði 1–2% verðlagsbreytingum á útfluttum sjávarafurðum. Samkvæmt sams konar gögnum, sem ég hef um verðlagsútreikninga í frystihúsum frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, er augljóst, að þau samtök telja vaxtakostnaðinn við vinnsluna um 40–45% af vinnulaunakostnaðinum. Þetta þýðir, að ef vextirnir hefðu verið lækkaðir um 1/4, eins og tillögur hafa verið gerðar um hvað eftir annað af framsóknarmönnum, eða ofan í það sama sem þeir voru, áður en viðreisnin kom til, þá hefði verið hægt með því einu að bæta fiskvinnslustöðvunum upp nær því alla kauphækkunina, sem varð s.l. sumar. Samkvæmt athugun, sem fram fór á iðnrekstri landsins, eftir að gengislækkunin varð, kom í ljós, að nær undantekningarlaust gátu iðnaðarfyrirtækin í landinu borið há kauphækkun, sem varð s.l. sumar, án þess að fá nokkra verðhækkun á vörum sínum á móti. í skýrslu, sem iðnrekendur munu hafa staðið að og birt var í Morgunblaðinu og Alþýðublaðinu, þ.e.a.s. stjórnarblöðunum, var áherzla lögð á, að aðeins tvö fyrirtæki af öllum þeim fjölda, sem komið hefði til athugunar, hefðu þurft að fá einhvern hluta — og aðeins einhvern hluta af kauphækkuninni tekinn inn í verðlagið til hækkunar. 151l hin höfðu verið úrskurðuð þannig, að þau gætu og ættu að bera kauphækkunina sjálf, en verðhækkunin, sem þau fengju, væri eingöngu vegna gengislækkunarinnar sjálfrar, — vegna hækkunar á hráefniskostnaði og öðrum kostnaði við reksturinn vegna gengislækkunarinnar sjálfrar.

Þetta sýnir, að ef vextirnir hefðu verið lækkaðir um 1/4, eða ofan í það, sem þeir voru fyrir viðreisnina, Þá hefði iðnaðarvarningur í landinu, framleiddur innanlands, yfirleitt getað lækkað sem því svaraði hjá langflestum iðnaðarfyrirtækjum. Hér við bætist, að ef hæstv. ríkisstj. hefði tekið þá stefnu að stöðva verðlagshækkanir í landinu í stað þess að grípa til nýrrar gengislækkunar, hefðu viðskipti yfir höfuð aukizt nokkuð frá því, sem þau verða nú, og tekjur ríkissjóðs hefðu farið stórvaxandi, vegna þess að búið er að hauga tollum svo á aðfluttar neyzluvörur og einnig sölusköttum, að bróðurparturinn eða a.m.k. mikið af þeirri kauphækkun, sem varð, hefði skilað sér inn í ríkissjóðinn. Tekjur ríkissjóðs hefðu því vaxið mjög verulega á síðari hluta ársins, og þannig hefði skapazt möguleiki fyrir ríkisstj. til þess að nota eitthvað af því fjármagni til að koma í veg fyrir, að nauðsynleg hækkun á landbúnaðarafurðum kæmi fram í smásöluverðlagi þeirra til fulls. Enn fremur hefði þá ríkisstj. fengið möguleika til þess að nota eitthvert fjármagn til þess að greiða niður vátryggingariðgjöld bátaflotans. En ég geri ráð fyrir því, að bátaflotinn hafi verið þannig staddur á þessu ári, að hann hafi þurft og þurfi á því að halda, að þau iðgjöld séu greidd af opinberu fé. Ef hæstv. ríkisstj. hefði viljað notfæra sér þessa möguleika, hefði auðvitað engin gengislækkun getað komið til greina, enda átti hún alls ekki að koma til greina samkvæmt þeim rökum, sem ég nú þegar hef fært fram. Það er gersamlega ómögulegt fyrir hæstv. ríkisstj. að komast fram hjá þessum rökum. Þetta eru pottþétt rök fyrir því, að gengislækkunin er gerð að ófyrirsynju.

Til viðbótar þessum rökum, sem áður voru komin fram og ég endurtek hér, kemur svo þetta frv., sem sýnir það enn alveg svart á hvítu, að gengislækkunin á sér allt aðrar rætur en þær að koma í veg fyrir stöðvun framleiðsluatvinnuveganna vegna kauphækkananna. Eða hvað sýnir þetta frv. og þær umr., sem hafa farið fram í sambandi við það? Frv. sýnir, að fram á þennan dag hefur bátaútvegurinn t.d. ekki fengið eins eyris hækkun á tekjum sínum vegna gengislækkunarinnar, nema þá þeir aðeins örfáu bátar, sem hafa siglt með afla sinn á erlendan markað. Bátaútvegurinn yfir höfuð hefur ekki fengið eins eyris hækkun á tekjum sínum vegna gengislækkunarinnar, en útgjöld bátaútvegsins hafa vaxið stórkostlega nú undanfarið vegna gengislækkunarinnar. Svo vill hæstv. forsrh. fræða okkur á því, að þessar ráðstafanir, gengisbreytingin, hafi verið gerðar til þess að koma í veg fyrir stöðvun framleiðsluatvinnuveganna, sem hafi verið fram undan vegna kauphækkananna í sumar. Til viðbótar kemur svo, að hæstv. ríkisstj. hugsar sér með þessu frv. að leggja gífurlega þunga skatta á sjávarafurðirnar á næstunni og gerir þess vegna alls ekki ráð fyrir því, að rekstur sjávarútvegsfyrirtækjanna njóti nema að sáralitlu leyti þess hagræðis, sem þessi fyrirtæki hefðu nú getað haft af gengislækkuninni, þegar fram í sótti, ef þessi löggjöf hæstv. ríkisstj. hefði ekki komið til.

Með þessu sýnir ríkisstj. enn, að hún er ekki að gera þessar ráðstafanir til hagsbóta fyrir framleiðsluna eða fyrir sjávarútveginn. Það er síður en svo. Gengislækkunin er gerð í fyrsta lagi sem hefndarráðstöfun gegn launasamtökunum í landinu fyrir að leysa launamálin nokkuð öðruvísi en stjórnin vildi og til þess að skjóta þessum samtökum skelk í bringu í næstu framtíð. Enn fremur er gengislækkunin gerð til þess að hækka verðlag á erlendum vörum, þeim sem fólk þarf að kaupa sér til lífsframfæris, og til þess að standa undir framkvæmdum og til þess þannig að bæta gjaldeyrisstöðuna út á við, vegna þess að hæstv. ríkisstj. sér aldrei neitt annað úrræði til þess að sjá landinu borgið út á við en að hækka sífellt verðlagið á erlendum vörum, sem keyptar eru til landsins. Það hvarflar á hinn bóginn aldrei að hæstv. ríkisstj. að reyna að gera myndarlegt átak til þess að skjóta fótum undir aukna framleiðslu í landinu. Loks er þriðja ástæðan, sem líka hefur vakað fyrir hæstv. ríkisstj., og hún er sú að moka peningum inn í ríkissjóð. Það sýnir sú skattlagning á sjávarútveginn, sem látin er fylgja gengislækkuninni. 120–140 millj. af andvirði þeirra sjávarvörubirgða, sem liggja í landinu, á að skófla inn í ríkissjóðinn, og síðan á að skófla þangað líka þeirri hækkun, sem verður á tollum og aðflutningsgjöldum vegna sjálfrar gengislækkunarinnar. Allt þetta sýnir, svo að ekki verður einu sinni um deilt, að það, sem við stjórnarandstæðingar höfum haldið fram um gengislækkunina, er rétt og ríkisstj. hefur hreinlega unnið skemmdarverk á efnahagskerfinu í pólitísku augnamiði. Í baráttu sinni við stéttasamtökin í landinu hefur hæstv. ríkisstj. gripið til þessa vopns. En slíkt er auðvitað með öllu óafsakanlegt og óheimilt.

Það er einmitt af því, að gengislækkunin er til komin með svona annarlegum og undarlegum hætti, að við sjáum frv. eins og það, sem hér liggur fyrir, — annað eins fyrirbrigði. Ef þessi gengislækkun hefði verið hugsuð og undirbúin á sama hátt og aðrar gengisbreytingar hafa verið á undanförnum áratugum, hefði verið reynt að finna út samvizkusamlega, hvers útflutningsatvinnuvegirnir þurftu með, og miða breytinguna á genginu við það. Þetta hefur ævinlega verið gert. Allar gengislækkanir hafa verið rökstuddar með brýnni þörf atvinnuveganna, útflutningsatvinnuveganna, lagðar fram skýrslur og dæmi um, hvað væri það minnsta, sem útflutningsatvinnuvegirnir gætu komizt af með, og þau færð fram sem knýjandi rök fyrir því óyndisúrræði að þurfa að breyta gengi íslenzku krónunnar.

En nú eru engar slíkar skýrslur á ferðinni. Nú er ekki reynt að sýna fram á, að gengislækkunin hafi þurft að vera 13% vegna þess, að útflutningsatvinnuvegirnir þyrftu á því að halda, eða lagðar fram skýrslur og dæmi um þetta. Nei, málið er tekið frá allt annarri hlið. Það er bara tekið frá þeirri hlið, að nú þurfi að lækka krónuna til þess að hræða stéttasamtökin og hækka verðlag í landinu nægilega mikið til að hafa áhrif á gjaldeyrisjöfnuðinn. Það er reiknað á hné sér, að gengislækkunin megi ekki minni vera en þetta og þetta til þess að hafa áhrif á fólkið, til þess að hafa áhrif á verðið, svo að menn finni fyrir henni. Hún varð að vera það mikil, að menn fyndu fyrir henni, að menn fyndu afleiðingarnar á kroppnum á sér svo að segja. Þess vegna var ekki hægt að reikna hana eftir þörf atvinnuveganna. Hún er ákveðin eftir sjónhendingu og miðuð við þetta sjónarmið.

Þetta er skýringin á því, hvers vegna gengislækkunin er svona furðulega mikil, jafnvel frá sjónarmiði þeirra, sem hefðu getað hugsað sér, að það þyrfti einhverja litla gengislækkun vegna kauphækkunarinnar, sem þó ekki var, eins og margsinnis er búið að sýna fram á. Og þegar búið var að ákveða, hvað gengislækkunin þyrfti að vera mikil, til þess að menn fyndu hana á kroppnum á sér, þá kom í ljós frá sjónarmiði þeirra, sem hér að standa, að hún var orðin svo mikil, að það þurfti að taka aftur til baka frá útflutningsatvinnuvegunum bróðurpartinn af því fjármagni, sem þessi gengislækkun hefði annars þangað fært.

Af þessum ástæðum kemur jafnfurðulegt fóstur inn á þingið og þetta fylgifrv., þessi gengislækkunarkálfur, sem við köllum í gamni og verið er að ræða hér í dag. Það er verið að hala inn aftur, því að þetta er ekki miðað við þarfir útflutningsatvinnuveganna. Þetta er sönnun fyrir því. Hún er miðuð við allt annað. Hún er miðuð við að gera nógu kröftuga verðhækkun, sem menn finni fyrir og á að setja beyg í fólkið, og þá þurfti hún að vera Þetta mikil, enda hefur aldrei nokkur maður botnað í, hvernig mönnunum datt þessi tala í hug, 13% hækkun á gjaldeyri, út af kauphækkun, sem svaraði til 2–3% af útflutningsverði hjá fiskiðnaðarfyrirtækjum. Hvernig gat mönnum dottið í hug svona gengislækkun í sambandi við þetta? Það er eftir þessum hugsanagangi, sem ég hef verið að lýsa. Og það er af þessari rót, sem allt þetta furðuspil er sprottið og þessi undarlegu plögg koma nú fram hér á hv. Alþingi.

Og einmitt af því, að þetta er svona í pottinn búið, verður hæstv. forsrh. að standa hér í því,

— og er sannast að segja ekkert öfundsverður af því, enda sýnilega heldur daufur í dálkinn, — verður forsrh. að standa hér í að færa rök fyrir því, að það sé eðlilegt og sjálfsagt að leggja 41/2%útflutningsgjald á allar afurðir sjávarútvegsins, — verður að standa í því að reyna að rökstyðja þetta hér: íslenzkur sjávarútvegur verði að bera hærra útflutningsgjald en þekkist nokkurs staðar annars staðar í heiminum, að lagt sé á nokkra útflutningsvöru. En þetta er ástæðan fyrir þessu furðulega frv. og þessum furðulegu tiltektum öllum saman.

Ég vil nú beina því til hæstv. forsrh. eða hæstv. ríkisstj., að hún geri tilraun til þess að sýna fram á, að þessi gengisbreyting hafi verið knýjandi nauðsyn frá sjónarmiði atvinnuveganna.

Hæstv. forsrh. minntist á það hér í dag, að mönnum hætti við að deila stundum á aðra fyrir það, sem þeir hefðu gert sjálfir. Það má vel vera, að þetta sé rétt hjá hæstv. ráðh., að það geti komið einhvern tíma fyrir okkur alla. En í þessu sambandi vil ég alveg sérstaklega benda á það, sem raunar hefur verið tekið fram áður hér í umr., að ég veit ekki betur en sú verðhækkun á útflutningsbirgðum, sem áður hefur verið tekin í sambandi við gengislækkanir, hafi runnið í útflutningsuppbætur, hafi runnið beina leið í útflutningsuppbætur, eða, eins og hæstv. ráðh. kom að, til að standa undir kostnaði við ríkisábyrgð á útflutningsverði fisks, sem í eðli sínu er alveg það sama. Ég veit ekki betur en þannig hafi verið farið að undanfarið.

Ég kannast ekki við fordæmi fyrir því, og þau munu ekki vera til, að verðhækkun á útflutningsvörum hafi verið tekin eignarnámi, eins og hér er gert, og látin renna í ríkissjóð. Það er ekkert annað, sem hér er verið að gera, en láta þetta fjármagn frá útflytjendunum renna beint í ríkissjóð. Það er ekkert annað m orðaleikur og tyllirök að tala um ríkisábyrgðir í því sambandi, því að á fjárlögunum er veitt fé til þess að standa undir töpum af ríkisábyrgðum, og auk þess eru horfur um afkomu ríkissjóðs þannig, að hann getur staðið án þessarar skattlagningar undir þeim töpum, sem koma til greina á ríkisábyrgðum. Það er því ekkert annað en orðaleikur að tala um ríkisábyrgðir í þessu sambandi. Hér er hreinlega um það að ræða að taka þetta fé og láta það renna í ríkissjóð.

Hæstv. forsrh. gengur erfiðlega að viðurkenna, að það sé byrjað á uppbótakerfi í þessu frv. og þeim ráðstöfunum, sem áður hafa verið gerðar með greiðslu vátryggingaiðgjalda fyrir bátaflotann. En ég held, að hæstv. ráðh., jafnglöggur maður og hann er, sjái betur en hann lætur. Hvað er það annað en uppbótagreiðsla eða uppbótakerfi að taka með almennu útflutningsgjaldi af sjávarafurðum einhverja fúlgu, og hún er tekin af öllum sjávarafurðum, og taka svo aftur af þeirri fúlgu til að greiða vátryggingaiðgjöld fyrir öll fiskiskip? Þetta er vitanlega nýtt uppbótakerfi. Þetta er almenn tekjuöflun af útflutningsvörunum og síðan notað til þess að greiða vátryggingaiðgjöld fyrir hvern einstakan. M.a. kemur þetta þannig út, að hlutarsjómenn verða að greiða þennan skatt eða þetta útflutningsgjald, en þeir þurfa ekki að greiða nein vátryggingaiðgjöld af fiskiskipum. Hér er því alveg augljóslega um almenna skattheimtu að ræða, ekki bara á útgerðarfyrirtækin, heldur alla hlutarsjómenn og alla, sem eignast fisk. Og fjármununum er svo aftur varið til þess að greiða vátryggingaiðgjöld af bátum og skipum. Það eru ekki einu sinni sömu aðilarnir, sem eiga hlut að máli, að nærri því öllu leyti, hvað þá heldur að hver aðili um sig greiði jafnmikið inn í þennan sjóð og hann fær út aftur til að greiða vátryggingaiðgjöld. Hér er hreinlega um uppbótagreiðslur að ræða í þessu formi.

Eins og þetta liggur fyrir núna, er gengið lækkað, síðan er tekinn hluti af gengislækkuninni og lagður í sjóð til að greiða vátryggingaiðgjöld fiskiskipa. 1960 voru líka greidd vátryggingaiðgjöld af opinberu fé.

Þetta stangast vitanlega gersamlega við þá meginhugsun, sem sögð var liggja til grundvallar sjálfri viðreisninni, því að meginhugsunin, sem lá til grundvallar sjálfri viðreisninni, var sú, að það yrði hvert fyrirtæki og hver einstaklingur algerlega að standa á eigin fótum og njóta þeirra tekna, sem hann gæti aflað sér, og standa að öllu leyti undir sínum eigin útgjöldum. Allar millifærslur voru fordæmdar og allar ráðstafanir til að mismuna, eins og hagfræðingarnir kalla það, — allar ráðstafanir til að mismuna í kerfinu voru taldar óalandi og óferjandi. En vitanlega er það hreinlega ráðstöfun til að mismuna og því brot á þessari meginstefnu að innheimta fé með almennum skatti á sjávarafurðir og verja því sama fé til að greiða einn tiltekinn kostnaðarlið við útgerð togara og báta. Þetta er auðvitað beint brot á þessari meginstefnu, sem hæstv. ríkisstj. lýsti yfir, enda hefur sú stefna alls ekki staðizt yfirleitt að neinu leyti, sem ég þó skal ekki fara út í nú. Það er ekki aðeins í þessu atriði, sem hæstv. ríkisstj. hefur neyðzt til þess að ganga frá þessari stefnu.

Ég var að lýsa því áðan, hvernig þessi gengislækkun væri hugsuð og til komin. Það liggur nú alltaf ljósara og ljósara fyrir. Og einmitt vegna þess, hvernig hún er til komin, kemur þetta furðulega frv. um gífurlega skatta, sem á að leggja á sjávarútveginn sérstaklega. Samhengið er þetta: Til þess að gengislækkunarhöggið gæti orðið nógu þungt fyrir almenning, var gengislækkunin höfð svona mikil. Hæstv. ríkisstj. fannst þá allt í einu sjávarútvegurinn fá allt of mikið, það yrði að hala bróðurpartinn af því inn aftur og leggja í ýmiss konar sjóði, eins og er greint í þessu frv., og sumu ætti svo að ráðstafa með löggjöf síðar, eins og hæstv. ráðh. orðaði það hér áðan. Ráðherra sagði, að menn skyldu ekkert vera að fjargviðrast um það núna, hvernig þetta fé yrði notað, það gætu menn hugsað um síðar. Á þessu sjá menn líka, hvernig þessi fjáraustur frá sjávarútveginum er til kominn. Þeir urðu að finna einhver ráð, fannst þeim, til þess að taka þetta fé til baka og setja það einhvers staðar á einhvers konar hálfgerða biðreikninga til að byrja með. Svo mætti ákveða síðar, hvernig þessu yrði varið. Þetta sýnir glöggt, hvernig þetta er allt saman til komið. Þetta er ekki til komið fyrir knýjandi þörf atvinnuveganna, heldur er gengislækkunin hugsuð allt öðruvísi. Hún er hugsuð sem vopn í hinni pólitísku baráttu, eins og ég var að lýsa áðan. Þess vegna þarf að hala þetta fjármagn inn aftur frá útveginum, finnst þeim, og setja inn á einhvers konar biðreikninga, eftir því sem hæstv. forsrh. túlkar þetta nú. En verulegur hluti af Þessu fjármagni er a.m.k. í bili sagður eiga að renna til stofnlánadeildar sjávarútvegsins.

Hæstv. forsrh. er með þessu settur í þann vanda að færa rök fyrir því, að þetta sé skynsamlegt og heppilegt, því að hina sönnu ástæðu fyrir þessu málefni má nefnilega ekki nefna, sem sé þá, sem ég hef verið að greina frá: hvernig gengislækkunin er til komin. Hún gat ekki orðið nógu Þung með öðru móti en því, að þarna sköpuðust „afgangar“, frá sjónarmiði stjórnarinnar, sem þá varð að ráðstafa eða a.m.k. geyma. Þetta getur hæstv. forsrh. ekki sagt, þó að allir sjái þetta nú orðið, og þess vegna verður hann að reyna að finna aðrar ástæður, önnur rök fyrir þessu. Og þá verða rökin þau, að menn verði að skilja það, að vegna þess, hvað sjávarútvegurinn sé stórfelldur atvinnuvegur á Íslandi, verði hann að leggja til fjármagnið handa sér sjálfur, t.d. í stofnlánabanka sína. Vegna þess, hve sjávarútvegurinn sé stórkostlegur atvinnuvegur á Íslandi, sé það ekki aðeins réttiætanlegt, heldur bókstaflega nauðsynlegt að afla fjár í stofnlán handa honum með útflutningsgjaldi á hann sjálfan, með skattgjaldi á rekstur útgerðarfyrirtækja.

En hvernig heldur hæstv. forsrh., að íslenzkum sjávarútvegi muni ganga að keppa við sjávarútveg annarra landa með svona löguðum vinnubrögðum, þegar svona langt er gengið í því að leggja á hann útflutningsgjöld? Sjávarútvegur annarra landa er ekki þjakaður af slíkum álögum, heldur er hann í mörgu tilliti beinlínis studdur með beinum framlögum af hálfu ríkisvaldsins. Þetta er eitt atriði, sem sýnir, að þessi stefna að ætla sér að byggja upp lánasjóði með þungum útflutningsgjöldum, sem koma niður sem skattur á rekstri sjávarútvegsfyrirtækjanna árlega, — þessi stefna er algerlega dauðadæmd, stenzt ekki, enda er þetta til komið af annarlegum ástæðum og stenzt því ekki stundinni lengur.

Það er kannske hægt að gera eitthvað að þessu og þá mjög í hófi, eins og gert hefur verið undanfarið, á meðan uppgripin í sjávarútveginum eru stórkostleg. En til lengdar getur þetta áreiðanlega ekki staðizt og sízt ef samkeppni íslenzks sjávarútvegs við sjávarútveg annarra landa fer harðnandi, eins og helzt er útlit fyrir. Fæstum mundi hafa dottið í hug, að það kæmi til mála, að hæstv. ríkisstj. færi nú allt í einu að moka á sjávarútveginn nýjum útflutningsgjöldum í þessu skyni. Það hefur áreiðanlega engan órað fyrir slíku, enda er þetta, eins og ég sagði, allt saman til komið á þennan undarlega hátt. Það er verið að finna þarna leiðir til að taka fjármagnið til baka í bili á biðreikninga, og allt þetta annarlega tal í þessu sambandi stafar af því, hvað þetta er til komið með óheilbrigðum hætti.

En ef þetta fær nú ekki staðizt, eins og ég hef verið að segja, að láta sjávarútveginn greiða með sköttum sjálfan beint árlega stórfé til að leggja í stofnlánadeildir sjávarútvegsins, hvernig á þá að afla fjár í þessar stofnlánadeildir? Ég held, að það sé yfir höfuð ekki flókið að skilja, að sjávarútvegurinn, þýðingarmesti atvinnuvegur landsmanna, hlýtur að eiga rétt á því, að einhver verulegur hluti af þeim almenna sparnaði, sem verður í landinu, af þeirri almennu fjármagnsmyndun, sem verður í landinu, gangi í stofnlánadeildir hans og stofnlánasjóði. Hverjum dettur eiginlega annað í hug en það hljóti að vera aðalúrræði fyrir sjávarútveginn, eins og aðra uppbyggingu í landinu og aðra fjárfestingu, að fjárfestingarlánin komi af þeirri almennu fjármagnsmyndun, sem verður í landinu, í bönkum landsins og annars staðar? Og enn fremur hlýtur sjávarútvegurinn að eiga að fá sinn hluta af þeim erlendu lánum, sem tekin eru til uppbyggingar. En eins og við vitum, hafa verið tekin mikil lán til uppbyggingar ílandinu á undanförnum árum, og verða vafalaust á næstu árum tekin veruleg erlend lán og varið til uppbyggingar. Sjávarútvegurinn á alveg tvímælalaust fyllstu kröfu á því að fá í sinn hlut mikið af því fjármagni, sem safnast almennt fyrir í landinu og gengur inn í útlánakerfið, og enn fremur af þeim erlendu lánum, sem tekin eru.

Það eru engin frambærileg rök til fyrir því, að sjávarútvegurinn eigi umfram aðrar atvinnugreinar, eins og nú er komið, að greiða inn í sínar lánastofnanir stórfé með sköttum á rekstur sjávarfyrirtækjanna árlega. Þessi aðferð hefur nokkuð verið notuð á undanförnum árum út úr neyð. Hún hefur alltaf verið hæpin, og alveg keyrir um þverbak, að nú leggur hæstv. ríkisstj. til, að hert sé á þessari skattheimtu um allan helming með þessu frv., enda veit ég, að inn á sér finnur hæstv. ríkisstj. þetta. Hún veit, að ákvæði þessa frv., eins og þau eru núna, fá ekki staðizt stundinni lengur. Þessu verður breytt. Þetta fjármagn hlýtur að verða að renna aftur út í sjávarútveginn strax. Þetta getur ekki staðizt. Og þetta er í raun og veru nokkurs konar biðreikningur, sem settur er upp, þó að hæstv. ríkisstj. vilji ekki segja það. Það er feimnismál. Það má ekki segja, að þetta stafi allt af því, að hæstv. ríkisstj. fannst, að það mætti ekki slá lausara en slegið var með gengislækkuninni.

Ég læt svo þessar athugasemdir nægja.