30.11.1961
Neðri deild: 28. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1232 í B-deild Alþingistíðinda. (1009)

13. mál, ráðstafanir vegna ákvörðunar um nýtt gengi

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Hæstv. forseti. Hv. 1. þm. Austf. veit það af gömlu samstarfi okkar, að ég á bágt með að láta menn synjandi frá mér fara og hafna þeim manni, sem biður mig jafnvel og hann gerði í ræðu sinni áðan. Ég verð þó að bregða af venju minni og get ekki orðið við þeirri beiðni, sem hann bar hér fram um einhverjar nýjar yfirlýsingar af minni hálfu vegna fiskveiðiréttinda togara innan fiskveiðilögsögunnar. Og sú synjun kemur af því, að ástæðurnar, sem hann færði fram fyrir beiðni sinni, voru gersamlega tilhæfulausar. Hv. þm. sagði, að ég hefði við fyrri hluta umr. gefið yfirlýsingar, sem hefðu vakið mikla athygli og skapað ugg í þessum efnum, og þyrfti nú að leiðrétta eitthvað af því, sem ég þá sagði. Mér þykir mjög furðulegt, ef þessar yfirlýsingar hafa verið jafnuggvænlegar og hv. þm. nú vill vera láta, að Tíminn hefur hvorki í gær né í dag vikið að þessum ógnaryfirlýsingum einu orði, hvað þá krafið mig reikningsskapar á einhverjum hneykslisummælum, sem ég hafi hér viðhaft. Með leyfi hæstv. forseta, þá rekur Tíminn það, sem ég sagði á miðvikudaginn um þetta efni, með þessum orðum:

„Þá sagði forsætisráðherra, að með stækkun fiskveiðilögsögunnar hefði bátaútvegurinn fengið miklar hagsbætur á kostnað togaraútgerðarinnar. Togararnir njóti ekki eins mikils góðs af útfærslunni og bátarnir. Meðan togararnir njóta jafnlítilla réttinda innan fiskveiðilögsögunnar og nú er, er ekki nema von, að þröngt sé fyrir dyrum hjá þeim. Togaraútgerðin hefur orðið þjóðinni til mikils gagns og er fráleitt að afskrifa hana, þótt við bráðabirgðaörðugleika sé að etja.“

Þetta segir Tíminn eftir mér um Þetta efni. Og aldrei þessu vant, þá fer blaðið þarna rétt með. Það rekur meginatriði þess, sem ég sagði, án þess að afbaka það á nokkurn veg og finnst auðsjáanlega þarna ekki koma annað fram en það, sem eðlilegt hafi verið að sagt væri, a.m.k. var hvorki vakin athygli á því í fyrirsögn né hefur Tíminn brugðið við til að setja ofan í við mig, sem ég veit að hann er annars ekki ófús til, ef hann telur sérstakt tilefni vera.

Hins vegar sá ég, að í Þjóðviljanum var mjög ranghermt það, sem ég hafði sagt, og á þann veg, sem hv. 1. þm. Austf. vildi vera láta, að mín orð hefðu fallið. Og ég sé það, að hv. Þm. trúir betur Þjóðviljanum en Tímanum og sínum eigin eyrum. (EystJ: Ég studdist við Morgunblaðið og mín eigin eyru) Já, ég hef hér mína ræðu. Ég vil ekki þreyta þm. á að lesa hana upp að nýju, en hv. þm. er velkomið að sjá hana, og í henni er ekki sagt eitt einasta orð, sem ég vildi hafa aftur tekið, né þarf ég þar neinu við að bæta um yfirlýsingar. Ég vakti að gefnu tilefni, einkanlega frá hv. 5. þm. Norðurl. v., athygli á því, hver fásinna það væri, ef ætti að leggja íslenzka togaraútgerð niður vegna þeirra bráðabirgðaörðugleika, sem hún á við að etja.

Ég skal ekki lesa allt það, sem ég sagði um þetta, en niðurstaðan, sem ég komst að eftir mínar bollaleggingar, var, með leyfi hæstv. forseta, þessi:

„Ef menn — og ég segi: ef — ef menn telja óráðlegt að víkka veiðiheimildir togaranna innan fiskveiðilögsögunnar, þá hlýtur mjög að koma til íhugunar, hvernig á annan hátt sé hægt að bæta þeirra hlut. Ég veit ósköp vel, að það er ekki vinsælt að segja, að annað hvort sé eðlilegt, að þeir fái rýmri fiskveiðiheimildir innan fiskveiðilögsögunnar eða þeir fái einhverjar fjárbætur, á meðan þeir komast ekki af og hægt er að rekja að verulegu leyti þeirra erfiðleika til skerðingar á veiðiréttindum þeirra. Ég veit ósköp vel, að margir mundu segja: Er ekki einhver þriðja leið til örðugleikalaus, sem við engan komi, til þess að bæta hag þeirra manna, ekki aðeins útvegsmanna, heldur einnig sjómanna og landverkafólks og þar með þjóðarheildarinnar, — bæta það skakkafall, sem allir þessir aðilar verða fyrir af þessum sökum? Ég hef ekki enn heyrt þau úrræði, og ég er hræddur við, að hér eins og ella fari svo, að ef á að bæta hlut annars, þá verði það að vera gert á kostnað hins, að það verði ekki jöfnuð metin, nema tekið sé frá einhverjum öðrum til þess að jafna metin. Ég er ekki kominn til þess í dag að segja, hver úrræði eigi í þessu að velja, en ég tel fyllilega tímabært að vekja sérstaka athygli á þessu vandamáli, bæði vegna ummæla hv. 5. þm. Norðurl. v. og hv. 4. þm. Austf.“

Það er óumdeilanlegt og viðurkennt, meira að segja af hv. 4. þm. Austf., að togararnir hafa orðið fyrir skakkaföllum vegna forréttinda bátanna innan hinnar nýju fiskveiðilögsögu. Það má deila um, hversu mikið það skakkafall sé. Það er athugunaratriði og matsatriði. En það er viðurkennt af öllum, að þeir hafa orðið fyrir tjóni. Þegar þeir eiga mjög í vök að verjast, togararnir, þá er eðlilegt og óhjákvæmilegt, að það sé íhugað, hvernig eigi að bæta þeirra hlut, hvort það sé fært að veita þeim aukin réttindi innan fiskveiðilögsögunnar eða hvort hitt sé ráðlegra, að bæta þeim það upp með fjárbótum, eins og ég kemst að orði. Og ég vek athygli á því, að í minni ræðu vék ég ekki einu orði að því, hvaðan þær fjárbætur eigi að koma. Ég bendi einungis á, að það séu þessi tvö úrræði, sem til álita komi, og menn verði að íhuga og síðan meta, hvorn kostinn þeir fremur kjósi. Það er svo enn annað atriði, ef menn velja fjárbæturnar, hvort þá er sanngjarnt eða fært að leggja þær eingöngu á bátaútvegsmenn eða er hitt sanngjarnara, að Það sé lagt úr sameiginlegum sjóði landsmanna á einn eða annan veg. Þetta er úrlausnarefnið, og í ræðu minni gerði ég ekkert annað en vekja athygli á vandamálinu, benda á þær leiðir, sem einar gætu komið til greina varðandi lausn vandans, ef menn vildu ekki fylgja gamanmáli hv. 5. þm. Norðurl. v. að leggja togaraútgerðina einfaldlega niður.

Vandinn verður ekki leystur með því að loka augunum fyrir því, að hann sé til. Hann verður ekki heldur leystur með því að neita að gera sér grein fyrir orsökunum. En Þótt menn geri sér grein fyrir orsökunum, er ekki þar með sagt, að það sé fært að leggja eingöngu á þann, sem hagnazt hefur, að borga kostnaðinn af því að bæta hinum upp.

Ég endurtek það, sem ég sagði, að ég hef ekki gert upp minn hug né hefur ríkisstj. gert um það, hvernig þetta vandamál eigi að leysa. En það er furðulegt, að hv. 1. þm. Austf. skuli vera orðinn svo trúaður á Þjóðviljann umfram sín eigin eyru og umfram Tímann, að hann skuli gera sig að fífli á Alþingi til þess að skemmta — ég skal ekki segja hverjum. (EystJ: Það er ráðh., sem sagði þetta.)

Þá kvartaði hv. þm. yfir því, að ég hefði ekki farið að ræða um gengislækkunina almennt. Það er búið að ræða það mál mjög ýtarlega á Alþingi. Ég veit ekki, hversu oft ég er búinn að heyra þennan hv. þm. flytja þá ræðu, sem hann gerði nú í dag, a.m.k. við 1. umr. fjárl., við vantrauststill. og við 1. umr. um gengisskráningarfrv. Mér þykir að vísu oft gaman að hlusta á hv. þm., en of mikið má af öllu fá, og það er óþarft fyrir hann að taka upp enn þá einu sinni það, sem hann er margoft búinn að segja áður, og til of mikils ætlazt, að þm. nenni að fara að þræta við hann um það efni, sem er margbúið að svara honum um áður.

Hv. þm. vék að því og þótti auðsjáanlega hart, að ég skyldi segja, að allír skynibornir menn hefðu vitað fyrir fram og vissu eftir á, að gengislækkun hefði verið óhjákvæmileg eftir svo háar almennar kauphækkanir eins og gerðar voru. Ég skal játa, að þegar ég notaði þessi orð, hafði ég sérstaklega í huga Jakob Frímannsson, einn helzta samvinnufrömuð á landinu, formann SÍS, að því er ég hygg. í umr. um gengisskráningarfrv. minntist ég á Það hér í þessum stól, að þessi ágæti og mjög skyniborni maður hefði sagt það fyrir í vor, að ef almennar kauphækkanir yrðu, mundu þær leiða til gengislækkunar. Hv. 1. þm. Austf. spurði mig þá að því, hvar eða hvenær Jakob Frímannsson hefði viðhaft þessi ummæli, og hv. þm. vildi Þar með gefa í skyn, að rangt væri eftir haft. En í ræðu, sem hv. þm. hélt mér til andsvara, varð hann að viðurkenna, að Jakob Frímannsson hefði látið ummælt á þann veg, sem ég hafði eftir honum haft, en bar það eitt fram til afsökunar, að Jakob hefði sagt þetta fyrir kauphækkanirnar, en ekki eftir. En einmitt það var meginatriði míns máls, að ég vitnaði til Jakobs Frímannssonar til sönnunar því, að skynibornir menn eins og hann vissu ofur vel, hvað þeir voru að gera, þegar þeir beittu sér fyrir almennri kauphækkun í landinu, og er þó e.t.v. rangt að orði komizt að segja, að Jakob Frímannsson hafi beitt sér fyrir þessari kauphækkun. Hann hefur vafalaust undir niðri verið á móti henni. Það hafa verið honum ráðameiri og hrekkvísari menn, sem hafa knúið hann til þess að vinna verk, sem hann sjálfur vissi að hlutu að leiða til ófarnaðar, sömu mennirnir, sem síðan standa æ ofan í æ upp á Alþingi og tala um skemmdarverk, þegar gert var það, sem hinn skynibornasti maður í þeirra hópi hafði sagt fyrir að yrði óhjákvæmileg afleiðing af því, sem þessir hrekkjalómar beittu sér fyrir. (EystJ: Þetta sagði hann aldrei.)