04.12.1961
Neðri deild: 29. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1261 í B-deild Alþingistíðinda. (1014)

13. mál, ráðstafanir vegna ákvörðunar um nýtt gengi

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það er aðeins stutt athugasemd, sem ég hef hér að gera, enda hef ég þegar talað tvisvar sinnum í málinu. Það var í tilefni af orðum þeim, sem féllu í dag frá hæstv. sjútvmrh., þar sem hann vék að því, sem ég hafði sagt áður í umr. um þetta mál. Hæstv. ráðherra sagði nokkrum sinnum, að honum hefði fundizt, að frá minni hálfu hefði andað heldur köldu í garð togaraútgerðarinnar íslenzku. Ég verð að segja, að mér finnast Þessi orð hæstv. ráðherra ómakleg í minn garð. Ég tel ekki, að það hafi verið hægt að skilja orð mín þannig. Að því leyti til sem ég ræddi um íslenzka togaraútgerð, sagði ég, að ég væri algerlega mótfallinn þeim hugmyndum, sem fram hefðu komið um það að leggja niður íslenzka togaraútgerð eða láta togarana eftir í reiðileysi, eins og þeir væru margir hverjir nú. Ég lagði á það áherzlu, að ég teldi, að það ætti einmitt að takast á við vandamálið og reyna að rétta þeim hjálparhönd, en hins vegar lýsti ég því yfir, að ég væri andvigur þeim leiðum til þess að rétta togurunum hjálparhönd, sem hér hefðu komið fram, að ætla að skattleggja bátaútgerðina í landinu til stuðnings við togarana. Ég taldi,. að ég væri á móti þeirri leið, — og svo einnig hitt, að ég taldi það líka ranga leið að ætla að hjálpa íslenzkri togaraútgerð nú út úr sínum fjárhagserfiðleikum með Því að heimila henni rýmra veiðisvæði innan fiskveiðilandhelginnar en hún hefði nú. Þetta var það, sem ég sagði um þetta atriði, fyrst og fremst.

Það er ekki tími til að fara í þessum umræðum út í nánari hugleiðingar um það, hvað í rauninni ætti að gera til þess að aðstoða íslenzka togaraútgerð, eins og nú er ástatt. En ég er alveg sannfærður um það fyrir mitt leyti, að það er hægt að gera mikið til þess að styðja íslenzka togaraútgerð og gera hana rekstrarhæfa eftir öðrum leiðum en hæstv. sjútvmrh. minntist á í umræðunum. M.a. kemur til greina til stuðnings við íslenzka togaraútgerð ýmislegt af því, sem hv. 1. þm. Vestf. minntist hér á, og margt annað fleira, sem stefnir að því að lækka rekstrarútgjöld togaranna, en ég tel, að það sé vel hægt að koma því við, ef réttilega er á málinu tekið.

Svo var hitt atriðið, að ég hafði varpað því hér fram, að það væri mín skoðun og ýmissa fleiri, að togararnir töpuðu raunverulega ekki eins miklu og margir togaraútgerðarmenn og reyndar ýmsir togaraskipstjórar af eðlilegum ástæðum vildu telja að togararnir töpuðu við það, að þeir voru settir út fyrir 12 mílna mörkin, og ég nefndi þá tölu í þessum efnum, að það hefði komið út úr athugun, sem ég hefði m.a. látið gera, að þeir hefðu, á meðan Þeir voru frjálsir að veiða upp að fjögurra mílna mörkunum, veitt á svæðinu milli 12 og 4 mílna markanna varla meira en 15% af heildarveiði togaranna, — ekki af þeirri veiði, sem þeir veiða hér á Íslandsmiðum, heldur af heildarafla þeirra. En hæstv. sjútvmrh., hann taldi, að nefnd sú, sem nú hefur verið að vinna á vegum ríkisstj. að því að athuga um rekstrarhag togaranna, hefði komizt að annarri niðurstöðu eða þeirri, að togararnir mundu tapa í kringum 37% við Það að vera fyrir utan 12 mílna mörkin af Þeim afla, sem þeir höfðu haft hér á Íslandsmiðum. Ég skal nefna það í þessum efnum, að einmitt þegar sú ákvörðun var tekin, að íslenzku togararnir skyldu vera fyrir utan 12 mílna mörkin, þá var allfjölmenn nefnd látin athuga þessi mál, og togaraútgerðarmenn sendu þá inn skýrslu til ríkisstj. um sína athugun á þessu atriði, og það voru allir á þeirri skoðun aðrir en togaraútgerðarmenn, að þeir vildu gera miklu meira úr þessum skaða, sem þeir yrðu fyrir, með því að þeim væri stjakað út fyrir, en þeir komust þá, fulltrúar togaraútgerðarmanna, að þeirri niðurstöðu, að miðað við útgerðina 1956 og 1957, eða árið áður en landhelgismörkin voru færð út í 12 mílur, hefðu íslenzku togararnir tapað við það að verða að fara út fyrir, — árið 1957 hefðu þeir tapað 20.99%, en árið 1956 23.05%.

Þetta var sú niðurstaða, sem fjölmenn nefnd togaraeigenda og togaraskipstjóra komst að, eins og þeir settu dæmið upp. En eins og ég sagði, sú athugun, sem ég hafði látið fara fram, benti til þess, að togararnir hefðu ekki tekið nema í kringum 15% af heildarafla sínum innan við 12 mílna mörkin. Ég var satt að segja ekki hissa á þessum mismun, sem þarna kom fram, því að það voru flestir á þeirri skoðun, að togaraeigendur og togaraskipstjórar gerðu fremur meira úr þessu en minna. En þegar þeir reiknuðu þetta út, að árið 1957 hefði munað um 21% og árið 1956 um 23%, þá tóku þeir ekkert tillit til þess, hvaða afla skipin mundu hafa fengið utan 12 mílna markanna á þeim tíma, sem þau hefðu þá veitt þar, í stað þess að eyða sínum tíma áður fyrir innan. Þegar þetta allt er metið, þá hygg ég, að flestir muni komast að þeirri niðurstöðu, að það er ekki ýkjamikill hluti af heildarafla íslenzku togaranna, sem tekinn hefur verið fyrir innan 12 mílna mörkin, og ég býst því við, að það færi svo, eins og ég sagði, að það kæmi lítil björgun út úr því fyrir togarana, þó að þeim væri hleypt þarna inn fyrir, eða miklu minni en ókunnugir vilja halda í fyrstu, miðað við það rekstrarlag, sem hefur verið á íslenzku togurunum. Hins vegar held ég, að það sé enginn vafi á því, að veiðar þeirra á miðum bátanna mundu valda bátaútgerðinni miklu tjóni.

Ég tók eftir því, að hæstv. sjútvmrh. nefndi hér aðallega þrjár leiðir til þess að veita togurunum stuðning: Í fyrsta lagi að veita þeim aukin veiðileyfi innan fiskveiðilandhelginnar. í öðru lagi að veita þeim fjárhagslega aðstoð, t.d. eftir þeim leiðum, sem gert er ráð fyrir samkvæmt þessu frv., þ.e. með auknum fjárframlögum frá hlutatryggingasjóði. Og svo í þriðja lagi með beinum fjárgreiðslum úr ríkissjóði.

Ég get ekki varizt að segja það, að mér fannst hæstv. sjútvmrh. tala þannig um þessi mál, að hugur hans hneigðist allmikið, eins og ég veit að hugur margra togaraútgerðarmanna hneigist, að fyrstu leiðinni, að veita íslenzku togurunum aukna veiðiheimild innan fiskveiðilandhelginnar. í tilefni af þessu vildi ég nú spyrja hæstv. sjútvmrh. varðandi allt það, sem um þetta mál hefur verið sagt hér: Er það ekki rétt, að það hafi verið starfandi og sé enn starfandi nefnd manna á vegum ríkisstj. til þess að athuga sérstaklega um að heimila íslenzkum togurum aukin veiðiréttindi frá því, sem verið hefur, innan fiskveiðilandhelginnar, og hvaða fulltrúar eru starfandi í þessari nefnd?

Er ekki ástæða til þess að fara varlega í sambandi við breytingar á veiðirétti togaranna í þessum efnum, og er ekki ástæða til þess að hafa samráð bæði við Alþingi varðandi þessi mál, því að Alþingi hefur ekki enn sett neina nefnd til þess að athuga um þetta, og einnig að hafa fullnægjandi samband við samtök bátaútgerðarmanna í landinu, þannig að sjónarmið þeirra komi almennt fram, ekki aðeins forustumanna í samtökunum, þeirra manna, sem búsettir eru hér á takmörkuðu svæði á suðvesturhorni landsins og þekkja skiljanlega mjög takmarkað til um veiðiaðstöðu víða annars staðar við landið. Þegar ákveðið var árið 1958 að heimila íslenzkum togurum takmarkaðar veiðar innan fiskveiðilandhelginnar nýju, var sett nefnd, skipuð 13 mönnum, og nefndin var valin þannig með sérstakri aðstoð frá samtökum Fiskifélags Íslands, að nokkrir fulltrúar voru úr öllum landshlutum í þessari nefnd, þannig að tryggt var, að öll sjónarmið kæmu fram viðvíkjandi jafnvandasömu máli og það er að ætla að hleypa togurunum inn á fiskveiðisvæði bátanna.

Eftir því sem ég bezt veit, hefur ekki verið kallað eftir samstarfi við fulltrúa úr landshlutunum í þessum efnum. En heyrt hef ég um starf þessarar nefndar, sem ég minntist hér á. Ég vona, að hæstv. ráðherra svari mér því, hvort slík nefnd sem þessi er starfandi og hver meining hæstv. ríkisstj. er í þeim efnum, varðandi þennan hugsanlega möguleika að hleypa togurunum inn í fiskveiðilandhelgina, hvort hún hugsar sér að hafa samráð við Alþingi, þegar að því kemur að ákveða slíkt, eða ekki.

Þá minntist hæstv. sjútvmrh. á sérstaka togaranefnd, sem hefur verið starfandi síðan í vor og hefur verið að athuga um rekstrarafkomu togaraútgerðar, og hann sagði, að þessi nefnd hefði fyrir stuttu skilað áliti til ríkisstj. Ég vildi nú spyrjast fyrir um það, hverjir voru fulltrúar í þessari nefnd, sem fjallar um jafnmikilvægt málefni sem þetta. Og hugsar ekki hæstv. ríkisstj. sér að gera Alþingi grein fyrir því, að hvaða niðurstöðum þessi nefnd hefur komizt um rekstrarafkomu togaraflotans, þannig að það megi heita tryggt, að það komi þó fram öll sjónarmið varðandi þetta vandamál, um það, hvernig á að leysa vandamál íslenzku togaraútgerðarinnar nú í dag?

Ég verð að öðru leyti að segja það, að mér finnst, að hæstv. ríkisstj. hafi í þessum efnum valið hina óæskilegu leið að skipa nefnd manna til þess að athuga með rekstrarafkomu togaranna án samráðs við flokkana og án samstarfs við Alþingi, því að hér er um stórt mál að ræða, sem hlýtur fyrr eða síðar að koma fyrir Alþingi. Sömuleiðis tel ég það ekki heppilegt, að um jafnviðkvæmt og vandasamt mál og veiðiréttindi íslenzkra togara innan fiskveiðilandhelginnar séu starfandi nefndir án þess að vinna í beinu samstarfi eða samráði við Alþingi.

Ég vænti, að hæstv. ráðh. svari þessum fyrirspurnum mínum, en að öðru leyti skal ég ekki fara út í umræður um málið, þar sem ég hef líka fullnotað ræðutíma minn áður.