04.12.1961
Neðri deild: 29. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1267 í B-deild Alþingistíðinda. (1018)

13. mál, ráðstafanir vegna ákvörðunar um nýtt gengi

Annað atriði mætti einnig benda á í þessu sambandi og í tilefni af því, að nú er verið að ræða um að veita íslenzku togurunum aukin veiðiréttindi innan fiskveiðilandhelginnar. Að sjálfsögðu er það miklu örðugra að veita íslenzkum togurum öll slík aukin réttindi vegna þess, að erlendum togurum var veittur réttur til þess með umræddum samningi að fiska á stórum svæðum innan fiskveiðilandhelgi Íslands og þar með var þrengt verulega að bátaflotanum. Þess vegna er að sjálfsögðu enn þá síður hægt núna að auka veiðiréttindi íslenzkra togara innan fiskveiðilandhelginnar og þrengja þannig enn meira að bátaflotanum. Það hefði e.t.v. — ég segi:

e.t.v. — getað komið til greina að veita íslenzkum togurum einhver frekari veiðiréttindi innan fiskveiðilandhelginnar, ef erlendu togararnir hefðu ekki fengið þá undanþágu, sem þeim var veitt á fyrri hluta þessa árs og þeir njóta nú. Þess vegna álít ég, að þessi samningur, sem gerður var í fyrra við Breta um landhelgismálið, sé ein af aðalástæðunum fyrir því, að það sé alls ekki hægt að veita íslenzkum togurum nein meiri veiðiréttindi innan íslenzkrar fiskveiðilandhelgi en þeir hafa nú.

Varðandi það atriði, sem allmjög hefur verið rætt um hér, hvernig eigi að bæta úr erfiðleikum togaranna, hvort eigi að gera það með því að auka veiðiréttindi þeirra innan fiskveiðilandhelginnar eða veita þeim beinan fjárstyrk úr ríkissjóði, eins og hæstv, sjútvmrh. hefur minnzt á, þá vil ég aðeins segja það, að ég hallast langhelzt að þeirri leið, sem hv. 1. þm. Vestf. gat um og einnig kom fram í ræðu hv. 5. þm. Norðurl. v., sem sé að reyna að draga úr útgjöldum togaranna og leysa vandamál þeirra á þann hátt. Þær leiðir, sem þar koma til greina, álít ég miklu heppilegri og æskilegri til lausnar þessu máli en fara að auka veiðiréttindi togaranna innan fiskveiðilandhelginnar eða fara að veita þeim beina fjárstyrki úr ríkissjóði eða öðrum opinberum sjóðum. Ég held þess vegna, að það hafi verið orð í tíma töluð, sem hv. 1. þm. Vestf. lét hér falla í ræðu sinni um það, að þetta mál ætti fyrst og fremst að reyna að leysa með því að draga úr rekstrarútgjöldum togaranna, og hann benti einnig á ýmsar leiðir, sem að sjálfsögðu koma til athugunar í því sambandi, þó að ég telji mig hins vegar ekki dómbæran, — ég skal játa það, að ég tel mig ekki dómbæran til þess að kveða á um það, að hve miklu leyti þær eru framkvæmanlegar og þær geti komið að verulegum notum. En að sjálfsögðu er hér um leiðir að ræða, sem ber að athuga, og þá ber ekki síður að athuga það, sem hv. 5. þm. Norðurl. v. minntist á, að fella niður ýmis gjöld, sem á togurunum hvíla, eins og t.d. útflutningsgjöldin, og m.a. gjöld, sem felast í þessu frv.

Ég gæti vel trúað því, að það sé rétt hjá þessum tveimur þingmönnum, að ef þetta allt væri vandlega athugað, sem þeir hafa bent á, mætti leysa vandamál útgerðarinnar, án þess að það þyrfti að veita togurunum aukin veiðiréttindi innan fiskveiðilandhelginnar eða þeir þyrftu að fá beina fjárstyrki úr ríkissjóði eða öðrum opinberum sjóðum. A.m.k. virðist alveg sjálfsagt mál, að þessar leiðir verði athugaðar til þrautar, áður en horfið verði að hinum tveimur leiðunum, sem hæstv. sjútvmrh. minntist sérstaklega á.

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða öllu frekar um það mál sjálft, sem hér liggur fyrir, eða þau atriði, sem felast í þessu frv., eða þau atriði, sem sérstaklega hafa verið rædd í þessum umræðum. En það, sem ég vildi sérstaklega minnast á og var orsök þess, að ég kvaddi mér hljóðs um þetta mál, er það, sem mér finnst vanta í þetta frv., og það, sem mér finnst þetta frv. hefði fyrst og fremst átt að fjalla um.

Þetta frv. er frv. til laga um ráðstafanir vegna ákvarðana Seðlabanka Íslands um nýtt gengi íslenzkrar krónu. í þessu frv. ættu samkvæmt þessu að felast ýmiss konar ráðstafanir, sem gerðar væru eða rétt hefði þótt að gera vegna gengislækkunarinnar. Og þá finnst mér það koma fyrst og fremst til athugunar, hverjir það eru, sem hafa orðið mest fyrir barðinu á gengislækkuninni. Ef lagt væri fyrir þingið frv. um ráðstafanir vegna lækkunar á gengi íslenzkrar krónu, ætti að mínum dómi að vera eitt aðalatriðið í slíku frv. að bæta hlut þeirra, sem yrðu einna mest fyrir barðinu á gengislækkuninni, en öll slík ákvæði vantar fullkomlega í þetta frv. Ég held, að það sé ekki hægt að finna ákvæði, sem miðar að því að bæta kjör eða aðstöðu þeirra, sem gengislækkunin leikur einna harðast, en þeir, sem að sjálfsögðu verða einna harðast fyrir barðinu á gengislækkuninni, eru launþegarnir og þó sérstaklega þeir launþegar sem minnst bera úr býtum. Nú er þannig komið, að gengislækkunin og ýmsar ráðstafanir, sem henni hafa fylgt, hafa étið upp að fullu og jafnvel meira en það þá kauphækkun, sem launþegar fengu á s.l. sumri, og var þó mjög í hóf stillt og nauðsynlegt til að bæta þeirra hag vegna þeirrar miklu kjaraskerðingar, sem þeir höfðu orðið fyrir af völdum viðreisnarinnar. En þessar kauphækkanir eða þessa kjarabót, sem launþegarnir fengu á s.l. sumri, er nú búið að éta upp að mestu eða öllu leyti með gengislækkuninni og öðrum ráðstöfunum, sem hafa fylgt henni. Ég vil í því sambandi vitna sérstaklega til upplýsinga, sem hæstv. viðskmrh. gaf hér á Alþingi fyrir nokkru um áhrif gengislækkunarinnar og fleiri hækkunarráðstafana á framfærsluvísitöluna. Hæstv. viðskmrh. upplýsti, að miðað við 1. júlí s.l. mundi framfærsluvísitalan hækka um ein 15 stig, eða m.ö.o., að framfærslukostnaðurinn mundi hækka um 15%.

Þetta er miklu meira en sú kauphækkun, sem margir launþegar hafa fengið, og það einmitt þeir launþegar, sem lakast eru staddir. Ég minni í þessu sambandi alveg sérstaklega á Dagsbrúnarmenn og aðra daglaunamenn í landinu. Þeir fengu ekki nema 10% kauphækkun, ef miðað er við daglaunavinnuna eina saman. Síðan þeir fengu þessa 10% kauphækkun, hefur framleiðslukostnaður í landinu samkvæmt upplýsingum hæstv. viðskmrh. aukizt um 15% eða 15 vísitölustig, og það sést á því, að þessir launþegar eru þess vegna miklu lakar staddir nú en þeir voru, áður en þeir fengu kjarabótina á s.l. sumri, vegna gengislækkunarinnar og þeirra áhrifa, sem hún hefur haft. En hæstv. viðskmrh. greindi frá því í þeim upplýsingum, sem hann gaf þinginu um þetta efni, að vísitalan hefði hækkað um 6 stig vegna sjálfrar gengislækkunarinnar og um önnur 4 stig vegna ýmissa annarra ráðstafana, sem annaðhvort leiddi af gengislækkuninni eða sjálfri viðreisninni. Aðeins 5 vísitölustig leiddi beint af sjálfri kauphækkuninni, þannig að t.d. þeir launþegar, sem hafa fengið um 13.7% kaupbót, eins og opinberir starfsmenn, og þó að þar hefðu komið til frádráttar þær verðhækkanir, sem hlotizt hafa beint af kauphækkununum, sem eru 5% eða 5 vísitölustig, þá mundi raunveruleg kjarabót þessara launþega, þeirra sem hafa fengið t.d. 13.7% kauphækkun, hafa orðið 13.7% mínus þessi 5% eða m.ö.o. í kringum 8–9% raunveruleg kjarabót, ef ekki hefðu komið til aðrar hækkanir en þær, sem leiðir beint af sjálfri kauphækkuninni. Nú er hins vegar dæmið orðið þannig, að þessir launþegar, sem hafa fengið 13.7% kauphækkun, eins og t.d. opinberir starfsmenn, hafa nú fengið á sig nýja dýrtíð, sem nemur 15 vísitölustigum, eða 15% hækkun á framfærslukostnaðinum, þar með, að þeirra hlutur er raunverulega verri í dag en hann var fyrir þessa kjarabót, í stað þess að ef gengislækkunin og þær ráðstafanir, sem henni fylgdu, hefðu ekki komið til sögunnar, þá hefði raunveruleg kjarabót hjá þeim átt að verða 8–9%.

Þess er að sjálfsögðu rétt að geta, að á móti þessari 15% almennu hækkun framfærslukostnaðarins, sem orðið hefur síðan 1. júlí í sumar, kemur hjá þeim, sem fá fjölskylduuppbætur, uppbót, sem nemur 11/2 vísitölustigi, að því er hæstv. viðskmrh. upplýsti, og auk þess kemur einhver lækkun líka vegna þeirra tollalækkana, sem nýlega voru framkvæmdar. En þó mun vera almennt talið, að áhrifin af tollalækkuninni verði aldrei meiri en hálft vísitölustig til lækkunar og jafnvel minna en það, svo að hér er vissulega um mjög litlar aðgerðir að ræða til lækkunar á dýrtíðinni til að bæta mönnum upp þá miklu hækkun, sem orðið hefur á henni, og hún er sáralítil eða engin hjá öðrum en þeim, sem taka fjölskyldubætur, en vitanlega eru það fjöldamargir launþegar, sem njóta ekki fjölskyldubótanna.

Ég vil þess vegna halda því fram samkvæmt því, sem ég hef nú rakið, að ég álít, að það hefði átt að vera eitt af helztu atriðunum í þessu frv., sem er um ráðstafanir vegna gengislækkunarinnar, að bæta hlut þeirra manna, sem verða harðast úti vegna gengislækkunarinnar, þar sem eru launþegarnir og sérstaklega þeir launþegar, sem lakast eru settir. En um þetta mál er ekki að finna eitt einasta atriði í þessu frv., og það gefur bezt til kynna, hversu mjög þessi stóra stétt í landinu, launþegarnir, er gleymd af hæstv. ríkisstj. og hversu mjög hún ber aðra meira fyrir brjósti en þá, og þá eru Það að sjálfsögðu þeir ríku, sem hún ber fyrst og fremst fyrir brjósti, því að eins og hv. 5. þm. Norðurl. v. benti á í þeirri ræðu, sem hann flutti hér í dag, þá eru það þeir ríku, sem fyrst og fremst hagnast á gengislækkuninni, en hinir fátæku, sem tapa. Og fyrir þessa fáu ríku er gengislækkunin líka gerð. Hinum er algerlega gleymt, eins og þetta frv. sýnir ljóslega.

Ég kvaddi mér sérstaklega hljóðs til að láta í ljós andúð mína á þeirri málsmeðferð hæstv. ríkisstj., að í frv. sem þessu, sem fjallar um ráðstafanir vegna gengislækkunarinnar, skuli ekki vera eitt hið einasta atriði um að bæta hag þeirra, sem harðast verða úti vegna gengislækkunarinnar. Það mun kannske verða bent á það í þessu sambandi, að í öðru máli, sem þingið hefur afgreitt, er um að ræða vissa hækkun til þeirra, sem njóta trygginga, og eins hafa fjölskyldubætur nokkuð verið hækkaðar, eins og ég hef þegar sagt frá. En þessar hækkanir á tryggingum og fjölskyldubótum eru hins vegar svo litlar, að þær nægja ekki til að mæta þeirri 15% hækkun dýrtíðarinnar, sem orðið hefur síðan 1. júlí í sumar, og þess vegna er ekki hægt að segja, að þar sé á raunhæfan hátt mætt þeim áhrifum, sem verða af gengislækkuninni, vegna þess að umræddir aðilar verða heldur verr staddir eftir en áður, þó að þessar ráðstafanir hafi verið gerðar. En það, sem að sjálfsögðu átti að stefna að, var að tryggja það, að menn fengju einhverja raunverulega kjarabót, eins og líka hægt var á grundvelli þeirra samninga, sem gerðir voru á s.l. sumri, ef gengislækkun hefði ekki komið til sögunnar. En eins og ég nú hef rakið, mundu t.d. opinberir starfsmenn hafa getað fengið 8–9% raunverulega kjarabót, ef gengislækkunin hefði ekki komið til sögunnar, en með gengislækkuninni er þessi kjarabót tekin af þeim, án þess að nokkuð sé látið koma í staðinn. Þá má minna á það, og er ekki sízt ástæða til að minna á það, hve grálega þeir eru leiknir, sem standa nú í byggingum, og þar er að sjálfsögðu fyrst og fremst um að ræða unga fólkið, sem er að reyna að eignast eigin íbúðir. Þetta fólk er mjög grálega leikið með gengislækkuninni og þeim ráðstöfunum, sem fylgja henni, án þess að nokkuð sé gert í staðinn til að bæta aðstöðu þess, sem vel hefði þó verið hægt að gera. Ef rétt hefði verið að þessum málum unnið, hefði t.d. í því frv., sem hér liggur fyrir, sem fjallar um ráðstafanir vegna gengislækkunarinnar, átt að vera ákvæði um að bæta alveg sérstaklega hlut þess unga fólks, sem nú stendur í íbúðabyggingum, sem ég hygg að flestir hv. þm, telji að sé þjóðfélagslega rétt og nauðsynlegt, að hver fjölskylda geti eignazt sína eigin íbúð. Ef rétt hefði verið á haldið, hefði t.d. átt að felast í þessu frv. ákvæði um að lækka vexti á íbúðabyggingalánum. Þá hefðu átt að felast ákvæði um það að hækka lánshámarkið, sem byggingarsjóður ríkisins veitir, í samræmi við þann aukna byggingarkostnað, sem orðið hefur að undanförnu. Þá hefði einnig mátt felast ákvæði í þessu frv. um að lækka eitthvað innflutningstolla á byggingarvörum, vegna þess að þær hækka verulega af sjálfu sér vegna gengislækkunarinnar. Og þá hefði gjarnan mátt t.d. vera ákvæði í þessu frv. um að vinna að því, að innkaup á byggingarvörum yrðu hagkvæmari en þau eru nú. En það er vitanlegt, að það er stór þáttur í byggingarkostnaðinum, hve óhagstæð innkaup á mörgum byggingarvörum eru. Viðskiptastefnan er ekki sú að kaupa byggingarefni eða byggingarvörur fyrst og fremst frá þeim löndum, þar sem þær eru beztar og ódýrastar, heldur einmitt unnið að því að beina innkaupum á þessum vörum að verulegu leyti til annarra landa, þar sem verðið er óhagstæðara og vörurnar jafnvel lélegri. Ef það hefði falizt í þessu frv. að leiðrétta þetta og vinna að því að gera byggingarvöruinnkaupin hagstæðari en þau hafa verið, þá hefði að sjálfsögðu verið stigið verulegt spor í þá átt að draga úr þeim álögum, sem gengislækkunin leggur á herðar þess unga fólks, sem stendur í byggingum. Og þannig mætti rekja þetta áfram, og í þessa stefnu hefði Þetta frv. líka gengið, ef hæstv. ríkisstj. hefði haft einhvern áhuga á því að bæta hag og hlut þeirra, sem verða harðast fyrir barðinu á gengislækkuninni.

En í þessu frv. felst ekki eitt einasta ákvæði um það, og það sýnir betur en nokkuð annað, hver er stefna hæstv. ríkisstj. í þessum málum. Það er að þrengja að hinum mörgu, draga úr sjálfsbjargarviðleitni hinna mörgu, en skapa hinum ríku betri og bætta aðstöðu frá því, sem verið hefur.