28.03.1962
Efri deild: 73. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1316 í B-deild Alþingistíðinda. (1043)

13. mál, ráðstafanir vegna ákvörðunar um nýtt gengi

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég skal ekki tala langt mál um Þetta frv. að Þessu sinni. Þetta frv. er fylgifiskur Þess gengislækkunarfrv., sem hér var nokkuð rætt í gær og verður væntanlega haldið áfram að ræða hér á eftir, og þegar hæstv. viðskmrh. fylgdi því frv. úr hlaði í gær, gaf hann tilefni til þess, að málin væru rædd nokkuð almennt í sambandi við það mál. Hins vegar fylgdi hæstv. forsrh. þessu frv. úr hlaði málefnalega og án málalenginga, og ég skal þess vegna í sambandi við Þetta mál halda mig við þau atriði, sem hann drap á.

Ég vil aðeins á Þessu stigi láta það koma fram, sem reyndar öllum er kunnugt, að Framsfl. er andvígur þeirri gengislækkun, sem framkvæmd var á s.l. sumri. Hann lítur svo á, að það hafi ekki verið Þörf á þeirri gengislækkun. Þar af leiðandi eru framsóknarmenn einnig andvígir þessu frv., sem hér liggur fyrir. Að vísu má segja, eins og hæstv. forsrh. benti á, að sum þeirra ákvæða, sem þetta frv. hefur að geyma, séu sjálfsögð og eðlileg afleiðing af gengislækkun, ef hún er framkvæmd á annað borð, og væri út af fyrir sig ekki ástæða til að fjölyrða um þau, enda skal ég ekki gera það, heldur víkja með örfáum orðum að Þeim atriðum, sem út af fyrir sig geta verið ágreiningsefni.

Þá er Það fyrst ákvæði 6. gr. þessa frv. eða þeirra brbl., sem því er ætlað að staðfesta. Í þessu ákvæði er svo fyrir mælt, að verðhækkun á útflutningsafurðum framleiddum á tímabilinu 16. febr. 1960 til 31. júlí 1961, þ.e.a.s. á vörum framleiddum fyrir 1. ágúst s.l. ár, skuli renna til ríkissjóðs eftir þeim reglum, sem nánar eru greindar í 2. málsgr. þessarar gr., eða m.ö.o., að vörurnar, sem framleiddar eru fyrir þennan tíma, skuli greiddar á hinu fyrra gengi. Ég hef rætt um þetta ákvæði áður í sambandi við annað mál, hinn svokallaða ríkisábyrgðasjóð, og ég hef þar leyft mér að vefengja, að þessi upptaka eigna fengi staðizt, af Því að ég hef ekki getað litið á Þetta sem venjulega skattheimtu, þar sem hér er í raun og veru verðmæti eða eign tekin af einstökum framleiðendum — ekki öðrum — og hún gerð upptæk og henni varið í þarfir, sem geta a.m.k. verið alls óskyldar þeim atvinnuvegi, sem þetta er tekið af. Og ég hef enn fremur leyft mér að efast um réttmæti þessarar ráðstöfunar vegna þess, að gengislækkunin var aðallega rökstudd með því, að hún væri nauðsynleg vegna Þeirra kauphækkana, sem áttu sér stað, en Þær kauphækkanir voru komnar til nokkru áður en Þessi gengisskerðing kom til framkvæmda. Ýmsir þeir, sem höfðu framleitt vörur á Þessu tímabili, fyrir 1. ágúst 1961, höfðu Því haft af undirbúningi þeirrar framleiðslu og af þeirri framleiðslu sama kostnað eða svipaðan kostnað og þeir, sem framleiða vörurnar eftir 1, ágúst 1961.

Ég hef í sambandi við Þetta haft sérstaklega í huga aðstöðuna við síldveiðar og síldarsöltunina, og ég hef ekki getað betur séð en Þetta ákvæði leiddi til óeðlilegrar mismununar, vegna þess að t.d. síldarsaltendur, sem hafa framleitt sína vöru fyrir 1. ágúst, hafa að öllu verulegu leyti haft sama tilkostnað við þá framleiðslu og þeir síldarsaltendur, sem af einhverjum ástæðum hafa ekki framleitt sína vöru fyrr en eftir 1. ágúst. En þeir fyrrnefndu, sem búnir voru að verka sína vöru fyrir 1. ágúst, eiga ekki að njóta þeirrar verðhækkunar, sem varð á Þeirri vöru vegna breytingar á verðgildi krónunnar, en hinir, sem framleiða vöruna eftir 1. ágúst, eiga að njóta Þessarar verðhækkunar. Ég álít, að þetta komi í ýmsum tilfellum ranglátlega niður, og mér er kunnugt um ýmis dæmi þess, t.d. frá Norðurlandi, þar sem er litið á þessa ráðstöfun sem mjög óeðlilega og talið, að hún leiði í ýmsum tilfellum til ranglátrar niðurstöðu. Ég veit, að það getur hljómað vel í eyrum nokkurra manna, að menn eigi ekki að njóta hagnaðar í sambandi við Þessar ráðstafanir, og að það getur hljómað vel að tala um það, að gengishagnaður skuli upptækur ger og látinn renna í ríkissjóð og til annarra þarfa. En ég held samt, að þegar á málið er litið frá þeirri hlið, sem ég hef horft á það, fari ekki hjá því, að menn verði að játa, að þetta er ekki svo einfalt sem sumir kunna að vilja vera láta. Og ef það er túlkað sem eitthvert réttlæti að gera upptækan þennan gengishagnað, þá sýnist mér, að hann eigi að renna til þeirra manna, sem sérstaklega hafa unnið að því að framleiða Þessa vöru, og dreifast þá til þeirra, en ekki renna til annarra, sem ekkert hafa hér nálægt komið, t.d. til þess að greiða ríkisábyrgðarskuldir vegna framkvæmda, sem standa ekki í neinu sambandi við þær atvinnugreinar, sem leggja þetta fé til. Ég held, að það séu ekki bein fordæmi fyrir því, að það hafi verið farið að áður á Þennan hátt. Það er að vísu rétt, eins og hæstv. forsrh, sagði, að um þetta voru nokkur sérstök ákvæði í lögunum um efnahagsmál, en þau ákvæði voru þó að ýmsu leyti á allt aðra lund og verða ekki talin sambærileg við þessi ákvæði, sem hér er um að ræða. Að vísu átti þá, ef ég man rétt, að reikna á hinu fyrra gengi, en þeir hinir sömu, sem fyrir því urðu, áttu að njóta þeirra útflutningsuppbóta, þess gjalds, sem áður hafði verið greitt, að mig minnir. En við fyrri gengisbreytingar held ég, að ekki sé hægt að finna ákvæði, sem sambærileg séu við þetta ákvæði, hvorki í gengislækkunarlögunum frá 1950 né í eldri gengislækkunarlögum. Hitt er allt annað mál og allt annars eðlis, sem alltaf eða oft a.m.k. hefur verið í gengisbreytingarlögum, að tekinn hefur verið gjaldeyrishagnaður, sem hefur orðið hjá bönkum, sem verzla með gjaldeyri. Það er allt annað mál, þessu óskylt.

Þá er það annað atriði þessa frv., sem hefur verið og er sérstakt ágreiningsefni og við framsóknarmenn erum andvígir. Það er sú hin mikla hækkun á útflutningsgjaldi sjávarafurða, sem í þessu frv. felst. Ein aðalrökin fyrir gengislækkuninni s.l. sumar voru, eins og ég áðan drap á, þau, að hún væri nauðsynleg vegna Þess, að útflutningsatvinnuvegirnir fengju ella ekki staðið undir þeirri kauphækkun, sem átt hafði sér stað og um hafði verið samið s.l. vor, og gengislækkunin því talin framkvæmd einmitt sérstaklega vegna þessara útflutningsatvinnuvega. Þegar þessar röksemdir eru hafðar í huga, virðist mér skjóta nokkuð skökku við að taka svo af þessum sömu útflutningsatvinnuvegum, sem gengisbreytingin átti að vera til styrktar og vegna hverra hún var talin nauðsynleg, mjög verulegar fjárfúlgur. Það er ekki hægt að segja annað en þarna sé um mjög verulega hækkun útflutningsgjalds að ræða og um mjög stóra heildarfjárhæð að tefla. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það, að það er meira en lítið gjald, sem lagt er á útflutninginn, þegar gert er ráð fyrir því að taka af honum meira en 7% samanlagt, og úr því að það þykir fært að taka af sjávarútveginum slíkt gjald, hlýtur sú spurning að vakna, hvort gengislækkunarinnar hafi verið þörf. Mér sýnist vera alger mótsögn í þessu hvoru tveggja. Það er að vísu rétt, að þessu útflutningsgjaldi á, a.m.k. nú eftir þá breytingu, sem gerð var á frv. í hv. Nd., að verja til fyrirgreiðslu fyrir sjávarútveginn á ýmsan hátt og eftir allsundurliðuðum skiptingarreglum, sem greindar eru í 7. gr. og ég skal ekki fara út í. En þetta virðist ákaflega einkennileg stefna, að taka útflutningsgjöld af sjávarútveginum — vörunum — og leggja það svo í sjóð til þess að lána sjávarútveginum aftur eða til þess að greiða iðgjöld fyrir sjávarútveginn. Er þetta ekki nokkuð óþörf krókaleið? Og mundi sjávarútvegurinn ekki vera eins vel kominn að greiða ekki þessi útflutningsgjöld, enda þótt það væri þá látið vera að ráðstafa fé til einhverra þeirra þarfa, sem þarna eru nefndar, en ýmsar eða a.m.k. sumar þeirra þarfa eru þess háttar, að það væri að mínum dómi eðlilegra, að fjár til þeirra væri aflað af þjóðfélagsþegnunum almennt. Það eru þess konar þarfir, sem þarna er verið að fullnægja, eins og t.d. rannsóknarstarfsemi o.fl., og sama má náttúrlega segja um greiðslur til lánasjóða. Sem sagt, ég skal ekki vera að fjölyrða um þetta atriði frekar á þessu stigi, heldur læt mér nægja að lýsa andstöðu við það. En síðar verður tækifæri til að gera nánari grein fyrir málinu, þegar það kemur hingað aftur til umr., eftir að Það hefur verið athugað í nefnd.

Loks er það þriðja atriðið, sem hæstv. forsrh. minntist á, sú breyting á hlutatryggingasjóði, sem gert er ráð fyrir eftir þessu frv., að togararnir verði teknir jafnframt þar inn í og þeir fái síðan bætur úr þeim sjóði svo sem bátar, en hún leiðir til þess, eins og hæstv. forsrh. réttilega tók fram, að bátarnir verða að nokkru leyti með þessum hætti látnir taka á sig byrðar vegna togaranna. Það er að vísu rétt, eins og öllum er kunnugt, að togararnir eiga við sérstök vandkvæði að búa nú og hafa átt um skeið við sérstaka rekstrarerfiðleika að etja. En þau vandkvæði verður að mínum dómi að leysa með öðrum hætti en láta bátaútgerðarmenn og þá, sem að útvegi standa, taka á sig þær byrðar. Togaraútgerðin á allt gott skilið, vil ég segja, en hennar vandkvæði og vandamál verður að leysa með tilstyrk þjóðarinnar allrar, þjóðfélagsþegnanna allra, en ekki leggja þær byrðar, sem á þeim hvíla nú þyngst, yfir á bök bátaútgerðarmanna.

Af þessum ástæðum, sem ég hef tekið fram í örstuttu máli, er Framsfl., eins og kunnugt er, andvígur þessu frv., og raunar einnig af hinni ástæðunni, sem ég drap á í upphafi, að hann er andvígur þeirri grundvallarákvörðun, sem frv. er byggt á, gengisbreytingunni frá s.l. sumri, sem hann telur hafa verið gerða að ófyrirsynju.