20.11.1961
Neðri deild: 21. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 123 í B-deild Alþingistíðinda. (106)

42. mál, almannatryggingar

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Hæstv. forseti. Þetta frv. er komið frá hv. Ed., þar sem það var samþykkt samhljóða. Efni þess er að heimila, að bætur almannatrygginganna verði hækkaðar frá 1. júlí 1961 eins og laun opinberra starfsmanna, en það hefur verið regla nú um langan undanfarinn tíma, að bætur almannatrygginganna og laun opinberra starfsmanna hafa fylgzt að. Í þetta frv. er ekkert tekið annað en þetta eina atriði. Það eru ýmsir, sem hafa hug á að breyta almannatryggingalögunum á ýmsan veg, og kom það fram nokkuð við umr. þessa máls í hv. Ed. En nefnd er nú starfandi, sem vinnur að endurskoðun almannatryggingalaganna í heild og er, að ég ætla, alllangt komin með sín störf, og ég tel fara miklu betur á því, að allar breytingar á lögunum um almannatryggingar verði látnar bíða, þangað til sú nefnd hefur skilað áliti, en þetta eina atriði, sem er aðkallandi og nauðsynlegt að fá afgreitt nú þegar, verði afgreitt út af fyrir sig.

Ég leyfi mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. heilbr.- og félmn., og ég vildi um leið leyfa mér að láta í ljós þá ósk, að sú hv. nefnd reyndi að flýta afgreiðslu þessa máls, því að eftir henni er beðið af þeim, sem eiga að inna þessar bótagreiðslur af hendi.