02.04.1962
Neðri deild: 81. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1339 í B-deild Alþingistíðinda. (1067)

177. mál, málflytjendur

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Eins og menn muna, var á síðasta þingi gerð sú breyting um skilyrði fyrir ýmiss konar störfum, að fellt var niður skilyrðið um óflekkað mannorð, heldur ætti að meta það eftir atvikum hverju sinni, hvort ástæða væri til þess, að aðili væri sviptur réttindum, og þá hvenær hann fengi þau aftur. Það þykir viðeigandi, að sams konar reglur gildi um málflytjendur, eins og hin almenna lagaregla segir til, og er það ein breytingin, sem í þessu frv. felst.

Þá er annað, að áður fyrr var það skilyrði fyrir að geta orðið hæstaréttarmálaflutningsmaður, að maður hefði skrifstofu hér í Reykjavík og búsetu hér eða í grennd við borgina. Vegna breyttra aðstæðna og samgangna Þykir þetta skilyrði ekki eiga lengur við, og er lagt til, að það verði fellt niður.

Loks þykir rétt að breyta ákvæðunum um fjölda opinberra mála, sem hæstaréttarlögmaður Þurfi að flytja, vegna þess að nú er flutningur opinberra mála eða saksókn að verulegu leyti fyrir hæstarétti í hendi saksóknara ríkisins, svo að fyrri ákvæði eiga ekki við að þessu leyti.

Þær breytingar, sem ég hef nú gert grein fyrir, eru efni þessa frv., sem þegar hefur verið afgr. í Ed. Leyfi ég mér að leggja til, að málinu verði visað til 2. umr. og hv. allshn.