06.04.1962
Neðri deild: 85. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1340 í B-deild Alþingistíðinda. (1069)

177. mál, málflytjendur

Frsm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Allshn. hefur haft Þetta frv. til meðferðar um nokkurn tíma og leggur til, að það verði samþ. eins og Það liggur hérna fyrir. Einn nm., hv. 11. landsk., hefur áskilið sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. að því er varðar lögin, sem frv. fjaliar um, en það eru lög um málflytjendur.

Það er ekki ástæða til að hafa langa framsögu um þetta mál. Þó vil ég aðeins geta lítillega þeirra atriða, sem frv. er ætlað að breyta í lögum um málflytjendur.

Þá er það í fyrsta lagi, að eins og löggjöf er háttað nú, reynist mjög erfitt fyrir héraðsdómslögmenn að fá opinber mál til flutnings fyrir hæstarétti, sem lögin kveða á um, og það er talið til undantekninga, ef slíkir, þ.e.a.s. lögmenn, sem eru að þreyta próf fyrir hæstarétti, fá slík mál fyrr en eftir dúk og disk. Það þykir því rétt, með hliðsjón af Þessu og eins Því, að nú er sú breyting á orðin, að því er varðar sækjanda í opinberum málum fyrir hæstarétti, að nú er lögákveðið, að saksóknari ríkisins sæki yfirleitt að öllu slík mál fyrir hæstarétti, og er gert ráð fyrir því í frv., að niður falli sú prófskylda, að flutt sé eitt opinbert mál. Eftir verða þá þrjú prófmál, sem héraðsdómslögmenn skulu flytja í prófskyni fyrir hæstarétti, allt einkamál. Má telja þessa breytingu mjög til bóta, eins og á stendur og ég hef lítillega að vikið.

Í öðru lagi: í 12. gr. laga um málflytjendur er svo fyrir mælt, að hæstaréttarlögmenn skuli hafa skrifstofu í Reykjavík og búsetu Þar eða í grennd við borgina. Þegar til þess er litið, að samgöngur eru greiðari nú en áður hefur verið, þykir ekki ástæða til þess að binda við Reykjavík eða nágrenni Reykjavíkur búsetu eða skrifstofuhald þessarar stéttar manna, og er því lagt til í þessu frv., að búsetuskilyrðið að þessu leyti falli niður.

Þá er lagt til, að ákvæðum þessara laga um málflytjendur um óflekkað mannorð verði breytt, og er það í samræmi við löggjöf að Þessu lútandi, sem gengið var frá hér á Alþingi í fyrra, þannig að Það er ekki gert að skilyrði, að fulltrúi héraðsdóms- eða hæstaréttarlögmanns eða málflutningsmaður hafi sem kallað er óflekkað mannorð, og verður þá farið eftir öðrum reglum þar um með líkri niðurstöðu.

Það eru aðallega þessi þrjú atriði, sem þetta frv., sem hér liggur fyrir, gerir ráð fyrir að breytt verði í lögum um málflytjendur. Og eins og ég sagði í upphafi, þá er allshn. einhuga um, að Þetta frv. nái fram að ganga, en einn nm., hv. 11. landsk., hefur áskilið sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. um frekari breytingar á lögunum um málflytjendur. Þegar málið var afgr. í allshn., var einn nm. fjarstaddur, hv. 8. landsk. þm.

Sé ég svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál frekar.