23.03.1962
Efri deild: 69. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1344 í B-deild Alþingistíðinda. (1084)

119. mál, Hjúkrunarskóli Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. var lagt fyrir hv. Nd. af hæstv. heilbrmrh., enda heyra þessi mál nú undir heilbrmrn. Hjúkrunarkvennaskólinn starfar á vegum heilbrmrn. En þar eð hæstv. heilbrmrh. er staddur erlendis og getur því ekki mælt fyrir frv. í þessari hv. d., hefur það orðið að ráði, að ég legði það fyrir hv. d., meðfram af því, að gert er ráð fyrir því í frv., að þessi skóli skuli framvegis lúta yfirstjórn menntmrn.

Þetta frv. er samið af skólanefnd Hjúkrunarkvennaskóla Íslands. Meginbreytingarnar, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. á gildandi lögum um Hjúkrunarkvennaskóla Íslands, eru þær, að gert er ráð fyrir því í þessu frv., að skólinn skuli rekinn sem heimavistarskóli, og er það í samræmi við þá reynslu, að langflestir nemendur óska eftir heimavist, enda er það beinlínis nauðsynlegt, einkum fyrir nemendur hjúkrunarkvennaskólans, sem starfa að verulegu leyti við landsspítalann, að þeir eigi kost á heimavist í hjúkrunarskólanum, þar sem vinna nemenda á landsspítalanum er að mjög verulegu leyti háð vaktaskiptum og þess vegna óþægilegt fyrir nemendur að þurfa að búa úti í bæ, þar sem þeir þurfa oft að koma til vinnu sinnar eða fara úr vinnu á þeim tímum, sem hið venjulega samgöngukerfi bæjarins starfar ekki. Það er enn fremur gert ráð fyrir því í frv., að nafni skólans, sem nú heitir Hjúkrunarkvennaskóli Íslands, sé breytt í Hjúkrunarskóla Íslands, og er það í samræmi við það, að karlmenn stunda nú einnig nám í þessum skóla, og er þess skemmst að minnast, að karlmaður hefur nú nýlega lokið prófi úr skólanum.

Þá er enn fremur gert ráð fyrir því, að yfirstjórn skólans skuli flytjast úr heilbrmrn. í menntmrn., og er það í samræmi við þær breyt., sem gerðar hafa verið undanfarin ár á yfirstjórn ýmissa skóla, sem lotið hafa til skamms tíma yfirstjórn hlutaðeigandi fagráðuneyta, en yfirstjórnin hefur verið flutt yfir í menntmrn. Ég varð Þess var, að við umr. í hv. Nd. kom fram sá misskilningur í sambandi við eina ágreininginn, sem varð um málið í þeirri hv. d., — en hann var um það, hvort rétt væri að halda yfirstjórn skólans í heilbrmrn. eða flytja hana í menntmrn., — þá kom fram sá misskilningur, að flestir sérskólanna lytu yfirstjórn hlutaðeigandi ráðuneytis. Þetta var svo fyrir allmörgum árum, en á því er nú orðin mikil breyting. Það var sérstaklega einn nm. í heilbr: og félmn. hv. Nd., sem gerði ágreining um þetta atriði. Því var haldið fram, að t.d. iðnskólar heyrðu undir hlutaðeigandi fagráðuneyti, þ.e.a.s. iðnmrn. Þetta var svo áður, en með nýju iðnskólalöggjöfinni var einmitt yfirstjórn iðnskólanna allra flutt yfir í menntmrn. Þau ummæli komu einnig fram af hálfu sama nm., að t.d. vélskólinn og stýrimannaskólinn heyrðu undir atvmrn. Það er rétt, að atvmrn. fer með málefni stýrimannaskólans, en hins vegar hefur menntmrh. yfirstjórn skólans í atvmrn. Það hefur verið ákveðið í starfsskiptingu milli ráðh. við myndun undanfarandi stjórna, að menntmrh. skuli fara með mál stýrimannaskólans, þótt mál hans séu afgreidd í atvmrn., en það er skv. lögum. Stefnan undanfarin ár hefur því ótvírætt verið í þá átt að sameina æðstu stjórn allra skóla í landinu í menntmrn., þó að sú breyt. hafi ekki náð fram að ganga að öllu leyti enn. Er nú svo komið, að einu skólarnir í landinu, sem ekki lúta yfirstjórn menntmrh., eru búnaðarskólarnir og húsmæðraskólar í sveitum. Búnaðarskólarnir og húsmæðraskólar í sveitum lúta yfirstjórn landbrh. Allir aðrir skólar í landinu eru nú undir yfirstjórn menntmrh., þó að atvmrn. afgreiði mál stýrimannaskólans.

Ég hygg því, að óhætt sé að segja, að sú stefna, sem kemur fram í þessu frv. hvað þetta snertir, sé í samræmi við þá þróun, sem verið hefur að gerast undanfarin 8–10 ár í þessum efnum. Hér má og benda á það sérstaklega, að háskólinn og þar með læknadeildin er undir yfirstjórn menntmrh., en um allnáið samstarf milli læknadeildar og læknakennslunnar og starfs hjúkrunarskólans hlýtur að vera að ræða.

Að því er snertir stjórn skólans er sú breyt. gerð á núgildandi skipan, að gert er ráð fyrir, að Læknafélag Íslands tilnefni þann skólanefndarmann, sem áður var valinn af sjúkrahúsum, sem vistuðu nemendur við nám. Þau eru nú orðin svo mörg, að Það gæti verið erfitt fyrir þau að koma sér saman um fulltrúa, og þess vegna eðlilegra, að Læknafélag Íslands tilnefni þennan skólanefndarmann.

Að öðru leyti er ekki um að ræða neinar meginbreytingar á starfsemi skólans. Ákvæðin um inntökuskilyrði, námstíma, námsefni, próf og framhaldsnám eru gerð nokkru ýtarlegri en Þau voru í eldri lögum, en um grundvallarbreytingar er þar ekki að ræða.

Hv. Nd. gerði smávægilegar breytingar á frv. tæknilegs eðlis, en að öðru leyti var hv. Nd. sammála um málið, að því undanskildu, sem ég gat um áðan, að till. kom fram um, að skólinn skyldi áfram lúta stjórn heilbrmrn. En hún náði ekki fram að ganga í hv. Nd.

Ég leyfi mér svo að leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.