29.03.1962
Neðri deild: 79. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1359 í B-deild Alþingistíðinda. (1102)

124. mál, læknaskipunarlög

Fram. meiri hl. (Sigurður Bjarnason):

Hæstv. forseti. Á síðasta þingi var samþ. till. til þál. um ráðstafanir vegna læknaskorts, svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að gera í samráði við landlækni hverjar þær ráðstafanir sem mögulegar eru til þess að útvega lækna í þau læknishéruð landsins, sem nú eru læknislaus, og stuðla að því með öðrum hætti að bæta úr því öryggisleysi, sem fólk þessara héraða á við að búa í heilbrigðismálum. í því sambandi sé athugað, hvort tiltækilegt sé eða líklegt til árangurs: 1) að koma upp elli- og örorkuheimilum á hentugum stöðum í strjálbýlinu með fastráðnum læknum, er gegni jafnframt störfum héraðslæknis; 2) að greiða staðaruppbót á laun í fámennum héruðum; 3) að hraða byggingu eða endurnýjun læknisbústaða; 4) að hið opinbera eigi nauðsynlegustu lækningatæki og lyfjaforða í fámennum héruðum; 5) að breyta skipun læknishéraða. — Jafnframt verði athugaðir möguleikar á að fá sérfræðinga í hinum ýmsu greinum læknisfræðinnar til þess að setjast að á stöðum utan Reykjavíkur og nágrennis eða starfa í sambandi við fjórðungssjúkrahúsin, eftir því sem framast eru tök á og bezt þykir henta.“

Þessa þáltill. sendi hæstv. heilbrmrh. landlækni til álits og umsagnar á s.l. vori. Landlæknir ritar heilbrmrn. síðan hinn 30. sept. og gerir ákveðnar tillögur í þessu máli. Það frv., sem hér liggur fyrir til 2. umr. og heilbr.- og félmn. n. hefur fjallað um, er árangur af þessum till. landlæknis. Hæstv. ríkisstj. hefur tekið upp fyrstu tillögu hans og leggur til, að hún verði lögfest. En það felst fyrst og fremst í henni, að embættislaun héraðslækna skulu greiðast fyrir embættisstörf og fyrir gegningarskyldu, fyrir lækningar beri héraðslæknum hins vegar sú greiðsla, sem miðuð er við greiðslu starfandi lækna, sem ekki eru sérfræðingar.

Heilbr.- og félmn. er sammála um að mæla með samþykkt þessa frv., og enn fremur hefur nefndin á síðara stigi málsins, í samráði við hæstv. félmrh., flutt tillögu um annað atriði, sem landlæknir hefur einnig gert tillögu um og minnzt er á í þáltill. frá í fyrra. Það er um, að á eftir 8. gr. l. komi ný grein, svo hljóðandi:

„Heimilt er, að fengnum tillögum landlæknis, að greiða úr ríkissjóði allt að helmingi kostnaðar við nauðsynleg lækningatæki og útbúnað í lækningastofu héraðslæknis í fámennum læknishéruðum, gegn jafnmiklu framlagi frá læknishéraðinu.“

Þessi till. felur það með öðrum orðum í sér, að lagt er til, að ríkissjóður og læknishéruð leggi héraðslækninum til nauðsynleg lækningatæki og útbúnað í lækningastofu í hinum fámennustu læknishéruðum.

Það hafa sem sagt þá verið tekin upp í þetta frv. tvö þeirra atriða, sem landlæknir sendi tillögur um til hæstv. ríkisstj. Önnur þau atriði, sem um ræðir í álitsgerð hans, telur hæstv. ríkisstj. sig þurfa að athuga nánar, og meiri hl. n. hefur fallizt á, að það sé ekki óeðlilegt sjónarmið, sérstaklega þegar á það er litið, að töluverðar úrbætur hafa orðið á þeim mikla læknaskorti, sem ríkti hér á s.l. ári og einnig nokkuð fram á þetta ár. Allmargir ungir læknar hafa útskrifazt og síðan farið út í héruð, þannig að nú mun aðeins vanta lækni í tvö eða þrjú héruð eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið frá landlækni.

Ég tel ekki þörf á að fara miklu fleiri orðum um þetta mál. Tveir hv. þm. úr heilbr.- og félmn. hafa flutt nokkrar brtt., sem ganga lengra en þetta frv. og sú till., sem heilbr.- og félmn. hefur orðið sammála um og flytur í samráði við hæstv. heilbrmrh.

Ég vil þó, áður en ég lýk máli mínu, láta í ljós þá skoðun mína persónulega, að mér þykir ekki ólíklegt, þó að nokkru betur horfi í þessum læknamálum nú í bili en gert hefur s.l. ár, að nauðsyn muni bera til þess að gera frekari ráðstafanir til þess að bæta úr læknaskortinum í strjálbýlinu í framtíðinni. Mér þykir líklegt, að nauðsyn muni bera til þess að taka upp staðaruppbót á laun lækna í fámennustu læknishéruðunum, svipað og landlæknir minnist á í sinni grg. Enn fremur er áreiðanlega óhjákvæmilegt að gera miklar umbætur á þeim læknisbústöðum, sem til eru, og jafnframt að byggja nýja í sumum héruðum, þar sem mjög ófullkomin eða jafnvel engin húsakynni eru til fyrir lækni. Í þriðja lagi tel ég, að nauðsynlegt mundi verða í framtíðinni að sjá héraðslæknum í fámennustu læknishéruðunum fyrir farartækjum og þá fyrst og fremst bifreiðum. Ungir læknar, sem koma beint frá prófborði efnalausir og margir skuldugir, hafa ekki efni á því að kaupa sér þessi nauðsynlegu samgöngutæki, og án þeirra geta þeir ekki verið. Ég geri því ráð fyrir, að upp af athugun hæstv. ríkisstj. muni spretta frekari aðgerðir í þessum efnum. En ég tel ekki óeðlilegt, sérstaklega eftir nokkuð breytt viðhorf í þessum læknamálum, að hæstv. ríkisstj. vilji athuga tillögur landlæknis nánar en þegar hefur gefizt tóm til. Ég leyfi mér svo að vænta þess, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 3. umr.