29.03.1962
Neðri deild: 79. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1361 í B-deild Alþingistíðinda. (1103)

124. mál, læknaskipunarlög

Frsm. minni hl. (Hannibal Valdimarsson):

Hæstv. forseti. Þetta mál er stjórnarfrv., og mun hæstv. fyrrv. heilbrmrh., Jóhann Hafstein, hafa undirbúið málið og ráðið þannig gerð þessa frv.

Þetta mál hefur verið rætt mjög mikið í heilbr.- og félmn. og er búið að vera lengi hjá nefndinni. Það var sent henni snemma á þingi, og það þótti ástæða til að ræða málið við forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins og við landlækni, með því að hér var gripið á því máli, sem mjög hefur verið til umr. og þótt hið mesta alvöru- og vandamál á undanförnum árum, sem sé læknaskortinum í hinum fámennari læknishéruðum landsins.

Forstjóri Tryggingastofnunarinnar mætti á fundi með nefndinni ásamt tveimur eða þremur sérfræðingum sínum, og landlæknir mætti einnig á nefndarfundi ásamt ráðunautum sínum, og við þá var einkum rætt um læknaskortinn í hinum fámennari læknishéruðum. Landlæknir vitnaði mjög til sinna tillagna til þess að bæta úr þessu vandamáli. Hann hafði sem sérstakur ráðunautur ríkisstj. í öllum heilbrigðismálum verið til þess kvaddur að gera tillögur til úrbóta að því er snertir læknaskortinn í hinum fámennari héruðum. En mjög mörg mismunandi mörg að vísu — læknishéruð hafa verið læknislaus nú um árabil. Og eins og hv. frsm. meiri hl. minntist á áðan í sinni framsöguræðu, hafði landlæknir sérstaklega fengið þetta mál til meðferðar og athugunar vegna þáltill., sem borin var fram á síðasta þingi, upphaflega af þeim hv. þm. Sjálfstfl., Sigurði Bjarnasyni, Gísla Jónssyni, Sigurði Ágústssyni, Gunnari Gíslasyni og Bjartmar Guðmundssyni. Og var sú tillaga á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að gera í samráði við landlækni hverjar þær ráðstafanir sem mögulegar eru til þess að útvega lækna í þau læknishéruð landsins, sem nú eru læknislaus, og stuðla að því með öðrum hætti að bæta úr því öryggisleysi, sem fólk þessara héraða á við að búa í heilbrigðismálum. M.a. verði athugaðir möguleikar á að koma upp elli- og örorkuheimilum á hentugum stöðum í strjálbýlinu með fastráðnum læknum, er gegni jafnframt störfum héraðslækna.“

Flm. sögðu í grg. m.a., að þeir teldu, að einskis mætti láta ófreistað til þess að ráða fram úr þessu vandamáli. Og meðal þeirra úrræða, sem þeir töldu að til greina gætu komið í þeim efnum, væru hagstæðari kjör lækna í hinum afskekktari og fámennustu héruðum landsins, þ.e.a.s. bætt launakjör. Þegar þessi þáltill., sem ég nú hef lesið, var rædd í allshn. Sþ. í fyrra, að höfðu ýtarlegu samráði við landlækni, þá var talið, að það væri ástæða til að breyta till., gera hana ýtarlegri og benda ákveðnar á, hvað til úrræða mætti verða í þessu máli. Allir voru sammála um það, að upphaf till. gæti staðið eins og það væri, en síðan kæmi í framhaldi af því sem ákveðin úrræði: 1) að koma upp elli- og örorkuheimilum á hentugum stöðum í strjálbýlinu með fastráðnum læknum, sem gegni jafnframt störfum héraðslæknis; 2) að greiða staðaruppbót á laun í fámennum héruðum; 3) að hraða byggingu eða endurnýjun læknisbústaða; 4) að hið opinbera eigi nauðsynlegustu lækningatæki og lyfjaforða í fámennum héruðum; 5) (það er náttúrlega hin stóra framtíðarlausn) að breyta skipun tæknishéraða.

Till. í þessu formi voru samþykkir á síðasta þingi Benedikt Gröndal, formaður, Gísli Jónsson, frsm., Jón Pálmason, sem þá var fundaskr., Jón Kjartansson, Hannibal Valdimarsson, Gísli Guðmundsson og Pétur Sigurðsson. Nú er formaður heilbrmn., þegar þetta mál er til meðferðar hér, hv. 1. flm. þessarar Þáltill., Sigurður Bjarnason, og einnig situr hér nú um þessar mundir sem till. er til meðferðar Jón Kjartansson, sá sem mælti með till. svona breyttri í fyrra, mælti með því, að tekin skyldi upp staðaruppbót á laun lækna í fámennum héruðum, og enn fremur, að æskilegt væri, að hið opinbera ætti nauðsynleg lækningatæki og lyfjaforða í fámennum héruðum. En enn fremur er þess að geta, að fyrir n. liggja nú m.a. till. frá landlækni, sem hefur verið fengið það vandaverk að athuga þetta mál og reyna að koma með till. til úrbóta, — liggja fyrir okkur till. hans um að taka upp, eins og í till. frá fyrra þingi segir, staðaruppbót handa læknum í fámennustu héruðum og enn fremur till. frá honum um, að hið opinbera eigi nauðsynlegustu lækningatæki í þessum sömu læknishéruðum, fámennu og oft læknislausu. Það var ekkert um að villast, að landlæknir var enn þá þeirrar sömu skoðunar, að þetta væru þær till., sem helzt gætu að gagni komið í þessu máli til þess að tryggja hinum fámennustu héruðum læknisþjónustu, að því fráskildu náttúrlega, ef fengist fram aðaltillaga hans, breyting á læknaskipuninni sjálfri. En af öllum öðrum bráðabirgðaúrræðum væru þessi líklegust til þess að greiða eitthvað fyrir málinu, það væri að taka upp staðaruppbót og að hið opinbera ætti hin nauðsynlegustu lækningatæki í fámennustu héruðunum.

Nú liggja fyrir þessu þingi frv. til laga um kjör lækna, fleiri en eitt. Það er í fyrsta lagi verið að afgreiða hér lög, sem eiga að bæta tekjumöguleika lækna í Reykjavík og hinum fjölmennustu læknishéruðum, og það er gert með því að heimila þeim að taka 10 kr. greiðslu fyrir hvert viðtal og 25 kr. greiðslu fyrir hverja vitjun, og mun þetta vera þeim allmikil tekjubót, einkanlega hér í Reykjavík. Það hefur því verið komið til móts við læknana í fjölbýlinu. í annan stað hefur landlæknir upplýst, að í kaupstöðunum almennt, þ.e.a.s. í næstfjölmennustu héruðunum, sé komið í framkvæmd, að læknarnir megi vinna sín aukastörf — ekki samkvæmt hinum áður ákveðna og lægri taxta héraðslækna, heldur í samræmi við taxta praktíserandi lækna. Þannig eru þeir búnir að fá nokkra launabót. Þetta frv. tekur svo á því verkefni að þrengja embættisskyldu héraðslæknanna og heimila þeim síðan að taka gjald samkvæmt gjaldskrá praktíserandi lækna fyrir störf sín að öðru leyti, þ.e. að bæta kjör þeirra líka. Og þá eru eftir fámennustu læknishéruðin, þar sem landlæknir gerir till. um staðaruppbót og að þeir gætu gengið þar að nokkrum lækningatækjum, sem hið opinbera ætti, en það voru till. landlæknis til þess að bæta úr einmitt í þessum héruðum, sem löngum og löngum hafa staðið læknislaus, og var náttúrlega brennandi spursmálið í þessu máli öllu saman, því að alltaf þegar menn hafa verið að tala á undanförnum árum um læknavandræðin, þá hafa menn fyrst og fremst staðnæmzt við það sem höfuðvandamálið, að ekki fengjust læknar, að það væri engin örugg læknisþjónusta í hinum fámennustu héruðum.

Ég hef sagt það í n., að ég held, að almenningur hljóti að æpa á vinnubrögð Alþingis, ef sú verður niðurstaðan, að það séu afgreidd lög eftir lög frá Alþingi um að bæta kjör lækna alls staðar annars staðar en í fámennustu héruðunum, þar sem læknar hafa ekki fengizt og þar sem fólkið hefur orðið að búa við læknisleysi mánuðum og stundum árum saman. Mér finnst þetta vera slík afturfótafæðing, að ég get ekki fundið, að það sé nokkuð eðlilegt við þetta. Mér finnst þetta vera algerlega óeðlileg vinnubrögð. Ég tel, að það, sem hefði auðvitað átt að byrja á, það hefði verið að finna hin líklegustu ráð beztu manna, — og þar getur maður varla ímyndað sér, að aðrir viti betur en landlæknir, — til þess að reyna að ráða bót á læknaskortinum í hinum fámennustu héruðum. Síðan var að athuga, hvað hefði verið hægt að gera að öðru leyti, en það tel ég að hafi verið hin mest aðkallandi úrlausnarefni í þessum málum.

Ég á því afar erfitt með að sætta mig við að hafa tekið þátt í afgreiðslu hinna málanna í von um, að smáu héruðunum og fámennu yrði þá ekki gleymt heldur, en þreifa síðan á því í lokin, að þá er ætlunin í raun og veru að gera lítið sem ekkert fyrir þau, því að hækkunin á gjaldstiga héraðslæknanna í samræmi við gjaldstiga praktíserandi lækna hefur ákaflega litla tekjubót í för með sér fyrir læknana í fámennustu héruðunum, það verða allir að viðurkenna, þó að það séu stórtekjur, sem velti inn vegna þessara ákvæða í fjölmennustu læknishéruðunum. Það verður því ekki til þess að greiða fyrir því, að það fáist læknar í fámennustu héruðin. Ég hygg, að það sé alrangt að ímynda sér, að það sé búið að ráða varanlega fram úr læknaskortinum í hinum fámennustu héruðum, þó að svo hafi viljað til nú á þessu vori, að það útskrifuðust 16 ungir menn sem læknar nú fyrir fáum vikum og þannig hefur tekizt að fá þá til sinnar sex mánaða skylduþjónustu út í öll læknishéruðin, sem lækna vantaði í, nema tvö. Þetta er aðeins lausn núna í eitt missiri, aðeins lausn núna í sex mánuði. Þegar þeir mánuðir eru liðnir, má búast við, að þetta vandkvæði blasi við manni með enn þá meiri alvöruþunga en fyrr, því að nú er talið, að það verði tiltölulega fáir ungir læknar, sem útskrifist á næstunni, einmitt vegna þess, hvað þessi árgangur var stór.

Málið er því óleyst og þurfti að fá lausn á þessu þingi, og ég fæ ekki séð, að það hefði verið neitt stórkostlegt fjárhagsmál, þannig að það væri ekki vel leysanlegt að taka upp till. landlæknis um staðaruppbót í hinum fámennustu héruðum.

Nefndin hefur klofnað um málið. Meiri hl., þeir hv. 1, þm. Vestf. (SB), hv. 5. þm. Vestf. (BF) og hv. 3. þm. Sunnl. (JKs), leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt, þ.e.a.s. að af þessu máli verði eingöngu tekinn þessi þáttur að heimila héraðstæknum að taka taxta praktíserandi lækna fyrir sín aukastörf, en að skylda þeirra til embættisstarfa þrengist eins og segir í 1. gr. frv. Þetta teljum við í minni hl. n., hv. 4. þm. Reykn. og ég, algerlega ófullnægjandi lausn á málinu og viljum því aðeins afgreiða það, að upp fáist teknar tvær till. landlæknis, sem báðar hníga sérstaklega að því að gera tilraun til að bæta úr læknaskortinum í hinum fámennustu héruðum.

Í grg. landlæknis, sem fylgir með stjfrv., segir, þegar hann fer að ræða um staðaruppbótina, með leyfi hæstv. forseta:

„Hina svonefndu staðaruppbót tel ég óhjákvæmilegt að taka upp,“ — og það hefur verið feitletrað í grg., — „hina svonefndu staðaruppbót tel ég óhjákvæmilegt að taka upp, á meðan ekki verður fallizt á till, um að steypa saman minni læknishéruðum og gera embættin á þann hátt lífvænlegri. Leyfi ég mér því að leggja til, að á næsta Alþingi verði eftirfarandi breyting gerð á lögum um laun starfsmanna ríkisins (lög nr. 92 frá 1955): Á eftir 12. gr. III., 6. lið komi ný svo hljóðandi viðbótargrein: mannfæstu læknishéruðunum skal greiða álag á föst laun, er nefnist staðaruppbót, samkvæmt eftirfarandi reglum: a) Héraðslæknar í héruðum með færri en 600 íbúa“ — það eru þau allra fámennustu — „hljóti staðaruppbót, er nemi 50% fastra launa. b) Héraðslæknar í héruðum með 600–800 íbúa hljóti staðaruppbót, er nemi 331/3% fastra launa. Gegni héraðslæknir í héraði, er staðaruppbótar nýtur, öðru héraði ásamt sínu, fellur staðaruppbót niður.“

Eins og heyra má af þessu orðalagi, leggur landlæknir mjög þunga áherzlu á það, að komið sé til móts við fámennustu læknishéruðin með því að bæta nokkuð launakjör þeirra með því að taka upp hina svokölluðu staðaruppbót frá 331/3% til 50% af föstum launum. En um þetta hefur ekki fengizt samkomulag í hv. heilbr.- og félmn., og verð ég að segja, að ég harma það. Ég veit ekkert, hvað veldur. Ég held, að það sé einhver beygur út af því, að þetta verði kannske talin áberandi launahækkun, 50% hækkun á tekjum læknanna í fámennustu héruðunum, og aðrar stéttir færu kannske að taka þetta til fyrirmyndar. En ég held, að þetta sé alveg ástæðulaus hjartveiki. Ég held, að það yrði fyrst og fremst litið á þessa staðaruppbót til læknanna í fámennustu héruðunum sem öryggisráðstöfun fyrir fólkið í þessum héruðum, og þannig hefur málið alltaf verið flutt, en ekki sem neitt launamál almennt. Og þetta mál er ekkert annað en öryggismál fólksins, þó að það kosti það, að það verður að verja einhverju fé til þess, að ungir læknar vilji leggja sig í það að vera í þessum héruðum, því að það, sem þeir raunar fráfælast mest, er starfsleysið. Starfsleysið er ekki góður skóli fyrir ungan lækni, og þess vegna er það, að það verður að launa lækna sæmilega, til þess að þeir fáist til að vera þarna til að byrja með við ákaflega léleg skilyrði til þjálfunar í sínu starfi. Þeir mundu gjarnan una þar betur og sækja þangað meira, ef þar væru meiri möguleikar til starfa í læknisfaginu, og það er í raun og veru það, sem þeir fráfælast mest. Og menn kunna ekki önnur ráð fremur til þess að fá þá þó til að fara út í héruðin heldur en að þeir bæru sæmilegt úr býtum fyrir dvöl sína þar. Auk þess hefur það svo verið þannig, að helzta úrræðið til þess að fá lækna út í hin fámennustu læknishéruð hefur verið að skylda kandidatana í læknisfræði til þess að fara í sex mánaða þjónustu út í fámennustu héruðin, þegar þeir kæmu frá prófborðinu, en þá hefur ekki verið fýsilegra fyrir þá að komast út í þessi héruð en svo, að þeir hafa orðið að byrja með því að kaupa sér nauðsynleg lækningatæki og búa þannig um sig, að þeir gætu starfað, og telja menn, að þetta hafi kostað þá a.m.k. nú seinni árin um 100 þús. kr., sem þeir hafa auðvitað orðið að bæta ofan á sínar námsskuldir. Af þessu leiðir svo það, að landlæknir telur, að önnur nærtækasta leiðin til þess að fá ungu læknana út í héruðin væri sú að gera þeim auðveldara um að setjast þar að, með því að hið opinbera ætti hin nauðsynlegustu lækningatæki. Landlæknir kveðst hafa tekið sjálfur saman skrá yfir þessi nauðsynlegustu tæki, og það væri sjálfsagt samkvæmt ákvörðun landlæknis, sem hinu opinbera væri gert að skyldu, ef till. landlæknis væri samþ., að kaupa og eiga þau, svo að læknarnir þyrftu ekki að taka á sig þennan stóra útgjaldalið hver um sig, þegar þeir í fyrsta sinn fara út í hérað.

Það eru þessar tvær till. landlæknis, sem ég og hv. 4. þm. Reykn. töldum rétt að taka upp alveg óbreyttar, svo að þær væru nákvæmlega í því formi, sem landlæknir eftir nákvæma yfirvegun hefur lagt til að yrði samþ. sem helztu úrræði til að bæta úr læknaskortinum í fámennustu héruðunum, sem lengstum og oftast hafa verið læknislaus á undanförnum árum.

Ég veit ekki, hvað getur valdið því, að hv. þm., sem fyrir nokkrum mánuðum, rétt áður en síðasta Alþingi lauk störfum, gengu frá því sem sinni till. í samráði við landlækni, en starfa nú í n., standa gegn þessu. Málið er óleyst, og þessir sömu menn, sem breyttu till. í ákveðið form í fyrra, ganga nú gegn þeim atriðum, sem þeir þá tóku upp í sínar till. En svona er þetta. Þetta er staðreyndin. Menn, sem árum saman hafa talað um, að þeir berðust fyrir því máli með hnúum og hnefum að reyna að draga úr öryggisleysi fólksins úti um byggðirnar og reyna að útvega því þangað lækna, með hvaða úrræðum sem möguleg væru, eins og þeir sögðu í grg. í fyrra, fást nú ekki til að fylgja till. landlæknis, sem var til kvaddur til þess að gefa góð ráð um lausn málsins, og ekki einu sinni þeim till., sem þeir tóku sjálfir upp í sína eigin þáltill. á síðasta þingi. Ég verð að segja það, að þetta er hörmulega lítil staðfesta og heitir: að fara í gegnum sjálfan sig.

Málinu var frestað hvað eftir annað til þess að athuga um það, hvort ekki fyndust neinar leiðir til þess, að n. yrði sammála um lausn málsins. Og ég verð að segja það, að það var hinn fyllsti samkomulags- og samstarfsvilji í n., því að öllum var alvara málsins ljós og menn vildu teygja sig langt til þess, að um þetta fengjust sameiginlegar till. Formaður n., hv. 1. þm. Vestf. (GíslJ), sem starfaði framan af í n. og stjórnaði störfum hennar, var og með ýmsar hugmyndir um það, hvernig hægt væri að leysa þetta til bráðabirgða, t.d. kvaðst hann mundu ræða það við heilbrmrh., hvort ekki væri hugsanlegt, að ríkisstj. vildi verja einhverri ákveðinni fúlgu, t.d. sem svaraði hálfum læknislaunum í þeim læknishéruðum, sem læknislaus hafa verið, til greiðslu í einhverju öðru formi þá heldur en staðaruppbót til þess að tryggja þangað lækna með sérstökum ráðningarsamningi um aukagreiðslur, — að það mætti verja sem sé allt að þeim hálfu læknislaunum, sem nú eru yfirleitt borguð lækninum í nágrannahéraði fyrir að hafa gegningarskyldu í læknislausa héraðinu. Þetta sýnist í raun og veru ekki vera annað en að borga beint, velja heldur þann kostinn að borga beint manni, sem sitji í hinu fámenna læknishéraði, heldur en að verja því, eins og nú er gert, til viðbótargreiðslu ofan á læknislaun þess, sem situr í nágrannahéraði og hefur gegningarskylduna, en getur þó aldrei komið að fullu gagni í læknislausa héraðinu. Ég veit ekki, hvort hv. þm. hefur rætt þetta við heilbrmrh., en hann kom aldrei til baka með vitneskju um það, að þetta þætti úrræði, sem gæti komið til greina. Við, sem nú skipum minni hl., vorum hlustandi eftir öllum slíkum till., sem gætu leitt til þess, að málið fengi einhverja úrlausn, sem gæti talizt viðunandi fyrir fámennustu læknishéruðin. En þegar svo formannsskipti urðu í n. og þar var kominn maður, sem hafði borið fram þessa till. á síðasta þingi, þá taldi ég enn ástæðu til að doka við með afgreiðslu þessa máls og gefa hinum nýja formanni nægilegt tóm til að ræða við heilbrmrh. um það, hvort þessar tili. gætu ekki fengið fram að ganga, sem hann hafði borið fram í till. sinni í fyrra og þá mælt fast með sem úrlausn á málinu. Ég sagði við minn gamla og góða vin — ekki flokksbróður, en stríðsbróður að fornu og nýju, að enginn maður á Íslandi hefði aðra eins aðstöðu og hann til að segja við hæstv. ráðh.: Ég get ekki látið bjóða mér það að greiða nú atkvæði, rétta höndina nú á loft á móti till. minni frá í fyrra. — Og hann hefði getað bætt því við: Ráðh. má ekki bjóða mér þetta, því að það er að misbjóða. Og sannleikurinn er sá, að hér er ekki um þau fjárútlát að ræða af ríkisins hendi, að það væri ekki gerandi í eitt ár, því að menn eru að þreifa fyrir sér með varanlegar leiðir í þessu máli til þess að prófa, hvort takist að draga nokkuð úr læknaskortinum í fámennustu héruðunum með þessu úrræði, að borga þeim t.d. staðaruppbót eða viðlíka aukagreiðslu fyrir að vera Þar í fásinninu. — En ekki veit ég, hvort minn ágæti þingbróðir, Sigurður Bjarnason, hefur beitt sér gagnvart ráðh. í þessu efni, sem mér fannst hann hafa hina ágætustu aðstöðu til, hafandi auk þess barizt árum saman fyrir þessu máli, nema árangurinn virðist vera enginn. Hv. 1. þm. Vestf. (SB) hefur hér komið fram fyrir deildina og lýst sig samþykkan málinu óbreyttu, frv, óbreyttu, að því viðbættu, að hann fékk í gær heimild ráðh. til, að það mætti verja úr ríkissjóði fé til þess að greiða að hálfu nauðsynlegustu lækningatæki í hinum allra fámennustu héruðum, ef viðkomandi læknishérað legði fram hinn helminginn. Þetta er vissulega ofur lítið til bóta, en það er ekki stórt, það er ekki tekið af stórhug á málinu, þannig að nokkrar líkur séu til þess, að læknaskorturinn leysist við þessa aðgerð. En það er þó til bóta. Það er mín skoðun, að með þeim vinnubrögðum, sem beitt hefur verið í læknamálunum á þessu þingi, hafi verið byrjað á öfugum enda og aðaláherzlu hefði átt að leggja á að bæta úr læknisleysi hinna fámennustu læknishéraða. En það er ekki gert með þessari afgreiðslu. Það er mest gert nú á þessu þingi fyrir læknana í fjölbýlinu og tekjur þeirra auknar verulega, en smáskornastar eru tillögurnar að öllu leyti til úrbóta, þar sem þörfin var mest í fámennustu læknishéruðunum.

Ég og hv. 4. þm. Reykn. höfum borið fram okkar tillögur og nál. á þskj. 413 og eru breytingar okkar þar á þá leið, að við viljum, að á undan 1. gr. frv. komi tvær nýjar greinar, er verði svo hljóðandi:

„Á eftir 4. gr. l. komi ný grein, svo hljóðandi: Í mannfæstu læknishéruðunum skal greiða álag á föst laun, er nefnist staðaruppbót, samkv. eftirfarandi reglum: a. Héraðslæknar í héruðum með færri en 600 íbúa hljóti staðaruppbót, er nemi 50% fastra launa. b. Héraðslæknar í héruðum með 600–800 íbúa hljóti staðaruppbót, er nemi 331/3% fastra launa. Gegni héraðstæknir í héraði, er staðaruppbótar nýtur, öðru héraði ásamt sínu, fellur staðaruppbót niður.“

Þetta er, eins og hv. þingmenn heyra, ef þeir hafa hlustað á, þegar ég las tillögur landlæknis í upphafi míns máls, nákvæmlega frá orði til orðs till. landlæknis og nákvæmlega orði til orðs samhljóða þeirri breytingu, sem samþykkt var á till. Sigurðar Bjarnasonar og fleiri á síðasta þingi um ráðstafanir vegna læknaskorts. Þar var önnur tillagan um að greiða staðaruppbót á laun í fámennum héruðum. Fámennustu læknishéruðin, sem undir þessa liði heyra, þ.e.a.s. með íbúatölu allt upp að 800, eru þau, sem nú skal greina: Flateyjarhérað, Djúpavíkurhérað, Reykhólahérað, Suðureyrarhérað, Raufarhafnarhérað, Bakkagerðishérað, Bíldudalshérað, Grenivíkurhérað, Súðavíkurhérað, Flateyrarhérað, Þingeyrarhérað, Höfðahérað, Kirkjubæjarhérað, Vopnafjarðarhérað, Kópaskershérað og Egilsstaðahérað eystra. Þessi 16 læknishéruð eru öll með íbúatölu fyrir neðan 800. En staðaruppbótin ætti samkv. tillögu okkar að renna til þeirra héraða, sem eru með færri íbúa en 800, lægri þó til héraðanna, sem eru á bilinu frá 600 til 800 íbúa.

En önnur till. okkar, sem minni hl. skipum í heilbr.- og félmn., er á þessa leið:

„Á eftir 8. gr. I. komi ný gr., svo hljóðandi: Læknishéruð með færri en 600 íbúa skulu sjálf útvega og kaupa nauðsynlegustu lækningatæki, er héraðslæknir þarfnast í starfi sínu. Skal slík útvegun tækja gerð í fullu samráði við heilbrigðisstjórnina hverju sinni. Enn fremur kaupi sömu héruð húsgögn í lækningastofu og í sem svarar 2–3 herbergja læknisíbúð. Húsgögnin skulu vera af einföldustu gerð og þannig valin, að auðvelt sé að geyma þau tímum saman án skemmda. Lyfjaforði í þessi héruð skal keyptur af héraðslækni og er hans eign sem og í öðrum héruðum, en heimilt er Lyfjaverzlun ríkisins að veita honum allt að 4 mánaða greiðslufrest á andvirði lyfjanna.“

Þessar tillögur eru einnig samhljóða tillögum landlæknis, og játa ég þó, að þær ganga fullskammt. En við töldum líklegast, að Alþingi mundi vilja fallast á óbreyttar tillögur landlæknis, þess manns, sem er aðalráðgjafi ríkisins í heilbrigðismálum og hefur sérþekkingu og reynslu við að styðjast öllum öðrum fremur. Þess vegna fannst okkur vænlegra að flytja hans tillögur algerlega óbreyttar og taka þar ekki nema tvær megintillögur hans, sem alveg sérstaklega lutu að því að bæta úr læknaskortinum í fámennustu héruðunum. Læknisbústaðirnir eru alts staðar á landinu nema í einu læknishéraði eign viðkomandi læknishéraðs, byggðir með styrk frá ríkinu, en eru eign héraðanna. Þess vegna taldi ég nokkuð eðlilegt samkv. till. landlæknis einnig, að lækningatækin, sem keypt væru í læknishéraðið, væru á hendi sama aðila, sem á læknisbústaðinn, því að þau mundu fylgja honum, og einnig húsgögnin, sem keypt væru í læknisbústaðinn. Hins vegar sé ég, að það eru hér þm., sem telja, að hér sé of skammt gengið, og gæti ég vel efnislega fallizt á þeirra tillögu, að heilbrigðisstjórnin legði á kostnað ríkissjóðs fámennum læknishéruðum til einu sinni fyrir allt nauðsynlegustu lækningatæki og lyfjaforða, sem héraðslæknir þarfnast í starfi sínu, og einnig nauðsynlegan útbúnað í lækningastofu ásamt einföldum og óhjákvæmilegum húsgögnum í læknisíbúð. En þá væri sem sé ríkið eigandi að þessum tækjum, lækningatækjunum og útbúnaði á lækningastofu, en læknishéraðið hins vegar að sjálfri fasteigninni. Þetta væri auðvitað nokkru meiri hjálp en felst í tillögum okkar, sem skipum minni hl. heilbr.- og félmn., og væri þannig e.t.v. betri lausn á málinu. En aðalatriðið fannst mér vera það, að þessi greiðslubyrði þyrfti ekki að hvíla á herðum hinna ungu lækna, sem skuldum vafðir eru að koma frá prófborðinu og þannig lítt megnugir þess að bæta þessum stóru útgjaldaliðum á sig. Kaupin hins vegar á lyfjum, það er í raun og veru verzlunarvara, sem þeir annast svo sölu á, og því eðlilegt nokkuð, að þeir eigi þau, og er það lagt til í tillögu landlæknis, og við höfum tekið hana þannig upp, en aðeins reynt að tryggja það, að þeir fengju greiðslufrest, svo að þeir þyrftu ekki að snara út andvirði lyfjanna, þegar þeir væru að kaupa þau og búa sig af stað í læknishéraðið, heldur væru búnir að vera 2/3 af skyldutímanum, þegar að gjalddaga væri komið og þeim bæri að greiða lyfin.

Ég býst við því, að það sé fullreynt, að það fáist ekki samkomulag um að samþykkja þessar tvær brtt. okkar og þar með tillögur landlæknis. Ég geri ráð fyrir, að formenn heilbr.- og félmn. og yfirleitt þeir í meiri hl. þar séu búnir að fullreyna það við hæstv. heilbrmrh. að fá þessar tillögur fram, en hann af einhverjum ástæðum ekki talið fært að ganga inn á það, og þykir mér það miklu miður. Það getur enginn að vísu fullyrt, að hægt sé að ráða fulla bót á þessu vandamáli með samþykkt allra tillagna landlæknis, þó að það hefði verið gert. En það eru nokkrar líkur til þess, og önnur líklegri ráð hafa mönnum ekki enn þá dottið í hug til að leysa þennan vanda. Ég hefði því talið, að það bæri að fá dóm reynslunnar á það, hvort ekki gengi betur að fá lækna út í fámennustu héruðin, ef launakjör þeirra væru bætt og gert aðgengilegra fyrir þá að koma sér þar fyrir, meðan þeir eiga í mestum fjárhagslegum erfiðleikum nýkomnir frá námi, úr því að það hafa nú einmitt orðið þeir, ungu kandídatarnir, sem hafa árum saman leyst þennan vanda fyrir heilbrigðisstjórnina og fyrir fólkið í landinu þrátt fyrir alla erfiðleika á því. Ég hefði talið, ef menn vildu ekkert tengja þetta launakjörum læknanna, þá hefði ekkert verið fráleitt að taka t.d. eina millj. kr. eða svo, sem heilbrigðisstjórnin mátti verja til þess að ná samningum við lækna um að taka að sér þjónustu við fámennustu héruðin, þó að það væri ekkert tengt við launakjör þeirra, heldur heilbrigðisstjórninni falið alveg frjálst að semja við ungu læknana um kjarabætur fyrir að fara í þetta eða hitt héraðið og þá e.t.v. mismunandi eftir því, hversu lítið fýsilegt þætti að fara þangað. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar, að það sé nokkuð góður skóli fyrir ungan lækni að fara í hérað, þar sem hann getur, vegna þess að annríki er ekki mjög mikið, lært að kynnast gaumgæfilega alþýðustéttum landsins við hin fábreyttu, en nauðsynlegu störf, sem þar eru unnin, og þannig komizt betur inn í anda þjóðlífsins en t.d. þeir ungu menntamenn eiga kost á að kynnast þessum hlutum, ef þeir eru t.d. kaupstaðarbörn frá fæðingu og að uppeldi og hafa aldrei lifað í sveitum landsins eða með alþýðufólkinu í landinu og deilt lífskjörum við það. En samt sem áður, það er reynsla komin á það, að ungu læknarnir forðast fyrst og fremst fámennu héruðin vegna þess, hvað lítið reynir á þar, hversu sjaldan gefst tækifæri til, að þeir reyni á sig sem lækna og iðki sig í sinni mennt, og það er hlutur, sem ekki er hægt að bæta úr nema með stækkun læknishéraðanna, sem er raunar sjálfsagt að taka til yfirvegunar. En meðan það er ekki gert og á það ekki fallizt að leysa málið á þann hátt að stækka læknishéruðin og fækka þeim, þá er varla um annað að ræða en það, sem felst í tillögum landlæknis, að taka upp annaðhvort staðaruppbót eða að greiða þeim í einhverju formi meira fyrir veru sína í hinu fámenna héraði og gera þeim aðkomuna þar í upphafi auðveldari.

Ég skal nú ljúka máli mínu, en læt aðeins í ljós þá ósk, að gert verði allt, sem hægt er, til þess að leysa þetta mál, sem er þýðingarmikið mál fyrir fámennu læknishéruðin, mál, sem er mikið öryggismál fyrir fólkið, sem þar býr, og því mikið vandamál, sem þjóðfélaginu ber skylda til að leysa. Og það er enn möguleiki til þess að leita að samkomulagsleiðum, því að það mætti e.t.v. takast, ef vel væri eftir leitað, nú milli 2. og 3. umr. í þessari hv. deild. En mér finnst nálega ósæmilegt af Alþingi að hafa leyst nokkuð kjaramál lækna í Reykjavík, lækna í öllum kaupstöðum landsins, lækna samkv. þessu frv. í hinum miðlungsstóru héruðum, en ganga nálega algerlega fram hjá vandamálum fámennustu héraðanna, sem allir hafa talið vera höfuðatriði, þegar menn hafa verið að tala um læknaskortinn sem þjóðfélagsvandamál. Fyrir öllum hefur þá vakað það að finna úrræði, sem mættu tryggja, að fólkið í strjálbýlinu þyrfti ekki að búa við læknisleysi. Ég trúi því naumast enn, að þeir, sem lögðu til í fyrra í samráði við landlækni, að tekin skyldi upp staðaruppbót og að hið opinbera skyldi verða eigandi að nauðsynlegustu læknistækjum í fámennustu héruðum, gangi frá þeim tillögum og rétti höndina upp á móti þeim. Ég á erfitt með að trúa því. Ég tel, að þingheimur hljóti að verða sjálfum sér samþykkari frá ári til árs í máli eins og þessu heldur en fram kæmi í slíkri afstöðu. Og þó að meiri hl. nefndar hafi nú lagt til, að þetta frv. sé samþykkt, þá er það ekkert guðsorð til hv. deildar, deildin gæti vel leyft sér að taka fram fyrir hendur meiri hl. og fylgja tillögum minni hl., því að þær ganga ekki á neinn hátt feti framar en landlæknir hefur lagt til sem nauðsyn og hefur undirstrikað að væri óumflýjanlegt að gera í sambandi við lausn þessa máls. Læt ég svo máli mínu lokið að sinni.