29.03.1962
Neðri deild: 79. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1371 í B-deild Alþingistíðinda. (1104)

124. mál, læknaskipunarlög

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Samkv. ósk íbúa Hjaltastaðaþinghár í Norður-Múlasýslu höfum við þm. Austf. í þessari hv. þd. leyft okkur að bera fram þá breytingu á læknaskipunarlögunum frá 1955, sem um ræðir á þskj. 409. Samkv. tillögu þáv. landlæknis var með breyt. þeirri, sem gerð var á læknaskipunarlögunum 1955, svo ákveðið, að íbúar Hjaltastaðaþinghár skyldu tilheyra Borgarfjarðarlæknishéraði í stað þess, að þeir höfðu áður tilheyrt Egilsstaðalæknishéraði eystra. Var ætlun þáv. landlæknis að gera með þessu Borgarfjarðarlæknishérað fjölmennara og því aðgengilegra fyrir lækni. En jafnhliða var svo frá gengið, að íbúar Hjaltastaðaþinghár áttu síður en svo að búa við meiri erfiðleika en áður um að leita til læknis, þar sem þeir áttu framvegis að eiga jafnan rétt til þjónustu af hendi læknis á Egilsstöðum og í Borgarfirði. En frá upphafi féll íbúum Hjaltastaðaþinghár þessi ráðstöfun illa, þar sem þeir höfðu stofnað til samstarfs með öðrum héraðshreppum um læknisbústað og sjúkraskýli að Egilsstöðum. Vegna staðhátta varð reynslan líka sú, að þeir leituðu áfram meira til læknisins, sem þjónar Austur-Egilsstaðalæknishéraði, eins og þeir líka áttu rétt til, en kvörtuðu jafnframt undan því, að í framkvæmd væri það svo, að læknirinn þar léti þá frekar sitja á hakanum, þegar annríki hans var mikið, og vísaði þeim á Borgarfjarðarlækni, sem þá var ekki ætíð auðvelt og stundum illmögulegt að ná til. Og síðan læknislaust varð í Borgarfirði, hefur auðvitað ekki verið fyrir íbúa Hjaltastaðaþinghár til annars læknis að leita en að Egilsstöðum. Þegar svo var komið, þótti núverandi landlækni einsætt að mæla með þeirri breytingu, sem við leggjum til að gerð verði, enda er hér ekki um að ræða neina raunverulega breytingu á læknaskipunarlögunum, heldur aðeins viðurkenning á þeirri staðreynd, aðþÞessi tilraun fyrrv. landlæknis til framdráttar Borgarfjarðarlæknishéraði hefur mistekizt.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa hér um fleiri orð, en vísa til ummæla landlæknis um þetta efni í kaflanum um breytta læknaskipun í skýrslu hans, sem prentuð er sem fskj. með frv. ríkisstj. um breytingar á læknaskipunarlögunum frá 1955, sem hér er til umr.

Ég vil svo aðeins geta þess, að ef hv. heilbr: og félmn. telur æskilegt að athuga þessa till. í samráði við landlækni, þá munum við flm. fúsir að taka till. aftur til 3. umr.

En jafnframt því að mæla fram með brtt. okkar þm. Austf. vil ég leyfa mér að fara nokkrum orðum um frv. hæstv. ríkisstj., sem hér er til meðferðar. Með tilliti til málavaxta og þess, sem á undan er gengið, og þá ekki sízt ef það er skoðað með hliðsjón af þeirri þáltill., sem hv. Alþingi samþykkti á s.l. vetri, og einnig með hliðsjón af till. landlæknis, þá held ég, að megi fullyrða, að þetta frv. hæstv. ríkisstj. hafi valdið öllum vonbrigðum, sem þekkja til hins óviðunandi ástands, sem ríkir í heilbrigðismálum víðs vegar um landið, og þá knýjandi þörf, sem er fyrir því, að hið opinbera hlutist til um með raunhæfum aðgerðum, að ráðin sé þar á einhver veruleg bót. Með tilliti til vandans, sem við er að etja, tel ég, að frv. hæstv. ríkisstj. sé hvorki fugl né fiskur, ef nota má Það gamla orðtak. Og segja má, að það nálgist lítið þá alhliða umbótatillögu, sem síðasta hv. Alþingi fól hæstv. ríkisstj. að koma fram með. Það ber vitanlega að harma, hvað hæstv. ríkisstj. hefur brugðizt vilja Alþingis í þessu máli. Og því fráleitara er þetta, þar sem Alþingi hefur bent á leiðir, sem fara ætti, og landlæknir í öllum mikilvægustu atriðum fallizt á þær, sbr. umsögn hans og tillögur.

Í upphafi þáltill. þeirrar, sem samþykkt var á Alþingi 29. marz s.l. um ráðstafanir vegna læknaskorts, var skorað á hæstv. ríkisstj. að gera í samráði við landlækni þær ráðstafanir, sem mögulegar eru, til þess að útvega lækna í þau læknishéruð, sem nú eru læknislaus, og stuðla þar með að því að bæta úr því öryggisleysi, sem fólk þeirra héraða á við að búa í heilbrigðismálum. Eftirtaldar ábendingar hv. Alþingis til hæstv. ríkisstj. tel ég að hafi verið raunhæfar og líklegar til umbóta í Þessu efni: Að greiða læknum í fámennari læknishéruðum staðaruppbót. Að hraða byggingu og endurbótum á læknabústöðum. Og aðþÞað opinbera leggi til nauðsynlegustu lækningatæki og lyfjaforða í fámennari læknishéruðum. Undir Þetta sjónarmið og áskorun til hæstv. ríkisstj. tók allur þingheimur einróma, og í öllum meginatriðum tekur landlæknir í sama streng í grg. sinni um málið til hæstv. ríkisstj. Hitt er svo annað mál, að landlæknir bætir við atriðum í umsögn sinni, sbr. fskj. með frv., þar sem hann með meiru leggur til að bæta almennt launakjör héraðslækna með stórhækkuðum greiðslum frá fólkinu fyrir veitta læknishjálp. Það er augljóst, að hann telur þetta ekki almenn bjargráð með tilliti til læknaskortsins, heldur fyrst og fremst nauðsynlega bót á launum héraðslækna í miðlungs og jafnvel stærri læknishéruðum. En á aðstæðurnar í þeim héruðum telur landlæknir einnig þörf að líta, um leið og reynt er að gera gagngerðar ráðstafanir vegna minni og strjálbýlli læknishéraðanna.

Ég dreg ekki í efa, að ástæður séu fyrir áhyggjum landlæknis um læknaskort í miðlungs og stærri læknishéruðum úti á landi. Hann er í því efni manna kunnugastur og líklegur til að vilja leita eftir lausn á þessum vandkvæðum. Vel má vera, að eðlilegt sé, að fólkið úti á landi greiði eitthvað meira en nú er fyrir veitta læknisþjónustu. En þó að svo kunni að vera, þá eru vissulega takmörk fyrir, hvað eðlilegt og sanngjarnt er að hafa slík gjöld há. E.t.v. sýnist ráðamönnum sjálfsagt að láta fólk úti á landi inna svipaðar greiðslur af höndum til læknisins og fólk þarf að gera t.d. hér í Reykjavík. En bæði er á það að líta, að fólkið í dreifbýlinu hefur yfirleitt ekki til annars að leita en síns héraðslæknis, sem fær verulegan hluta af launum sínum greiddan af opinberu fé og ætti því að geta veitt eitthvað ódýrari þjónustu en praktíserandi læknar, og ekki er síður réttmætt að hafa það í huga, að aðstaða fólksins í dreifbýlinu er, hvað kostnaði af völdum veikinda við kemur, ekki sambærileg við þá aðstöðu, sem fólkið í stærri bæjunum hefur, því að fólkið í dreifbýlinu þarf yfirleitt að verja miklu fé og tíma til að leita til fjarlægra staða eftir sjúkrahúsvist og sérfræðingum. Hækkun á greiðslu fólksins til héraðslæknis síns er því hvimleið og vafasöm leið. En hófleg gjaldahækkun gæti þó e.t.v. verið álitamál, þar sem slíkt getur leyst vandann í sambandi við læknaskortinn. Ég get vissulega ekki um það dæmt, hvort í þessu felst lausn, þegar um miðlungs og stærri læknishéruð er að ræða. En það þarf engan sérfræðing í þessum málum til að sjá, að það er fjarri öllu lagi, að mesti vandinn í þessu efni, sem er nú þegar fyrir hendi í minni læknishéruðunum, leysist með auknum álögum á fólkið. Vandi þeirra minnkar ekki að mínum dómi, heldur vex, með þeirri aðgerð einni. Það ætti ekki að þurfa að rökstyðja þetta.

En þótt svo sé, að landlæknir geri sér nokkra von um, að hækkun á greiðslum frá fólkinu til héraðslækna í miðlungs og stærri læknishéruðum muni gera þau héruð fýsilegri og læknar fáist því frekar þangað, þá er hins vegar alveg víst, að um slíka tekjuvon er ekki að ræða í fámennari læknishéruðunum. Og því má búast við, að þau verði í hugum lækna enn ófýsilegri en áður, miðað við miðlungs og stærri héruð. Niðurstaðan hlýtur því að verða sú, að enn síður sé að vænta læknis í fámennustu læknishéruðin, ef þetta. frv. nær óbreytt fram að ganga.

Landlæknir gerir sér fyllilega grein fyrir þessu og leggur því áherzlu á alveg sérstakar ráðstafanir vegna lökustu læknishéraðanna, þær sömu og hv. Alþingi hafði bent á. En svo kemur hæstv. ríkisstj. með þessar tillögur um lausn í læknavandamálinu og segir, að frv. sé flutt samkv. tillögu landlæknis. Mér finnst, að hér sé um að ræða vafasaman málflutning af hendi hæstv. ríkisstj. Hún gengur alveg fram hjá till. síðasta Alþingis og virðist í því sambandi vilja afsaka sig með því að skjóta sér á bak við landlækni, en verður að gera það með því að slíta tillögur hans úr sambandi og taka þá einu upp, sem gerir jafnvel aðstöðu verst setta fólksins verri en áður.

Þetta frv. er vissulega köld kveðja frá hæstv. ríkisstj. til hins nauðstadda fólks í dreifbýlinu. Hún leggur það eitt til að hækka á þessu sviði fjárhagslegar byrðar þess, án þess að nokkur líkindi séu til, að með því leysist vandi þeirra, sem verst eru settir. Það vita allir, sem vita vilja, að læknisleysið í dreifbýlinu verður ekki leyst nema með nokkru fjárhagslegu framlagi af hálfu þess opinbera. Og um leið er um að ræða kröfu um öryggi, sem þjóðfélaginu er skylt að veita, hvar sem menn eru búsettir í landinu. Þá er hér einnig á ferðinni eitt af undirstöðuatriðum í sambandi við jafnvægi í byggð landsins. Um rökstuðning fyrir því tel ég óþarfa að fjölyrða, en vil í því sambandi vísa til umr. um þetta efni á síðasta Alþingi og þar á meðal tillagna, sem hv. 1. þm. Vestf. flutti í tilefni af málinu, þegar það var þá til umr. hér.

Með hliðsjón af þeim alvarlega vanda, sem læknisleysið veldur, tel ég skylt og aðkallandi að afgreiða þetta mál þannig, að ríkið taki á sig í fyrsta lagi að greiða staðaruppbót á laun héraðslækna í fámennari læknishéruðum, og er það atriði vissulega mest um vert. í öðru lagi, að ríkið leggi læknishéruðunum til nauðsynlegustu lækningatæki og búnað í lækningastofur ásamt einföldum og nauðsynlegum húsbúnaði í læknisbústaði. Þetta eru þau atriði, sem að mínum dómi þarf að lögfesta með þessu frv., og er þetta sjónarmið í aðalatriðum í samræmi við það, sem landlæknir telur að gera þurfi. Um byggingu og endurbót á læknisbústöðum, þar sem þörf krefur, ætti ekki að þurfa nýtt lagaákvæði, heldur meiri framkvæmd í skjóli þeirra laga, sem þar um gilda.

Það er alvarlegt mál og illt til þess að vita, að hæstv. ríkisstj. skyldi ekki koma fram með raunhæfar tillögur í þessu máli. Og það er síður en svo geðfellt, ef hún hefur horft í að láta ríkissjóð leggja fram dálitla fjárhæð til að tryggja fólkinu í dreifbýlinu viðunandi læknishjálp. En ekki tekur miklu betra við, þegar til kasta hv. heilbr.- og félmn, kemur. Nú er þetta að dómi frsm. meiri hl. nefndarinnar, hv. 1. þm. Vestf., ekki orðið stórt vandamál, og skal ég ekki fjölyrða um það meir, því að hv. 4. landsk. þm. gerði því sjónarmiði greinileg og góð skil. En sem sagt, meiri hl. n. leggur fyrst til, að frv. ríkisstj. verði samþykkt óbreytt, en kemur svo á síðustu stundu fram með atriði, sem er að vísu þakkarverð bót í málinu, en ekki er nú reisnin þar meiri en svo, að aðeins er lagt til, aðþÞað opinbera leggi fram að hálfu fé vegna læknisáhalda, meðala og annars slíks, og ganga tillögurnar alveg fram hjá þessu stærsta atriði, staðaruppbót til læknanna í fámennustu læknishéruðunum. Þó munu allir þeir, sem skipa meiri hl. hv. heilbr.- og félmn., hafa einhuga staðið að þeim tillögum, sem hv. Alþingi samþykkti í þessu máli 29. marz á fyrra ári. En frá því sjónarmiði, sem þessir hv. þm. höfðu þá, virðast þeir nú ætla að víkja. Nú er því aðeins eftir síðasta prófraunin, þ.e. hvort meiri hl. hv. þdm. ætlar að gera það sama. En það kemur í ljós við atkvgr. um brtt. minni hl. n. og brtt. okkar hv. 3. þm. Norðurl. e., sem hann mun nú væntanlega mæla fyrir.