04.04.1962
Neðri deild: 83. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1379 í B-deild Alþingistíðinda. (1109)

124. mál, læknaskipunarlög

Gísli Jónsson:

Hæstv. forseti. Lagt er til, að gerðar verði eftirfarandi nauðsynlegar breytingar á frv.:

1) Við 2. gr. a) Töluliður 2 orðist svo: Fyrir störf í þágu sjúkrasamlaga og annarra greina almannatrygginga fari greiðsla eftir gjaldskrá, sem landlæknir semur og ráðh. staðfestir, eða samningum, er stéttarfélög lækna eiga annars vegar hlut að fyrir hönd lækna, en sjúkrasamlög eða Tryggingastofnun ríkisins hins vegar. b) Töluliður 5 falli niður.

2) Á eftir 2. gr. komi ný grein, svo hljóðandi: Aftan við lögin bætist svo hljóðandi ákvæði til bráðabirgða:

Þangað til heilbrigðisstjórnin setur gjaldskrá samkv. 2. tölul. 2. málsgr. 10. gr. 1., skal núgildandi gjaldskrá héraðslækna gilda um störf þeirra í þágu sjúkrasamlaga og annarra greina almannatrygginga.

Þessar brtt., sem eru á þskj. 596, eru bornar fram af heilbr.- og félmn. samkv. ósk og í samráði við Tryggingastofnun ríkisins, sem telur nauðsynlegt, að þetta verði sett inn í lögin, til þess að enginn ágreiningur verði um þessi atriði.

Þá höfum við nokkrir þm. borið fram aðra brtt. á þskj. 590, sem hljóðar svo:

Á eftir 2. gr. komi ný gr., svo hljóðandi: Aftan við lögin bætist svo hljóðandi ákvæði til bráðabirgða:

Ríkisstjórninni er heimilt, til viðbótar heimildum, sem fyrir eru, að greiða allt að 300 þús. kr. árlega til þess að bæta læknisþjónustu í þeim héruðum, þar sem mestra úrbóta er þörf að dómi landlæknis.

Við töldum að athuguðu máli, að þrátt fyrir þær umbætur, sem gerðar voru á frv. í sambandi við læknaþjónustu í þeim héruðum, sem erfiðast eiga, sé nauðsynlegt að veita frekari aðstoð, og hefur þessi brtt. verið borin fram og hún rædd við hæstv. ríkisstj., sem hefur fallizt á, að þessari brtt. verði bætt inn í lögin. Við væntum þess, að frv. verði samþ. þannig, þá bætir það að verulegu leyti úr þeim erfiðleikum, sem héruðin úti á landi eiga við að búa í sambandi við heilbrigðisþjónustuna.