09.04.1962
Efri deild: 82. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1382 í B-deild Alþingistíðinda. (1116)

124. mál, læknaskipunarlög

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Eitt af því, sem gerir fólki í strjálbýli sums staðar dvölina óviðunanlega, er vöntun læknisþjónustu. Læknar fást ekki í fámenn héruð og erfið umferðar, og ekkert getur úr þessu bætt, nema ef helzt væri betri launakjör og svo vitanlega bættar samgöngur og betri húsakostur fyrir læknana og aðstaða til sjúkraskýlis. Um þetta er svo mikið búið að ræða hér á hinu háa Alþingi, að ég ætla, að það sé óþarft að fara um það miklu fleiri orðum.

Frv. þetta, sem hér liggur fyrir, til læknaskipunarlaga, er, eins og það nú er orðið, tvímælalaust til bóta fyrir læknastéttina. En það er samt ekki nóg að gert, til þess að læknar fáist út í erfiðustu og ófýsilegustu héruðin og vilji hafa þar viðdvöl. Bráðabirgðaákvæðið um, að ríkisstj. sé heimilt að greiða allt að 300 þús. kr. til þess að bæta læknisþjónustu í þeim héruðum, þar sem mestra úrbóta er þörf að dámi landlæknis, er vissulega þar spor í rétta átt. En hvers vegna að stíga svona stutt skref og óákveðið í átt, sem þarf þó að fara? Hvers vegna að stikla þannig í málum? Því ekki að fara að till. þess manns, sem hefur mesta yfirsýn í þessum efnum, landlæknisins, og ákveða staðaruppbót, svo að fólkið í héruðunum viti, að tillit er til þess tekið, og læknarnir viti, að hverju er að ganga í hverju héraði sem kjarabót til nokkurrar frambúðar? Eftir hverju er verið að bíða með athafnir í þessum efnum? Eiga fleiri en orðið er að flýja héruð vegna áhættunnar af læknisleysi?

Við hv. 9. þm. Reykv. erum fylgjandi þessu frv., það sem það nær, en við viljum, að betur sé gert og ákveðnara strax. Við höfum því gert till. landlæknis um staðaruppbót að till. okkar á þskj. 657. Till. þessa, sem landlæknir hefur samið sem brtt. við lög um laun starfsmanna ríkisins, má alveg eins fella inn í læknaskipunarlögin, eins og við leggjum til. Af tillitssemi við fjárl. þessa árs, sem sjálfsagt er að hafa, leggjum við til, að ákvæði till. komi ekki til framkvæmda fyrr en með næsta ári.

Ég leyfi mér að vænta, að hv. þm. geti fallizt á till. Þetta er afar mikilsvert mál. Þetta er stórt atriði, að því er snertir að geta viðhaldið jafnvægi í byggð landsins.