29.03.1962
Neðri deild: 79. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1386 í B-deild Alþingistíðinda. (1124)

210. mál, Samvinnubanki Íslands hf.

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. í sambandi við 60 ára afmæli Sambands ísl. samvinnufélaga beindi Sambandið þeim tilmælum til ríkisstj., að hún flytti frv. á Alþingi, er heimilaði breytingu Samvinnusparisjóðsins í Samvinnubanka, er væri hlutafélag. Ríkisstj. samþykkti einum rómi að verða við þessum tilmælum. Viðskmrn. hefur síðan í samráði við forráðamenn Samvinnusparisjóðsins undirbúið frv., sem hér liggur fyrir.

Það er gamalt mál innan samvinnusamtakanna, að gagnlegt væri að koma á fót Samvinnubanka. Á aðalfundi Sambands ísl. samvinnufélaga árið 1922 var mikið rætt um stofnun Samvinnubanka og talin brýn þörf á að koma upp öflugri lánastofnun, er starfaði í þágu samvinnuhreyfingarinnar. Slíkar óskir hafa oft síðan komið fram og verið ræddar á aðalfundum, einkum nú á síðustu árum. Í nágrannalöndum, þar sem samvinnuhreyfingin er öflug og stendur með miklum blóma, svo sem á Norðurlöndum, eru slíkar stofnanir starfandi og hafa verið um langt árabil.

Til skamms tíma störfuðu ekki aðrar peningastofnanir á vegum samvinnuhreyfingarinnar er, innlánsdeildir kaupfélaganna. En starfsemi þeirra er bundin við einstök félög. Þess vegna kom fram hugmyndin um að koma á fót sparisjóði í Reykjavík og skyldi hann starfa í þágu samvinnuhreyfingarinnar í landinu. Stofnfundur Samvinnusparisjóðsins var haldinn 28. júní 1954, og tók sparisjóðurinn til starfa þá um haustið. Stofnendur hans voru 54 ábyrgðarmenn úr Reykjavík og ábyrgðarfé samtals 27 þús. kr. Í lok fyrsta starfsárs sparisjóðsins námu innstæður samtals 9,2 millj. kr., en á þeim árum, sem liðin eru síðan sjóðurinn var stofnaður, hefur hann aukizt jafnt og þétt, og námu innstæður í sparisjóðnum um s.l. áramót 75,2 millj. kr. Af þeirri upphæð voru 54,7 millj. kr. spariinnlán, en veltiinnlán námu 201/2 millj. kr. Innstæðueigendum hefur einnig fjölgað mjög verulega frá stofnun sparisjóðsins, og voru þeir um s.l. áramót tæplega 5 þús. talsins, sem áttu sparísjóðs- og sparisjóðsávísanareikninga, en auk þessa voru 120 hlaupareikningar við sparisjóðinn. Um s.l. áramót nam höfuðstóll sparisjóðsins 939 þús. kr. að meðtöldu ábyrgðarfé. Bundin innstæða í Seðlabanka Íslands nam 7,5 millj. kr. um s.l. áramót, en ógreitt var þó framlag fyrir síðasta ársfjórðung ársins 1961. Hinn 19. marz s.l. voru innstæður samtals 78,7 millj. kr.

Rekstur sparisjóðsins er nú orðinn svo umfangsmikill, að sparisjóðsformið hentar að ýmsu leyti illa þeim rekstri. Þess vegna hefur þess verið óskað, að heimilað verði að breyta sparisjóðnum í hlutabanka, og fellst ríkisstj. á, að sparisjóðsformið henti ekki lengur þeim rekstri, sem hér er um að ræða, og leggur því til, að heimiluð sé bankastofnun, er taki við rekstri Samvinnusparisjóðsins.

Í frv. er gert ráð fyrir því, að bankanum verði valið hlutafélagsform, enda er það formið, sem valið hefur verið einkabönkum hér. Gert er ráð fyrir, að hlutafé félagsins nemi eigi lægri fjárhæð en 10 millj. kr., en ákvæði verði í samþykktum um hugsanlega aukningu hlutafjár. Þá er í frv. ákvæði um það, hvernig haga skuli hlutafjársöfnun, og um forgangsrétt ábyrgðarmanna Samvinnusparisjóðsins til þess að skrifa sig fyrir hlutum í félaginu. Gert er ráð fyrir því, að Samband ísl. samvinnufélaga skuli safna innan vébanda sinna og leggja fram sem hlutafé 10 millj. kr. Enn fremur er gert ráð fyrir því, að ábyrgðarmenn Samvinnusparisjóðsins skuli hafa rétt til þess að skrifa sig fyrir hlutum í félaginu, er nemi allt að tífaldri upphæð núv. hluta þeirra í heildarábyrgðarfé Samvinnusparisjóðsins, Ef þessir aðilar hafa ekki tök eða hug á að skrifa sig fyrir þessu hlutafé innan níu mánaða frá gildistöku laganna, skal stjórn Samvinnusparisjóðsins bjóða út innanlands það, sem á vantar.

Heimili og varnarþing bankans skal vera í Reykjavík, en stjórn félagsins heimilt að ákveða, að bankinn hafi útibú.

Gert er ráð fyrir því, að Samvinnubanki Íslands h/f komi að öllu leyti í stað Samvinnusparisjóðsins. Honum er m.a. ætlað að taka við einstökum sjóðum sparisjóðsins, að meðtalinni inneign í tryggingasjóði sparisjóða og innstæðu í Seðlabankanum. Akvæði er í frv. um það, að nægilegt sé, að meiri hl. ábyrgðarmanna Sparisjóðsins samþykki eignayfirfærsluna. Samþykktir hlutafélagsins og reglugerð bankans skulu háðar staðfestingu viðskmrh.

Arð af hlutafé má því aðeins greiða, að innborgað hlutafé ásamt varasjóði nemi samtals 5% af samanlögðu innlánsfé í bankann, bæði í hlaupareikningum og sparisjóði. Þegar því marki er náð, skal eigi heimilt að greiða hærri arð en sem nemur almennum innlánsvöxtum af sparifé, unz innborgað hlutafé ásamt varasjóði nemur 10% af innlánsfénu. Þykir rétt, að þessi ákvæði séu í lögum um bankann til aukningar á tryggingu innstæðueigenda.

Um hlutverk bankans er það að segja, að samkv. frv. er ráð fyrir því gert, að hann annist öll venjuleg bankastörf, eftir því sem nú tíðkast eða síðar kynni að vera talið eðlilegt.

Til samræmis við það, sem ákveðið er í annarri íslenzkri bankalöggjöf, er gert ráð fyrir því, að bankinn skuli eiga a.m.k. 15% af innlánsfé með sparisjóðskjörum í tryggum og auðseljanlegum verðbréfum, svo sem ríkisskuldabréfum, bankavaxtabréfum Landsbanka Íslands eða öðrum jafntryggum bréfum. Skal hækka verðbréfaeign þessa upp í allt að 20%, ef viðskmrh. að fengnum tillögum stjórnar bankans telur þess þörf.

Yfirleitt má segja, að ákvæði þessa frv. séu, eftir því sem við á, hliðstæð ákvæðum þeim, sem gilda um Verzlunarbanka Íslands h/f.

Að svo mæltu leyfi ég mér að óska þess, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.