29.03.1962
Neðri deild: 79. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1388 í B-deild Alþingistíðinda. (1125)

210. mál, Samvinnubanki Íslands hf.

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins lýsa stuðningi mínum við þetta mál og ánægju yfir því, að það skuli vera fram komið á vegum hæstv. ríkisstj. Þegar Verzlunarbankinn var stofnaður, urðu allir sammála um það mál og að eðlilegt væri, að hann yrði settur á fót. Þá var því einnig lýst yfir af hálfu þingflokkanna, að það væri talið eðlilegt, að ef hliðstæð samtök eins og samvinnusamtökin hefðu tök á að koma upp hliðstæðri stofnun, þá væri rétt að greiða fyrir því. Nú hefur hæstv. ríkisstj. flutt þetta mál, sem er alveg hliðstætt, eins og hæstv. viðskmrh. hefur gert glögga grein fyrir, og sniðið alveg eins og sú löggjöf, sem fyrir er um Verzlunarbankann. Vil ég vona, að það geti orðið samkomulag um að styðja þetta eins og það mál á sinni tíð.