06.04.1962
Efri deild: 81. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1389 í B-deild Alþingistíðinda. (1137)

210. mál, Samvinnubanki Íslands hf.

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. hefur verið samþ. í hv. Nd. Það hlaut meðmæli hv. fjhn. d. samhljóða og var samþ. með shlj. atkv. í hv. Nd.

Efni frv. er það, að heimilt skuli að stofna hlutafélag, sem heiti Samvinnubanki Íslands h/f, og skal Samvinnubankinn koma í stað Samvinnusparisjóðsins, sem um nokkurra ára skeið hefur starfað hér í Reykjavík.

Hinn 14. febr. s.l. ritaði stjórn Samvinnusparisjóðsins í Reykjavik ríkisstj. bréf, þar sem þess var farið á leit, að ríkisstj. flytti frv. til laga um, að sparisjóðnum verði breytt í banka. Það er gamalt mál innan samvinnusamtakanna, að gagnlegt væri að koma á fót Samvinnubanka. Þegar árið 1922 var á aðalfundi Sambandsins mikið rætt um stofnun Samvinnubanka og talið nauðsynlegt að koma upp lánastofnun ef starfaði í þágu samvinnuhreyfingarinnar. Á aðalfundum Sambandsins hefur síðan oft verið rætt um þetta mál, enda eru slíkar lánastofnanir starfandi í öðrum löndum, þar sem samvinnuhreyfingin stendur með blóma, svo sem á Norðurlöndum.

Til skamms tíma hafa ekki aðrar peningastofnanir starfað á vegum samvinnuhreyfingarinnar en innlánsdeildir kaupfélaganna, en þeirra starfsemi er algerlega bundin við einstök félög. Það var þess vegna, sem hugmyndin um stofnun sparisjóðs í Reykjavík kom fram til þess að starfa í þágu samvinnuhreyfingarinnar. Var sparisjóðurinn stofnaður í júní 1954 og tók til starfa þá um haustið. Voru stofnendur hans 54 ábyrgðarmenn og ábyrgðarfé samtals 27 þús. kr. Þegar í lok fyrsta starfsársins námu innstæður Samvinnusparisjóðsins samtals 9,2 millj. kr. Á þeim hálfum öðrum áratug, sem síðan er liðinn, hefur sparisjóðnum vaxið mjög fiskur um hrygg, og námu innstæður í honum um s.l. áramót 75,2 millj. kr. Af þeirri upphæð voru 54,7 millj. spariinnlán, en veltiinnlán námu 20,5 millj. kr. Innstæðueigendum hefur og fjölgað mjög verulega frá stofnun sparisjóðsins. Þeir voru um s.l. áramót u.þ.b. 5 þús., sem áttu sparisjóðs- og sparisjóðstékkareikninga, en auk þess voru um 120 hlaupareikningar við sjóðinn. Höfuðstóll Samvinnusparisjóðsins nam um s.l. áramót 939 þús. kr. að meðtöldu ábyrgðarfé. Hinn 19. marz s.l. námu heildarinnstæður í sparisjóðnum 78,7 millj. kr.

Svo sem fram kemur af þessum tölum, er rekstur sparisjóðsins nú orðinn svo umfangsmikill, að sparisjóðsformið hentar orðið að ýmsu leyti mjög illa slíkum rekstri, og það er þess vegna, sem ráðamenn Samvinnusparisjóðsins hafa óskað þess, að löggjöf yrði sett, er heimili að breyta Samvinnusparisjóðnum í hlutafélag, og hefur ríkisstj. fyrir sitt leyti fallizt á þau rök, sem fyrir því hafa verið færð, og því lagt þetta frv. fyrir hið háa Alþ.

Frv. gerir ráð fyrir því, að bankanum verði valið hlutafélagsform, enda það formið, sem einkabönkum hér hefur verið valið. Hlutafé má ekki nema minni upphæð en 10 millj. kr. Gert er ráð fyrir, að ábyrgðarmenn Samvinnusparisjóðsins hafi forgangsrétt til að skrifa sig fyrir hlutum í félaginu og að Samband ísl. samvinnufétaga skuli safna innan sinna vébanda og leggja fram sem hlutafé 10 millj. kr. Ábyrgðarmennirnir eiga að hafa heimild til að skrifa sig fyrir allt að tífaldri upphæð núv. hluta þeirra í heildarábyrgðarfé Samvinnusparisjóðsins.

Heimili og varnarþing bankans á að vera í Reykjavík, en stjórn félagsins skal vera heimilt að ákveða, að bankinn hafi útibú.

Samvinnubankinn á að koma að öllu leyti í stað Samvinnusparisjóðsins og taka við einstökum sjóðum hans, að meðtalinni inneign í tryggingasjóði sparisjóða og innstæðu í Seðlabankanum. í frv. er gert ráð fyrir því, að nægilegt sé, að meiri hl. ábyrgðarmanna Sparisjóðsins samþ. eignayfirfærsluna. Samþykktir og reglugerð skulu háðar staðfestingu viðskmrh.

Því aðeins má greiða arð af hlutafé, að innborgað hlutafé ásamt varasjóði nemi samtals 5% af samanlögðu innlánsfé í bankanum, bæði í hlaupareikningum og sparisjóði. Er því marki hefur verið náð, er hins vegar gert ráð fyrir því, að ekki megi greiða hærri arð en sem nemur almennum innlánsvöxtum af sparifé, unz innborgað hlutafé ásamt varasjóði nemur 10% af innlánsfénu. Þessi ákvæði eru sett til aukinnar tryggingar fyrir innstæðueigendur.

Bankanum er ætlað að hafa með höndum öll venjuleg bankastörf, eftir því sem nú tíðkast eða síðar kann að vera talið eðlilegt.

Gert er ráð fyrir því, að bankinn eigi a.m.k. sem svarar 15% af innlánsfé með sparisjóðskjörum í tryggum og suðseljanlegum verðbréfum, svo sem ríkisskuldabréfum, bankavaxtabréfum Landsbanka Íslands eða öðrum jafntryggum bréfum. Er þetta í samræmi við það, sem tíðkast að öðru leyti í íslenzkri bankalöggjöf. Þessa upphæð skal hækka upp í 20%, ef viðskmrh. að fengnum till. stjórnar bankans telur þess þörf.

Frv. er í öllum meginatriðum samið með hliðsjón af gildandi lögum um Verzlunarbanka Íslands, sem eðlilegt þótti að hafa sem fyrirmynd að löggjöf um einkabanka sem þennan.

Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, að óska, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.