30.10.1961
Neðri deild: 9. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1392 í B-deild Alþingistíðinda. (1147)

35. mál, atvinnubótasjóður

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Forseti. Á nokkrum undanförnum þingum hafa verið lögð fram á Alþingi ýmis frv. um ráðstafanir til framleiðsluaukningar og jafnvægi í byggð landsins. m.a. með stofnun jafnvægissjóðs, ásamt ákvæðum um framlög í því skyni og hvernig því fé skyldi úthlutað. Þessi frv. hafa ekki náð fram að ganga, heldur hefur verið látið við það sitja að veita á hverju ári nú um alllangt árabil nokkurt fé til úthlutunar í þessu skyni til atvinnuaukningar víðs vegar um landið. En á síðasta Alþingi var samþ. ályktun, þar sem skorað var á ríkisstj. að undirbúa og leggja fyrir næsta Alþ. frv. til ráðstafana í þessu sambandi, og það er þetta frv., sem ég hef hér leyft mér að bera fram um atvinnubótasjóð. Nöfnin á frv., sem borin hafa verið fram áður, hafa að vísu verið ýmis, en hvort sjóðurinn heitir eitt eða annað. er ekki neitt aðalatriði, heldur hitt, hvað út úr þessu kann að koma til ráðstöfunar fyrir atvinnuvegina víðs vegar í kringum land og til uppbyggingar atvinnu, þar sem þörf er fyrir atvinnu, meiri en til er á staðnum. Framlögin, sem veitt hafa verið á undanförnum árum í þessu skyni, hafa verið þó nokkur, því að á árunum frá 1951 til 1961, að báðum árum meðtöldum, hafa verið veittar í þessu skyni rúmar 100 millj. kr., eða nánar tiltekið 101 761 883 kr.

Með þessu frv. er gert ráð fyrir, að stofnaður verði sjóður, sem hafi tvenns konar hlutverki að gegna: Í fyrsta lagi að veita lán eða styrki til þess að auka atvinnu og framleiðslu á þeim stöðum í landinu, þar sem þörfin er brýnust, m.ö.o. að bæta úr atvinnuþörf, þar sem atvinna telst of lítil. Og í öðru lagi að veita lán til þess að stuðla að hagnýtingu góðra framleiðsluskilyrða í landinu yfirleitt, hvort sem ástandið á þeim stað beinlínis kallar á aðstoð vegna atvinnuleysis eða ekki. Þessi sjóður er ákveðinn með l. að eiga að vera 100 millj. kr., sem greiðist með jöfnum greiðslum á næstu 10 árum, og verði veitt til þess fé á fjárlögum. Síðan er gert ráð fyrir, að stjórn sjóðsins verði kosin á Alþingi með hlutfallskosningu, 5 menn, sem starfi hvert kjörtímabil, og jafnmargir varamenn. Að undanförnu hefur það verið svo, að það hefur verið kosin á hverju þingi nefnd til að annast um úthlutun þess fjár, sem veitt hefur verið, en hins vegar ekki, að því er ég tel, verið fylgzt eins með og skyldi að sjá um, hvernig þetta fé væri aftur innheimt, Það sem lánað hefur verið, því að nokkur hluti hefur verið veittur sem lán, — yfirgnæfandi meiri hluti hefur verið veittur sem lán, — þó að nokkuð hafi verið veitt sem styrkur. En með því að hafa fasta stjórn, sem starfi hvert kjörtímabil, á meðan það Alþingi situr, sem kaus hana, þá ætti að vera hægt að gera ráð fyrir því, að öll stjórn þessara mála kæmist í fastari og betri skorður en nú er. Þessi stjórn sjóðsins tekur svo ákvarðanir um lán og styrki, sem veitt eru úr sjóðnum, og annast um hans fjárreiður, bæði úthlutun lána og styrkja og líka um samningagerðir og greiðslutíma lánanna, innheimtu þeirra og fleira. Auk þessara 10 millj. kr. á ári er gert ráð fyrir því, að sjóðnum verði fengnar þær upphæðir, sem veittar hafa verið til atvinnuaukningar á undanförnum árum, þ.e.a.s. það, sem ekki hefur verið veitt sem styrkur, og það, sem ekki kann þegar að hafa verið greitt, m.ö.o. eftirstöðvarnar af þeim lánum, sem veitt hafa verið á undanförnum árum í þessu skyni.

Síðan eru í frv. nokkur ákvæði teknísks eðlis, hvaða upplýsingar þurfi að liggja fyrir, þegar lán er veitt, ákvæði um vexti og annað þess háttar. Það er gert ráð fyrir því í 9. gr., að atvinnubótasjóður skuli vera í vörzlu Framkvæmdabanka Íslands, sem annast bókhald sjóðsins og daglega afgreiðslu, og út af fyrir sig er það eðlilegt, að varzla sjóðsins verði í höndum einhverrar bankastofnunar. Ég tel ófullnægjandi, eins og verið hefur, að það sé gert í félmrn., og mætti ná betri og fastari árangri, ef það væri fengið banka í hendur. Hins vegar skal ég taka hér fram, að það getur orkað tvímælis og kannske mjög tvímælis, hvort það sé rétt að fela þetta Framkvæmdabanka Íslands, og vildi ég áskilja mér rétt til þess að koma fram með breytingu um það síðar, ef heppilegra þætti að fela vörzlu sjóðsins annarri stofnun. Í Framkvæmdabankanum er ekki sams konar dagleg afgreiðsla og í viðskiptabönkunum, og þess vegna gæti komið til mála að fela þeim vörzlu sjóðsins eins og Framkvæmdabankanum.

Ég tel, að það þurfi svo ekki að ræða málið af minni hálfu öllu frekar. Ég leyfi mér að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjhn.