01.03.1962
Neðri deild: 57. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1411 í B-deild Alþingistíðinda. (1155)

35. mál, atvinnubótasjóður

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hef ásamt öðrum nefndarmönnum í fjhn. skrifað undir nál. á þskj. 320, þar sem mælt er með því, að frv. þetta verði samþ. En eins og tekið er fram í nál., hef ég talið rétt, að Það kæmi enn skýrar fram í sjálfu frv. en nú er, hver megintilgangur laganna er, og enn fremur tel ég nauðsynlegt að hækka hið árlega framlag til sjóðsins. Flyt ég brtt. um þessi atriði á þskj. 328.

Um mörg undanfarin ár hefur ríkið lagt fram svonefnt atvinnuaukningarfé til eflingar atvinnulífi, þar sem þörfin var brýnust. Aðallega hefur þetta fé verið lagt fram sem lán út á síðari veðrétt í skipum, fiskvinnslustöðvum og öðrum atvinnutækjum. Það hefur verið þannig, að uppbyggingarþörfin í einstökum byggðartögum, einkum sjávarþorpum, hefur verið miklu meiri en getan til að standa straum af framkvæmdunum. Því hefur þótt óhjákvæmilegt, að það opinbera veitti aðstoð með þessum hætti, og hefur verið gert.

Í grg., sem frv. fylgir, er birt yfirlit um það, hvað ríkið hefur lagt fram mikið fé til atvinnuaukningar á árunum 1951–1961, að báðum meðtöldum. Í þeirri skýrslu sést, að mest var þetta framlag árið 1957. Þá var það nokkuð yfir 15 millj. kr. Næstu þrjú árin var það 131/2 millj. og 14 rúmlega, en 1961 var þetta fært niður í rösklega 10 millj., og á fjárlögum ársins, sem nú er að líða, mun vera gert ráð fyrir 10 millj. kr. framlagi í þessu skyni.

Það er enginn vafi á því, að það hefur orðið mjög mikið gagn að þessum framlögum frá því opinbera. Þau hafa átt mikinn þátt í því að auka framleiðslu og tryggja áframhaldandi atvinnurekstur í byggðarlögum, sem að öðrum kosti var hætta á að legðist niður. En á það er að líta, að síðustu árin hefur framkvæmdakostnaður allur hækkað ákaflega mikið. Eins og ég gat um áðan og fram kemur í grg. með frv., voru lagðar fram rúmar 15 millj. kr. til atvinnuaukningar árið 1957. Hækkun á framkvæmdakostnaði hefur orðið svo mikil síðan, að telja má, að ekki mundi vera hægt að komast af með minna en 25 millj. nú til þess að kaupa fyrir jafnmikið af atvinnutækjum og hægt var að fá fyrir 15 millj. fyrir fimm árum. Ég hef því leyft mér að leggja til í brtt. á þskj. 328, að framlagið til sjóðsins verði aukið verulega. Ég geri þar tillögu um, að það verði þó ekki nema 10 millj. á þessu ári, vegna þess að sú upphæð var tekin á fjárlögin, þegar þau voru afgreidd í vetur. En síðan legg ég til, að ríkið leggi fram til sjóðsins 25 millj. ár hvert, næstu 9 ár Þar á eftir. Yrði þetta samþykkt, mundi framlagið úr ríkissjóði á næstu tíu árum verða samtals 235 millj. í staðinn fyrir 100 millj., sem lagt er til í frv.

Aðalverkefni Þessa sjóðs á að vera það, að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, og þetta tel ég að þurfi að koma skýrt fram í lögunum. Brtt. þær, sem ég flyt um breytingu á nafni sjóðsins, eru í samræmi við þessa skoðun. Þetta á að vera höfuðhlutverk sjóðsins. Ef fyrir kemur atvinnuleysi vissa tíma á fjölbyggðum stöðum, þar sem annars er mikill atvinnurekstur og mikið af atvinnutækjum, þá er það vandamál að sjálfsögðu, sem þarf að leysa, en það á ekki að vera verkefni þessa sjóðs. Hann á fyrst og fremst að gegna öðru hlutverki. Og benda má á það, eins og reyndar var gert af hv. frsm. fjhn., að þessi skoðun kemur glöggt fram í þeirri þáltill., sem samþykkt var á síðasta þingi, því að í henni segir, að ráðstafanir eigi að gera til framleiðsluaukningar og jafnvægis í byggð landsins, m.a. með stofnun jafnvægissjóðs, ásamt ákvæði um framlög í því skyni og úthlutun þess fjár, og í ályktuninni er sagt, að tilgangur þessarar löggjafar skuli fyrst og fremst vera sá að stuðla að jafnvægi í byggð landsins og hagnýtingu góðra framleiðsluskilyrða í landinu. Þessu var lýst af hv. frsm., og ég heyrði það á hans ræóu, enda var það kunnugt áður, að honum er það mjög ljóst, hver aðaltilgangurinn á að vera með Þessum lögum, sem hér er stofnað til. Ég hef þó, eins og áður segir, viljað gera þetta enn ákveðnara í lögunum, m.a. með því að breyta nafninu á sjóðnum, að í stað þess að nefna hann atvinnubótasjóð, þá verði hann nefndur jafnvægis- og framleiðsluaukningarsjóður. Þetta tel ég í fullu samræmi við þann vilja Alþ., sem kom fram á síðasta þingi, þegar samþykkt var ályktun um að undirbúa þessa löggjöf.