01.03.1962
Neðri deild: 57. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1413 í B-deild Alþingistíðinda. (1156)

35. mál, atvinnubótasjóður

Gísli Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég man nú ekki með vissu, hvenær það frv., sem hér liggur fyrir, var til 1. umr. í hv. deild, en það er orðið langt síðan. Það er nú upplýst hér af hv. 1. þm. Norðurl. v., að það hafi verið í október, sem málið var til 1. umr. Síðan þá hefur þingnefnd, hv. fjhn. þessarar d., haft frv. til meðferðar. Og ég er ekki að átelja það, þó að n. hafi ekki afgr. frv. fyrr, síður en svo, því að það, sem mestu máli skiptir í því sambandi, er ekki það, hve langan tíma meðferð máls í n. tekur, ef hann verður ekki svo langur, að afgreiðsla reynist ekki möguleg á því þingi, sem um er að ræða, heldur hitt, hvaða starf n. leysir af hendi og hvað hún leggur til.

Ég talaði nokkur orð við 1. umr. þessa máls og skal ekki endurtaka það nú, sem ég sagði þá. Ég mælti þau orð, sem ég mælti þá, í þeirri von, að n. tæki til athugunar það, sem þar kom fram. En ég verð nú að segja það, að ég hefði kosið, að af starfi nefndarinnar hefði orðið, ef ég svo mætti orða það, meiri árangur en sá, sem fram kemur í því stutta nál. á Þskj. 320 og brtt., sem þar er prentuð. En ég vil þó taka undir það, að sú brtt., sem frá nefndinni kemur, er mjög til bóta og ég mun að sjálfsögðu greiða atkv. með henni. Meiri umbætur á frv. felast þó í þeirri breyt., sem einn nm., hv. 1. þm. Norðurl. v., hefur flutt á þskj. 328 og hann nú hefur gert grein fyrir. Það er sérstaklega tillaga hans um hækkun framlagsins úr ríkissjóði, sem mundi gera það að verkum, ef samþykkt yrði, að málið breytti mjög um svip frá því, sem það er nú.

Ég hef leyft mér að flytja brtt. við frv. á þskj. 327. Sú brtt. er við 1. gr. frv. í þeirri gr. segir svo, að hlutverk sjóðsins, sem frv. fjallar um, skuli vera að veita lán til þess að stuðla að hagnýtingu góðra framleiðsluskilyrða í landinu. Þetta er í b-lið gr. til viðbótar því, sem áður er sagt í a-lið. Ég hef leyft mér að leggja til, að aftan við þennan lið komið „og Þá fyrst og fremst í þeim landshlutum, þar sem íbúum hefur fækkað undanfarið eða íbúafjölgun verið minni en sem svarar íbúafjölgun landsins í heild.“ Ef þessi brtt. mín væri samþ., mundi þessi tölul. hljóða svo: „Að veita lán til þess að stuðla að hagnýtingu góðra framleiðsluskilyrða í landinu, og þá fyrst og fremst í þeim landshlutum, þar sem íbúum hefur fækkað undanfarið eða íbúafjölgun verið minni en sem svarar íbúafjölgun landsins í heild.“

Ég vil nú leyfa mér að skýra nokkru nánar, við hvað hér er átt og hvað í þessari brtt. felst. Síðustu tvo áratugina hefur íslenzka þjóðin stækkað mjög ört. Árleg fólksfjölgun í landinu hefur verið um og yfir 2% — eða meiri en í flestum öðrum þjóðlöndum, þar sem glögg manntöl liggja fyrir. En á þessum tíma hefur verið mjög mikill flutningur fólks milli landshluta. Víða hefur fólkstalan beinlínis lækkað á þessum tíma, þó að þjóðinni í heild hafi fjölgað ört, og annars staðar lækkað hlutfallslega, þ.e.a.s. fjölgunin hefur orðið minni og sums staðar miklu minni en íbúafjölgun landsins í heild. Sem dæmi um þessa hlutfallslegu fólksfækkun, sem ég nú nefndi, má t.d. nefna höfuðstað Norðurlands, Akureyri. Menn kynnu að vísu að ætla, að þar væri ekki um fækkun af neinu tagi að ræða, en vissulega er það þó svo. Þar er um hlutfallslega fólksfækkun að ræða, þrátt fyrir það að alltaf sé nokkur innflutningur í bæinn. Á Akureyri hefði fólksfjölgunin samkvæmt meðalfjölgun þjóðarinnar átt að vera a.m.k. 170 manns ár hvert nú undanfarið, þó að ekki sé gert ráð fyrir neinum innflutningi umfram útflutning úr öðrum byggðarlögum. En ég hef athugað það samkvæmt skýrslum, að meðalfólksfjölgun á Akureyri á árunum 1956–60 var ekki nema rúmlega 140 að meðaltali, þannig að þarna er — í sjálfum höfuðstað Norðurlands, sem er þó það fjölmennur sem hann er og þar sem þó sýnilega á sér stað nokkur innflutningur — um hlutfallslega fólksfækkun að ræða á þessum fimm árum, miðað við fjölgun þjóðarinnar í heild. Fjölgunin á Akureyri hefur ekki náð því, sem fjölgun þjóðarinnar nær á þessum tíma ár hvert að meðaltali. Og á ýmsum öðrum stöðum er svipaða sögu að segja, en þó miklu víðar hina söguna, að þar er beinlínis um fólksfækkun að ræða í tölum. En á litlu landssvæði hér við suðausturhorn Faxaflóa, upp frá svo sem 10–20 km beinni strandlengju, hefur íbúatalan hins vegar hækkað óðfluga á þessum tveimur áratugum. Á þessu svæði, sem hagfróðir menn eru farnir að nefna á prenti Stór-Reykjavík, voru 43 þús. manna árið 1940 samkv. manntali, en í des. 1960 88 þús. manna. Fjölgunin á 20 árum er úr 43 þús. upp í 88 þús. manna. Þetta er meira en 100% fjölgun á þessu litla svæði á 20 árum. Þá að ánægjulegt sé að sjá þær miklu framkvæmdir, sem orðið hafa á þessu litla svæði á þessum tíma, og þó að allir eigi að geta verið sammála um það að stuðla að velferð þessarar nýju borgarbyggðar, þá er samt þróun eins og þessi ekki heppileg, hvorki fyrir Stór-Reykjavík sjálfa né þjóðina í heild. Hún skapar erfið og næstum óleysanleg viðfangsefni fyrir þessa fjölmennu borgarbyggð, samfara töluverðri áhættu í atvinnumálum fólksins, sem þar á heima og þangað flyzt. Og hún veldur hnignun annarra byggða landsins, ef ekki verður hér breyting á. Það er auðveit að halda áfram að reikna þetta dæmi frá síðustu 20 árum, því að ef gert er ráð fyrir sömu þróun, t.d. næstu 20 eða tvisvar sinnum 20 ár, ef á hverjum tveimur áratugum verður rúmlega 100% fjölgun, þá yrðu um aldamótin, næstu aldamót, eftir 40 ár, a.m.k. 360 þús. manna í Stór-Reykjavík, en í öllum öðrum byggðum landsins samtals 30 þús. manna, miðað við ca. 2% árlega þjóðarfjölgun. Í öllum öðrum hlutum landsins yrðu ca. 30 þús. manna og þar af væntanlega bróðurparturinn hérna sunnar á Reykjanesi, í verstöðvunum þar, og norðan við flóann, þar sem nú er blómleg byggð. Ég veit ekki, hvort menn almennt hugleiða þessa þróun. Þetta er að vísu ekki nákvæmt reiknað, en það virðist vera nærri lagi, þegar reiknað er með 2% fólksfjölgun, — hún er lítils háttar meiri, — en tilfærslan, sem hér er verið að sýna, er áreiðanlega ekki minni en hér er gert ráð fyrir í útreikningnum.

Ég held nú, að hv. alþm. ættu að gefa alvarlegan gaum að þessari framtíðarmynd af byggð Íslendinga í landi sínu. Og ég held raunar, að þeir reynist ekki mjög margir, sem óska þess, að sú mynd verði að veruleika, og Reykvíkingar og nágrannar þeirra óska þess líklega ekkert frekar en aðrir. Þetta er sameiginlegt vandamál okkar allra, sem eigum þetta land og kærum okkur ekki um, að annarra þjóða menn fari að byggja það með okkur.

Spurningin er þá: Hvernig á að fara að því að sjá um, að landið haldist í byggð og þessi þróun eigi sér ekki stað, sem hefur átt sér stað undanfarandi áratugi og útlit er fyrir að eigi sér stað? Hvernig á að stuðla að því, sem kallað er jafnvægi í byggð landsins? Frumskilyrði til þess, að byggð haldist og íbúatala aukist hvar sem er á landinu, er auðvitað efling og aukning atvinnuveganna á hverjum stað, aukið fjármagn, fleiri atvinnutæki eða framkvæmdir, sem styðja atvinnulifið, meiri framleiðsla til sjávar og sveita. Þetta skildu Norðmenn, þegar þeir gerðu Norður-Noregs-áætlun sína rétt eftir 1950. Ég vék nokkuð að þeirri áætlun við 1. umr. þessa máls og skýrði hér frá ýmsum atriðum í sambandi við hana. Og þetta er hugsunin á bak við það, sem talað hefur verið um og stundum framkvæmt til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Að mínum dómi er hér um að ræða stærsta viðfangsefni þjóðarinnar um þessar mundir og á næstu áratugum. Og margt af því, sem við erum að fást við, þrátta um hér á Alþ. og á ýmsum öðrum vettvangi, eru hreinir smámunir í samanburði við þetta aðkallandi viðfangsefni, sem getur varðað tilveru þjóðarinnar og sjálfstæði. Og ei menn bera ekki gæfu til samþykkis um það, sem í þessu sambandi þarf að gera á komandi árum, þá er hér mál, sem vissulega er þess virði, að fyrir því sé barizt og menn helgi því krafta sína.

Það virðist kannske sumum álíka fjarlægt nú að tryggja eðlilegan vöxt landsbyggðarinnar, eins og það sýndist fjarlægt í lok þjóðfundarins 1851, að íslendingar fengju stjórnarskrá. Hér er líka um sjálfstæðismál að ræða, og hér má ekki liggja á liði sínu, ef duga skal. Þess vegna þykir mér, eins og ég sagði við 1. umr., og jafnvel eftir þær umbætur, sem hafa verið gerðar eða er verið að gera af hv. fjhn., þetta frv., sem hér liggur fyrir, allt of smátt í sniðum og að sumu leyti ekki rétt sniðið heldur, og veik hv. 1. þm. Norðurl. v. nokkuð að því vansniði, sem á frv. er. Skal ég ekki fara fleiri orðum um það. Það er samt fram komið nú með alllöngum aðdraganda, sem hv. frsm. lýsti m.a. í sinni ræðu áðan, en hann hefur alltaf verið áhugasamur um þessi mál, þó að hann sé nú frsm. þessa frv. Það er fram komið vegna skilnings, sem víða hefur verið fyrir hendi á kjarna málsins, en er þó, eins og einnig hefur verið áður vikið að í umr. um þetta mál, að sumu leyti afturför frá atvinnuaukningarfénu, sem úthlutað hefur verið í 10 ár og komst um skeið upp í 15 millj, kr., eins og lesa má í grg. frv. Og ég hygg einnig, að þetta frv. sé frekar en hitt afturför frá því frv., sem þeir tveir alþm., sem frsm. nefndi áðan, sömdu árið 1956, ef vel er að gáð. Ég hygg, að þetta frv. sé afturför frá því frv., þó að síðan sé langur tími liðinn og maður skyldi ætla, að málinu hefði aukizt fylgi og þeirri hugsun, sem í því felst, hafi vaxið fiskur um hrygg á þessum tíma. En auðvitað á mergur þessa máls að vera sá að koma upp öflugri stofnun til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins með dreifingu fjármagns og áætlunargerð nokkuð hliðstætt því, sem Norðmenn hafa gert og gera enn í sínu landi. Og það má geta þess í því sambandi, að núna eftir að N.- Noregs-áætluninni svokölluðu er lokið á árinu sem leið, að ég ætla, eða í árslok 1960, ég man ekki, hvort heldur var, þá hafa þeir sett nýja löggjöf og raunar verið gerð ný áætlun um jafnvægi í byggð Noregs, sem er á breiðari grundvelli en N.- Noregs-áætlunin sjálf var. Og mér finnst, að hæstv. ríkisstj., sem hefur gert töluvert að því að fá norska menn til þess að vinna fyrir sig verk, ætti að gefa gaum að því, sem Norðmenn hafa hafzt að í þessum málum undanfarinn áratug, þeirri starfsemi, sem hófst upp úr 1950 í N.- Noregi og haldið er áfram síðan, og íhuga hvílíkt fjármagn það er, sem búið er að veita inn í N.- Noreg samkv. þessari áætlun. N.- Noregur er landssvæði, sem er kannske álíka stórt og Ísland, og íbúatala þar er að vísu hærri en á Íslandi, en þó hins vegar ekki hærri en svo, að það eru mjög sambærileg þau viðfangsefni, sem þar er um að ræða og hér, og þær fjárupphæðir, sem þar hafa verið veittar í jafnvægi í byggð landsins, og þær fjárupphæðir, sem talað er um að veita samkv. þessu frv. En hvað sem því líður, hvað sem aðrar þjóðir gera, þá á okkur að geta verið ljóst okkar eigið viðfangsefni. Og til þess að eitthvað miði áfram í þessa átt, þarf þetta ríkisframlag samkv. frv. áreiðanlega mjög að hækka, og ég held, að hv. 1. þm. Norðurl. v. hafi farið tiltölulega hóflega í sinni brtt. um það efni. B-lið 1. gr. vil ég láta breyta, eins og lagt er til í brtt., sem ég hef áður nefnt, á þskj. 327. Mér finnst, að hér eigi að koma hreint fram og ekki vera með óþarflega loðið orðalag, — koma hreint fram, þannig að það a.m.k. gleymist ekki, að hér sé um jafnvægissjóð að ræða. Það mundu menn a.m.k. í fyrra, þegar þáltill. var afgr., að þetta átti að vera jafnvægissjóður, og þess vegna er eðlilegt, að liðurinn sé svona orðaður, að sjóðurinn eigi að veita lán til að stuðla að hagnýtingu góðra framleiðsluskilyrða í landinu, sérstaklega eða fyrst og fremst í þeim landshlutum, þar sem íbúum hefur fækkað undanfarið eða íbúafjölgun verið minni en sem svarar íbúafjölgun landsins í heild, eins og ég hef leyft mér að orða það atriði. Annaðhvort vilja menn eða vilja ekki nota þessa fyrirhuguðu stofnun til þess að reyna að leysa úr þeim vanda, sem hér hefur verið gerður að umtalsefni. Og menn mega ekki gleyma því í þessu sambandi, að til eru aðrar lánsstofnanir, sem halda áfram að gegna sínu hlutverki, og hugsanlegt, að þær geti gert það í ríkara mæli en nú er. Hvers vegna þá að vera að gefa það í skyn, að þessi stofnun, sem á að vera stofnuð sérstaklega til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, eigi e.t.v. að hafa eitthvert annað hlutverk líka? Hvers vegna endilega að seilast eftir lambi hins fátæka manns í þessu efni? Eða dettur mönnum í hug að nota líka þetta fé, ef svo ber undir, til þess að hjálpa til að efla þá fólksflutninga enn og þá háskalegu þróun, sem ég hef nefnt, og þá landeyðingu, sem virðist vofa yfir eftir nokkra áratugi, ef svo heldur fram sem horfir? Ég vona, að svo sé ekki. Hér er í b-lið 1. gr. frv. talað um hagnýtingu góðra framleiðsluskilyrða — að veita lán til að stuðla að hagnýtingu góðra framleiðsluskilyrða í landinu. En um allt Ísland, a.m.k. hinn byggða hluta þess, eru góð framleiðsluskilyrði frá náttúrunnar hendi, í hverri sýslu og í hverri höfn, framleiðsluskilyrði á ýmsum sviðum, sum að einhverju leyti notuð, sum, sem aldrei hafa verið notuð, framleiðsluskilyrði, sem á þessari miklu tækniöld þættu góð í hverju því landi, sem ekki telst vanþróað. Það er fólksins, sem landið byggir, eða samfélagsins að nota þessi skilyrði eins og þjóð, sem vill eiga land sitt og helga sér eignarréttinn með byggð, en ekki eins og farandþjóð, sem safnast saman í einn tjaldstað og fer þaðan til fanga, — nota þau, þessi framleiðsluskilyrði, þar sem þau eru, og tengja örlög sín við landið, sem skóp hana. Það er sitt hvað, þó að íslendingar vilji eiga myndarlega höfuðborg sem hæfilega miðstöð nýmenningar og gróandi þjóðlífs, og það viljum við öll, eða gera Ísland að borgríki á einu útnesi, svo að notað sé orðalag Landnámabókar. Slíkt ríki fær ekki staðizt fremur en önnur af því tagi fyrr á tímum, og þarf ekki um það að fjölyrða.

Ég hef nú gert nokkra grein fyrir brtt. minni á þskj. 327 og hvers vegna hún er orðuð eins og hún er orðuð.

Nú vék hv. frsm. n. að því áðan í framsöguræðu sinni, að hann teldi eðlilegt eða gerði frekar ráð fyrir, að brtt. yrðu teknar aftur við þessa umr., enda sagði hann, að n. þyrfti að halda fund til að ganga frá ákvæði, sem vantaði í frv. Ég vil mjög gjarnan verða við þessu og taka mína brtt. aftur við þessa umr., þannig að hún komi ekki til meðferðar fyrr en við 3. umr., og vil ég þá mega vænta þess, að hv. fjhn. taki hana til athugunar, þegar hún fjallar um málið.