01.03.1962
Neðri deild: 57. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1417 í B-deild Alþingistíðinda. (1157)

35. mál, atvinnubótasjóður

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ef allur þingheimur hefði haft sama skilning á þessu vandamáli þjóðarinnar allt frá 1956 til þessa dags eins og hv. 3. þm. Norðurl. e., þá væri þessum sjóði löngu komið á. 1956 þótti sumum hv. þm. hér vera farið mjög smátt af stað, þar sem ekki ætti að leggja nema 5 millj. kr. í sjóðinn á hverju ári, eins og þá var tiltekið. En þótt ekki hefði verið farið lengra en það þá, ætti þó sjóðurinn að stofnfé 50 millj. á s.l. 10 árum, auk þess sem alltaf hefði verið tækifæri til þess að auka framlög hans, þegar hann tók til starfa og þegar hann færi að sýna fram á í raunveruleikanum, að skoðanir hv. 3. þm. Norðurl, e. og þeirra, sem eiga samleið með honum í því máli, hefðu átt að vera virtar meira en Alþ. hefur gert. Þá hefði kannske verið auðveldara nú að fá stærri fúlgur til sjóðsins. Þetta sjónarmið vakir fyrir mér enn í dag. Ég tel það höfuðatriði, að sjóðnum sé komið á fót. Ég tel, að það sé ekki æskilegt, að því fé, sem varið er til atvinnubóta nú á hverju ári, sé varið á þann hátt, sem gert hefur verið, og ég tel ekki æskilegt, að sá hugsunarháttur skapist í sambandi við þessar fjárveitingar, sem ég gat um í minni framsöguræðu, þ.e. að þetta væri fé, sem ekki ætti að greiðast aftur. Ég tel því, að það sé nauðsynlegt að koma á sérstakri löggjöf um sjóðinn, svo að hann geti sinnt þeim verkefnum, sem bæði ég og hv. 3. þm. Norðurl. e. höfum svo mjög barizt fyrir öll þessi ár. Mér er því aukaatriði bæði nafn sjóðsins og eins hitt, hversu nákvæmlega er farið út í að skilgreina hinar einstöku greinar. Ég met það ekki eins mikils og hitt, að koma málinu í höfn, og harma, ef þessar umr. um frv. eða brtt., sem fram eru bornar, gætu orðið að einhverju leyti til þess að tefja framgang málsins. En ég vil einmitt benda á, að það voru svona ágreiningsatriði, sem eyðilögðu, að frv. frá 1956 næði fram að ganga, og það einmitt á síðustu stundu. Þá voru settar inn brtt., sem að sjálfsögðu hafa átt mikinn rétt á sér, — það er síður en svo, að ég sé að neita því, — en það varð til þess, að málið náði ekki fram að ganga á því þingi, þar sem þær komu ekki fram fyrr en í þinglok. Hafa þær till. einnig orðið til þess, að menn hafa ekki komið sér saman um að koma löggjöf á um þetta atriði, svo nauðsynlegt sem það þó er.

Nú hefur orðið um það samkomulag að setja um þetta lög á þann hátt, sem sett er fram í frv., sem hér liggur fyrir, og gera á því þær breytingar, sem nefndin leggur til. Og þó að engar aðrar breytingar verði gerðar á frv., þá æski ég þess miklu frekar, að það þannig verði að lögum, heldur en dagi uppi. Og það veit ég, að hv. 3. þm. Norðurl. e. vill einnig, þó að hann hins vegar óski frekar eftir því, að gerðar séu hér á þær breyt., sem hann hefur borið fram. Ég vildi því óska þess, að þessari umr. yrði nú ekki frestað, en brtt. teknar aftur til 3. umr. Ég geri ráð fyrir, að hv. 3. þm. Norðurl. e. sé því samþykkur. Skal ég sjá um, að till. verði ræddar í n. Hvaða afstöðu nefndin tekur til þeirra, get ég að sjálfsögðu ekkert fullyrt um. Hv. 1. þm. Norðurl. e. á sæti í n. og ég geri ráð fyrir, að hann sé ekkert á móti því að taka sína till. aftur til 3. umr. Hann hafði ekki borið fram till. í n., svo að ég geri ráð fyrir, að hann fallist á að taka hana aftur til 3. umr. og að það þurfi ekki að lengja umr. af þeim ástæðum.

Ég vil aðeins nota tækifærið til þess að leiðrétta nokkuð það, sem hefur komið fram hér í umr. í sambandi við hið raunverulega fjárframlag, sem lagt hefur verið fram til þessara mála á s.l. 10 árum. Það er rétt, sem stendur í grg. frv., eins og bæði ég og aðrir hafa minnzt á, að það hafa verið lagðar fram rúmar 100 millj. á þessum árum alls. En raunverulega hefur verið lagt meira til þessara mála, því að á fjárlögunum 1960 var tekinn upp nýr liður, 4 millj. kr. aukaframlag til vegaframkvæmda, sem úthlutað var einnig af þessari sömu n. og beinlínis var gert til þess að mæta óskum og ákvæðum, sem að nokkru leyti voru í frv. frá 1956, því að þar var ákveðið, að einnig mætti veita fé úr þessum sjóði til þess að koma á betri samgöngum við þau héruð úti á landinu, sem erfiðast ættu um samgöngur og vitað var að mundu verða mjög aftur úr í framleiðslu og jafnvel hætta framleiðslu, ef ekki væri hægt að koma til þeirra a.m.k. slíkum vegum, að þangað væri hægt að flytja jarðræktaráhöld og koma þangað jeppabifreiðum, svo að þessar 4 millj. kr., sem hafa verið látnar til þessara framkvæmda árin 1960 og 1961, eiga raunverulega að teljast sem framlag í þennan flokk, vegna þess að þær sinna sama verkefni. Að vísu var þessu fé ekki varið að fullu á þennan hátt á fyrsta árinu, 1960, þar sem meginhlutinn af fénu var tekinn í framkvæmdir á aðalþjóðvegum. Aftur var þessu breytt árið 1961 og því þá miklu meira varið, eins og hugsað var á sínum tíma, til framkvæmda og til atvinnubóta í byggð landsins. Á árinu 1962 var hins vegar þessi liður tekinn í burtu úr atvinnuaukningarfénu og látinn beint inn í vegaframkvæmdirnar og þó gert ráð fyrir því a.m.k. í umr., bæði hér á Alþingi og eins við vegamálastjóra, að þetta fé skyldi sinna þessum sömu verkefnum. Var upphæðin beinlínis hækkuð um 4 millj. kr. af þessum ástæðum, en auk þess látin 1.4 millj. á yfirstandandi ári til þess að leysa sérstök vandræði um samgöngur við þá staði í landinu, sem eiga langmesta erfiðleika við að búa. Skyldi þetta fé jafnt notað til vega- og brúagerðar, þar sem nauðsyn bar til, svo að menn þyrftu ekki að hverfa frá framleiðslu þar beinlínis vegna þessara erfiðleika. Mér þykir rétt að láta þetta koma fram. Hefur þá raunverulega verið varið til þessara mála rúmlega 100 millj. kr., svo sem kemur fram í skýrslunni. Hins vegar geri ég ekki ráð fyrir því og alls ekki að frv. óbreyttu, að það fé sé endurkræft í sjóðinn eins og sú upphæð, sem um er rætt í grg. frv. En mér þótti hins vegar rétt að láta þetta koma fram í umræðunum.