13.10.1961
Efri deild: 3. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í B-deild Alþingistíðinda. (116)

4. mál, skráning skipa og aukatekjur ríkissjóðs

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þær aths., sem hv. þm. kom fram með, eru að sjálfsögðu réttar að því er snertir skatta, tolla og slík gjöld til ríkissjóðs, þá sé eðlilegast og í mestu samræmi við okkar stjórnarskrá og stjórnskipun, að slíkt sé ákveðið í lögum. Varðandi þau gjöld, sem hér er um að ræða, gegnir hins vegar nokkuð öðru máli, þar sem hér er um að ræða gjöld eða greiðslu fyrir tiltekna þjónustu, eins og útgáfu mælibréfa, afrit af ýmsum skjölum o.s.frv., svo að að því leyti virðast mér athugasemdir hans, sem að sjálfsögðu eiga rétt á sér um skatta til ríkissjóðs, eiga ekki alls kostar við um þessi gjöld.