08.03.1962
Neðri deild: 61. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1420 í B-deild Alþingistíðinda. (1161)

35. mál, atvinnubótasjóður

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur rætt þetta frv., síðan það var hér til umræðu síðast, athugað frv., eins og það er á þskj. 336 eftir 2. umr. í þessari hv. deild, svo og þær brtt., sem fram hafa komið, bæði á þskj. 328 og 327.

Eins og b-liður 6. gr. er nú á þskj. 336, gerir hann ráð fyrir því, að sjóðsstjórnin verði að leita umsagnar sveitarstjórnar um umsóknina og umsagnar Fiskifélags Íslands, Búnaðarfélags Íslands, Iðnaðarmálastofnunar Íslands, eftir því sem við á, ef sótt er um lán samkv. 1. gr. b. Þegar fjhn. fór að athuga þetta ákvæði, þótti henni eðlilegra að leggja ekki þessa kvöð á umsækjanda yfirleitt. Hann hefur að mörgu leyti engan veginn létta aðstöðu til þess að geta aflað sér þessara upplýsinga. Og ef þess utan umsókn hans af einhverjum öðrum ástæðum er ekki tekin til greina, t.d. ef fé væri ekki fyrir hendi í sjóðnum eða önnur verkefni yrðu látin ganga fyrir, þá þykir óeðlilegt að vera að láta viðkomandi hafa af því bæði ónæði og fyrirhöfn að afla slíkra upplýsinga. Fjhn. leggur því til á þskj. 349, að b-liður 6. gr. orðist þannig: „Vottorð vinnumiðlunar (sveitarstjórnar) um atvinnuástand í sveitarfélagi, þar sem umsækjandi hyggst reka starfsemi þá, sem styrks eða láns er óskað til. Það er með öðrum orðum, að hér er aðeins miðað við það, að umsækjandi láti fylgja umsögn frá sveitarfélaginu, þar sem hann hugsar að veita því fé til atvinnuuppbyggingar, sem hann sækir um, og c-liður og d-liður séu felldir saman í einn lið og hann komi til með að hljóða þannig: „Þegar sjóðsstjórninni þykir ástæða til, skal hún leita umsagnar sveitarstjórnar, Fiskifélags Íslands, Búnaðarfélags Íslands eða Iðnaðarmálastofnunar Íslands, eftir því sem við á, áður en umsókn er afgreidd.“ N. var sammála um, að þetta væri eðlilegri meðferð á málinu. Hefur þetta verið borið undir hæstv. félmrh., sem hafði fallizt á, að þessi breyt. yrði gerð á frv.

Þá hefur n. einnig lagt til, að á eftir 12. gr. komi bráðabirgðaákvæði, er hljóði svo: „Við gildistöku laga þessara skal í fyrsta sinn kjósa stjórn atvinnubótasjóðs. Kjörtími hennar er þar til ný stjórn er kjörin á fyrsta þingi eftir næstu almennar alþingiskosningar.“ Er óhjákvæmilegt að hafa slíkt ákvæði, ef frv. verður lögfest nú á þessu þingi, þar sem þá er ekki ætlazt til þess, að kosning stjórnarinnar gildi nema þangað til almennar alþingiskosningar hafa farið fram, sem væntanlega verður 1963.

Það er enginn ágreiningur um þessar breyt., og vænti ég þess, að hv. deild fallist á þær.

Þá hefur n. rætt á ný brtt. frá Skúla Guðmundssyni á þskj. 328. Það er, að í stað „atvinnubótasjóðs“ komi: jafnvægis- og framleiðsluaukningarsjóður. N. sá ekki ástæðu til að vera að breyta nafni sjóðsins. Hér er um langt og heldur óþjált orðalag að ræða. Það er ekkert höfuðatriði, hvaða nafn sjóðurinn fær út af fyrir sig, og hefur þetta verið skýrt áður. Meiri hl. leggur því til, að till. undir 1. lið verði ekki samþykkt.

2. till., er við 2. gr., að a-liður orðist þannig: „Framlag úr ríkissjóði að fjárhæð 10 millj. kr. árið 1962 og síðan 25 millj. kr. árlega í næstu 9 ár þar á eftir.“ Þetta atriði hefur n. einnig tekið til athugunar, og getur meiri hl. ekki fallizt á þessa breyt. Það verður að sjálfsögðu samin ákveðin reglugerð af stjórn sjóðsins og ráðherra, hvernig haga skuli vinnubrögðum í sambandi við þetta mál, þegar það hefur verið lögfest. Það verður sjálfsagt fyrsta verkefni þeirrar sjóðsstjórnar að taka til athugunar skipulagðar umbætur eftir ákvörðun frv. Nefndinni er í dag alveg óljóst, hvað slíkar framkvæmdir kynnu að hafa mikið fjárframlag í för með sér. Það kynni líka að vera meira eitt árið en annað, og það er engin ástæða til í dag endilega að binda þessa fjárupphæð við 25 millj. Það fer að sjálfsögðu mikið eftir getu ríkissjóðs annars vegar og þeirri þörf, sem Alþ. á hverjum tíma er sammála um að sé í þessum málum, og sér því meiri hl. n. ekki ástæðu til að breyta þessum a-lið frv. í þetta skipti. Það er sjálfsagt ágætt, ef hægt væri í framtíðinni að auka tekjur sjóðsins verulega, en ég vil í sambandi við þetta einnig benda á, að ef tekst að semja um það fé, sem sjóðurinn á að fá sem stofnfé, bæði um endurgreiðslu á því og vexti, þar til það hefur verið greitt að fullu, þá verður þar einnig um verulegar tekjur að ræða fyrir sjóðinn. Allt er þetta enn í óvissu, og er því ekki ástæða til að raska þessu við afgreiðslu málsins hér á þessu þingi.

Aðrar till., undir 3., 4. og 5. lið, eru leiðréttingar á frv. miðað við, að fyrri till., undir 1. og 2, lið, yrðu samþykktar, og þarf ekki að ræða það nánar.

Þá hefur n. einnig athugað till. frá Gísla Guðmundssyni á þskj. 327 við 1. gr. Það er, að aftan við b-lið gr. komi: „Og þá fyrst og fremst í þeim landshlutum, þar sem íbúum hefur fækkað undanfarið eða íbúafjölgun verið minni en sem svarar íbúafjölgun landsins í heild.“ En b-liður er nú í frv. á þskj. 336 svohljóðandi: „Að veita lán til þess að stuðla að hagnýtingu góðra framleiðsluskilyrða í landinu.“

Ef þessi brtt. yrði samþykkt, ætti fyrst og fremst að snúa sér að því að veita lán til þess að stuðla að hagnýtingu góðra framleiðsluskilyrða í landinu og þá alveg sérstaklega á þeim stöðum, sem um er getið í till. á þskj. 327. Nú kynni þannig að fara, að töluverð þörf væri á að stuðla að slíkri hagnýtingu í öðrum héruðum í þéttbýli og fyrir hendi væri ekki sama verkefni á þeim stöðum, sem till. getur um, og þá væri, eftir að till. væri samþykkt, ekki heimilt að sinna þeim verkefnum, jafnvel þó að ekkert slíkt verkefni væri fyrir hendi á þeim stöðum, sem till. gerir ráð fyrir. Ég skal í þessu sambandi leyfa mér að benda á eitt dæmi, sem mér er kunnugt um.

Fyrir nokkru var gerð tilraun til þess að útbúa sjálfvirk löndunartæki úr togara til þess sumpart að flýta fyrir löndun og sumpart til þess að spara vinnuafl, einkum og sér í lagi þar sem svo stóð á, að erfitt var að fá vinnuafl til þessara starfa og togararnir urðu að bíða hér stundum tímum og dögum saman til þess að fá fólk. Engir þeir sjóðir, sem fyrir voru, töldu sér skylt að lána fé til þess að gera þessa tilraun. En ef þetta frv. hefði þá verið samþykkt eða orðið að lögum, þá er sýnilegt, að þessum sjóði bar að styrkja þá tilraun, sem þar var gerð, og ef hún hefði tekizt, þá er áreiðanlega uppfyllt það skilyrði, sem hér er rætt um. Þá var stuðlað að góðri hagnýtingu og betri framleiðsluskilyrðum í landinu. Þá hefðu togararnir getað stytt legutíma sinn hér í höfnum, og þá hefði einnig orðið e.t.v. miklu ódýrara að landa fiskinum heldur en landa honum á annan hátt. Þessi áhöld voru reynd, m.a. á Ísafirði, og reyndust ágætlega og leystu á þeim tíma þann vanda, sem steðjaði þar að útgerðinni, og alveg sérstaklega þann vanda að geta ekki fengið fólk til þess að sinna þessum störfum. Ég teldi, að ef þessi till. væri samþykkt. eins og hún liggur hér fyrir, þá væri mjög vafasamt, hvort það mætti raunverulega veita fé til slíkra umbóta, ef það væri ekki á stöðum. sem uppfylltu þau skilyrði, sem till. gerði ráð fyrir. M.a. af þeim ástæðum vill meiri hl. n. ekki leggja til, að till. verði samþykkt.

Í þáltill., sem samþ. var á Alþ. 29. marz 1961, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Skal tilgangur þessarar löggjafar fyrst og fremst vera sá að stuðla að jafnvægi í byggð landsins og að hagnýtingu góðra framleiðsluskilyrða í landinu.“

Einn hv. nm., hv. 1. þm. Norðurl. v., hefur bent á, að það hefði verið eðlilegra að taka þetta upp í frv. og láta því a-lið 1. gr. hljóða meira í samræmi við þáltill., eða m.ö.o. að færa orðin „og jafnvægi í byggð landsins“ fram fyrir „að auka atvinnu“. Þetta telur meiri hl. vera algert aukaatriði. Það er vitað, að bessi sjóður á fyrst og fremst að vinna að því að viðhalda jafnvægi í byggð landsins, auka þar atvinnu, sem mest er þörf. Ég sé því ekki ástæðu til þess að breyta um orðalag af þeim ástæðum frá því, sem er á þskj. 336.

Það hefur einnig verið minnzt á, hvort ekki væri hægt að taka það fé, sem hér væri fyrir hendi, og nota það, ef almennt atvinnuleysi væri á einhverjum stöðum. í því sambandi vil ég taka fram, að það er skoðun fjhn., að þetta fé eigi ekki undir neinum kringumstæðum að koma í staðinn fyrir verkefni atvinnuleysissjóðs, sem á að sjálfsögðu að standa undir því, ef atvinnuleysi kemur upp í landinu. Þessum sjóði er ekki ætlað að sinna því verkefni.

Með þeim skýringum, sem ég hef gert, legg ég til fyrir hönd allrar n., að till. á þskj. 349 verði samþ. eins og þær liggja fyrir, og fyrir hönd meiri hl., að hinar tvær till. verði felldar og frv. verði þannig afgr. frá þessari hv. deild.