08.03.1962
Neðri deild: 61. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1440 í B-deild Alþingistíðinda. (1171)

35. mál, atvinnubótasjóður

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hv. 1. þm. Vestf. talaði hér áðan til þess að gera mér og öðrum skiljanlegt, af hverju gleði hans stafaði í sambandi við þetta frv. Og hann sagði: Ég er glaður yfir þessu máli með þeirri lausn, sem það á nú að fá, af því að það er verið að setja löggjöf um það. — Ég tók það fram áðan, að ég teldi það jafnvel heldur til bóta, að sett væru lög um það. En hitt skal ég líka taka skýrt fram, að ég tel það ekkert aðalatriði í sambandi við þetta mál. Það er ekkert aðalatriði, hvort fénu er úthlutað af sjóðsstjórn, eins og nú verður, eða af þingkjörinni nefnd, eins og verið hefur, né heldur hvort ákveðið verður í lögum, hvaða tekjur þetta verkefni skuli fá, ef það hefur verið ákveðið með fjárlagaákvörðun, hvaða fé væri til þess varið. Þetta eru ekki meginatriði málsins, svo að gleðin er á heldur völtum og veikum fótum, grundvöllurinn fyrir henni. En það, sem hann vildi koma að, er þetta, að ég hafi alltaf verið á móti þessu máli, móti því, að sett væri um það löggjöf. Það er mesti misskilningur. Ég var á móti frv. árið 1956 af því einu, að mér fannst upphæðin vera hjákátlega smá, til þess að hægt væri að gera sér nokkrar vonir um, að hún kæmi að gagni, eins og fólksflóttinn var þá mikið Þjóðfélagsvandamál í þremur landsfjórðungum. Það þurfti miklu meira en 5 millj. kr. á ári til þess að stöðva þann straum eða snúa honum við. Og þá fannst mér það vera allt of lítið að ætla til þess 5 millj. kr. og fannst því frv. ekki svara tilgangi sínum. Og í raun og veru er það sorgarsagan, að nú eru nefndar 10 millj., en það er að framkvæmdamætti minni upphæð en þá. Þess vegna er ekki stefnt fram á við, heldur í raun og veru aftur á bak, og allra helzt þegar til þess er horft, að í millitíðinni var búið að fá Alþ. til að fallast á að veita 13–15 millj. kr. á ári til þessa verkefnis. Þá er afturförin nú, þegar verið er að stíga það skref að binda þetta í lögum, að lögfesta þetta, þá er það enn þá augljósara, að það er verið að stefna aftur á bak, en ekki áfram. Það er verið að kippa að sér hendi, en ekki að rétta fram hönd með meiri fjárfúlgu í. Það er verið að sinna verkefninu verr en áður. Og að lögfesta slíka þróun málsins, það er mér ekkert gleðiefni.

Hv. þm. vék í leiðinni að hv. 1. þm. Austf. og sagðist þekkja hann frá þeirra fyrri samstarfsárum og hann hefði verið afskaplega fastur á fé. Og það er víst ekkert ofsagt um hann, að hann var það. Hæstv. fyrrv. fjmrh., Eysteinn Jónsson, var oft fastur á fé. En hann var þó ekki fastari á fé til þessa máls en svo, að hann gat fallizt á, að við þáverandi verðlag væru veittar til þess 15 millj. kr. En núna með þeirri verðlagsþróun, sem síðan hefur orðið, er ekki hægt að sarga út úr núv. ríkisstj. nema 10 millj., og eru það þó menn, sem eru ekki eins fastir á fé og fyrrv. fjmrh. og bruðla með ýmislegt, a.m.k. í annað, sem síður skyldi.

Það er algerlega rangt og villandi að halda því fram, að það fé, sem á undanförnum árum hefur verið klipið af atvinnubótafénu til beinna vegaframkvæmda, sum árin bara bundið við þjóðvegi, sé nokkurt atvinnubóta- eða framleiðsluaukningarfé til jafnvægis í byggð landsins. Það var búið að klípa þessar 4 millj. af atvinnubótafénu, lækka fjárveitinguna til þess verkefnis, og af því að fjárveitingar til vegamála höfðu raunverulega dregizt saman líka, þótti mikil nauðsyn á að færa þessar milljónir þangað. Það er ástæða til þess að minna á það. að eitt af því, sem komið hefur fram og bendir til þess, að ætlunin sé að veita þetta fé jafnvel í fjölbýlið, en ekki í strjálbýlið, ekki í dreifbýlið, var einmitt þetta dæmi, sem hv. 1. þm. Norðurl. v. minntist hér á að gefnu tilefni frá hv. 1. þm. Vestf., að það væri t.d. ákaflega eðlilegt og æskilegt að verja þessu fé til þess að endurbæta tæki við löndun úr togurum. Hvar fara landanir togara núna fram? Ekki á Austfjörðum. Síðan núv. hæstv. ríkisstj. tók við, eru allir togarar horfnir úr Austfirðingafjórðungi. Þar eru engar togaralandanir. Á Norðurlandi er togaraútgerð, af því að ríkið stendur undir henni á Siglufirði, og þar eru góð löndunartæki í sambandi við ríkisverksmiðjurnar. Og svo af því að Akureyrarkaupstaður er næststærsti kaupstaður landsins, þá stendur þar togaraútgerð enn. En hún er horfin af Ísafirði, hún er að hverfa af Patreksfirði, og hún er bráðum hvergi til nema í Reykjavík og Hafnarfirði. Og mér er spurn, eins og hv. 1. þm. Norðurl. v.: Er það virkilega ekki mismæli, að það sé eiginlega tilvalið að verja þessu litla fé til að bæta löndunarskilyrði í Reykjavík og Hafnarfirði? Ég trúi því ekki. Ég held, að það hljóti að vera ætlunin með þessu frv., þótt það sé hvergi nærri nógu skýrt, hvorki í heiti frv. né í greinum þess, að það eigi að verja því í dreifbýlið, strjálbýlið, þar sem fólk stendur höllum fæti, en hefur viðleitni, vakandi hug og viðleitni til þess að koma fótum undir nýjar greinar atvinnulífs, að þá eigi að veita þessa smáupphæð til hjálpar. En ég vil vona það í lengstu lög, ef ekki auðnast að fá það gert í þessari hv. d., að þá verði það gert í Ed. að knýja enn fastar á um að hækka fjárframlögin til þessa verkefnis, því að þau eru mun minni en bæði fyrr og síðar hefur verið tekið í mál að ætla til þessa verkefnis. Upphæðin má eigi vera minni, til þess að jafnast á við það, sem áður hefur verið, heldur en 25–30 millj. kr.