08.03.1962
Neðri deild: 61. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1442 í B-deild Alþingistíðinda. (1172)

35. mál, atvinnubótasjóður

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Það verður náttúrlega ekki um það deilt, að til atvinnubótasjóðs er nú samkvæmt þessu frv. varið allmiklu lægri upphæð en áður hefur verið. Þetta er staðreynd. Hins vegar hefur engin löggjöf verið til um slíkan sjóð, og það er það, sem ég tel til bóta frá því, sem áður hefur verið. Tillaga til slíkra mála, sem hér hefur verið um rætt, hefur verið ákveðið við afgreiðslu fjárlaganna ár hvert, og hefur oltið þar á ýmsu. Stundum hefur það verið kannske upp í 15 millj., önnur ár 10. Ég vil taka skýrt fram, að ég er alveg sammála því, sem hér hefur komið fram, að 25 millj. kr. nú væru sízt hærra en t.d. árið 1957, en það ár voru veittar, að mig minnir, 15 millj. kr. til atvinnuaukningar. Miðað við verðgildi peninganna þá og nú, munu 25 millj. vera sízt betri en 15 millj. þá.

Um það, hvort þörf sé fyrir slíkan atvinnubótasjóð, eru víst flestallir sammála, sem eitthvað hafa kynnt sér þessi mál. Það ástand er nú þannig, því miður, að straumurinn liggur frá vissum svæðum, bæði á Norður- og Vesturlandi og kannske frekar frá Norðurlandi, hingað suður til Faxaflóa, og aðalorsökin fyrir þessum straumi fólksins hingað suður er sú, hvað atvinnuástandið á viðkomandi stöðum er óöruggt. Á þeim stað, sem ég þekki bezt, er það svo alvarlegt, að á hverju einasta ári eru frá 12 og upp í 17–18 fjölskyldur, sem flytjast burt og hingað suður. Og þær flytjast fyrst og fremst vegna þess, að þeim finnst, sem er líka staðreynd, að atvinnuástandið sé svo óöruggt, að það sé ekki til þess að byggja á því til frambúðar. Ef hægt væri að finna einhverja örugga leið til að snúa þessari öfugþróun við, þá er það vel farið, því að það er ekkert sérstakt til að keppa að að stefna öllu fólkinu hingað til Faxaflóa. Ég vil bara benda á það í því sambandi, að ef síldin hefði ekki komið hér í haust og veitt jafnmikla atvinnu og hún veitti til kaupstaðanna og bæjanna hér við Faxaflóa, þá er ég hræddur um, að það hefði orðið þröngt fyrir dyrum hjá margri verkamannafjölskyldunni, því fór samt sem áður betur, að það var mikil síldveiði hér, og það er hún fyrst og fremst, sem bjargaði því, að hér varð ekki mjög mikið atvinnuleysi í sjávarþorpunum við Faxaflóa. En það kannske sýnir dálítið inn á það, við hvaða ástand bæirnir á Norðurlandi hafa orðið að búa undanfarin ár, sem hafa orðið að búa við það, að sá atvinnuvegur, sem þeir hafa treyst á að mestu leyti, hefur brugðizt að mjög miklu leyti í 15–20 ár. Það er þetta, sem ég held að menn ættu að hafa vel í huga, þegar verið er að ræða um þessi mál.

Ég vil svo að lokum endurtaka það, sem ég sagði áðan, að það hefði verið sízt of hátt 25 millj., miðað við þær fjárveitingar, sem hafa verið veittar til þessara mála að undanförnu. En þrátt fyrir það, þótt frv. geri ekki ráð fyrir nema 10 millj. kr., tel ég það allmiklu betra, að sett sé löggjöf um málið. Þó að sú brtt. við frv., sem hér liggur fyrir um að hækka tillagið úr 10 í 25 millj., kynni að verða felld, mun ég samt sem áður greiða frv. atkvæði, vegna þess að ég tel það til bóta, að sett sé löggjöf um málið.