16.03.1962
Efri deild: 65. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1445 í B-deild Alþingistíðinda. (1179)

35. mál, atvinnubótasjóður

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá hv. Nd., þar sem það hefur hlotið afgreiðslu. Á undanförnum þingum nokkrum hafa verið bornar fram óskir um það, að stofnað yrði til sjóðs af þessu tagi, sem frv. gerir ráð fyrir, til þess að efla atvinnu á þeim stöðum í landinu, sem við erfiða staðhætti eiga að búa og hafa orðið fyrir búsifjum af brottflutningi og atvinnusamdrætti, og enn fremur, að af þessu fé mætti líka nota upphæðir til þess að efla atvinnustarfsemi, þar sem skilyrði til atvinnurekstrar eru talin sérstaklega góð. Þetta hefur nú verið reynt að sameina í þessu frv., sem er samið í félmrn. samkv. og í beinu áframhaldi af þáltill., sem um þetta var gerð í fyrra.

Samkv. þessu frv. er gert ráð fyrir, að ríkissjóður leggi fram til atvinnubótasjóðs, sem svo er kallaður, 100 millj. kr., sem greiðist með jöfnum greiðslum á næstu 10 árum og í fyrsta sinn 1962, enn fremur, að til sjóðsins renni eftirstöðvar lána þeirra, sem veitt hafa verið til þess að bæta úr atvinnuörðugleikum í landinu samkv. 20. og 22. gr. fjárlaga, en það hefur á undanförnum árum verið að meðaltali nokkuð svipuð upphæð og hér er lagt til að greidd verði. Mér er það að vísu vel ljóst, að til þess að bæta úr öllum fjárhagserfiðleikum viðkomandi staða þyrfti miklu hærri fjárhæð en hér er um að ræða. En þó er með þessu frv. því slegið föstu, að heildarupphæðin er ákveðin þannig, að ekki er hægt frá henni að hvika, þó að einhverjum kynni að detta það í hug vegna tímabundinna erfiðleika við að útvega fé.

Um stjórn sjóðsins er lagt til, að þar sé sama skipan og hefur verið áður, þannig að allir fimm stjórnarmenn séu kosnir hlutfallskosningu af Alþingi. Þetta hefur verið gert að undanförnu og síðan, að ég ætla, 1958, en þangað til var skipting fjárins í félmrn., og kannske öllu hentara, að það séu fleiri, sem þar koma nálægt, heldur en einn maður eða eitt ráðuneyti. Síðan eru fyrirmæli um, hvernig lán eða styrkir skuli afgreiddir og hvernig umsóknum um fyrirgreiðslu úr sjóðnum skuli hagað og hverra umsagna skuli leita, áður en lán eða styrkur er veitt.

Í 8. gr. eru vextir ákveðnir, og þar er ákveðið, að útiánsvextir samkv. 1. gr. b, þ.e.a.s. vextir af lánum til að stuðla að hagnýtingu góðra framleiðsluskilyrða í landinu, séu venjulegir útlánsvextir banka og sparisjóða, en af öðrum lánum séu vextirnir 6% á ári. í 9. gr. er svo ákveðið, að atvinnubótasjóður skuli vera í vörzlu Framkvæmdabanka Íslands, en handbært fé sjóðsins skuli ávaxta í Seðlabankanum. Sannast sagna hafði þetta ákvæði farið fram hjá mér áður, en mér þykir þetta ankannalegt, að sjóðurinn skuli vera í umsjá eins banka og fé hans skuli vera ávaxtað í öðrum, og hefði ég hug á því, að hv. nefnd, sem málið fær til athugunar, vildi líta á þetta atriði sérstaklega.

Ég held svo ekki, að það sé ástæða til að hafa um þetta fleiri orð. Ég leyfi mér að leggja til, herra forseti, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. heilbr.- og félmn.