16.03.1962
Efri deild: 65. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1449 í B-deild Alþingistíðinda. (1184)

35. mál, atvinnubótasjóður

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tala langt mál um þetta frv. Það hefur komið hér fram ágreiningur milli hv. 5. þm. Austf. og hæstv. sjútvmrh. um það, hversu mikinn hluta af útgjöldum fjárl. hér sé um að ræða, sem á að veita til atvinnubótasjóðs. Ég hélt, að það þyrfti ekki að deila mikið um þetta atriði. Það fer ekki milli mála, hversu há fjárl. voru fyrir nokkrum árum og hversu há þau eru nú. Hæstv. ráðh. komst að þeirri niðurstöðu, að það, sem áður hefði hvílt á útflutningssjóði, mundi hafa numið álíka hárri upphæð og fjárl. voru þá. En ég held, að þetta hljóti að vera nokkur misskilningur. Að vísu voru Þetta nokkuð háar upphæðir. Þessum upphæðum var velt yfir á þjóðina í dýrtíð, það fer ekki á milli mála, eins og hv. 5. þm. Austf. sagði. Ég man ekki betur en það séu rétt rúmar 100 millj., sem þá hvíldu á útflutningssjóði, en ríkissjóður hefur nú tekið að sér. Og eigi að gera hér réttan samanburð, þyrfti að bæta rúmum 100 millj. við fjárlagaupphæðina, eins og hún var áður, við þessar 800 millj., og þá fæst nokkurn veginn réttmætur samanburður á fjárl. þá og nú.

Hæstv. ráðh. vildi ekki gera mikið úr því, að hér væri um lægri upphæð að ræða til atvinnubóta í landinu en áður var, og nefndi sem dæmi, að á 10 árum hefðu verið veittar um 100 millj. í þessu skyni. Það er rétt, að það hefur stundum verið meira áður en hér er lagt til, en stundum líka minna. En hann gekk alveg fram hjá verðgildi peninganna, því að það dettur mér ekki í hug, að hæstv. ráðh. telji, að það sé jafngott að fá 10 millj. núna og það var að fá þær fyrir tíu árum. Það má nærri geta, hvort þeim finnst það, sem eru nú að byggja skip eða auka útgerðina, hvort þeim þykir það ekki heldur minna að fá sömu upphæð í krónutölu nú og áður.

Nú vil ég segja hæstv. ráðh. það til hróss, að hann tók sinn þátt í því, sannarlega, að veita aðstoð ýmsum landshlutum með atvinnuaukningarfé, þegar hann var sjútvmrh. í vinstri stjórninni. Ég harma það, að nú skuli vera dregið ákaflega mikið úr þessum stuðningi. Hann var mikils virði, en hann er minna virði núna. Ef á að veita aðeins 10 millj. kr. á ári til þessara þýðingarmiklu mála, þá er það ákaflega mikil afturför. En þetta er eitt aðalatriðið í frv., hversu mikið fé á að veita í þessu skyni. Það er kunnugt, að þetta var einu sinni 13 millj., einu sinni 131/2 og þar á milli, og ef bera á það saman við verðgildi peninganna nú, þýðir það, að þetta ættu að vera 25–30 millj. til þess að standa í stað. Það þyrfti að vera þetta, en er ekki nema 10 millj.

Hæstv. ráðh. nefndi það, að það væri ætlunin að herða á innheimtunni á útistandandi afborgunum af þessum lánum. Sú skylda hefur alltaf hvílt á stjórn þessara mála að innheimta, svo að það er ekkert nýtt.

Það er áreiðanlega verulegur kostur í því að koma þessum málum í fastar skorður, eins og lagt er til með þessu frv., en höfuðatriðið er þó það, að þessi stuðningur, sem er fyrst og fremst hugsaður sem lán, geti orðið að verulegu gagni. Og eigi hann að verða að verulegu gagni, álíka miklu gagni og hliðstæður stuðningur hefur verið fyrir nokkrum árum, þá þarf að hækka þessa fjárhæð. Það er óhjákvæmilegt.

Þá verð ég að segja það, að ég kann ekki við nafnið á þessum sjóði. Atvinnubótasjóður hefur hingað til verið skilið sem sjóður, sem á að hlaupa undir bagga, þegar atvinnuleysi kemur til. Ég lít svo á, að þessi sjóður eigi fyrst op fremst að vera jafnvægissjóður, skapa jafnvægi í byggð landsins, bæta og auka lífsskilyrði í þeim landshlutum, sem verr eru settir. Og það þarf ekki um neitt atvinnuleysi að vera að ræða í þeim héruðum, þótt það sé full þörf á slíkri aðstoð, þar sem fámennið er of mikið og aðstöðuna vantar eða mannvirkin vantar. Það þarf ekki að vera neitt atvinnuleysi þar nú, þótt full þörf sé á fjárhagslegri aðstoð. Þess vegna hefði þessi sjóður frekar átt að heita jafnvægissjóður, því að honum er alls ekki ættað það hlutverk eitt að koma til skjalanna, þegar atvinnuleysi kemur til, heldur til þess að auka jafnvægi í byggð landsins, og vil ég beina þessu til hv. n., sem fær málið til athugunar.