09.04.1962
Efri deild: 82. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1452 í B-deild Alþingistíðinda. (1187)

35. mál, atvinnubótasjóður

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Hér er gott mál á ferð, sem sjálfsagt er að styðja. Allir hljóta að vera fylgjandi þessu frv., það sem það nær, og svo var það um alla, sem eiga sæti í heilbr.- og félmn. Samt finnst okkur hv. 9. þm. Reykv. rétt að leggja til, að frv. verði breytt, því að lengi má um bæta. Og þess vegna flytjum við sameiginlega tillögur á þskj. 651 um breytingar. Þær eru fimm, en efnislega þó aðeins tvær.

Þegar um það er að ræða að velja máli nafn, frv. fyrirsögn og heiti, þá skiptir vitanlega miklu máli, eins og um allar slíkar nafngjafir, að nafnið lýsi upp efni, að menn geti í nafninu fundið það, sem í frv. býr. Við teljum, flm. brtt., að það sé ekki heppilegt eða táknrænt, ekki upplýsandi um efni frv., að kalla sjóð þann, sem hér er um að ræða, atvinnubótasjóð. Orðið atvinnubætur er búið að fá á sig slitblæ. Það var mikið notað í sambandi við bætur, sem erfitt var að taka á móti fyrir þá fátæku og voru líka látnar af hendi með tregðu oft og einatt. En það, sem sérstaklega var athugavert við þetta, var það, að það, sem var goldið fyrir þessar bætur, var vinna, sem ekki var frjó. í sambandi við atvinnubætur loðir nú orðið klakahögg og þess háttar, sem gerir óbragð af orðinu. Það er sagt, að smekkur, sem kemst í ker, beri lengi keiminn, og það er svo, að það er óbragð, ókeimur af þessu orði. Og upp á síðkastið hefur verið tekið upp nýtt mál í sambandi við stuðning, sem veittur hefur verið. Það hafa verið teknar upp aðrar nafngjafir, svo sem: framleiðsluaukningarstyrkir og lán. Svo er það komið til, að það, sem áður voru atvinnubætur, voru bætur veittar einstaklingum, og hafði þá venjulega sveitarfélag forgöngu um það. En nú er um að ræða framlög frá hinu opinbera til heilla byggðarlaga og landshluta til þess, eins og kallað hefur verið, að viðhalda jafnvægi í byggð landsins.

Þegar maður les frv., þá sér maður, að tilgangur þess er einmitt að vinna fyrir jafnvægið. Tilgangur sjóðsins á að vera sá að efla jafnvægið. Og sérstaklega á hlutverk hans að vera það um leið að styðja þau byggðarlög, sem ekki hafa við til jafns við önnur að búa fólki sínu aðstöðu til atvinnu, efla þau til framleiðslu. Og þess vegna ætti, að ég tel og við flm., að vera í nafngift sjóðsins hvort tveggja, það, sem minnir á þörfina á því að vinna að jafnvægi og enn fremur framleiðsluaukningarstefnuna, en fjarlægja sem mest hugtakið klakahögg. Framleiðslan er hin rétta undirstaða allra atvinnubóta.

Hv. frsm. meiri hl. talaði um, að vel mætti nota þetta orð, atvinnubótasjóður, þó að hann viðurkenndi, að það hefði haft merkingu, sem ekki var geðfelld fyrrum. Það mætti vinna orðið upp aftur, skildist mér. En hvaða ástæða er til þess að vera að taka slík orð upp aftur. sem hafa úldnað í munni þjóðarinnar? Hvers vegna ekki að neyta þess, hvað íslenzkan er frjó orða móðir? Ég held, að okkur sé skylt að gera það, þetta er svo sjálfsagður hlutur. Og þess vegna leggjum við tillögumennirnir til, að í staðinn fyrir „atvinnubótasjóð“ komi: jafnvægis- og framleiðsluaukningarsjóður, og falli inn í frv. á þeim stöðum, sem skipta þarf um þessi orð, til að samræmi sé í.

Þessi tillaga kom fram í hv. Nd., en náði þar ekki fylgi, en það ættum við, finnst mér, ekki að setja fyrir okkur, heldur telja okkur skylt að gera betur en hv. Nd. í meðferð máls, þegar við höfum tækifæri til þess. Ég legg fyrir mitt leyti þess vegna mikla áherzlu á það, að þessar brtt. verði samþ., að því er snertir heiti sjóðsins, og ég er viss um, að það hefur sína þýðingu til þess að gera sjóðinn geðfelldan landsmönnum.

Hin efnisbreytingartill. er um, að framlag úr ríkissjóði verði ekki aðeins 10 millj. á ári hverju, eins og gert er ráð fyrir í frv., heldur eftir þetta ár 15 millj. á ári. Við lítum svo á, að ekki muni af veita. Við teljum sjálfsagt að sýna þá tillitssemi vegna fjárl. í ár að gera ekki till. um hækkun á framlaginu í ár, en hækka það svo 1963 og áfram um 9 ára bil, þannig að 15 millj. verði árstillag ríkissjóðsins. 15 millj. voru lagðar fram í þessu skyni skv. fjárl. 1957 og einnig fjárl. 1958, og vafalaust þótti þó ekki rausnin of mikil. En nú hefur peningagildið breytzt, svo að 15 millj. eru minna en þá var. En þá kemur til stuðnings það, sem hv. frsm. meiri hl. minntist á að nú hefur verið myndaður í landinu sjóður, atvinnuleysistryggingasjóður, sem vegna árferðisins safnar fé og getur lánað. En hann hefur annað verkefni en þessi sjóður. Hann hefur meira atvinnubótaverkefni, þegar vinnu skortir. Þá á hann að greiða mönnum bætur, og þess vegna er það, að á hann er ekki að treysta fullkomlega til þess að geta staðið straum af því verkefni, sem þessi sjóður á að standa straum af, enda er verkefnið svo stórt fyrir þennan sjóð, sem við höfum hér til umr., að ekki mun af veita, að hitt geti komið til hjálpar. Hef ég þá líka í huga, að atvinnubótasjóðnum, eins og hann er kallaður í frv., er ætlað að fá það fé, sem út hefur verið lánað og inn kemur. Það mun ekki heldur veita af því, af því að okkur liggur lífið á því að halda við byggð í landi okkar og þá hvort tveggja, að vinna á móti því, að byggðir fari í eyði, sem geta verið lífvænlegar, og enn fremur hinu, að fólkið safnist um of á litla bletti, svo sem eins og Reykjavíkursvæðið, því að það kemur víst öllum saman um, að það sé ekki æskilegt fyrir það svæði heldur.

Ég vona nú, að hv. Ed: menn geti fallizt á þessar till. Hækkunartill. er mjög þýðingarmikil og að mér virðist ekki nein ofrausn. Nd. felldi till. um 25 millj. framlag á ári. Hér er miklu skemmra gengið, — ég veit, að menn veita því athygli, — og svo eru hinar leiðréttingarnar á heiti sjóðsins. Þær kosta ekki neitt annað en smekk á máli.