26.02.1962
Efri deild: 52. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1465 í B-deild Alþingistíðinda. (1198)

155. mál, verkamannabústaðir

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 3. þm. Norðurl. v. fyrir þá vinsamlegu afstöðu, sem hann hefur tekið til frv. og, að mér skilst, hans flokkur. En það er vissulega rétt hjá honum, að það þarf vel að ýmsu að hyggja í sambandi við þetta, til þess að frv. geti komið að þeim notum, sem til er ætlazt.

Hann virðist leggja á það nokkra áherzlu, að það gæti e.t.v. verið vafasamt að kveða ekki með lögum á um vexti sjóðsins, og það er alveg rétt, að þetta er nýmæli í frv., þar sem í fyrri l. um þetta efni hefur alltaf verið ákveðið, hverjir vextirnir skyldu vera. En á hitt vil ég benda í þessu sambandi, að þeir hafa svo sannarlega ekki staðið á stöðugu og oltið þar á ýmsu. Í fyrstu, þegar l. voru sett 1929, var ákveðið, að lánin skyldu veitt til 42 ára með fastri afborgun, fastri árlegri greiðslu, sem næmi 6% af lánsfjárupphæðinni, en það svaraði til, að hreinir vextir af láninu væru þá 5,3%. Fjórum árum síðar var þetta gjald svo lækkað niður í 5%, árleg greiðsla af láninu, og svarar það til, að vextirnir hafi verið rúmlega 4%. árið 1941 er gjaldið svo enn lækkað niður í 4%, og þá jafngildir það, að ársvextirnir séu 2,7% af lánsupphæðinni. 1946 er svo vaxtaákvæðunum enn breytt og ákveðið, að það skyldu vera hreinir 2% ársvextir. Og loks 1955 var ákveðið, að vextirnir skyldu vera 31/2%, og svo á s.l. ári, að þeir skyldu vera 6%. Þetta hefur oltið, eins og ég segi, á ýmsu, og það þótti fullt eins heppilegt, að því væri ekki slegið föstu í l. sjálfum, hverjir vextirnir skyldu vera, heldur væri það verkefni seðlabankans og ríkisstj. að ákveða það hverju sinni.

En mér er það fullkomlega ljóst, alveg eins og hv. þm. sagði, að eitt aðalskilyrði fyrir því, að þessi lög geti komið að fullu gagni, er, að vextirnir séu ekki hærri en stranglega nauðsynlegt er, að þeir séu. Og ég veit, a.m.k. ef málið kemur til minna kasta, þá mundi ég leggja á það höfuðáherzlu, að vaxtahlutur þessara byggingarlána yrði ekki hærri en allra brýnasta nauðsyn krefði. Og þar sem eigið fé sjóðsins er nú orðið kringum 100 millj. kr., þá stendur hann miklu betur að vígi en hann gerði í upphafi til þess að veita einmitt aðstoð að þessu leyti. Ég tel sjálfsagt, að sú hv. n., sem þetta fær til athugunar, skoði þetta gaumgæfilega, og er náttúrlega fús til að veita allar þær upplýsingar, sem hún kann að óska eftir og ég get veitt. Ég vil svo, herra forseti, leyfa mér að leggja til, að frv. verði vísað til hv. heilbr.- og félmn.