26.03.1962
Efri deild: 70. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1466 í B-deild Alþingistíðinda. (1201)

155. mál, verkamannabústaðir

Frsm. meiri hl. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Þetta frv. er samið af nefnd þeirri, er hæstv. félmrh. skipaði 9. sept. 1960 til að endurskoða löggjöf um húsnæðismál. Þessum l. var og er ætlað að aðstoða þá, sem hafa erfiðastan fjárhag, til að eignast íbúð. Það er mjög erfitt að setja reglur um, hverjir skuli njóta slíkrar aðstoðar. Það eru allir sammála um, að það skuli vera þeir, sem mesta hafa þörfina, en það stangast að nokkru á við það, að ekki hefur að undanförnu a.m.k. verið unnt að aðstoða nema þá, sem hafa haft þó nokkurt fé til að leggja fram á móti sjálfir. Mér er ekki grunlaust um, að undanfarið hafi þurft að líta eitthvað frjálslegar á lögin til þess að samrýma þessi sjónarmið, svo mjög sem upphæðirnar, bæði kaupupphæðin og eignar, sem miðað var við í lögunum eins og þau voru, voru orðnar úreltar. Aðalbreytingarnar, sem n. leggur til frá gildandi lögum í þessu frv., eru hækkun á þessum tölum og hækkun á framlagi sveitarfélaga eða kauptúna og samsvarandi mótframlagi ríkissjóðs. Það er ein breyt. enn þá raunar. Það er lagt til, að fjölgað sé um einn í stjórn og auk þess að lengja kjörtímabil bæði stjórnar og endurskoðenda um eitt ár.

Heilbr.- og félmn. hefur athugað petta frv. og sent það til umsagnar Sambands ísl. sveitarfélaga og stjórnar byggingarsjóðs verkamanna. Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga mælir með frv., en bendir á, að þannig standi nú á, að sum sveitarfélögin muni þegar hafa samið fjárhagsáætlun sína, og væri því e.t.v. rétt að miða gildistöku l. við næstu áramót, því að það muni vera, eins og þeir segjast raunar hafa bent oft á áður, erfitt fyrir sveitarfélögin að bæta á sig verulegum fjárframlögum, eftir að fjárhagsáætlun er samin og samþykkt. Meiri hluti stjórnar byggingarsjóðs verkamanna leggur einnig til, að frv. verði samþ. óbreytt, eins og það liggur fyrir, en minni hluti stjórnarinnar vill gera á því nokkrar breytingar eða hefur a.m.k. fyrirvara um einstök atriði, t.d. að ákveða útlánsvextina í l. og hafa ýtarlegri ákvæði í l. um fjáröflun til þess að tryggja sjóðnum meira fjármagn.

Heilbr.- og félmn. ræddi þetta frv. Hæstv. 9. þm. Reykv. var fjarstaddur vegna veikinda. Þeir nm., sem mættir voru, samþ. að mæta með frv. með nokkrum breyt. á 6. gr., eins og segir á þskj. 420, en hv. 1. þm. Norðurl. e. hefur þó óbundnar hendur um að flytja eða fylgja brtt., sem fram kunna að koma, öðrum en þessum, sem n. leggur til og hann var samþykkur.

Það eru ekki stórvægilegar breyt., sem n. leggur til á 6. gr., það er aðallega svolítið einfaldara orðalag á 1. málsgr. 6. gr. Þar er lagt til, að komi: löglegum félagsmönnum, í staðinn fyrir nánari skilgreiningu eða tilvísun til 4. gr. l., sem þarna er. Þá var samkomulag um það í heilbr.- og félmn. að leggja til, að tekjuupphæðin, sem miðað skal við, skuli vera 65 þús. í staðinn fyrir 60 í frv., og enn fremur leggur n. til, að í stað þess, að í þessari gr. stendur, að tölurnar skuli breytast í samræmi við vísitölu framfærslukostnaðar, þá skuli koma: í samræmi við breytingar á almennu kaupgjaldi verkamanna. — Við teljum, að bað sé miklu heppilegri viðmiðun, eins og málum er nú háttað. Og síðast er þarna í 8. tl. ákvæði um það, að ef maður hefur átt íbúðina í 10 ár, þá megi hann njóta verðhækkunar á verði allrar íbúðarinnar, ef hann greiðir lánið upp. Þetta mun vera nokkurn veginn í samræmi við þær reglur, sem gilt hafa hjá byggingarsjóði verkamanna undanfarið, Þó að sú n., sem þetta frv. hefur samið, hafi lagt til að hafa þessi ákvæði nokkru þrengri, en þá að lokum undantekningarákvæði, sem hægt væri í vissum tilfellum að beita. En heilbr.- og félmn. taldi, að réttara væri að ákveða þetta eins og lagt er til á þskj. 420, þannig að miða skuli við 10 ár, þá sé eiganda íbúðarinnar heimilt að greiða upp lánið, ef hann óskar þess eða ef hann af einhverjum ástæðum þarf annaðhvort að selja íbúðina eða skipta um íbúð. Það geta mörg atvik legið til þess, m.a. það, að fjölskylda getur verið orðin það miklu stærri en hún var, þegar hún fékk íbúðina, þannig að íbúðin sé orðin algerlega ófullnægjandi. Enn fremur getur svo borið til að maðurinn þurfi að flytja búferlum og þurfi þess vegna að selja íhúðina, og þykir n. því rétt að hafa ákvæði um þetta svo rúm, eins og lagt er til í þessari gr. á þskj. 420.

Nefndin hefur að vísu ekki rætt þær brtt. á þskj. 453 og 481, sem hér liggja fyrir. En ég get fyrir mitt leyti alveg fallizt á brtt. á þskj. 453, þ.e. um nákvæmara orðalag um þau skilyrði, um teikningar og undirbúning, sem þar er gert ráð fyrir að verði sett í lögin, heldur en er í því frv., sem hér liggur fyrir.

En viðvíkjandi brtt. á Þskj. 481, þá sé ég nú ekki ástæðu til fyrir mitt leyti að mæla með þeim. En eins og ég sagði áðan, hefur það að vísu ekki verið rætt í n. Það lá ekki fyrir þá vegna veikinda annars þeirra þm., sem leggja það fram. Það er aðallega, að því er mér sýnist, um það að tryggja aukið framlag ríkissjóðs umfram beint mótframlag á móti því, sem bæjarsjóður eða kauptún leggur í sjóðinn, og sömuleiðis að ákveða þrengri ákvæði um vextina heldur en eru í frv., og tel ég þetta ekki breytingar til bóta. Hitt, sem kemur þarna, 3. liðurinn, virðist í raun og veru vera svo sjálfsagt, að ég tel ekki beint þörf á að hafa það í lögunum. En það væri miklu eðlilegra að setja í reglugerð þau ákvæði, sem þarna eru, að byggingarsjóður fái að fylgjast með teikningum af slíkum íbúðum.

Eins og ég sagði áðan, mælir heilbr.- og félmn. með samþykkt frv. með breyt. á bskj. 420 og vill vísa því til 3. umr.