26.03.1962
Efri deild: 70. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1473 í B-deild Alþingistíðinda. (1203)

155. mál, verkamannabústaðir

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég flyt á þskj. 453 örlitla brtt., sem ég vona að valdi ekki neinum deilum. Það er megintilgangur till., að lögin veiti byggingarfélögum nokkurt aðhald um fyrirkomulag og efniskaup til bygginga. Það getur vart orkað tvímælis, þegar jafnframt er gerð tilraun til Þess, að l. um verkamannabústaði þjóni sínum upphaflega tilgangi, og um raunhæfa aðstoð við láglaunafólk til að eignast mannsæmandi íbúð er að ræða, þá sé þess jafnframt gætt, að um hagkvæmustu tilboð um efniskaup og annað fyrirkomulag bygginganna sé ákveðið í lögunum.

Hv. 9. þm. Reykv. (AGI) lagði í það mikinn þunga sinnar ræðu hér áðan að mæla fyrir þeirri brtt., sem er nr. 3 á þskj. 481, um það, að bygging íbúðanna sé ávallt boðin út. Þetta var í gildandi I., en hefur ekki verið raunhæft. Um allt að því 2/3 af þeim íbúðum, sem byggðar hafa verið samkv. ákvæðum þessara laga, a.m.k. síðan ég fór að hafa afskipti af þessum málum fyrir u.þ.b. 5–6 árum, þá hefur það reynzt svo, að hjá þessum hluta bygginganna hefur ekki verið mögulegt að koma útboðum við. Það hefur verið svo allt að bæjartakmörkum Reykjavíkur, að byggingarfélögin á staðnum eiga samkv. I. að bjóða byggingarnar út, en hafa séð um byggingarframkvæmdir hvert í sínu byggðarlagi og hafa orðið að haga þar nokkuð seglum eftir vindi. Velflest þessi byggingarfélög, sem í smærri kaupstöðunum starfa, hafa orðið að veita félagsmönnum ýmis frávik í þessu efni. sem sjóðsstjórn hefur látið óátalið, þrátt fyrir það að mannabreytingar hafa í sjóðsstjórninni orðið, vegna þess að byggingarfélögin hafa fært fyrir þessari starfsemi sinni ákveðin rök.

Það þarf ekki að skýra það fyrir hv. þdm., að svo er um flesta þessa staði, að vor- og hausttímar eru aðalframkvæmdatímar í byggingum, og félögin hafa veitt einstaklingunum, sem lánsloforðanna eiga að vera aðnjótandi, aðstöðu til þess að vinna að þessum byggingum sínum sjálfum. Sem byggingariðnaðarmaður skal ég ekki endurtaka þau rök, sem byggingarfélögin á þessum stöðum færa fyrir þessu starfsfyrirkomulagi sínu. Ég hef hins vegar fallizt á, að það væri erfitt að koma Þar öðru við, og er þá eðlilegt, að ein lög gildi um þessa starfsemi á landinu öllu. Og það yrði svo áfram, þó að till. hv. 9. þm. Reykv. og 1. þm. Norðurl. e. yrði felld, þá er það enn þá á valdi byggingarfélaganna hvers á sínum stað, hvaða hátt þau vilja á þessu hafa, og er eðlilegt, að það frjálsræði sé þeim í té látið áfram. Þau munu áreiðanlega allra hluta vegna velja þann kostinn, sem hagkvæmastur er. Á velflestum þessum stöðum er ekki nema um einn byggingaraðila að ræða, og er þá vart von til þess, að byggingarfélög héðan úr Rvík færu að byggja á þessum stöðum eina til tvær og upp í þrjár íbúðir. Þannig hafa útboð bygginga á þessum stöðum reynzt óraunhæf.

Ég vil að öðru leyti segja það um ræðu hv. þm., að þær till., sem hann hefur flutt hér nú við umr. þessa frv., virðast mér vera mun raunhæfari en þær till., sem hann flutti við umr. um breyt. á l. um húsnæðismálastjórn, þó að ég geti ekki á þær fallizt, eins og ég kem að síðar.

Hv. þm. sagði, að það væri ekki óeðlilegt, að augum yrði rennt um tekjuöflun til byggingarsjóðs verkamanna til atvinnuleysistryggingasjóðs og í raun og veru ætti ríkisstj. að vera búin að láta athugun fara fram á því, hvort lánsmöguleikar væru þar.

Mér er kunnugt um það, og ég hygg, að hv. þm. sé það einnig, að endurskoðun á l. um atvinnuleysistryggingasjóð hefur staðið yfir nú um alllangt skeið, og félmrh. eða ráðuneytisstjóri félmrn. sem formaður atvinnuleysistryggingasjóðs hefur lagt á það áherzlu, að við breyt. á l. um sjóðinn yrði sérstaklega að því hugað, að lán fengist þar til þessara framkvæmda. Endurskoðun I. er hins vegar ekki lokið. Ég hygg þó, að hún sé að komast á lokastig, og tek þess vegna alveg undir óskir þm. um það, að árangur fáist af því starfi. Ég tek þetta fram hér vegna þess, að Þm. lét sem svo, að engin athugun á þessu hefði farið fram. Ég skal jafnframt taka undir þær óskir hans, er hann lét í ljós, að það væri allt að því skylda sjóðsstjórnarinnar að leggja til fé til slíkrar starfsemi, sem hér um ræðir, þ.e.a.s. byggingar íbúða yfir lægst launaða fólkið í landinu. Ég vona, að það verði niðurstaðan á þeirri endurskoðun laganna, sem yfir stendur.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð á þessu stigi málsins varðandi ræðu hv. þm. En varðandi till. frá hv. heilbr.- og félmn., sem hún flytur á þskj. 420, þá vildi ég aðeins segja örfá orð.

Ég tel, að fyrstu þrjár brtt. séu til bóta, þ.e.a.s., a-, b- og c-liðir þeirra. Varðandi a-liðinn, sem þm. gerði fsp. um til n., þá vildi ég aðeins segja það álit mitt, að í honum felst ekki efnisbreyting, heldur nokkurt aðhald um það, að Þeir aðilar, sem Þar eru á félagaskrá, haldi sér löglegum í félaginu og greiði sín iðgjöld. Mér er nær að halda, að þetta sé breyting til samræmis við það, sem raunverulega hefur verið venja í félögunum, þ.e. að ekki nema fullgildir félagsmenn fái að greiða atkvæði og taka afstöðu til mála á fundum byggingarfélaganna, og því raunverulega staðfesting á því, sem þar hefur verið viðhaft.

Varðandi b-liðinn er það að segja, að um Það atriði fjallaði endurskoðunarnefndin og fékk mikið af skýrslum og töflum víða að, og er ekki svo auðvelt sem ætla mætti að draga Þar markalínu. Við endurskoðun l. 1957 var talið hæfilegt að setja tekjumarkið við 50 Þús. kr. og endurskoðunarnefndin taldi eftir Þeim upplýsingum, sem hún aflaði sér, að ekki væri eðlilegt að fara að þessu sinni yfir 60 þús. kr. mark, enda væru innan Þeirra marka samkv. úrtaki hagfræðideildar Framkvæmdabankans um Það bil 10% þjóðarinnar, sem gætu orðið umræddra lána aðnjótandi, þ.e.a.s. 10% Þjóðarinnar gætu verið meðlimir byggingarfélaganna samkv. Þessu tekjumarki. Við þá brtt., sem n. gerir hér nú, að hækka markið um 5 þús. kr., þá gæti ég hugsað mér, þó að ég hafi ekki athugað það gaumgæfilega, að allt að 12–14% Þjóðarinnar gætu orðið þarna lána aðnjótandi og orðið löglegir meðlimir í byggingarfélögunum. Ég skal þó ekki fullyrða nákvæmlega um það, en sýnilegt er, að það rýmkar allverulega frá því, sem endurskoðunarnefndin lagði til í sínu upphaflega frv. Að sjálfsögðu veltur mest á því við þessa lagasetningu — og laganna um húsnæðismálastjórn, að tekna verði aflað til sjóðsins, og þá ekki hvað sízt ef samþykkt verður sú hækkun, sem n. leggur hér til frá Þeim lögum, sem í dag gilda, og jafnvel frá frv., um þátttöku í þessum félögum.

Það er varðandi d-lið þessara brtt., sem ég vildi gera smáathugasemd, þó að ég á þessu stigi málsins vilji ekki lýsa yfir neinni andstöðu við það. Endurskoðunarnefndin hafði lagt til, eins og í frv. greinir, að þessi liður gr. orðaðist svo: „Ef íbúðin er að dómi borgarlæknisins í Reykjavik eða héraðslæknis utan Reykjavíkur orðin heilsuspillandi vegna fjölskyldustærðar, er heimilt að víkja frá ákvæðum Þessarar gr. um verðhækkun íbúðar, með samþykki félagsstjórnar og félmrh.“ Sjálfsagt er hér um nokkuð erfiða framkvæmd að ræða, og ég hygg, að það sé undirstaðan að till. hv. heilbr.- og félmn. Hún vill setja þessi mörk ljósari og einfaldari í framkvæmd með því að ákveða, að mörkin skuli einungis vera 10 ára eignarréttur, 10 ára íbúðarréttur á íbúðinni, sem gefur réttinn til þess að greiða upp lánið.

Ef við lítum á málið frá sjónarhóli þess, sem tekur við íbúðinni, þá horfir málið þannig við, að sá, sem kaupir íbúðina, verður að greiða hana fullu verði, því að ekki fær hann lán að nýju, Þar sem byggingarflokknum hefur verið lokað fyrir a.m.k. 10 árum og gengið frá öllum skuldabréfum í því sambandi. Þá er viðkomandi íbúð komin á frjálsan markað út úr sjálfu verkamannabústaðakerfinu. En hins vegar losnar íbúðin ekki við samábyrgð byggingarflokksins fyrir ýmsum sameiginlegum gjöldum, og forkaupsréttur byggingarfélagsins helzt á íbúðinni áfram, þó að sá, sem við tók, verði að útvega sér lán annars staðar til kaupa á íbúðinni. Má því e.t.v. segja, að það fé, sem hann greiddi íbúðina upp með, komi þá öðrum til góða. Þessi íbúð er hins vegar farin út úr sjálfu kerfinu að því leyti, að hún getur ekki orðið þeirrar aðstoðar aðnjótandi, sem lögin gera ráð fyrir um lánin, þar sem lánið hefur verið greitt upp og frá byggingarflokknum gengið. Þetta tel ég að ætti að vera nokkuð ljóst, og þess vegna var það hugmynd endurskoðunarnefndarinnar, að Þarna væri aðeins um þau undantekningartilfelli að ræða, er uppborgun skyldi leyfð og full verðlagshækkun greidd, að Þá væri einungis um það að ræða, að menn hefðu vegna stækkandi fjölskyldu á vissan hátt sprengt utan af sér íbúðina. En n. leggur til, eins og frá greinir á þskj. 420, að þetta gildi jafnt um alla án tillits til fjölskyldustærðar og að einungis sé um 10 ára íbúðarrétt að ræða.

Framkvæmdin verður að sanna það, hvort hér er rétt að farið. Ég hefði talið hitt hyggilegra, að fara hér að eins og er í sjálfu frv., en skal ekki á þessu stigi málsins og að þessu óreyndu gera frekar um það sérstakar ábendingar. Ég taldi hins vegar rétt, að þetta kæmi fram nú, ef það mætti skýra nokkuð Þá hugsun, sem lá að baki fyrrnefndri breyt. endurskoðunarn. á 8. tölul. 6. gr.

Varðandi lagabreytinguna í heild eða frv. í heild er óþarft að gera frekari grein fyrir heldur en gert er í mjög fullkominni grg. um og athugasemdum við frv., auk þess sem frsm. hefur skýrt önnur atriði, sem þar koma ekki fram, og óþarft við það að bæta. Ég tel þó rétt, að við þessa umr. málsins nú komi það fram, að ég tel mjög til athugunar, að deildaskipting sjóðsins verði afnumin. Það er e.t.v. ekki tímabært að tala um það við þessar breytingar, sem hér eru fyrirhugaðar, en ég tel það koma fyllilega til greina á næstunni, þ.e. næstu árum, að Þessi deildaskipting verði afnumin. Hún hefur verið með öllu óraunhæf, og það væri rétt, að þarna væri um einn allsherjarsjóð að ræða. Þar að auki mætti og að mínu viti koma til athugunar, að í stað þingkjörinna endurskoðenda yrði um löggilta endurskoðendur að ræða, sem reynslan hefur sýnt að er miklum mun hagkvæmara um uppgjör heldur en þegar endurskoðun fer fram með óákveðnu millibili, eins og tíðkazt hefur.

Ég vil segja Það varðandi frv. sem heild, að það fer vart á milli mála, að hér sé um merkilegar breytingar að ræða. En að sjálfsögðu byggist varanleiki þeirrar lagasetningar á því, að vel takist til um þær fjárútveganir, sem ríkisstj. hefur nú á prjónunum m.a. hjá atvinnuleysistryggingasjóði. Ég hygg, eins og fram hefur komið í ræðu hv. síðasta ræðumanns, að þá sé það helzt að fundið þessu frv., að of skammt sé gengið, en höfuðatriðið er þó með þessari lagasetningu, eins og með l. um húsnæðismálastjórn, að ekki sé lengra gengið í þessum efnum en hægt er að standa við í raun og sannleika. Of mikið hefur á því borið á undanförnum árum, vegna þess, hve lögin hafa verið langt frá raunveruleikanum, að einstök byggingarfélög hafa orðið að víkja út af ýmsum ákvæðum laganna, svo að virðing fyrir löggjöfinni í heild hefur af þeim ástæðum farið heldur hnignandi á s.l. árum. Það er von okkar og ósk, sem vinnum að þessari endurskoðun, að lögin megi vera nær því að þjóna sínum upphaflega tilgangi í því formi, sem frv. nú er, heldur en þau hafa verið til þessa, og jafnframt að svo takist til sem bezt verður á kosið um fjáröflun til þess að standa við þau ákvæði laganna, sem mikilvægust eru, þ.e.a.s. sjálfa lánsútvegunina.