06.04.1962
Neðri deild: 85. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1507 í B-deild Alþingistíðinda. (1235)

77. mál, Hæstiréttur Íslands

Lúðvík Jósefsson:

Hæstv. forseti. Ég hef veitt því athygli, að það er sérstaklega tekið fram í grg. þessa frv., sem hér liggur fyrir, af þeim, sem frv. leggja fram og að samningu þess hafa staðið, að við það sé miðað, að Þetta frv. nái því aðeins fram að ganga, að annað tiltekið frv., sem vitnað er í að einnig muni verða lagt fyrir Alþ., fylgist að með þessu frv.

Ég tek líka eftir því, að í einni umsögn, sem barst þeirri hv. n., sem hefur haft með mal þetta að gera, er alveg sérstaklega á þetta minnzt, og það er í umsögn Lögmannafélags Íslands, en í þeirri umsögn er einmitt alveg sérstaklega undirstrikað, að Þeir aðilar telja, að þessi frv. tvö eigi svo mikið saman, að Það sé varla eðlilegt, að annað nái fram að ganga, ef hitt sé látið eftir liggja. Þegar mál ber að með þessum hætti, sem sagt að þeir, sem að flutningi málsins stóðu, höfðu gert þessa grein fyrir málinu, sýnist mér ekki óeðlilegt að fara fram á það, að sá hæstv. ráðh., sem hér á hlut að máli, geri grein fyrir því hér í umr., hvort hann heldur sér við þá skoðun, sem fram kemur í grg. frv., að það sé eðlilegt eða nauðsynlegt, að þessi tvö mál fylgist hér að, eða hvort hann er nú á þeirri skoðun, að hægt sé með góðu móti að samþ. annað málið, þó að hitt sé látið liggja eftir, og hvort hann er Þá á annarri skoðun en fram kemur í umsögn Lögmannafélags Íslands. Ég skal játa það, að ég er lítt kunnugur þessum málum og ætla mér ekki að kveða hér upp neinn dóm um það, hvort tiltækilegt sé að samþykkja frv. um hæstarétt, eins og það liggur hér fyrir, þó að hitt frv. sé látið liggja. En ég vek athygli á því, að svona hefur þetta borið hér að, og þó hefur frsm. hv. meiri hl. í n. ekki séð ástæðu til þess að gera neina grein fyrir þessu. Þetta tel ég heldur laklega unnið og þm. boðið upp á afgreiðslu, sem er ekki að öllu leyti sæmandi.

Það er einnig greinilegt í umsögn Lögmannafélagsins, að þar koma fram ýmsar aths. við þetta frv., en þar álít ég að tali sá aðili í þessu máli, að það sé ekki heldur til of mikils mælzt, þó að það komi fram í grg. þeirrar n., sem skýrir frá athugunum sínum á málinu, eða þá frá hæstv. ráðh., hver afstaða þeirra er til þessara aths., sem hér koma fram frá Lögmannafélagi Íslands. Ég skal taka það fram, eins og í hinu fyrra tilfellinu, að ég er persónulega það lítt dómbær um þessi efni, að ég ætla mér ekki að kveða hér upp neinn dóm. En ég kysi gjarnan að heyra grg. þessara aðila, sem hafa haft aðstöðu til þess að kynna sér málið í n. sérstaklega, eða þeirra, sem standa að flutningi málsins, þannig að maður megi þá skapa sér nokkra skoðun á þessum aths., sem hér eru gerðar.

Þá liggur það einnig fyrir, að n. hefur klofnað í tvennt, annar hlutinn vill samþ. frv., en hinn vill vísa því frá með rökst. dagskrá, m.a. byggt á þessari röksemd, sem fylgdi frv. sjálfu í upphafi frá fim., að það væri gert ráð fyrir því, að þetta frv. yrði ekki gert að lögum, nema annað tiltekið frv. yrði það einnig. En nú skilst mér, að það sé svo mikill ágreiningur hér á Alþ. og í hópi þeirra manna, sem mest hafa með lög þessi að gera í daglegri vinnu sinni, að það þyki ekki fært að gera það frv. að lögum, nema þá með mjög miklum breyt., sem menn hafa ekki orðið ásáttir um enn þá, og því bendir margt til þess, þar sem komið er nú undir þinglok, að ætlunin sé að láta það mál liggja, en hins vegar sé ætlunin að láta þetta ná fram að ganga.

Ég skal svo ekki að svo búnu máli ræða um þetta frekar, því að ég hef fyrir mitt leyti ekki ýkja mikið til málsins að leggja, Það skal ég játa, ég hef ekki haft aðstöðu til þess að kynna mér það svo. En ég vek athygli á því, að málið kemur hér fyrir þingið með nokkuð einkennilegum hætti, og afgreiðsla n., a.m.k. þeirra nm., sem mæla með málinu, virðist vera mjög stuttaraleg og þannig, að það sé ekki nema eðlilegt, að á það sé minnzt, hvaða skýringar raunverulega séu frá Þeim, sem að þessu máli standa, fyrir almenna þm. til þess síðan að átta sig á málinu við afgreiðslu hér. Ég vildi nú mælast til þess, að hæstv. ráðh., sem hér er staddur, gerði fyrir sitt leyti grein fyrir skoðun sinni varðandi þessar aths., sem hér hafa komið fram.