06.04.1962
Neðri deild: 85. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1509 í B-deild Alþingistíðinda. (1236)

77. mál, Hæstiréttur Íslands

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Eins og hv. síðasti ræðumaður, hv. 4. þm. Austf., gat um, er það ljóst, að hann er ekki mjög kunnugur þessu máli, og er ekki neitt að undrast það. En þessu frv., sem hér liggur fyrir, var verulega breytt í Ed. og grg., sem fylgdi frv. upphaflega, átti við frv. óbreytt, en á ekki við lengur, vegna þess að þegar ljóst var orðið, að frv. til l. um meðferð einkamála mundi ekki ná afgreiðslu á þessu þingi, lét ég semja brtt. við frv. um hæstarétt, til þess að hægt væri að afgr. það, hvað sem hinu málinu liði. Það voru upphaflega slík tengsl á milli málanna, að það væri eðlilegt, að þau hefðu samflot, en eins og ég segi: í Ed. var málinu, því sem hér liggur fyrir, breytt á þann veg, að það er ekki þörf eða nein ástæða til þess samflots lengur, og grg. eða umsögn Lögmannafélagsins, sem ég skal ekkert ræða um að öðru leyti, er samin áður en hæstaréttarfrv. var breytt og á því við frv. eins og það var upphaflega og er að því leyti orðin úrelt. Að öðru leyti er ég þeirri grg. að ýmsu leyti ósamþykkur, en hún er ekki hér til umr. og stendur á ábyrgð þeirra manna, sem hana skrifuðu, og þeir eru vafalaust menn til þess að gera grein fyrir sínu máli. Ég tel hana ekki þess virði að ræða hana.