06.04.1962
Neðri deild: 85. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1509 í B-deild Alþingistíðinda. (1237)

77. mál, Hæstiréttur Íslands

Lúðvík Jósefsson:

Hæstv. forseti. Mér þykir það miður, að hæstv. dómsmrh. svaraði ekki Þeim aths., sem hér liggja fyrir, efnislega, en athugasemdir Lögmannafélagsins liggja ótvírætt fyrir á þskj. eða í nál., og þær eru alveg greinilega um efni frv., og ég hefði gjarnan viljað heyra einmitt afstöðu hæstv. ráðh. til þessara aths. En hitt þykir mér svo einkennilegt að heyra, ef umsögn Lögmannafélagsins, sú sem birt er með nál. í þessari hv. d., í Nd. Alþingis, hefur ekki verið skrifuð til Nd. Alþ. á því stigi, sem málið var þá. Ég ætla, að það sé aðeins hið eðlilega að búast við því, að þær umsagnir, sem sendar eru n., séu vitanlega sendar um málið á Því stigi, sem málin eru, þegar n. eru að fjalla um þau, en ekki um málin eins og þau voru í eina tíð. Ég get vitanlega ekki um það sagt, hvenær þeir góðu menn í Lögmannafélagi Íslands hafa skrifað sínar aths., á hvaða stigi málsins, en hitt er mér hins vegar ljóst, að hér eru birt sem fylgiskjal gögn, sem borizt hafa n., sem var að fjalla um málið í þessari d. Og það sé ég einnig á þessu bréfi Lögmannafélagsins, að það tekur til efnislegrar meðferðar mörg af ákvæðum frv. og gerir þar stífar aths. við efni málsins, auk þess sem Lögmannafélagið undirstrikar sérstaklega, að það telji, að það sé rétt að láta þetta frv. fylgja með í afgreiðslu hinu frv., sem einmitt var minnzt á í grg., frv. um meðferð einkamála í héraði.

Það var mér að vísu ljóst, að það voru gerðar talsverðar breyt. á þessu frv. í Ed., en hitt var mér ekki kunnugt um, að þær breyt. hefðu orkað á þetta svo mjög, að þær umsagnir, sem liggja fyrir, m.a. frá Lögmannafélaginu, væru þar með úreltar. En hæstv. ráðh. hefur sem sagt kosið það í þessu að víkja sér undan að ræða bessar aths., en ég tel fyrir mitt leyti, að þegar Lögmannafélag Íslands gefur sína umsögn um málefni eins og þetta, tali slíkur aðili í þessum málum, að það sé mjög eðlilegt, að frá hálfu þeirrar n., sem sett er til þess að athuga málið fyrir þd., eða af hálfu þess ráðherra, sem hefur með málið að gera, séu aths. frá slíkum aðila teknar til umr. og ræddar.

Eins og ég sagði hér áður, dreg ég enga dul á það, að ég er hér ekki kunnugur málum. Ég þekki ekki mikið um uppbyggingu hæstaréttar og vil ekki deila við lögfróða menn um það, hvað heppilegast er um ýmis formsatriði í þeim efnum. En hitt hlýt ég að gera, þegar slíkur aðili eins og Lögmannafélag Íslands gerir sínar athugasemdir, þá hlýði ég á það og met það nokkuð til jafns við það, sem ég heyri t.d. frá þn., sem hefur fjallað um málið, þó að þar séu í nokkrir lögfræðingar, eða jafnvel frá ríkisstj., en vil þó a.m.k. kjósa það að reyna að fá að mynda mér skoðun um það, hvað þessir aðilar allir segja. En það er aftur þeim mun erfiðara að taka afstöðu til slíkra mála, ef þýðingarmikil atriði varðandi þau eru ekki rædd. En mér fannst mjög á það skorta í framsöguræðu hjá meiri hl. þeirrar n., sem um þetta mál hefur fjallað, að þar væri í rauninni vikið að nokkrum sköpuðum hlut, sem efni málsins varðar.

Ég skal svo ekki tefja hér tímann frekar í umr. um málið.