06.11.1961
Neðri deild: 13. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í B-deild Alþingistíðinda. (125)

4. mál, skráning skipa og aukatekjur ríkissjóðs

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Forseti. Í gildandi lögum er nokkuð mismunandi háttur hafður á um ákvörðun þjónustugjalda í sambandi við skip, skráningu þeirra, skoðun, mælingu, útgáfu skírteina o.s.frv. Sum þessara gjalda eru beinlínis ákveðin í lögum um aukatekjur ríkissjóðs, en önnur þeirra eru ákveðin í reglugerð. Sá háttur er hafður á um þau gjöld, sem tekin eru fyrir skoðun skipa og gjöld fyrir mælingu skipa. Við athugun og endurskoðun á þessum þjónustugjöldum hefur þótt réttara að hafa hér um öll þessi gjöld þann sama hátt á, að þau séu ákveðin með reglugerð. Og það er efni þessa frv., að, þau gjöld, sem talin eru í 1. gr. frv., svo sem fyrir afrit af þjóðernis- og skrásetningarskírteinum, afrit mælibréfa, einkaleyfi á skipsnafni, nafnbreyting á skipi, útgáfu þjóðernis- og skrásetningarskírteina, útgáfu mælibréfs, áritun á þjóðernis- og skrásetningarskírteini, áritun á mælibréf, eftirlitsbækur og fyrir mælingu skipa, að þessi gjöld skuli ákveðin í reglugerð.

Þetta frv. hefur legið fyrir Ed. og var þar samþ. shlj. Ég legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.