27.11.1961
Neðri deild: 26. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í B-deild Alþingistíðinda. (127)

4. mál, skráning skipa og aukatekjur ríkissjóðs

Frsm. meiri hl. (Sigurður Ingimundarson):

Herra forseti. Fjhn. hv. d. hefur haft til athugunar frv. það, sem hér liggur fyrir til umr. á þskj. 4. um breyt. á 1. um skráningu skipa og lögum um aukatekjur ríkissjóðs.

Eins og nú háttar, eru gjöld fyrir ýmsa þjónustu í þágu skipa á vegum skipaskoðunar ríkisins ýmist ákveðin í reglugerð eða með lögum frá mismunandi tíma. Gjöld fyrir skoðun og mælingu skipa eru t.d. ákveðin með reglugerð, en ýmis önnur gjöld fyrir svipaða þjónustu eru ákveðin með lögum frá 1948 og aukatekjulögunum frá 1954. Frv. felur í sér þá breytingu, að framvegis skuli ákveða öll þessi gjöld með reglugerð. Gjöld þau, sem hér er um að ræða, sem ákveðin voru með lögum áður, eru flest mjög lág. Þetta er frá nokkrum tugum króna og hæst, að ég ætla, 1000 kr. Ekki er óeðlilegt, að gjöldin þurfi nokkurrar samræmingar við, og eðlilegast, að sami háttur sé hafður á um þau öll. Meiri hl. n., þeir hv. 4 þm., sem undirrita álitið, leggur því til, að það verði samþ. óbreytt að lokinni þessari umr.

Einn nm., hv. 1. þm. Norðurl. v., mun sennilega gera grein fyrir séráliti sínu og mun helzt hafa það við þetta að athuga, að réttara sé af prinsipástæðum, að þingið ákveði þessi gjöld sjálft. Ég held, að ekki sé ástæða í þessu sambandi til sérstakrar varfærni, enda er hér ekki um að ræða skatt eða toll, heldur aðeins um að ræða mat á greiðslu fyrir tiltekna þjónustu. Meiri hl, n. telur það fyrirkomulag, sem frv. gerir ráð fyrir, til hægðarauka og ekki ástæðu til þess að ætla, að gjöldin verði hækkuð nema til samræmingar um verðlag. Auk þess eru gjöldin öll, eins og ég hef sagt, mjög lág og a.m.k. ekki ástæða til þess, að sum þeirra séu ákveðin með lögum, en önnur með reglugerð. Meiri hl. leggur því til, hæstv. forseti, að frv. verði samþykkt óbreytt.