27.11.1961
Neðri deild: 26. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í B-deild Alþingistíðinda. (128)

4. mál, skráning skipa og aukatekjur ríkissjóðs

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Nál. frá mér um þetta frv. mun verða útbýtt nú á þessum fundi, geri ég ráð fyrir. Ég skilaði því til skrifstofunnar í morgun, og þar er ekki um langt mál að ræða, svo að ég geri ráð fyrir, að það komi til þingdeildarinnar innan skamms.

Það er efni frv., að lagt er til, að nokkur gjöld, sem nú eru ákveðin í lögum, skuli framvegis ákveðin með reglugerð frá ríkisstj. Ég tel, að það sé ekki rétt stefna að láta ákveða gjöld til hins opinbera með reglugerðum frá ráðuneytum, og ég tel, að það eigi ekki að ganga lengra í því efni en þegar hefur verið gert. Hv. meiri hl. fjhn. bendir á, að hér sé aðeins stefnt að nauðsynlegri samræmingu á gjöldum fyrir ákveðna þjónustu. Það er að sjálfsögðu hægt að samræma þessi gjöld öðrum með því að breyta ákvæðum laganna um upphæð gjaldanna og engin þörf að gera þessa breyt. á l. þess vegna.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð. Það má segja, að þetta mál út af fyrir sig sé ekki stórt. En eins og ég hef tekið fram, tel ég, að ekki sé rétt stefnt með því að hætta að ákveða gjöldin í lögum, heldur fela ríkisstj. á hverjum tíma að setja reglugerð um þetta, og því legg ég til, að þetta frv. verði fellt.