02.04.1962
Neðri deild: 81. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1526 í B-deild Alþingistíðinda. (1290)

169. mál, síldarútvegsnefnd

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Sjútvn. hefur haft til athugunar frv. til l. um síldarútvegsnefnd og útflutning saltaðrar síldar. sem hér liggur fyrir, og mælir n. með frv. Jafnframt flytur n. tvær brtt. við frv., eins og fram kemur í nál. hennar, og eru þær báðar fluttar samkv. tilmælum síldarútvegsnefndar.

Um tildrög þess, að þetta frv. var samið, segir svo í upphafi aths., er því fylgja, með leyfi hæstv. forseta:

„Á síðasta Alþ. lögðu alþm. Jón Árnason, Kjartan J. Jóhannsson og Eggert G. Þorsteinsson fram frv. til l. um síldarútvegsnefnd, útflutning á síld, hagnýtingu markaða o.fl., sem koma skyldi í stað gildandi l. um þetta efni, nr. 74 1934. Frv. fékk ekki endanlega afgreiðslu fyrir þinglok, en var afgr. með svofelldri rökst. dagskrá í Nd.:

„Í trausti þess, að ríkisstj. láti endurskoða lög nr. 74 29. des. 1934, um síldarútvegsnefnd, útflutning á síld, hagnýtingu markaða o.fl., og að sú endurskoðun verði framkvæmd í samráði við síldarútvegsnefnd, Landssamband ísl. útvegsmanna, Alþýðusamband Íslands, félög síldarsaltenda, enda geri ríkisstj. ráðstafanir til að koma sem fyrst á þeim endurhótum, sem þingmeirihluti er örugglega til fyrir, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

9. maí 1961 voru síðan sett brbl. um breyt. á l. nr. 74 1934, þar sem bætt var við tveimur mönnum í síldarútvegsnefnd, tilnefndum af félögum síldarsaltenda. Hinn 4. jan. s.l. skipaði sjútvmrh. þá Birgi Finnsson alþm., Jónas G. Rafnar alþm. og Jón Sigurðsson stjórnarráðsfulltrúa í nefnd til að annast endurskoðun þessara laga. N. hefur síðan unnið að endurskoðun l. og hagað störfum sínum í samræmi við fyrrgreinda rökst. dagskrá, þannig að hún hefur haldið fundi með öllum Þeim aðilum, sem þar eru nefndir, og kynnt sér sjónarmið Þeirra í máli þessu.

Lög þau, sem síldarútvegsnefnd hefur starfað eftir, eru nr. 74 frá 29. des. 1934, og þótti rétt að láta gagngera endurskoðun fara fram á l. í tilefni þeirrar rökst. dagskrár, er ég gat um áðan, ekki aðeins til þess að staðfesta brbl. frá s.l. vori, heldur einnig til að breyta lögunum almennt með hliðsjón af fenginni 28 ára reynslu. Endurskoðunin hefur þó engan veginn beinzt að því að breyta grundvallarsjónarmiðum gildandi laga. Þau eru þvert á móti staðfest með þessu frv., og í því felst viðurkenning á því ágæta starfi, sem síldarútvegsnefnd hefur unnið á liðnum árum.

Verkun og útflutningur saltaðrar síldar var á árunum eftir heimsstyrjöldina fyrri og allt þangað til núgildandi skipulag komst á þau mál einhver áhættusamasti atvinnuvegur landsmanna. Framleiðslan var skipulagslaus. Fyrir gat komið, þegar lítið aflaðist, að verðið á saltaðri síld ryki upp úr öllu valdi, og þetta freistaði manna til að halda að sér höndum um sölu í þeirri von, að þeir væru stöðugt að verða ríkari. En svo kom síldin, og þá var saltað ótakmarkað með þeim afleiðingum, að verðið hríðféll, og þeir, sem hugðu sig ríka, áttu minna en ekki neitt, þegar kom að lokauppgjöri, og gátu ekki staðið í skilum við sjómenn og verkafólk. Vöruvöndun var einnig mjög ábótavant, og svo var komið, að engin lánsstofnun í landinu vildi lána út á þessa framleiðslu. Afleiðingin af öllu þessu varð sú, að ýmsir síldarsaltendur urðu fjárhagslega háðir erlendum kaupendum. sem gátu síðan skammtað þeim verðið fyrir síldina að vild.

Alþ. gerði nokkrar misheppnaðar tilraunir til að hafa áhrif á gang þessara mála á tímabilinu frá 1926–1931, eins og frá er skýrt í aths. með frv. Sú merkasta af þeim tilraunum var stofnun Síldareinkasölu Íslands, en það fyrirtæki komst einnig í ógöngur, eins og kunnugt er, og varð gjaldþrota. Meginástæðan fyrir gjaldþroti síldareinkasölunnar mun hafa verið sú, að leyfð var allmikil söltun umfram fyrirframgerða samninga, eitthvað á annað hundrað þús. tunnur, að ég hygg, og sala þeirrar síldar mistókst síðan. Einnig mun eitthvað af fyrirframgerðum samningum hafa reynzt haldlítið. Fór þrotabú einkasölunnar í mál við ýmsa sænska síldarkaupendur og vann sum þeirra, en tapaði öðrum. Lítið mun þó hafa orðið um bætur af hálfu þeirra síldarkaupenda, sem töpuðu þessum málum, því að þeir urðu einnig gjaldþrota.

Þrátt fyrir hrakfallasögu síldareinkasölunnar mun sú tilraun, sem þar var gerð, þó hafa átt sinn þátt í því að sannfæra menn um, að hægt væri að koma fastara skipulagi á þennan atvinnuveg, og það var, eins og ég sagði áðan, gert með setningu núgildandi l. um síldarútvegsnefnd árið 1934. Fyrstu árin starfaði n. þannig, að hún löggilti útflytjendur og ákvað lágmarksverð það, sem leyfilegt var að setja fyrir út úr landinu. Einkasölu hafði n. ekki til að byrja með nema á matjessíld eða léttverkaðri síld. Í nokkur ár var úthlutað veiðileyfum á skip, þannig að hvert skip mátti leggja upp svo og svo mikið magn til söltunar, en langt er nú síðan þeirri tilhögun var hætt. Síðan 1945 hefur síldarútvegsnefnd haft einkasölu á allri útfluttri saltsíld, og hefur einkasalan verið ákveðin til eins árs í senn á grundvelli 11. gr. laganna.

Svo sem kunnugt er, gera lögin ráð fyrir því, að síldarsaltendur geti stofnað með sér samlag og ef það samlag ráði yfir 75% af útflutningnum, geti Það fengið löggildingu sem einkaútflytjandi saltaðrar síldar. Þennan möguleika notfærðu saltendur norðanlands sér í eitt eða tvö ár, en hurfu síðan frá því ráði. Það hefur líka svo farsællega til tekizt, að síldarútvegsnefnd hefur oftast lánazt að gera fyrirframsamninga um sölu allrar eða mestallrar framleiðslunnar fyrir ágætt verð, og í þau skipti, sem meira hefur verið framleitt en búið var að selja fyrir fram, hefur salan einnig tekizt vel. Hvað það snertir er t.d. s.l. ár ferskast í minni.

Árangurinn af starfi síldarútvegsnefndar kom e.t.v. gleggst í ljós á tímabili útflutningsuppbótanna. Þá var saltaða síldin sú vara, sem lengst komst af án þess að fá útflutningsuppbætur, og þegar að því kom að greiða uppbætur á saltsíld, þá voru þær ákveðnar lægri en á aðrar útflutningsafurðir.

Ég gat þess áðan, að nefnd sú, sem undirbjó frv. þetta, hefði haft samráð við síldarútvegsnefnd, Landssamband ísl. útvegsmanna, Alþýðusamband Íslands og félög síldarsaltenda, eins og fyrir hana var lagt. Um niðurstöður þeirra viðræðna segir svo í aths. með frv., með leyfi hæstv. forseta:

„Allir þeir aðilar, sem rætt var við um efni frv. þess, sem hér liggur fyrir, voru á eitt sáttir um, að núgildandi fyrirkomulag á síldarsölunni hafi reynzt hagkvæmt. Töldu þeir með hliðsjón af fenginni reynslu nauðsynlegt, að framboð saltsíldar frá Íslandi væri vel skipulagt í höndum eins aðila, enda væri með þeim hætti komið í veg fyrir skaðlega samkeppni um markaðina fyrir þessa vöru, svo og óheppileg áhrif erlendra kaupenda á þennan atvinnuveg. Því töldu þessir aðilar sízt til bóta að gefa síldarútflutning frjálsan, þótt eðlilegt vært að hafa opna leið til þess að löggilda einstaka útflytjendur saltsíldar, ef henta þætti, t.d. hvað snertir útflutning síldar, sem verkuð er með tilteknum verkunaraðferðum eða til tiltekinna landa. Af hálfu síldarsaltenda kom fram, að þeir töldu æskilegt, að í nýjum l. um þetta efni yrðu ekki lakari möguleikar en eru í gildandi I., til að samlag síldarsaltenda gæti tekið söluna í sínar hendur.

Með tilliti til þess, sem hér að framan er rakið, hefur í frv. þessu ekki verið vikið verulega frá megindráttum gildandi laga, þótt ýmsu hafi verið breytt, svo sem nánar verður gerð grein fyrir hér á eftir. Frv. gerir ráð fyrir síldarútvegsnefnd, sem fari undir yfirstjórn ráðh. með skipulagningu á verkun og útflutningi saltaðrar síldar. Nefndinni ber einnig að annast markaðsleit fyrir saltaða síld og tilraunir með nýjar verkunaraðferðir. Til að sinna þessum hlutverkum sínum, eru n. veittar hinar víðtækustu heimildir til afskipta af síldarsölu og útflutningi saltaðrar síldar. Loks er ráðh. heimilað að veita síldarútvegsnefnd eða heildarsamtökum síldarsaltenda einkarétt til útflutnings á síld, sem hér um ræðir.“

Þannig eru grundvallarsjónarmið gildandi I. staðfest með frv. þessu, eins og ég gat um í upphafi. Verkefni síldarútvegsnefndar hefur aukizt, eftir að síldveiðar hófust að ráði sunnanlands, og við það hafa einnig skapazt að nokkru leyti ný viðhorf síldarsaltenda. Það kemur m.a. fram í því, að nú eru starfandi tvö félög síldarsaltenda, Félag síldarsaltenda á Norður- og Austurlandi og Félag síldarsaltenda á Suður- og Vesturlandi. Þessi tvö félög hafa á margan hátt ólíkra hagsmuna að gæta, og ég hygg, að ef svo færi, að síldarsaltendur vildu sjálfir taka sölumálin í sínar hendur, þá mundu þeir vilja stofna a.m.k. tvö samlög. Væri Þá meiri hætta á hagsmunaárekstrum en nú er, meðan salan er í höndum síldarútvegsnefndar. Einnig mundi sölukostnaður allur verða meiri, því að síldarútvegsnefnd fær aðeins 2% af útflutningnum til starfsemi sinnar og hefur stundum endurgreitt hluta af því gjaldi. Þetta sjá menn og skilja, og þess vegna er ólíklegt, að framleiðendur muni á næstunni notfæra sér möguleikana til stofnunar samlags, en miðað við aðstæður hefur þótt sanngjarnt að koma á fastari tengslum milli síldarútvegsnefndar og samtaka síldarsaltenda. Þetta var gert með brbl., sem sett voru í fyrravor, og þeirri skipun síldarútvegsnefndar, sem þá var ákveðin, er haldið í frv. þessu.

Breyt. þær frá gildandi l., sem gerðar hafa verið í einstökum greinum, eru ýtarlega skýrðar í aths. með frv., og sé ég ekki ástæðu til að rekja það hér. Þó vil ég geta þess í sambandi við 1. gr., þar sem rætt er um aðsetur síldarútvegsnefndar á Siglufirði og í Reykjavík eftir því, hvort um er að ræða síldarvertið norðanlands eða sunnan, að ég lít svo á, að n. geti ráðið því, á hvorum staðnum hún hefur varnarþing sitt, þótt það sé ekki tekið fram í frv.

Varðandi þær tvær brtt., sem sjútvn. flytur, er þess að geta, að þær eru fluttar samkvæmt tilmælum síldarútvegsnefndar. Er þar að vísu um að ræða atriði, sem undirbúningsnefnd frv. hafði talið að ættu fullt eins vel heima í reglugerð, en síldarútvegsnefnd telur þau svo veigamikil í starfi sínu, að hún telur áhrifameira, að þau verði í sjálfum lögunum, sem henni er ætlað að starfa eftir. Á þetta hefur sjútvn. fallizt.

Að lokum vil ég segja þetta: Framleiðsla saltaðrar síldar og sala þeirrar vöru út úr landinu hefur tekið miklum stakkaskiptum til hins betra, síðan núgildandi lög um síldarútvegsnefnd voru sett. Fjölbreytni í framleiðslunni hefur aukizt og er nú meiri hjá okkur en meðal annarra þjóða, sem fást við síldarverkun. Við fáum yfirleitt hæsta markaðsverð fyrir síldina og oft hærra en aðrir. Lánastofnanir geta óhræddar veitt lán til þessarar framleiðslu og átt það vist að fá fé sitt til baka. Vanskil við verkafólk og sjómenn munu heyra til undantekninga. Þetta er mikil framför frá þeim glundroða, sem ríkti eftir heimsstyrjöldina fyrri og fram til ársins 1935, og enginn óskar nú eftir því, að það ástand skapist á ný. Allar aðstæður eru þannig, að okkur hentar bezt að hafa sölu saltsíldarinnar á einni hendi. Hjá sumum beztu viðskiptavinum okkar, t.d. Rússum, er aðeins við einn aðila að semja, og hvaða vit væri þá í því að hafa framboðið af okkar hálfu í höndum margra aðila? Sama máli gegnir raunar einnig gagnvart öðrum löndum, t.d. Svíþjóð og Vestur-Þýzkalandi. Þar er að vísu ekki við ríkiseinkasölur að semja, heldur við stór innkaupasambönd verzlana og verksmiðja. Stundum er að vísu hægt að komast fram hjá slíkum samböndum með sölu á litlu magni, en þau viðskipti eru oft vafasöm og haldlítil. Að öllu athuguðu mun reynast bezt að framlengja það skipulag, sem gefið hefur góða raun bráðum í þrjá áratugi. Að því miðar þetta frv., sem sjútvn. mælir einróma með. Vænti ég þess, að málið geti fengið sömu afgreiðslu í hv. deild.