16.03.1962
Neðri deild: 68. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1539 í B-deild Alþingistíðinda. (1308)

179. mál, innlend endurtrygging

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Hæstv. forseti. Það er í sambandi við frv. um tekjustofna sveitarfélaga, sem flutt eru níu önnur frv. Það eru þau, sem eru á dagskránni í dag, 5.–13. dagskrármál, að báðum meðtöldum. í sambandi við ákvæði frv. um tekjustofna sveitarfélaga um landsútsvör, aðstöðugjald og fasteignaskatta þykir rétt að breyta einstökum iðgum, eins og þessi frv., 9 að tölu, fara fram á. Það eru í fyrsta lagi lög frá 1947 um innlenda endurtryggingu o.fl., en gert er ráð fyrir, að á þá stofnun megi leggja fasteignaskatt og aðstöðugjald. Þá er næst breyt. á l. frá 1936, um landssmiðju, og gert ráð fyrir, að hún skuli greiða bæði fasteignaskatt og landsútsvar. Í þriðja lagi lög frá 1947, um vátryggingarfélög fyrir fiskiskip, sem er gert ráð fyrir að greiði fasteignaskatt og aðstöðugjald. Þá er breyt. á I. frá 1948, um sementsverksmiðju, sem er gert ráð fyrir að greiði fasteignaskatt og landsútsvar. Þá er breyt. á I. frá 1949, um áburðarverksmiðju, sem ætlazt er til að greiði fasteignaskatt og landsútsvar. Þá er breyt. á l. frá 1938, um síldarverksmiðjur ríkisins, sem gert er ráð fyrir að greiði fasteignaskatt og landsútsvar. Þá er breyt. á l. frá 1934 um útvarpsrekstur ríkisins. Það fjallar um viðtækjaverzlunina, og gert ráð fyrir, að hún greiði fasteignaskatt og landsútsvar. Þá er breyt. á l. frá 1954, um brunatryggingar í Reykjavík, og gert ráð fyrir, að í sambandi við þá starfsemi skuli greiða fasteignaskatt og aðstöðugjald. Loks er breyt. á l. frá 1954, um brunatryggingar utan Reykjavíkur. Gert er ráð fyrir, að hlutaðeigandi félag eða félög greiði fasteignaskatt og aðstöðugjald.

Ég vildi leyfa mér að óska þess í sambandi við það frv., sem hér liggur fyrir, og enn fremur dagskrármálin frá 6–13, að báðum meðtöldum, að þeim verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.