16.10.1961
Efri deild: 4. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í B-deild Alþingistíðinda. (139)

3. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Sumir tekjustofnar ríkissjóðs, gjöld og gjaldaviðaukar, gilda aðeins um eitt ár í senn. Hefur svo verið um allmarga gjaldstofna um langan aldur og þeir þá framlengdir frá ári til árs.

Það frv., sem hér liggur fyrir, gengur í þá átt að framlengja ýmis þeirra gjalda og gjaldaviðauka, sem þannig hefur farið um undanfarin ár. Tvö nýmæli eru í þessu frv. Annað, að í það er sett heimild til þess að fella niður aðflutningsgjöld af nokkrum vörum, en sú heimild hefur verið í öðrum lögum áður, slíkum framlengingarlögum, og einnig er sett inn í þetta frv. ákvæði um, að 8% innflutningssöluskattur skuli gilda á árinu 1962. Ég vil taka það fram hér, að að sjálfsögðu er stefnt að því að fella í ein lög sem mest af því, sem hér er um að ræða varðandi aðflutningsgjöldin og þar með innflutningssöluskattinn. Er ráðgert, að það komi til meðferðar í sambandi við endurskoðun tollskrárinnar, en að endurskoðun hennar hefur verið unnið nú í tæp tvö ár, og var ætlunin að reyna að koma frv. um nýja tollskrá fyrir þetta þing. En það er mjög hæpið, að það geti orðið, og viðbúið, að það dragist til haustþingsins 1962. Þau gjöld og gjaldaviðauka, sem í þessu frv. eru, en snerta ekki aðflutningsgjöld eða koma til greina í sambandi við tollskrá, þarf auðvitað að fella inn í frambúðarlög, því að sannast sagna er það óviðkunnanlegt til lengdar, þó að svo hafi nú verið á annan áratug, að framlengja þannig jafnan frá ári til árs ýmsa tekjustofna ríkisins.

Ég legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.