31.10.1961
Efri deild: 10. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í B-deild Alþingistíðinda. (146)

3. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Frsm. 2. minni hl. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Eins og hér hefur komið fram, mundi þetta frv. ekki hafa valdið miklum ágreiningi eða jafnvel engum, ef það væri nú flutt með svipuðu innihaldi og það hefur haft að geyma s.l. 2 ár, eða frá því að öllum þessum frumvörpum um framlengingarákvæði um ýmsa minni háttar gjaldheimtu var slengt saman í þennan svokallaða bandorm. En með 5. gr. frv. nú er í fyrsta skipti bætt inn í það ákvæði um árlanga framlengingu á bráðabirgðasöluskattinum svonefnda, sem hv. síðasti ræðumaður tók fram að ætti samkv. eðli sínu heima sem frv. til l. um breyt. á l. um söluskatt. Eftir þeim lögum óbreyttum hefðu þessi ákvæði fallið niður um næstu áramót.

Ágreiningurinn um þetta ákvæði er þó að sjálfsögðu ekki um þetta formsatriði, nema þá að því leyti, sem bæri að skilja þennan flutning á framlengingarákvæðinu inn í þennan eilífðarbálk svo, að þessi svokallaði bráðabirgðasöluskattur sé þar með orðinn ein af hinum föstu og óbreytanlegu gjaldheimtuaðferðum, heldur er ágreiningurinn að sjálfsögðu um skattinn sjálfan, og það var að sjálfsögðu sá ágreiningur, sem olli því, að fjhn. varð ekki sammála um afgreiðslu málsins. Ágreiningurinn um þetta atriði byggist að sjálfsögðu af hálfu okkar Alþýðubandalagsmanna á skoðun okkar almennt á sölusköttum og öðrum óbeinum sköttum, sem lagðir eru á hvers konar varning og neyzlu, en án tillits til efnahags. En að öðru leyti byggist hann á þeirri forsögu, sem þessi skattur á hér á hv. Alþ., en honum var, ef svo má að orði komast, smyglað hér í gegn á hv. Alþ. með bæði beinum og óbeinum fyrirheitum um, að hann ætti aðeins að vera til bráðabirgða, eins og sjálft nafn hans strax ber glöggt vitni um. Það hefur bæði við 1. umr. málsins og eins nú af hv. 1. þm. Norðurl. e. verið minnzt nokkuð á þessa hlið málsins, og ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða um hana. En það er auðvitað algerlega vonlaust verk fyrir hæstv. ríkisstj. og talsmenn hennar að halda því fram, að hún hafi haft fullkomlega heiðarleg vinnubrögð: í fyrsta lagi með því að lýsa því yfir, að ekki yrði hróflað við söluskatti af innflutningi, eins og var gert í ársbyrjun 1960, m.a. í grg. með fjárlagafrv., sem þá var lagt fram, en rjúka svo til og rúmlega tvöfalda hann nokkru síðar. Í öðru lagi með því að rökstyðja þessar aðgerðir sínar snemma á árinu 1960 með því einu, að almenni söluskatturinn gæfi ekki tekjur nema 3/4 hluta úr því ári og þess vegna yrði að bæta þær upp með þessum bráðabirgðaskatti, en reyndin verður svo sú, að hann er framlengdur ár frá ári. Í þriðja lagi með því að fullyrða, þegar söluskattarnir voru margfaldaðir, að um enga nýja skattheimtu væri að ræða, heldur aðeins tilfærslu á gjaldheimtu, vitandi það, sem nú hefur sannazt, að samanlagður tekjuskattur og söluskattar mundu hækka um á þriðja hundrað prósent, og það þó að hlutur sveitarfélaganna sé dreginn frá. En þessar staðreyndir liggja nú fyrir.

Það mætti auðvitað tína ýmislegt fleira til, sem sannar þá fullyrðingu mína, að þessum skatti hafi raunverulega verið smyglað í gegn hér á hv. Alþ. undir röngu yfirskini. En að öðru leyti er hann ekki verri en aðrir söluskattar, sem nú eru í gildi, og því er jafnvel ekki að neita, að hann hefur jafnvel minni galla en almenni söluskatturinn, sem núv. hæstv. ríkisstj. á einnig höfundarréttinn að , og þá sérstaklega að því leyti, að margs konar svindli og fjárdrætti verður síður við komið í sambandi við þennan skatt en almenna söluskattinn.

Það má segja, að viðreisn núv. stjórnarflokka hafi frá upphafi verið slungin tveimur meginþáttum, annars vegar gengisfellingu og kauplækkunum, hins vegar umbyltingu í skattamálum, — umbyltingu, sem hafði það að meginmarkmiði að afnema beina stighækkandi skatta, sem samkvæmt eðli sínu leggjast með meiri þunga á tekjuháa og efnamikla gjaldendur en þá , sem lítið eru aflögufærir, en auka í þess stað óbeina neyzluskatta, sem lagðir eru jafn á allt vöruverð. Sama stefna var tekin upp í útsvarsmálum, þar sem gjaldheimtan var í vaxandi mæli færð yfir á herðar hinna efnaminni með því að draga úr stighækkun útsvara og taka upp söluskatta sem tekjustofna fyrir sveitarfélögin.

Þar sem, eins og ég áður sagði, ágreiningur um þennan skatt, sem hér er sérstaklega rætt um, er þannig fyrst og fremst deilan um heildarstefnuna í skattamálum, þá er rétt að athuga í sambandi við hann, hvernig viðreisnin í skattamálum hefur gefizt og hvernig hún hefur verkað á kjör almennings.

Ég ætla, að það sé auðsætt, að skattabylting hæstv. ríkisstj. hafi reynzt, næst á eftir gengisfellingunni, höfuðorsök þeirra gífurlegu verðhækkana, sem orðið hafa á síðustu tveimur árum. Eftir nýjustu tölum frá Hagstofu Íslands hefur meðalhækkun á vörum og þjónustu, frá því að viðreisnin tók að verka, orðið 29% til þessa dags, og sú hækkun heldur áfram að vaxa með hverjum degi. Það er auðvitað, að gengisfellingarnar eiga á þessu mikla sök og kannske mesta, en hækkun tolla og skatta úr 796 millj. kr. á árinu 1959 í 1401 millj. kr. á árinu 1962, eða um 76%, lætur sig auðvitað ekki heldur án vitnisburðar í verðlaginu. 603 millj., sem lagðar eru á verðlagið, á brýnustu nauðsynjar jafnt sem aðrar, og enginn, jafnvel ekki sá, sem sjúkur er eða farlama, sleppur undan að taka sinn hluta af, — slíkt lætur sig auðvitað ekki án vitnisburðar í lífskjörunum, allra sízt hjá þeim, sem áður höfðu aðeins til hnífs og skeiðar.

Heildarhækkunin á sköttunum og tollunum um 76% segir þó auðvitað ekki nema hálfa sögu. Þar verður einnig að taka tillit og ekki síður til eðlisbreytingarinnar á skattheimtunni. Frá árunum 1959–62 hafa söluskattarnir, að frádregnum þeim hluta, sem rennur til bæjarfélaganna, hækkað um hvorki meira né minna en 286%, eða úr 166 millj. í 485 millj., en á sama tíma hefur tekju- og eignarskattur lækkað um 42%, úr 165 millj. í 95 millj. Árið 1959 nam tekju- og eignarskattur 20.7% af heildarupphæð tolla og skatta. 1962 verður hlutur tekju- og eignarskattsins 6.7% af heildarupphæð tollanna og skattanna. En á sama tíma hafa söluskattar til ríkissjóðs hækkað úr 20.8% af heildarskattheimtunni í 34%. M.ö.o. hefur sú gerbreyting orðið á, að fyrir tveimur árum voru beinir stighækkandi skattar því sem næst jafnmiklir og söluskattarnir, þar munaði aðeins 1 eða 2 millj. En nú er svo komið, að söluskattarnir eru rösklega fimmfaldir á við beinu skattana, og á sama tíma hefur heildarskattheimtan nær tvöfaldazt.

Áhrif þessarar byltingar í skattamálum hafa að sjálfsögðu orkað gífurlega til hækkunar á öllu verðlagi í landinu. Bráðabirgðasöluskatturinn einn nemur a.m.k. 6–8% af endanlegu smásöluverði allra innfluttra vara, matvara, byggingarvara, vefnaðarvara og annars nauðsynjavarnings. Þessi skattur er því mjög mikilvirkur dýrtíðarvaldur, og hann sést ekki fyrir, hver í hlut á. Hann krefur, eins og söluskattarnir yfirleitt, öryrkjann og gamalmennið um sinn hlut, jafnvel barnið og raunar alla þá, sem engum mundi koma til hugar að skattleggja á nokkurn hátt til almenningsþarfa. En tiltölulega kemur hann þó þyngst niður á stórum, barnmörgum heimilum, sem verða að sjá sér farborða af launum og þurfa að kaupa hlutfallslega mest af hvers konar vörum, sem heyra til frumþarfa. En það voru einmitt barnmörgu fjölskyldurnar, sem fengu hlutfallslega minnstar sárabætur, þegar viðreisnarsköttunum var komið á, eins og öllum er kunnugt, þar sem fjölskyldubætur hækkuðu aðeins um 269 kr., ef ég man rétt, á hvert barn, sem var umfram fimm, má ég segja. Það mundi kannske vera hægt að halda því fram, að fullkomnar almannatryggingar, ellilífeyrir og fjölskyldubætur gætu tekið af sárasta broddinn í þessum efnum varðandi þá, sem eru verst settir. Ég ætla þó, að það fari mjög fjarri því, að þessar tryggingar, eins og þær eru nú, geri það. Elli- og örorkulífeyrir er fjarri því að nægja til þess að framfleyta lífinu, og verðhækkanirnar, sem sífellt dynja yfir, hafa verið og eru að smánaga utan af þeim réttarbótum, sem bótaþegar fengu 1960. Það var nefnilega séð fyrir því, um leið og lífeyririnn var hækkaður og bætur almennt, að svipta bótaþegana þá þeirri vernd, sem verðlagsuppbæturnar voru. Þannig var gefið með annarri hendinni, en tekið með hinni. Auk þess er svo þess að gæta, að tryggingabóta njóta menn án alls tillits til efnahags eða tekna og þær geta þess vegna ekki skoðazt sem neins konar uppbætur fyrir rangláta skattalöggjöf, löggjöf, sem hlífir þeim, sem betur mega, en leggst með ofurþunga á þá, er minnsta hafa getu.

Það hefur auðvitað reynzt ofvaxið hv. talsmönnum ríkisstj. og hennar stefnu í skattamálum að afsanna það, sem liggur í augum uppi, að breytingarnar, sem gerðar hafa verið á skattalöggjöfinni, hafa allar verið í þágu hinna efnameiri í þjóðfélaginu. Ég rifja upp í því sambandi þær upplýsingar, sem ég aflaði mér hjá Skattstofu Reykjavíkur, þegar tekjuskattslögin voru hér til umr. á s.l. ári, en þar kom m.a. fram, að á sama tíma sem 2596 lægstu gjaldendur í Reykjavík fengu skattalækkun, sem nam 76 kr. á mann að meðaltali, fengu 1924 hæstu gjaldendurnir eftirgjafir, sem námu 9620 kr. á mann að meðaltali, eða rösklega 120 sinnum meiri lækkun að meðaltali. En svo var auðvitað mikill fjöldi skattleysingja, sem fengu ekki neina eftirgjöf, en var gert að greiða söluskatta af hverju og einu, sem þeir þurfa til síns lífsviðurværis.

Þegar ekki verður komizt hjá því að viðurkenna slíkar staðreyndir, — því að annað er vitanlega ekki fært, — þá er hopað í nýja varnarstöðu og sagt, að óbeinu skattarnir, söluskattarnir, verki líkt og stighækkandi skattar, vegna þess að auðvitað sé eyðslan meiri hjá þeim, sem eru tekjuháir, og þess vegna greiði þeir meira en þeir, sem hafa lágar tekjur. Í þessu getur að vísu falizt nokkurt sannleikskorn í sumum tilvikum, ef um einstakling er að ræða. En því fer fjarri og því mjög fjarri, að þetta fái staðizt, þegar um miklar tekjur er að ræða og auðvitað fer því enn þá fjær, að gróði félaga og fyrirtækja sé svo að nokkru nemi skattlagður með söluskattskerfinu.

Þegar hér er komið, er horfið að því að viðurkenna, að auðvitað væri langréttlátast að hafa sem mesta beina, stighækkandi skatta, og þetta hafa talsmenn stjórnarflokkanna orðið að endurtaka að væri rétt, svo að segja í hvert skipti, sem þessi mál hafa verið til umr. hér á Alþingi. Minnist ég nú sérstaklega ummæla hv. 11. þm. Reykv. um þetta á síðasta þingi, en þar tók hann þessa skoðun sína einmitt sérstaklega skýrt fram. En þeir fullyrða þá jafnframt, að á slíku skattakerfi sé sá regingalli, að það hafi óhjákvæmilega í för með sér óviðráðanleg skattsvik, sem engin leið sé að koma í veg fyrir, botnlausa spillingu, sem sýki þjóðfélagið, og útkoman verði sú, að þeir beri jafnvel léttustu byrðarnar, sem mestar ættu með réttu að hafa á herðum sínum. Heiðarleikinn sé þannig ofurseldur refsingu, en svikin verðlaunuð. Einn talsmanna hæstv. ríkisstj., hv. 5. þm. Vesturl., komst t.d. nýlega að þeirri niðurstöðu við 1. umr. fjárl. nú á þessu þingi, að skattsvikarar og smyglarar hefðu árlega af ríkissjóði upphæð, sem væri einhvers staðar á milli 300 og 500 millj., upphæð, sem nemur meira en þriðjungi af öllum tollum og sköttum ríkissjóðs.

Nú skal ég ekki draga úr fullyrðingum þessara manna um þá spillingu, sem ríkt hefur hér á landi hjá efnastéttum og gróðafélögum að þessu leyti, enda ættu þeir gleggst um það að vita. Hitt er svo annað mál, að almennir söluskattar virðast ekki hafa neina kosti til að bera umfram beina skattheimtu til þess að koma í veg fyrir skattsvik. Það má að vísu segja, eins og ég nefndi áðan, að söluskattar á innflutningi gefa minna svigrúm til undanbragða en beinir tekjuskattar, en almenni söluskatturinn gefur hins vegar þeim mun viðtækara svigrúm, enda mun vera vitað, að fjölmargir hafa þann skattstofn sem gróðaveg fyrir sig. Og nú er svo að sjá, að stefna eigi að því að auka söluskattana í framtíðinni, en draga enn úr þeim leifum, sem enn eru eftir af beinu sköttunum. Og jafnvel virðist vera ofarlega á baugi hjá hæstv. ríkisstj. að minnka jafnvel einnig söluskattinn á innflutningi, en auka almenna söluskattinn að sama skapi, og kom sú stefna m.a. fram hjá hv. frsm. fjhn., þar sem hann taldi, að aðflutningsgjöldin væru nú þegar orðin of há og þess vegna bæri að stefna að því að afnema þennan skatt, svo fljótt sem verða mætti. En hæstv. fjmrh. hefur hins vegar mjög haft á orði að undanförnu, að við hefðum hér miklu lægri almennan söluskatt en annars staðar væri og það kæmi vel til greina, að manni skilst, að hann verði hækkaður að sama skapi og þessi söluskattur, sem sízt er hægt að svindla á, yrði afnuminn. Það er þess vegna öruggt, að aukning almennra söluskatta er engin lækning á þeirri meinsemd, sem hæstv. stjórnarsinnar eru svo gjarnir á að lýsa, þegar þessi mál eru til umr.

En ég held, að það sé í þessu sambandi mjög nauðsynlegt að reyna að gera sér grein fyrir því, hverjar eru höfuðástæðurnar fyrir skattsvikunum, og þá er líka réttmætt að spyrja okkur, sem erum formælendur beinna skatta, hvað við viljum gera til þess að koma í veg fyrir svikin. Það vita allir, sem vilja vita, að hér á landi hefur aldrei verið til neitt, sem kalla mætti virkt skattaeftirlit, og það er sú staðreynd, sem er höfuðorsök skattsvikanna. Í skjóli við fullkomið eftirlitsleysi hafa svikin dafnað og sá hugsunarháttur, að ekkert sé athugavert við það að stela frá samborgurum sínum á þann hátt að láta þá greiða skatta fyrir sig. Hvenær eru menn dæmdir fyrir skattsvik á Íslandi? Það er víst vægilega að orði komizt, að það sé sjaldgæft. Þeir, sem stela 300–500 milljónum á ári af almannafé, eftir því sem talsmenn stjórnarflokkanna gizka á, leika lausum hala, þeir eru ekki dæmdir. Og þó eru Íslendingar áreiðanlega, þó að svona sé, hvorki óheiðarlegri né ólöghlýðnari en aðrar þjóðir, sem þekkja ekki skattsvik öðruvísi en sem glæpi af grófari tegund og meðhöndla þá, sem við slíka iðju fást, samkvæmt því. Ég held, að ástæðan fyrir því, að við erum verr farnir í þessum efnum en flestir aðrir, sé ekki sú, að beinir skattar séu eða hafi verið svo óbærilegir, þó að ég hins vegar geti fullkomlega fallizt á það, að um leið og komið væri á virku skattaeftirliti, mætti vel liðka til í skattalöggjöfinni og jafnvel hafa stighækkun hennar minni en hefur verið og ná þó álitlegri tekjum til almenningsþarfa. En ástæðurnar liggja áreiðanlega fyrst og fremst í framkvæmdaaðferðum skattalaganna eða ef til vill kannske réttara að segja: engri beitingu viðurlaga.

Skattstjórum og skattanefndum er og hefur verið ætlað að framkvæma eftirlit sitt með öllum framtölum, hvers einasta gjaldanda, áður en álagning fer fram, á örskömmum tíma. Það er öllum vitanlegt, sem eitthvert skyn bera á þessa hluti eða hafa reynt að kynna sér þá, að slíkt eftirlit er óhugsandi og verður aldrei annað en tilgangslaust kák, hversu vel sem þessir embættismenn reyna að gegna sinni skyldu. Höfuðbreytingin, sem hér þyrfti að gera, er sú, að eftirlit og endurskoðun framtala fari fram eftir á og yrði þá aðeins framkvæmt t.d. eftir úrdrætti á nokkrum hluta framtala, en yrði hins vegar gerð mjög gaumgæfileg og tæki í þeim tilfellum, sem um væri að ræða, mörg ár aftur í tímann. Slíkt kerfi hefur gefizt vel víða erlendis og stuðlað að því, að fáir vilja eiga á hættu að verða uppvísir að svikum, enda eru viðurlög slík, a.m.k. fjárhagslega, að ekki þykir fýsilegt að þurfa að þola þau.

Ég held þess vegna, þegar á þetta er litið, að röksemdir hv. stjórnarsinna fyrir skattabyltingu sinni og þeirri taumlausu hækkun á sköttum, sem þeir hafa lagt á, verði harla léttvægar, líka að þessu leyti. Ég held, að hér sé um að ræða sjálfskaparvíti, sem úr mætti bæta.

Það hefur nú þegar verið gengið miklu lengra en fært er á þeirri braut að auka óbeina verðhækkunarskatta, en afnema réttlátustu skattheimtuna, þá sem byggð er á tekjum og efnahag einstaklinga jafnt sem fyrirtækja, og miklu lengra en gert hefur verið t.d. á Norðurlöndum, þar sem beinu skattarnir eru a.m.k. víðast margfaldur hluti ríkistekna á við það, sem hér er nú orðið. Það er vissulega kominn tími til þess að spyrna fótum við þeirri stefnu hæstv. ríkisstj, að spenna sífellt upp verðlagið í landinu með neyzlusköttum, og það er einmitt vegna forsögunnar varðandi þennan skatt, sem hér er til umr., að það væri eðlilegast að hefja andófið með því að fella hann niður og lækka þannig allt verðlag í landinu til stórra muna.