29.03.1962
Efri deild: 74. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1553 í B-deild Alþingistíðinda. (1486)

196. mál, þjóðskrá og almannaskráning

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Sumarið 1952 bundust nokkrir opinberir aðilar samtökum um það að koma á fót vélaspjaldskrá yfir alla landsmenn. Þessir opinberu aðilar voru berklavarnir ríkisins, bæjarsjóður Reykjavíkur, fjármálaráðuneytið, Hagstofa Íslands og Tryggingastofnun ríkisins. Þegar haustið 1952 var hafizt handa um undirbúning þjóðskrárinnar, eins og þetta var kallað síðar, og var tekið almennt manntal 16. okt. 1952 og á grundvelli þess var þjóðskráin síðan gerð. Kom það smám saman til framkvæmda á næstu missirum.

Á vorþinginu 1956 voru á Alþ. samin lög um þjóðskrá og atmannaskráningu, og er Það núgildandi löggjöf um þessi efni.

Eins og hæstv. fjmrh. gerði grein fyrir í framsöguræðu við 1. umr. þessa máls, var frv. það, sem hér liggur fyrir, borið fram skv. óskum hagstofunnar, en hagstofan hefur haft með höndum starfrækslu spjaldskrárinnar, síðan hún var stofnuð. Þær efnisbreytingar, sem frv. felur í sér frá því fyrirkomulagi, sem er, eru aðallega tvær: Í fyrsta lagi það, að vottorð þau, sem þjóðskjalasafnið hingað til hefur gefið skv. kirkjubókum, færast nú til þjóðskrárinnar. Í öðru lagi er breytt um yfirstjórn stofnunarinnar, Þannig að framvegis er gert ráð fyrir, að hagstofan hafi hana með höndum, en ekki þeir fimm aðilar, — þeir urðu nú reyndar seinna sex, því að félmrn. bættist við, — sem áður höfðu tekið þátt í undirbúningi þjóðskrárinnar og ætlað var að eiga aðild að stjórn hennar, þannig að gert er ráð fyrir, að umboð þeirra í þessu efni falli niður. Reynslan hefur sýnt, að þetta fyrirkomulag er óeðlilegt og það hefur verið óvirkt að undanförnu og jafnvel valdið ýmsum töfum og óþægindum. Að öðru leyti eru þær breyt., sem hér er um að ræða, aðallega orðalagsbreytingar og smærri breyt. á framkvæmd þessara mála, sem reynslan hefur sýnt að eðlilegt mundi vera að gera.

Allshn. hefur haft þetta frv. til athugunar og mælir einróma með því, að það verði samþ. óbreytt.