12.04.1962
Neðri deild: 90. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1611 í B-deild Alþingistíðinda. (1537)

110. mál, ríkisreikningurinn 1960

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það er óvenjulegt, að svo miklar umr. verði um afgreiðslu ríkisreikningsins, en sannast að segja eru umr. líka út af algerlega óvenjulegu fyrirbæri. Hv. 1. þm. Norðurl. v. hefur gert skýra grein fyrir því, að hinar almennu athugasemdir endurskoðenda nú við reikninginn eins og mörg undanfarin ár eru yfirleitt þess eðlis, að þær gera ekki nauðsynlegt, að afgreiðslu ríkisreiknings sé frestað. En hér er um játuð og upplýst stórfelld misferli að ræða í sambandi við útgerð á togara, sem ríkið hefur tekið á sig, langt út yfir þær heimildir, sem Alþingi hefur veitt, og við það er eðlilegt og sjálfsagt að Alþ. sjálft geri athugasemdir. Og það hefur Alþingi gert, að fengnum ábendingum yfirskoðunarmanna ríkisins, kosinna af Alþ., sem sinna trúnaðarmanna. Það er út frá þeirra athugasemdum, sem Alþ. vill kafa dýpra í málið. Og þess vegna finnst mér það ákaflega óeðlilegt, að hv. yfirskoðunarmaður skuli hér koma og segja: Ja, málið er slæmt, það er óupplýst svo og svo mikið í því, en það mega bíða upplýsingar þangað til í sambandi við næsta ríkisreikning. — Þetta eru misferli, sem eru upplýst í sambandi við þennan ríkisreikning, og það er algerlega eðlilegt mál, að Alþingi heimti upplýsingarnar á borðið, áður en gengið sé frá afgreiðslu Þessa ríkisreiknings frá Alþingi. Það kemur ekkert næsta árs ríkisreikningi við, og þá verður ekki gerð gangskör að málinu, ef það er hummað fram af sér núna.

Hv. yfirskoðunarmenn gera fjölda athugasemda við þetta úthald allt saman, 55 athugasemdir, og fá upplýsingar um 15 þær smávægilegustu. Um hitt er þagað, og fást engar upplýsingar um það. Þá hefði maður ætlað, að þeir hefðu hert á, úr því að þeir höfðu vakið athygli á þessu máli, og sagt, hér dugir ekkert kák, það verður að fá svör við aðalatriðunum í málinu, ekki bara einhvern tíma, heldur nú. Og ég er alveg undrandi á því, að yfirskoðunarmennirnir með alþingisumboð á bak við sig skuli láta leiða sig af með því að segja: Þetta er til athugunar framvegis. Og þeir hafa eftir því sem hv. yfirskoðunarmaðurinn upplýsir, haft þau slælegu vinnubrögð sem yfirskoðunarmenn, að þegar við fáum ekki upplýsingar, segir hann, þá gerum við athugasemd við næsta reikning, — við næsta reikning. Þetta álít ég vera slöpp vinnubrögð og óhæf af völdum trúnaðarmanna Alþingis. Og svo mæla þeir með því við Alþingi, að það taki upp þessi sömu vinnubrögð og segi: Það liggur hér fyrir opið, að það eru misferli, og menn fá ekki vitneskju um, hvað mikil þau eru eða í hverju fólgin í meginatriðum. En það má láta það bíða að fá hessar upplýsingar, þangað til í sambandi við næsta reikning. — Ég álít, að Alþingi megi ekki haga sér svo að ganga inn á það. Þetta á skylt við yfirhylmingar, og Alþingi má ekki bletta sig á því.

Auk þess er nú komið nýtt atriði í málinu, og það er það, að þegar ríkisreikningurinn er til meðferðar Alþingis, til athugunar hjá Alþ., og spurningin er um það, hvort Alþ. á að samþ. reikninginn eða ekki, þá er fjmrh. kallaður til og það liggur fyrir vitneskja um það, að hann hefur lagt fyrir ríkisendurskoðandann að rannsaka málið. Ríkisendurskoðandinn hefur síðan starfað að rannsókninni og afhent fjmrh. bréf sem skýrslu um málið. Nú segir þingnefndin: Við óskum að fá að sjá þetta plagg. Við viljum fá upplýsingar um málið, þess manns, sem var settur til að rannsaka það, eftir að skilanefndinni tókst ekki að knýja fram upplýsingar. — Og Þá kemur að þessu furðulega og undarlega. Fjmrh. segir: Nei, þið fáið ekki að sjá Plaggið. Það er leyniplagg. Það er leyndarmál. — Milli undirmanns fjmrh. og fjmrh. er það leyniplagg, sem þingnefnd má ekki fá að sjá. Hver getur nú tekið þetta sem góða og gilda vöru? Á maður að trúa því, að starfsmaður fjmrh., sem hefur verið settur til að rannsaka mál í rn., leyfi sér að skrifa á hornið á bréfið til fjmrh.: Trúnaðarmál? Það þýðir það, að „ég trúi þér fyrir þessum leynilegu upplýsingum, sem Þarna eru, að þú kjaftir ekki frá þeim.“ Á nokkur undirtylla rétt á því að haga sér Þannig gagnvart sínum fjmrh.? Ég segi nei. Og það leyfir sér auðvitað engin undirtylla að gera það. Það að skrifa „trúnaðarmál“ á bréf, það eru fyrirmæli til viðtakandans um að kjafta ekki frá og ekkert annað. Og mönnum er sagt það á Alþingi, að starfsmaður ráðh. hafi uppálagt honum að segja ekki frá Þeim atriðum, sem ráðh. fól hinum manninum að rannsaka og upplýsa. Nei, slíkt lætur Alþingi ekki bjóða sér. Slíkt eiga yfirskoðunarmenn Alþingis ekki að láta bjóða sér heldur. Og þingmennirnir, sem gerðu athugasemd við þetta í Ed., höfðu rétt fyrir sér, þeir áttu heimtingu á að fá það skjal, sem hafði komið út úr fyrirmælum ráðh. um að rannsaka málið frekar af ríkisendurskoðunarmönnunum. Og það er mín skoðun, að eins og yfirskoðunarmennirnir hefðu átt að segja, þegar Þeim er neitað um upplýsingar: þá setjum við punkt hér við okkar starf og það verður ekki haldið áfram við endurskoðun þessa ríkisreiknings og þeirri endurskoðun ekki lokið, fyrr en við höfum fengið þær upplýsingar, sem við heimtum í umboði Alþingis, — á sama hátt er eðlilegt, að Alþingi segi: Hér skal verða stanz á. Við viljum fá að skoða það bréf, sem kom frá ríkisendurskoðandanum til ráðh., því að það er þýðingarmikið atriði varðandi mál, sem Alþingi hefur til meðferðar og þingnefnd á að segja sitt álit á. Slíku máli má ekki halda fyrir þingmönnum, áður en þeir eiga að greiða atkv. um málið, hvers eðlis það sé. — Þá er auðvitað eðlilegast, að Alþingi segi: Nei, við afgreiðum ekki, við tökum ekki þátt í að afgreiða reikninginn, fyrr en við höfum fengið eðlilega starfsaðstöðu til þess að gera það, til þess að inna af hendi okkar þingmannsskyldur. — Og við skulum sjá, ef hv. yfirskoðunarmenn hefðu þá stutt þetta og þingmenn í liði stjórnarinnar fallizt á, að Alþ. ætti heimtingu á að fá upplýsingar um veigamikil atriði þessa máls, áður en það rétti upp hendurnar til þess að samþ. reikninginn, þá hefðu vitanlega plöggin komið á borðið. Þá hefðu þau komið á borðið og Alþ. fengið að afgreiða ríkisreikninginn vitandi, hvað það væri að gera.

Það er haft fyrir satt, að ríkisendurskoðunarmaðurinn hafi sagt: Ef þið fengjuð að sjá það plagg, sem ég sendi fjmrh., þá mundi ekki batna útlitið í þessu máli. — Og eitthvað hlýtur það að vera meira en lítið krassandi, sem má ekki koma fyrir almenningssjónir í þessu máli.

Þetta atriði snýr svo alveg sérstaklega að Alþingi, að Alþingi getur ekki látið það atriði fram hjá sér fara. Og eins og ég tel, að yfirskoðunarmenn eigi að stöðva sitt yfirskoðendastarf, þegar þeim er neitað um upplýsingar, með umboð Alþingis á bak við sig til að heimta slíkt, þá tel ég það alveg ótvírætt, að Alþingi á að neita afgreiðslu á þingplaggi, sem þm. er ætlað að rétta upp hendurnar með eða móti, ef þeir vita, að haldið er fyrir þeim upplýsingum um efnisatriði málsins. Það dugir ekkert að segja: Við skulum sleppa því að heimta upplýsingar um Þetta núna. Við skulum láta okkur nægja, að þær komi við afgreiðslu næsta ríkisreiknings. — En hv. yfirendurskoðandinn eða yfirskoðunarmaður ríkisreikninga sagði: Þetta mál á að upplýsast, en það má gera það í sambandi við reikning ársins 1961. — Það á ekkert skylt við þann ársreikning. Og það á að fá upplýsingar um efnisatriði, sem hafa komið fram í aths. yfirskoðunarmanna við þann ríkisreikning, sem við erum hér að ræða um, og við annan ríkisreikning ekki. Og það verður ekkert ljúfara hæstv. ráðherra að láta í ljós upplýsingarnar að ári liðnu. Eða hverju ætti það að breyta fyrir honum? Þær upplýsingar, sem hann neitar um í ár, er nokkuð líklegra, að hann í sambandi við afgreiðslu annars ríkisreiknings láti þær upplýsingar í té, eftir svo sem 12 mánuði? Ég sé engar líkur til þess.

Sannleikurinn er sá, að menn, sem eiga að vera starfsmenn Alþingis, því að Það eru ráðherrarnir líka, þeir sleppa við að gefa Alþingi þær upplýsingar, sem þeim er skylt að gefa því. ef það er ekki staðið fast á því, að Þeir gefi þær upplýsingar nú í sambandi við þetta mál. Þeir munu ekki gefa þær upplýsingar síðar í sambandi við síðari ára ríkisreikninga eða önnur mál. Hér er a.m.k. um að ræða hundruð þúsunda króna, það sem er fullyrt að séu óumdeilanlegar skuldir útgerðarstjórans við ríkissjóð. En síðan er sagt, að það vanti sannanir, séu ófullnægjandi fylgiskjöl og engin fylgiskjöl, og svo hafi blandazt á milli útgerða, og vakna sérstakar grunsemdir í sambandi við það.

Það var einmitt hv. 2. þm. Norðurl. v. (JPálm), yfirskoðunarmaður ríkisreikninganna, sem nefndi það, að það hefði blandazt á milli, og það var einmitt það, að Axel Kristjánssyni var hjálpað til þess að hafa tvo togara í takinu tvo togara. Það var ekki eins auðvelt að koma blöndunarreglunni við, ef togarinn var bara einn. Honum var hjálpað til að hafa þá tvo. Og svo kemur einmitt upplýsing um það, að einn af reikningunum — einn af þessum óstaðfestu reikningum, ófullnægjandi fskj., hafi verið um svo stórkostleg innkaup af bobbingum, að ógerlegt sé að hugsa sér, að einn togari hafi getað komið þeim í lóg. Er ekki Alþingi þarna gefin nokkuð skýr vitneskja um það, að þarna sé ekki hreint mjöl í poka, þarna sé um að ræða vöru, sem ekki hafi verið notuð í sambandi við útgerð þessa skips? Ég get ekki séð, að það sé hægt að orða það öllu skýrara. Það er augljóst hverjum manni, að þarna er sagt, að vörur hafi verið færðar á reikning þessa skips og á ríkisins kostnað þar með, en hafi vafalaust tilheyrt öðru skipi, — og þarna voru í útgerðarstjórn þessa sama manns samtímis togararnir Brimnes og Keilir.

Ég fyrir mitt leyti geri sérstaklega strangar kröfur um það, að hæstv. núv. fjmrh. fallist á það sem réttmæta ósk og kröfu alþingismanna, að hann sýni þeim, áður en atkvæði ganga um þetta mál, það bréf, sem hann fékk frá ríkisendurskoðandanum og líta verður á að hafi verið skýrsla þessa starfsmanns ríkisins til ráðh. Það er fánýtt að segja þingheimi, að undirmaðurinn hafi skrifað á bréf til ráðh. „trúnaðarmál“, sem þýðir: Þú mátt ekki kjafta frá, m.ö.o., að undirmaðurinn hafi verið að gefa hæstv. ráðh. fyrirmæli um að hafa ekki í hámæli þau mál, sem ráðh. hafði fyrirskipað honum að rannsaka. Þetta bréf, þessa skýrslu um þetta umrædda mál, sem varðar afgreiðslu ríkisreikningsins, á Alþingi heimtingu á að fá að sjá, áður en þingnefndirnar ljúka störfum um málið og áður en atkvæði ganga um það á Alþingi íslendinga. Og ég álít, að hvað sem um efnishlið málsins er að segja og hversu ljótt eða slæmt mál þetta er, eins og hv. yfirskoðunarmaður ríkisreikninganna skilgreindi málið hér áðan í ræðu, þá er það þó verst af öllu gagnvart Alþingi, að hæstv. fjmrh. nú brjóti skyldur sínar við Alþingi íslendinga. Það eitt út af fyrir sig er ljótt mál og slæmt mál og ekki hægt við að una.