13.04.1962
Neðri deild: 91. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1614 í B-deild Alþingistíðinda. (1539)

110. mál, ríkisreikningurinn 1960

fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Hæstv. forseti. Þegar þetta mál var til 2. umr. hér í gær, var ég bundinn við umr. í Ed. um annað stjórnarfrv.

Áður en til atkv. er gengið um þá rökstuddu dagskrá, sem hér liggur fyrir, tel ég óhjákvæmilegt að gefa hv. þm. vissar upplýsingar, vegna þess að þessi rökstudda dagskrá er byggð á forsendum, sem eru rangar og ósannar.

Í hv. Ed., þegar málið var þar til meðferðar í fjhn., óskaði einn nm., hv. 1. þm. Norðurl. e., Karl Kristjánsson, eftir því, að hann mætti fá hjá ríkisendurskoðanda þau gögn og upplýsingar varðandi Brimnesmálið, sem hann óskaði eftir. Ég varð að sjálfsögðu við þeim tilmælum og fól ríkisendurskoðanda að veita hv. þm. allar upplýsingar og aðgang að gögnum, sem hann hefði. Það fékk hv. þm., og honum var sýnt allt, sem hann óskaði eftir. Síðar gerðist það, að þessi sami hv. þm. krafðist þess að fá að sjá bréf, sem ríkisendurskoðandi hafði síðar sent mér og afhent mér sem trúnaðarmál og hafði skrifað það á það bréf. Þetta bréf hafði einkum inni að halda hugleiðingar hans um sjálfa málsmeðferðina, en ekki um staðreyndir eða atvik málsins. Þar sem þetta bréf var afhent mér sem trúnaðarmál, taldi ég að sjálfsögðu hvorki skylt né heimilt að afhenda það hv. þm. til birtingar. Það hefði verið að mínu áliti mjög ámælisvert, ef ráðh. ryfi þannig trúnaðarskyldu og birti opinberlega það, sem honum er afhent af embættismanni sem trúnaðarmál.

Þegar svo málið kemur hingað til þessarar hv. d., þá leyfir minni hl. fjhn., þeir Skúli Guðmundsson og Lúðvík Jósefsson, sér að flytja till. til rökstuddrar dagskrár, þar sem dagskráin er rökstudd á þessa leið: „Þar sem ekki hafa fengizt upplýsingar úr rn. í sambandi við 39. gr. aths. yfirskoðunarmanna o.s.frv. Í því sambandi vil ég upplýsa, að hvorugur þessara þm. hefur með einu orði farið fram á nokkrar upplýsingar frá minni hendi. Þeir hafa ekki beðið ráðuneytisstjóra fjmrn. um neinar upplýsingar. Þeir hafa ekki beðið ríkisendurskoðanda um neinar upplýsingar. Þegar þetta er haft í huga, taldi ég nauðsynlegt að kveðja mér hljóðs utan dagskrár. Vegna þess að ég var hindraður vegna umr. í hv. Ed. í gær frá þessum umr., tel ég mér skylt að upplýsa þetta, og af því má það ljóst vera, að forsendur þessarar till. til svokallaðrar rökstuddrar dagskrár eru rangar og ósannar.