13.03.1962
Efri deild: 63. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1617 í B-deild Alþingistíðinda. (1546)

170. mál, Stofnalánadeild landbúnaðarins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er um stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám, ræktun og byggingar í sveitum. Með frv. er lagt til að mynda einn sjóð úr ræktunarsjóði og byggingarsjóði, er nefnist stofnlánadeild landbúnaðarins.

Um þetta frv. hefur verið nokkuð rætt og ritað, áður en það er tekið fyrir hér í hv. deild, og er út af fyrir sig ekkert nema gott um það áð segja. Eitt dagblaðanna hefur tekið afstöðu til málsins, og hefur sézt þar, að frv. er talið árás á bændur, að það hindri uppbyggingu í landbúnaðinum, ef að lögum verður, að bændurnir eigi að greiða gengistöpin. Það verður að ætla, að þessar fullyrðingar blaðsins hafi verið skrifaðar, áður en frv. var lesið til enda, og hygg ég, að hv. þm., þegar þeir hafa kynnt sér frv. í heild, verði ekki á sömu skoðun og blaðið, og allra sízt þegar þess er gætt, að þeir, sem að frv. standa, greiddu atkv. með því, hv. þm. Framsfl., að leggja gjald á búvörur bænda til þess að byggja bændahöllina hér í Reykjavík, án þess að búnaðarsjóðirnir eða landbúnaðurinn fengi nokkuð þar á móti. Það er vitað mál, að þetta gjald var allmikið umdeilt, þegar það var lögfest. Ég skal ekki fara út í það, en afstaða mín til þess gjalds, þegar það var á dagskrá, markaðist af því, að það væri ekki bændunum sérstaklega til gagns að byggja stærra en svo, að það nægði yfir þeirra starfsemi, og að það væri eðlilegt, að Þeir legðu kapp á að byggja yfir sig og gera jarðabætur í sínum sveitum, áður en það væri gert. Hitt hefði mátt koma á eftir. Það er þess vegna fróðlegt að vita, eftir að hv. þm. hafa kynnt sér frv., sem nú hefur legið á borðum þeirra í nokkra daga, hvort afstaðan getur orðið eitthvað lík og ég hef lýst í blaðinu.

Það hefur einnig verið sagt, sem er nokkuð ótrúlegt, en sennilega aðeins í hita dagsins, að óathuguðu máli, að lánasjóðir landbúnaðarins hafi orðið út undan að því leyti, að öllum bönkum og sjóðum hafi verið bætt það gengistap, sem þeir urðu fyrir, en lánasjóðir landbúnaðarins skildir eftir. Hér er um svo mikil öfugmæli að ræða, að hv. þm. hljóta að vera sammála um það, þegar þeir hafa kynnt sér málið, að það þarf ekki að eyða tíma til umr. um það. Það er vitað, að bönkum hefur ekki verið bætt gengistapið, heldur hefur gengishagnaðurinn verið tekinn af bönkunum. Hlutunum er gersamlega snúið við, og er vitanlega hægt að færa gild rök fyrir því, ef þess gerist þörf, ef einhverjir hv. þm. ætla að verja það, sem hefur verið sagt að óathuguðu máli í hita dagsins af einhverjum flokksbróður.

Með þessu frv., sem hér er um að ræða, er lagt til, að búnaðarsjóðunum verði ekki aðeins bætt gengistapið að fullu, heldur miklu meira. Það er lagt til, að þeir fái árlega margfalt meira en sem nemur hallanum vegna gengistapsins. Og það er þess vegna, sem þetta frv. er gott, ekki aðeins fyrir nútíðina, heldur og ekki síður fyrir framtíðina, Því að verði það lögfest, þá gerir það búnaðarsjóðunum fært að auka útlán og efla landbúnaðinn, verða sú styrka stoð, sem landbúnaðurinn þarf á að halda. Og það er eðlilegt, að það sé athugað, hvers virði Það er að bæta gengishallann út af fyrir sig. Það er vitanlega spor í rétta átt. Og að því miðar það frv., sem hér er á dagskrá í dag og flutt af hv. þm. Framsfl. Það er vitanlega spor í rétta átt, en það bara nær allt of skammt, því að þótt það frv. verði lögfest eitt út af fyrir sig, verða sjóðirnir vanmegnugir, algerlega vanmegnugir að lána og búa áfram við fjárskort. Það er þess vegna ekki nema aðeins spor í rétta átt, það frv., sem hv. framsóknarmenn hafa lagt fram. Það verður meira að ske, ef sjóðirnir eiga að byggjast upp, ef þeir eiga að geta innt af hendi það hlutverk, sem þeim er ætlað. En það munu þeir gera og geta, eftir að þetta frv. hefur verið lögfest. Þá munu sjóðirnir fá miklu meira fé til umráða en þeir áður hafa haft og geta hækkað útlánin og tekið að sér að lána t.d. út á vélar og annað, sem aldrei hefur verið hægt að lána út á áður vegna fjárskorts. Það er vitanlega höfuðatriði, að sjóðirnir geti byggt sig upp og geti fengið nauðsynlegt fjármagn til umráða, og það er það, sem ræður mestu um uppbyggingu landbúnaðarins, bæði nú og eftirleiðis, hvort landbúnaðurinn á greiðan aðgang að hagstæðum lánum. Það skal tekið fram, að eftir að þetta frv. hefur verið lögfest, er ætlunin að lengja lánstíma ræktunarsjóðs, — sem ekki heitir á eftir ræktunarsjóður, — stofnlánadeildarinnar í 20 ár út á útihús og ræktun, svo sem áður var, en það hefur verið, eins og kunnugt er, nú um tveggja ára skeið til 15 ára. Þetta verður gert, ef frv. verður lögfest, vegna þess að sú uppbygging, sem í frv. felst, leyfir það.

Ég vil þá í nokkrum orðum lýsa því. hvaða tillögur eru í frv., sem gera það fært að byggja sjóðina upp eins og ég hef lýst. Það þarf vitanlega ekki að taka það fram, að stofnlánadeildin á að vera tengd Búnaðarbanka Íslands á sama hátt og ræktunarsjóður og byggingarsjóður eru nú.

Samkv. 3. gr. er, auk núverandi eigna ræktunarsjóðs og byggingarsjóðs, lagt til. að stofnlánadeildin fái nýtt stofnfé, 60.5 millj. kr., sem ríkissjóður hefur ýmist lánað stofnlánasjóðum landbúnaðarins eða greitt vegna þeirra í áföllnum ábyrgðum. Þannig eignast stofnlánadeildin strax nokkurn höfuðstól, í stað þess að sjóðirnir skulda nú 34 millj. kr. Það er sem sagt öfugur höfuðstóll hjá þessum deildum nú, sem nemur 34 millj. kr.

Samkv. 4. gr. er gert ráð fyrir, að stofnlánadeildin fái tryggðar miklar árlegar tekjur. Í fyrsta lagi er lagt til, að núv. fjárframlag verði óbreytt. Það er 4 millj. kr. á ári. í 2. og 3. tölul. er lagt til, að bændastéttin og ríkissjóður leggi fram að jöfnu árlegt tillag til stofnlánadeildarinnar. Með hliðsjón af því alvarlega vandamáli, sem hér er við að fást, og mikilvægi þess fyrir alla framtíðaruppbyggingu landbúnaðarins í landinu er lagt til að leggja 1% gjald á framleiðsluvörur landbúnaðarins, sem ákvarðast og innheimtist á sama hátt og 1/2% gjald til búnaðarmálasjóðs og 1/2% gjald til bændahallarinnar, eins og það er nú innheimt. Það skal tekið fram, að þetta 1/2% gjald til bændahallarinnar fellur niður lögum samkvæmt á Þessu ári. Mér er ekki kunnugt um, hvort þeir, sem stóðu að samþykkt þessa gjalds á sínum tíma, óska eftir, að það verði framlengt. En verði það ekki framlengt, verður hér ekki um að ræða nema 1/2% hækkun á búvörur bænda, og fá þeir þá stóran hluta annars staðar frá, eða mætti segja, að þeir greiddu í viðbótargjald frá því, sem nú er, aðeins 1/9—1/8 hluta af árlegum tekjum deildarinnar. Það er erfitt að áætla nákvæmlega tekjur af gjaldinu, en miðað við framleiðsluverð og framleiðslumagn nú má áætla það á næsta ári 8 millj. 240 þús. Eins og kunnugt er, hefur sjávarútvegur í mörg undanfarin ár greitt útflutningsgjald af sjávarafurðum, og nemur það nú 6.15%. Að vísu fær sjávarútvegurinn talsverðan hluta af þessu aftur í gegnum tryggingar og fleira. En það mun vera nú 1.8% af útflutningsverði sjávarafurða, sem lagt er í fiskveiðasjóð. Þetta gjald hefur gert það að verkum, að fiskveiðasjóður er þegar orðinn öflug stofnun, sem lánar út á fiskiskip. En fiskveiðasjóður hefur á undanförnum árum fengið aðeins lítið framlag á móti þessu gjaldi, sem lagt hefur verið á sjávarútveginn. En sjávarútvegurinn á vegna þessa gjalds, sem hefur verið lagt á útflutningsvöruna, öfluga lánastofnun, sem er útveginum alveg ómissandi.

Það er lagt til, að lagt verði gjald á útsöluverð mjólkur og rjóma og á heildsöluverð allra annarra landbúnaðarvara, er nemi 0.75% af verði til framleiðenda. Þessi 0.75% bætist við útsöluverð vörunnar, og er gert ráð fyrir, að það nemi 5.5 eða jafnvel 6 millj. á ári. Þetta er alveg nýtt í löggjöf hér á landi, en fyrirmyndina má sækja til Noregs, að verkamannastjórnin þar hefur lagt gjald á búvörur, útsöluverðið, og er það viðurkenning á því, að Norðmenn líta svo á, að landbúnaðurinn sé ekki aðeins fyrir bændurna, heldur fyrir þjóðarheildina. Um leið og lagt er til að lögfesta þetta ákvæði hér, er það einnig viðurkenning af löggjafans hendi, að landbúnaður á Íslandi sé fyrir alla þjóðina og það sé þess vegna ekki aðeins eðlilegt, að ríkissjóður leggi fram ríflegan skerf til þess að bæta gengishallann og til þess að byggja upp þessa starfsemi, heldur einnig hinn almenni neytandi, um leið og hann kaupir vöruna. Það má þess vegna gera ráð fyrir, að hinn árlegi tekjustofn deildarinnar verði: 8.24 milli., 1% frá bændum, sama upphæð úr ríkissjóði, það eru 16,5 millj., 4 milli. fast gjald úr ríkissjóði. 20.5 millj., 5.5 millj. eða jafnvel 6, 0.75% gjaldið, það eru 26 millj. En auk þess má meta nokkurs stofnframlagið, sem ríkissjóður leggur fram nú þegar. Væri miðað við 12 ár og 7.5% vexti af þessu stofnfé, jafngildir það rúmlega 9 millj. kr. á ári fyrir stofnlánadeildina, þannig að hér eru sama sem 35 millj. kr. árlegar tekjur í stofnlánadeildina.

Ég vænti þess, að þegar hv. þm. hafa áttað sig á þessum atriðum, geri þeir sér ljóst, að þetta frv. stefnir ekki að því að hindra uppbyggingu landbúnaðarins. Það stefnir ekki að því að leggja byrðar á landbúnaðinn og láta bændurna greiða gengistöpin. Ég veit, að hv. þm. í Ed. gera sér fulla grein fyrir því, hverja þýðingu þetta mál hefur. Ég veit, að þeir gera sér ljóst, að sé reiknað með 1% gjaldi af vörum, þá borga bændur ekki 1/4 af því, sem deildin fær árlega. Og sé reiknað með aðeins 1/2% nýju gjaldi, sem kannske vært eðlilegra að gera, þá væri þetta milli og 1/9 og 1/8 hluti, og væri það borið saman við það, sem útvegurinn greiðir, og það, sem hann hefur fengið úr ríkissjóði, þá held ég, að þeir, sem tala fyrir landbúnaðinn, mundu ekki segja, að bændurnir ættu í þessu tilfelli að fá sama rétt og útgerðin, vegna þess að þarna er um annan og meiri rétt að ræða en útgerðin hefur búið við.

Ég veit, að einhverjir munu segja, að það sé erfitt fyrir bændur að borga 1% gjald, vegna þess að þeir fái ekki fullt grundvallarverð fyrir afurðirnar og þeir fái ekki útgjaldaliði við framleiðsluna viðurkennda. En það var ekki heldur, þegar bændahallargjaldið var lögfest. Þá höfðu bændur ekki útflutningstryggingu. þá fengu þeir ekki viðurkennda kostnaðarliði í grundvellinum, og var verðgrundvöllurinn vitlaus eins og hann er nú. En þá var það þannig, að þeir fengu ekki það verð, sem skráð var eftir grundvellinum, vegna þess að það vantaði útflutningstryggingu, og ég efast um, að bændur hafi þá verið nokkru færari um að bera gjöld heldur en það 1% gjald, sem nú verður lagt á. Það vitanlega miðast ekki við það, að bændurna vanti á næstu árum viðurkenningu á útgjaldaliðum við búrekstur, jafnvel þó að það vanti nú. Það hlýtur að koma að því, að þeir liðir, sem hægt er að færa rök fyrir til útgjalda við búreksturinn, verði viðurkenndir, og jafnvel þótt það gengi illa og fengist ekki, þá er nauðsynin svo brýn að byggja upp lánasjóði landbúnaðarins, að á því veitur framtíð íslenzks landbúnaðar, að það megi takast.

Samkv. 5. gr. tekur stofnlánadeildin að sjálfsögðu við öllum skuldbindingum, sem ræktunar- og byggingarsjóður hafa haft. Sú breyting er gerð á gildandi ákvæðum um lán út á framkvæmdir, að bætt er við framkvæmdum í sambandi við lax- og silungseldi, sem ætla má að verði í vaxandi mæli hér eftir. Það hefur sem sagt ekki vantað að undanförnu heimildir til þess að lána út á vélar, vinnslustöðvar og annað tilheyrandi landbúnaðinum. Það hefur einfaldlega ekki verið gert, vegna þess að það hefur vantað fé. Og einmitt vegna þess, að þessar heimildir voru í lögum, þurfti litlu við að bæta. Þá er gert ráð fyrir lánum allt að 60% kostnaðarverðs, sem nú er í lagaákvæðum um ræktunarsjóð. Og það er fellt niður gildandi ákvæði um lánsupphæðir til byggingar íbúðarhúsa, því að það var algerlega úrelt, enda ekki eftir því farið. Öðrum ákvæðum er lítið breytt í sambandi við væntanlegar lánveitingar. Þá er vitanlega ákvæði um tryggingar fyrir lánum í samræmi við gildandi lög.

Tekið er í 9. gr. ákvæði um lánstíma á lánum, bæði í byggingarsjóði og ræktunarsjóði, og gert ráð fyrir, að lánstími verði nánar ákveðinn með reglugerð, en lánstími út á íbúðarhús í sveitum hefur verið 42 ár og úr ræktunarsjóði lengst af 20 ár, og er gert ráð fyrir að lengja lánstímann til framkvæmda, byggingar útihúsa og ræktunar, eins og ég áðan sagði, aftur upp í 20 ár.

Þá er ekki heldur ákveðið í þessum lögum með vaxtafótinn, því að eins og vitað er vegna ákvæða laga um efnahagsmál, eru vextir ákveðnir með öðrum hætti. Það gerir Seðlabankinn í samráði við ríkisstj. En það þykir hins vegar rétt að mæla fyrir um vaxtamismun, og er gert ráð fyrir, að það verði eins og áður, að vextir hafa alltaf verið hærri á lán til íbúðarhúsabygginga heldur en úr ræktunarsjóðnum. Er gert ráð fyrir, að það verði framvegis sami mismunur. Þá er, eins og verið hefur, samkv. 11. gr. gert ráð fyrir, að ríkissjóður sé ábyrgur fyrir öllum skuldbindingum fyrir stofnlánadeildina, eins og er fyrir ræktunar- og byggingarsjóð.

Þrátt fyrir þá uppbyggingu, sem augljós er samkv. þessu frv., verður að gera ráð fyrir, að stofnlánadeildin taki lán fyrstu árin, og þess vegna er lánsheimild í 12. gr., og má þá ætla, að aðallega verði tekin lán innanlands og að það verði, eftir að augljóst er, að stofnlánadeildin byggir sig upp og getur staðið undir lánunum, greiðara en áður, þegar um það var að ræða að útvega uppbyggingar- og ræktunarsjóðslán s.l. 2 ár. Ég komst í kynni við það, þegar ég talaði við Seðlabankann, hvernig þeir litu á það í Seðlabankanum að lána ræktunarsjóði og byggingarsjóði, eins og rekstur þeirra hefur verið.

Það var beinlínis skilyrði frá þeirra hendi, til þess að geta lánað þessum sjóðum, að rekstrargrundvöllur þeirra yrði á annan veg en verið hefur. Og það er vitanlega ekkert að undra, Þótt svo sé, þegar um það er að ræða að lána einni stofnun, jafnvel þótt ríkisábyrgð sé á bak við. Það má einnig hugsa sér að taka eitthvert erlent lán til þess að lána vinnslustöðvum og jafnvel út á vélar til stutts tíma. Það er t.d. kunnugt, að Mjólkursamsalan og fleiri stöðvar mundu glaðar taka erlent lán og kemur ekki til hugar raunverulega annað, eða lán t.d. í gegnum Búnaðarbankann, sem væri endurlánað með gengisklásúlu. Það er svo mikið fjármagn, sem þarf þannig á einn stað, að þeim kemur ekki til hugar, að það sé hægt að fá það innanlands. Hins vegar kemur vitanlega ekki til mála, að bændur geti tekið lán með gengisklásúlu til byggingar, ræktunar eða annars, nema ef það væri þá að einhverju leyti til vélakaupa og væri til skamms tíma. Það gæti verið til athugunar.

Það er kunnugt, að veðdeildin hefur búið við algeran fjárskort undanfarin ár og alls ekki getað innt það hlutverk af hendi, sem henni er ætlað. Samkv. 13. gr. þessa frv. er gert ráð fyrir, að stofnlánadeildin geti keypt bankavaxtabréf af veðdeildinni allt að 10 millj. kr. á ári. Og það mundi gera veðdeildinni fært að lána samkv. þeim reglum, sem henni var upphaflega ætlað að gera. Og 10 millj. kr. á ári er sú upphæð, sem tvö síðustu búnaðarþing hafa samþykkt og óskað eftir, að ríkisstj. hefði forgöngu um að útvega veðdeildinni, 10 millj. kr. á ári.

14.–21. gr. eru algerlega í samræmi við gildandi ákvæði. Um byggingarsjóð og ræktunarsjóð eru ákvæði í lögum um Búnaðarbanka íslands, en ekki þykir þó ástæða til að gera nú breytingu á þeim lögum, heldur láta nægja almennt ákvæði, er í 22. gr. felst. í sambandi við innheimtu álags á landbúnaðarvörur er ekki ákveðið í þessu frv., hvernig að því skuli farið, það verður gert með reglugerð og sennilega með svipuðum eða sama hætti og búnaðarmálasjóðsgjaldið er innheimt.

Um aðrar greinar frv. er í rauninni ekkert að segja. Það er aðeins breytt orðalagi í samræmi við aðrar breytingar á frv.

Ég hygg, að hv. alþm. séu sammála um þá miklu þarf, sem fyrir því er að byggja upp lánasjóði landbúnaðarins. Það þarf þess vegna ekki að eyða mörgum orðum til þess að rökstyðja það, og þegar núv. ríkisstj. var mynduð, var gefin yfirlýsing um, að hún mundi leitast við að koma styrkum stoðum undir þessar stofnanir, og á grundvelli þeirrar yfirlýsingar var skipuð nefnd til þess að gera tillögur um uppbyggingu og endurreisn sjóðanna. Það var mikið starf, og starfaði nefndin í samráði við ríkisstj. í nefndinni voru upphaflega Magnús Jónsson bankastjóri og alþm., Jóhannes Nordal bankastjóri og Gunnlaugur Briem ráðuneytisstjóri. Síðar var bætt við í nefndina Jóni Þorsteinssyni alþm., sem var með í samningu frv. undir lokin.

Eins og augljóst er þeim, sem lesa frv., miðar það að því að efla sjóðina, koma styrkum stoðum undir þá og gera þá bæra um að auka útlánin og verða landbúnaðinum meiri og styrkari stoð en búnaðarsjóðirnir hafa verið á undanförnum árum. Skal þó ekki lítið gert úr því. sem búnaðarsjóðirnir hafa verið landbúnaðinum undanfarið, enda þótt þeir vegna fjárskorts hafi alltaf lánað minna en nauðsyn bar til, og vegna þessa fjárskorts hafa safnazt lausaskuldir hjá landbúnaðinum, sem nú er verið að gera ráðstafanir til að losa bændur við.

Frv. fylgja skýrslur og útreikningar um efnahagsrekstur op greiðsluyfirlit byggingar- og ræktunarsjóðs. Það sýnir annars vegar, hvaða ástand skapast með því að hafast ekkert að, og hins vegar, hvernig sjóðirnir byggja sig upp, ef þetta frv. verður að lögum. Og ég, vil sérstaklega biðja hv. alþm. að lesa þessar töflur og þessar skýrslur vel og greinilega og átta sig á þeim, því að þær sýna svo glögglega að ekki verður um villzt, að sjóðirnir byggja sig mjög ört upp, að stofnlánadeild landbúnaðarins verður sterk stofnun sem ræður yfir miklu fjármagni, meira fjármagni en ýmsir okkar hafa áður látið okkur dreyma um að mundi skapast og safnast fyrir í stofnlánadeildum, sem landbúnaðurinn á að njóta góðs af.

En áður en við förum út í það, er rétt að gera sér grein fyrir, jafnvel þótt hv. þm. hafi gert það áður, hvaða ástand hefði skapazt hjá byggingarsjóði og ræktunarsjóði með því að hafast ekkert að. Ef ekkert hefði verið hafzt að og miðað við óbreytt ástand gæti byggingarsjóður ekkert lánað, en greiðsluhalli hans næmi 50 millj. kr. næstu 14 árin. Og á fskj. III má sjá árlegan rekstrarhalla ræktunarsjóðs. Hann var 1961 6 millj. kr., en 1970 mundi hann verða 16.5 millj. kr. Skuld ræktunarsjóðs í árslok 1961 nam 52.5 millj. kr. umfram eignir. Að óbreyttu ástandi héldi hagur sjóðsins áfram að versna þannig að 1970 væri skuld umfram eignir 156 millj. kr. Ástæðan er vitnalega aðallegar gengishallinn, en hann er um 156.5 millj. kr., og útgjaldaaukning vegna hans, og ég skal þess vegna ekkert gera lítið úr því, það er vitanlega mikils virði fyrir sjóðina að losna við gengishallann. En þeir verða eigi að síður fávana. Þeir byggja sig ekki upp og verða févana, og það þarf þess vegna meira að gera, ef ætlazt er til að sjóðir landbúnaðarins verði það aflögufærir og geti lánað eins og nauðsyn ber til, til þess að uppbygging verði í landbúnaðinum eins og æskilegt er En þetta frv. leggur til, að hvort tveggja sé gert. að gengishallinn verði að fullu greiddur með hækkuðu framlagi ríkissjóðs og að sjóðirnir verði byggðir upp, sbr. fskj. II með frv. Það sýnir, hvernig stofnlánadeildin byggist upp. að eigið fé stofnlánadeildar vex mjög ört. Árið 1962 mundi stofnlánadeildin hafa eigið fé 31.7 millj. kr. og þarf þess vegna að taka lán á þessu ári til þess að geta innt af hendi það, sem þarf að gera í sambandi við lán á þessu ári, og einnig það, sem er að nokkru leyti eftir frá fyrri árum. 1963 verður eigið fé deildarinnar komið upp í 50 millj., 1964 56.5 millj.. 1965 61.6 millj., 1970 101.6 millj, og 1975 148.4 millj. Þetta er miðað við óbreytt verðlag, en hækki verðlagið, þá hækkar einnig framlag til deildarinnar, þannig að lánsfjármáttur deildarinnar ætti lítið að minnka, þótt verðlagið hækkaði. Það er þess vegna ljóst, að ef hv. þm. athuga fskj. og töflurnar, sem frv. fylgja, og greiðsluyfirlitin, þá verður það ljóst, að stofnlánadeildin verður á tiltölulega skömmum tíma mjög sterk stofnun.

Efnahags- og rekstrarreikninginn geta menn séð á fskj. I, sem fylgir frv. í árslok 1961 er öfugur höfuðstóll ræktunarsjóðs og byggingarsjóðs um 45 millj. kr., í árslok 1962 verður réttur höfuðstóll, ef frv. verður lögfest, 28.3 milli. kr., í árslok 1963 47.7 millj., í árslok 1956 93.2 millj., í árslok 1967 148.8 millj., í árslok 1970 255 millj. og í árslok 1975 507.1 millj., höfuðstóll deildarinnar. Ég hef ekki reiknað út, hvað deildin hefur yfir að ráða á árinu t.d. 1980, þegar höfuðstóllinn er kominn upp í 507 millj. og árlegur rekstur kominn upp í 60 millj. Þá náttúrlega byggist þetta ótrúlega ört upp, og þarna höfum við undirstöðuna og trygginguna fyrir áframhaldandi uppbyggingu í íslenzkum landbúnaði.

Á fskj. í má einnig sjá rekstraryfirlit. og það sýnir, að rekstrarafgangur stofnlánadeildarinnar hækkar ár frá ári og tryggir öra uppbyggingu hennar. Búnaðarsjóðirnir hafa á undanförnum árum fengið allmikið fé úr mótvirðissjóði, eins og hv. þm. er kunnugt um, eða helminginn af fé mótvirðissjóðs. Framkvæmdabankinn hefur haft milligöngu með þau lán. Vaxtakjörin hafa verið óhagstæð, eins og sjá má af fskj. V með frv. Með óbreyttum vaxtahalta af lánum úr mótvirðissjóði mundi sjóðurinn tapa 100 millj. kr. í vaxtahalla á 15 árum. Þetta er vitanlega algerlega óþolandi ástand. Þess vegna hafa verið teknir unn samningar við Framkvæmdabankann um lækkun vaxta á eldri lánum og einnig þeim lánum, sem hér eftir verða tekin úr mótvirðissjóði, um niðurfærslu á vöxtunum, þannig að það verði a.m.k. enginn vaxtahalli á þessum lánum og helzt að vextirnir verði færðir það langt niður, að það verði enginn vaxtahalli. Ég get fullyrt það hér, að Framkvæmdabankinn er mjög vinsamlegur í þessu máli og þess vegna full ástæða til þess að ætla, þó að ekki sé rétt að fullyrða fyrr en máli er lokið, að samningar takist við Framkvæmdabankann um þetta atriði.

Frv. miðar að því að gera það mögulegt, eins op, áður hefur verið sagt, að hækka lán til landbúnaðarins og veita lán út á vélar og aðrar framkvæmdir, sem hefur ekki verið unnt að sinna áður vegna fjárskorts. Og þegar hv. þm. gera sér grein fyrir því, hvernig deildin byggist upp, mun enginn verða í vafa um, að þetta er mögulegt. Það verður náttúrlega nú í fyrstu að bæta þetta upp með lánum, en frv. þetta, eftir að bað hefur verið lögfest, gerir mögulegt að fá lán, því að augljóst er, að stofnlánadeildin er þess virði með þeirri uppbyggingu, sem hér er gert ráð fyrir að lögfesta. Ég hef hér hjá mér töflu um útflutningsgjald af sjávarafurðum, en ég drap á það fyrr í ræðunni, hvað það væri, og sé ekki ástæðu til þess að fara lengra út í það að sinni og þá sízt vegna þess, að hv. þm. er kunnugt um, að ég ætla, hvernig það er framkvæmt. Það er augljóst, að með stofnframlagi ríkissjóðs, 60.5 millj., er ekki aðeins réttur við sá öflugi höfuðstóll, sem nú er, heldur einnig lagður hornsteinn áð þeirri mikilvægu uppbyggingu, sem felst í fjáröflun þeirri, sem lagt er til að verði lögfest. Og eins og ég áðan drap á, hefur sjávarútvegurinn byggt upp sína lánastofnun á útflutningsgjaldi án þess að fá nokkuð að ráði á móti frá ríkissjóði eða annars staðar frá, og það er áreiðanlegt, að enginn útgerðarmaður væri þess fýsandi, að útflutningsgjaldið, sem gengur til fiskveiðasjóðs, yrði fellt niður. Þá má einnig geta þess, að nú er fyrir hv. Ed. frv., sem var lagt fram fyrir síðustu helgi, um hlutatryggingasjóð, og í því frv. er lagt til, að 11/4 % verði lagt á sem útflutningsgjald af sjávarafurðum, sem gengur í hlutatryggingasjóð. Þetta er nokkuð hliðstætt því. sem hér er lagt til með búvörugjaldið, að öðru leyti en því. að prósenttalan er miklu hærri á sjávarafurðum heldur en hér er lagt til að verði og að útvegurinn fær ekkert svipað á móti í fiskveiðasjóð eða til sinnar starfsemi eins og lagt er til með þessu frv.

Ég hef minnzt á það áður, hversu mikið Það er, sem stofnlánadeildin fær árlega í tekjum. Það er í fyrsta lagi 8.24 millj., áætlað á næsta ári, 1% gjald af búvörum, sama upphæð á móti úr ríkissjóði, 16.5 millj., 4 millj. fast gjald og 5.5–6 millj., sem kemur sem álag á útsöluverð landbúnaðarvara, þannig að þetta eru 26–27 millj. kr., og sé reiknað með í 12 árum og 71/2% vöxtum af 60.5 millj. kr. framlagi ríkissjóðs, Þá jafngildir það rúmlega 9 millj. kr. á ári, þannig að árlegar tekjur stofnlánadeildarinnar eru samkv. þessu 35 millj. kr. og fara vaxandi með ári hverju, eins og greinilega kemur fram á þeim töflum og útreikningum, sem fylgja með frv. Það er þess vegna ljóst, að þetta frv, gerir ekki ráð fyrir því, að gengishallinn verði aðeins bættur, það er svo augljóst. Það er rétt, að með því frv., sem hv. framsóknarmenn hafa flutt, er gert ráð fyrir að bæta gengishallann, að ég ætla að fullu, sennilega alveg að fullu, en þá er gert ráð fyrir, að það séu 10 millj. kr. á ári. Ég hygg, að þeir útreikningar séu réttir, a.m.k. í aðalatriðum, og engin ástæða til Þess að rengja Það. En hér er ljóst samkv. Þessu frv., að greiðsla ríkissjóðs verður á árinu 1963, bein greiðsla ríkissjóðs, 21 millj. 740 þús., sé miðað við árlegar greiðslur af þessum 60.5 millj. kr., sem þegar eru lagðar fram, og reiknað með þeim vöxtum, sem þessi upphæð gefur. Og auk þess kemur annars staðar frá en frá bændunum 51/2–6 millj. kr. Þá sjáum við það, hversu miklu lengra þetta frv. gengur en hitt frv., og það má segja, að hv. framsóknarmenn í sinni stjórnarandstöðu hafi, eftir að ljóst var, hvernig komið var fyrir búnaðarsjóðunum, sýnt hógværð í kröfum á hendur ríkissjóði með því, að í þessu frv., sem þeir nú hafa lagt fram, er gert ráð fyrir að dreifa þessu í árlegar greiðslur, öfugt við það, sem var í fyrra frv., þar sem ætlazt er til, að ríkissjóður taki summuna í einu. En ég veit, að hv. þm., sem hafa ætlað að gera að þessu leyti vel við búnaðarsjóðina, eru mér sammála um það, að jafnvel þótt Þeirra frv. væri lögfest, þá gengur það of skammt til þess að gera búnaðarsjóðina færa um að veita lán til landbúnaðarins eins og nauðsyn ber til. Ég tek þetta fram hér, án þess að ég sé á nokkurn hátt að gera lítið úr þessu frv. Ég met það sem viðleitni og sem örþrifaráð, sem menn grípa til, þegar augljóst er, að komið er í vandræði, því að það erum við öll hér í þessari hv. deild áreiðanlega sannfærð og sammála um, að ástand búnaðarsjóðanna í dag er í fullkomnum vandræðum, og ég veit þess vegna, að hv. þm. eru mér fyllilega sammála um, að sá dráttur, sem orðið hefur á því að flytja þetta frv., er fyllilega eðlilegur, vegna þess að leiðin út úr ógöngunum var vitanlega alls ekki greið.

Ég hitti einn hv. framsóknarþm. í gær og átti tal við hann, og hann sagðist hafa lesið frv. og hann sæi það, að með þessu móti væri greitt úr málinu vel og farsællega, að hann taldi. Og ég veit, að fleiri hv. þm. Framsfl. munu taka undir þetta og vitanlega flestir kjósendur flokksins (SE: Hver var þessi þm.?) þrátt fyrir það, þótt Tíminn hafi skrifað í þessum tón um málið. (ÁB: Hvaða þingmaður var þetta?) Það er ekkert leyndarmál, hvaða þm. þetta er, því að ég veit, að það verða fleiri þm. Ég vona, áð hv. 1. þm. Vesturl. beri gæfu til þess að fylgja góðu máli, og ég ætla ekki að trúa Því. að hann komi hér upp í ræðustólinn og segi, að hér sé ekki um gott mál að ræða. Ef hann gerir það, þá getum við talað saman um málið frekar.

Ég minntist á það í upphafi ræðu minnar, að það hefði verið sagt, að bönkunum og öðrum sjóðum en landbúnaðarsjóðunum hefði verið bætt gengistapið að fullu, en lánasjóðir landbúnaðarins hefðu orðið út undan. Sannleikurinn er sá, og það veit ég, að hv. þm. Ed. vita, að það hefur engum sjóðum verið bætt gengistap, engum sjóðum nema landbúnaðarsjóðunum, það er lagt til, að þeim verði bætt gengistapið og miklu meira en það. Ef einhver vill enn halda því fram, sem sagt var í hita dagsins í hv. Nd. og prentað var í Tímanum, þá væri eðlilegt, að Það væri nefndur einhver sjóður, sem hefur fengið gengisfauið bætt. Ríkissjóður fékk gengistapið bætt, og hann tók gengishagnaðinn af bönkunum, sem var 40 millj, kr., og hann fékk 112 millj. kr. af mótvirðisfé, sem var geymt á bundnum reikningi í Seðlabankanum, einnig upp í sin töp. En gengistap Seðlabankans var 80 millj. kr., og hann varð vitanlega sjálfur að bera þáð. Ég veit, að hv. þm. Ed. taka sér ekki orð í munn, þar sem þessum hlutum er alveg snúið við.

Ég vænti þess, að þegar hv. þm. hafa kynnt sér frv., eins og ég vænti að þeir hafi nú þegar gert, þá verði þeir mér sammála um, að hér sé verið að byggja upp trausta stofnun, sem landbúnaðurinn muni njóta góðs af. Og eins og töflurnar sýna, sem fylgja með frv., er þáð séð, að árið 1965 verður eigið fé stofnlánadeildarinnar 61.7 millj., 1970 101.7 millj. og 1975 148.4 millj., og hækki verðlag, minnki kaupmáttur, þá hækkar þessi fjárhæð nokkurn veginn, ekki kannske alveg í hlutfalli við það, en mikið til samræmis við það. Og þá er einnig rétt að hafa í huga og má endurtaka, að öfugur höfuðstóli í árslok 1961 er 34.67 millj., réttur höfuðstóli í árslok 1965 verður 93.2 millj., í árslok 1970 255 millj. og í árslok 1975 507.1 millj. Og þegar þetta liggur fyrir, dettur mér ekki í hug að ætla, að einhver ætli að fullyrða, að hér sé verið með mál, sem kemur ekki landbúnaðinum að miklu gagni, að hér sé verið með eitthvert hégómamál eða með þessu sé verið að leggja byrðar á bændur, að með lögfestingu þessa frv. sé verið að hindra framgang og uppbyggingu landbúnaðarins. Ég veit, að hv. þm., ef þeir vilja líta á þetta mál með sanngirni og láta dómgreindina ráða, Þá verða þeir sammála mér um það, að þessi lausn málsins er sú bezta, sem hægt var að fá. Og ég er því sannfærðari um það, þegar hv. framsóknarmenn, sem vissulega vildu leysa málið, — það efast ég ekkert um, — höfðu ekki annað fram að bera en það frv., sem hér liggur fyrir á dagskránni í dag og fer fram á að leiðrétta gengishallann, en ekki annað. Þegar uppbygging stofnlánadeildarinnar er komin vel á veg, eins og sýnt er að verður eftir stuttan tíma, þá má segja, að hana muni ekki mikið um að kaupa af veðdeildinni bankavaxtabréf fyrir 10 millj. kr. árlega. Það má hins vegar segja, að hún geti það ekki af eigin fé fyrstu árin. En eins og áður hefur verið að vikið, er ætlunin fyrstu árin að afla deildinni fjár með lánum. Og ég hef rökstudda ástæðu til þess að ætla, að ef þetta frv. verður lögfest, liggi peningar lausari fyrir en áður fyrir stofnlánadeildina, sem komin er á fjárhagslegan grundvöll, eftir að þessi löggjöf er komin á.

Til þess að ekki þurfi í hvert sinn, sem lán þarf að taka, að leita heimildar, er gert ráð fyrir með þessu frv., að stofnlánadeildin hafi heimild til þess að taka alls allt að 300 millj. kr. lán. Það má vel vera, að það þurfi ekki að nota Þessa heimild að fullu, en það getur ekki skaðað neitt, þótt hún sé fyrir hendi.

Það er ekki mikil ástæða til að hafa þessa framsöguræðu öllu lengri. Ég held, að ég hafi tekið fram öll meginatriðin, og ég efast ekki um, að hv. þm. er vitanlega ljóst, hvaða gildi þetta hefur fyrir landbúnaðinn, ef Það verður lögfest. Ég er sannfærður um, að bændur gera sér ljóst, hvaða þýðingu þetta hefur. Og það, sem máli skiptir, er, að eftir að þetta frv. hefur verið lögfest, verða lán út á framkvæmdir í sveitum aukin frá því, sem verið hefur. Það verður að auka lán til íbúðabygginga í sveitum. Það er ekki nóg að lána 100 Þús. kr., eins og gert var s.l. ár. Það verður að hækka það verulega. Það verður að lána út á vélar, sem hefur ekki verið gert áður. Það verður að lána út á vinnslustöðvar, sem lítið hefur verið gert að áður. Og það þarf meira. Ég minnist þess, að hv. framsóknarmenn hafa flutt hér frv. um bústofnslánasjóð. Sú viðleitni er vitanlega virðingarverð, en það vantar ekki nýjan sjóð í Búnaðarbankann til þess að geta lánað út á bústofn. Það vantar fjármagnið, og veðdeildin og stofnlánadeildin gætu vitanlega tekið þetta verkefni að sér, ef fjármagn er fyrir hendi, og með Þessu frv. skapast grundvöllur til að ná því fjármagni, sem nauðsyn ber til.

Þegar ég las hina óvæntu frétt í Tímanum og sagt var, að hér væri árás á bændur og frv. miðaði að stöðnun í landbúnaðinum, þá var einn kunningi minn, sem sagði við mig: Þetta er vont fyrir þá, sem hafa skrifað þetta og talað þetta, en þetta er vitanlega gott fyrir þá, sem að flutningi þessa máls standa. — Og ég er vitanlega sannfærður um, að þetta er rétt. Hver mundi ekki vilja hafa flutt þetta frv., t.d. eftir 5 eða 10 ár, þegar árangurinn er orðinn staðreynd? Og hver mundi ekki vilja hafa flutt þetta frv. t.d. eftir 15 eða 20 ár, þegar staðreyndin er, að þarna er komin saman fjárhæð og höfuðstóil, stærri en nokkur atvinnuvegur hefur látið sig dreyma um, að hægt væri að eignast? Eða hvað haldið þið, hv. þm., — ég efast ekki um, að þið eruð margir góðir reikningsmenn, — hvað haldið þið, að höfuðstóll þessarar deildar verði hár t.d. 1980, 1990? Við vitum, að hann verður á 6. hundrað millj. í árslok 1975. Ég hef ekki setzt niður að reikna lengra, en það eru áreiðanlega margir hv. þm., sem gætu gert það, og vissulega væri fróðleikur í því. En einmitt þetta sýnir og sannar, hvaða gildi þetta frv. kemur til með að hafa, ef að lögum verður, fyrir þann atvinnuveg, sem lengst af hefur orðið að búa við fjárskort þrátt fyrir góðan vilja margra manna að útvega lánasjóðum landbúnaðarins fé. Menn geta sagt ýmislegt í hita dagsins og óhugsað og fullyrt, en getur nokkur, eftir að hann hefur lesið þetta frv. og kynnt sér það ofan í kjölinn, tekið undir það, sem áður hefur verið sagt, að Þetta sé árás á bændastéttina, að frv. miði að því að hindra uppbyggingu landbúnaðarins, að bændum sé gert að greiða gengishalla búnaðarsjóðanna, sem aðrir sjóðir og bankar hafi ekki þurft að gera? Ég hef haft það álit á hv. Ed: mönnum, að ég á ekki von á, að þeir að athuguðu máli taki undir þessi ummæli, sem hljóta að hafa verið viðhöfð áður en frv. var lesið ofan í kjölinn.

Ég tel ekki ástæðu til að svo stöddu að fjölyrða meira um málið, en legg til, að því verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.