13.03.1962
Efri deild: 63. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1644 í B-deild Alþingistíðinda. (1549)

170. mál, Stofnalánadeild landbúnaðarins

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir því. að till. hæstv. ráðh. um, að Þessu máli verði vísað til landbn., verði samþykkt. Þá fer málið til nefndar, þar sem ég á sæti, og gefst mér þá kostur á að athuga frv. og ræða um það síðar, eftir að sú athugun hefur farið fram. Ég mun því að mestu láta bíða að ræða þetta mál almennt, en vil nú við þessa umr. segja aðeins fáein orð og gera örfáar athugasemdir við málið.

Hæstv. ráðh. vitnaði oft í framsöguræðu sinni fyrir málinu til útreikninga, sem birtir eru sem fskj. með frv., og vitnaði til þeirra þannig, að þær niðurstöðutölur, sem þar eru sýndar, séu óyggjandi. Það er í sjálfu sér mjög vel farið og eðlilegt, að vitnað sé til þessara útreikninga, vegna þess að þeir eru grundvöllur undir ákvæðum frv. sjálfs, sem hníga að fjárhag búnaðarsjóðanna eða stofnlánadeildarinnar, eins og hún á að verða, allt til 1975. Það liggur í augum uppi, að það er ógerningur fyrir þm., sem fá svona þskj, í hendur með mörgum og flóknum töflum, að gera sér fulla grein fyrir því, hvaða athuganir á bak við hverja tölu liggja, og sannprófa þannig það öryggi, sem í þessum útreikningum felst. Ég hef ekki heldur aðstöðu til þess að leggja fullan dóm á þetta, en vil aðeins með þessum orðum, sem ég segi hér, benda á örfá atriði, sem eru þess eðlis, að mér virðist nokkurrar ónákvæmni gæta og að Ýmsir liðir, sem vega mikið í þessum útreikningum, séu harla óvissir.

Í grg. segir á bls. 15 í frv. t.d.: „Á meðfylgjandi töflu, fskj. III, má sjá rekstrarhalla ræktunarsjóðs næstu 10 árin.“ Þetta sést ekki af fskj. III, heldur af fskj. VIII. Þá segir neðar á sömu bls.: „Meðfylgjandi tafla, fskj. IV, sýnir, að árin 1961–1973 nema útgjöld sjóðanna vegna gengishalla á lánum þessum 11 millj. kr. á ári, eða samtals 156 millj. kr.“ Þetta virðist mér ekki koma fram í fskj. IV, heldur fremur í fskj. V, og nær það þó lengra, þar eru klipptar aftan af tvær tölur, þegar þetta er tekið upp í grg. Þá segir á bls. 16 í frv.: „Á meðfylgjandi töflu, fskj. V, er sérstaklega sýndur vaxtahalli vegna lána úr mótvirðissjóði.“ Þetta virðist mér mega finna í fskj VI, en ekki í fskj. V. Enn fremur segir neðarlega á bls. 15: „Enda þótt ræktunarsjóður hafi á undanförnum 30 árum fengið sem óafturkræf framlög frá ríkissjóði um 67.5 millj. kr., þá er efnahagur sjóðsins svo bágborinn, að hann skuldar nú 52.5 millj. kr. umfram eignir.“ Og svo er haldið áfram: „Að óbreyttu ástandi mundi hagur sjóðsins versna enn svo stórkostlega næstu árin, að 1970 mundi hann skulda 156 millj. kr. umfram eignir.“ Ef þetta er borið saman við þá töflu, sem um þetta gildir og birt er hér með frv., þá sýnist mér, að talan 52.5 millj. standi ekki í töflunni, heldur ofur lítið hærri tala. Ég segi ekki þetta í því skyni, að þetta séu svo stór atriði, að þau hafi áhrif á meginefni málsins, heldur aðeins sem dæmi um ónákvæmni, sem kemur fram í frv.

Það liggur í augum uppi, að fskj. I, um efnahagsreikning stofnlánadeildar landbúnaðarins og rekstrarreikning deildarinnar, ásamt fskj. II, um greiðsluyfirlit stofnlánadeildar landbúnaðarins, eru þau fskj., þar sem grundvöllurinn undir löggjöfinni er í raun og veru lagður, grundvöllur stofnlánadeildarinnar, sem hún á að byggja á og starfa eftir allt til ársins 1975.

Ef litið er á greiðsluyfirlitið, fskj. II, þá má segja, að töluliður 2, þ.e. afborganir lána, sem veitt eru fyrir árslok 1961, sé nokkurn veginn öruggur, vegna Þess að Það er kunnugt, hver Þau lán eru. En ef litið er á tölulið 3, þ.e. lán veitt eftir árslok 1961 og allt til ársins 1975, þá liggur í augum uppi, að sá liður getur engan veginn verið örugg tala. Hér er um áætlun eða þó líklega fremur ágizkun að ræða, eins konar spádóm um það, hvernig starfsemin verði og hve útlánin verði mikil á næstu 10–15 árum. Vegna þess, að liðir í útreikningunum eru svona óvissir, verður vitanlega að taka niðurstöðutölu töflunnar með nokkurri varúð.

Ef við lítum nú á fskj. I, efnahagsreikninginn, þá kemur svipað fram. Þar er langhæsti liðurinn skuldabréf fyrir lánum, og sá liður fer síhækkandi allt til ársins 1975 samkvæmt töflunni. Þetta er líka mjög óviss tala. Þetta er fremur ágizkun um það, sem gerast kann á næstu árum, heldur en að hér sé um örugga og óyggjandi staðreynd að ræða.

Ef við lítum svo á skuldahlið efnahagsreiknings, kemur í ljós, að liðurinn erlend lán nemur nú eða á árinu 1961 samkv. þessum útreikningum 226 millj. kr. Síðan fer þessi fjárhæð lækkandi ár frá ári allt tímabilið, sem reikningarnir ná yfir, og verður 31.6 millj. árið 1975. Ég geri mér þá grein fyrir þessu, að hér sé miðað við þau erlendu lán, sem nú hvíla á byggingar- og ræktunarsjóði. En þess ber að gæta, þegar á þetta er litið, að eitt ákvæði frv. og Það mikilvægt ákvæði er heimild til þess, að stofnlánadeildin taki á því tímabili, sem hér ræðir um, hvorki meira né minna en 300 millj. kr. lán, innlent eða erlent eftir atvikum. Mér skilst, að efnahagsyfirlitið sé miðað við, eins og þessu er stillt upp hér, að þessi lánsheimild verði alls ekki notuð á tímabilinu og að aukin lán, innlend eða erlend, komi ekki fram í töflunni. En ætli efnahagsyfirlitið liti ekki nokkuð öðruvísi út, ef búið væri að taka 300 millj. kr. lán, sem kæmi inn í skuldahlið þess?

Þá skulum við líta á rekstrarreikning. Það er viðurkennt, bæði í grg. frv. og í ræðu ráðherrans, framsöguræðu hans fyrir málinu, að það sé erfitt að ákveða eða áætla alveg nákvæmlega það framleiðslugjald, sem bændur eiga að greiða samkv. frv., og enn fremur gjald það, sem á að taka samkv. 4. tölulið 2. gr. frv. Þetta er vitanlega alveg rétt og liggur í augum uppi, því að Það er háð breytingum á framleiðslunni, hvort þetta gjald hækkar eða lækkar og hve miklu sá mismunur nemur frá ári til árs. En hæsti liðurinn á rekstrarreikningi eru vaxtatekjur. Mér virðist sá liður vera þannig fenginn, að stafliðir b, þ.e.a.s. þær tölur, sem á eftir þeim standa, í 2. og 3. tölulið greiðsluyfirlits, fskj. II, séu lagðar saman og sú samtala, sem þannig fæst, sé færð sem vaxtatekjur á rekstrarreikningi á fskj. I. Ég fæ ekki betur séð en þessu sé þannig stillt upp. Nú virðist mér, að þessar vaxtatekjur séu við það miðaðar í útreikningunum, að allt tímabilið, sem útreikningarnir ná yfir, verði vextir af ræktunarsjóðslánum eða hliðstæðum lánum þeim, sem nú eru veitt úr ræktunarsjóði, 61/2 %, en af lánum til íbúðarhúsa í sveitum 6%. Ég fæ ekki betur séð en reikningarnir séu miðaðir við þetta. Og ef þetta er ekki rétt skilið, þá óska ég þess, að það verði leiðrétt nú þegar við þessa umr., því að þetta er þýðingarmikið atriði. En ég byggi mál mitt á því, að þannig sé þetta, því að mér virðist það liggja alveg í augum uppi eftir fskj. II, að þetta sé þannig fengið. Og ég vek athygli á þessu vegna þess, að hér er um ekkert lítilvægt atriði að ræða, þegar meta skal rekstrarhagnað stofnlánadeildarinnar samkvæmt rekstrarreikningnum, eins og honum er stillt upp hér á fskj. I, því að vaxtatekjurnar, sem þannig eru fengnar, eru fullur helmingur allra tekna á rekstrarreikningi. 1962 eru vaxtatekjur 16.3 millj. af 28.4, svo hreyfist þetta dálítið, en þegar líður á tímabilið, sem reikningarnir ná yfir eykst hlutdeild vaxtateknanna Þannig, að 1970 eiga vaxtatekjurnar að nema 38 millj. af 69 alls, 1971 41.9 millj. af 73, 1972 46 millj. af 78, 1973 50 millj. af 83, 1974 54 millj. af 88 og 1975 59 millj. af 94. 1975 nálgast það, að vaxtatekjurnar nemi 2/3 af heildartekjum stofnlánadeildarinnar samkv. rekstrarreikningi. Og þetta er byggt á því. samkv. því. sem ég fæ bezt skilið, að núv. vaxtafótur haldist allt tímabilið, sem reikningarnir ná yfir. M.ö.o.: með þessu þskj. er Það gefið til kynna af hæstv. ríkisstj., að hún og flokkar þeir, sem hana styðja, hafi í hyggju að beita valdi sínu og áhrifum til þess, að hinir háu „viðreisnarvextir“ af stofnlánum landbúnaðarins haldist allt til ársins 1975, þrátt fyrir það þó að sumir ráðherranna láti í það skína eða orð liggja að því í umr. um önnur mál, að sá dagur muni ekki vera langt undan, að almenn vaxtalækkun í landinu geti átt sér stað. En yrði nú sú breyting á, að vextirnir lækkuðu þrátt fyrir þann ásetning, sem virðist koma fram í þessu Þskj., og yrðu t.d. eins og Þeir voru, þegar þeir voru lægstir, 2% hjá byggingarsjóði til íbúðarhúsa og 21/2% úr ræktunarsjóði, þá hljóta vaxtatekjurnar, sem eru aðalliðurinn í tekjum stofnlánadeildarinnar, að stórlækka. M.ö.o.: þá er botninn í þessum reikningum suður í Borgarfirði.

Nú er það mikið umræðuefni út af fyrir sig, hvort landbúnaðurinn þolir að bera mjög háa vexti af stofnlánum. Sú var tíðin, að Það þótti til afreka af ráðherra Sjálfstfl. að beita sér fyrir Því. að vextir af stofnlánum landbúnaðarins væru ákveðnir 2% af byggingarlánum í sveitum og 21/2% af lánum til ræktunar og útihúsa. Þessi vaxtafótur var ákveðinn á tíma nýsköpunarstjórnarinnar, þegar Pétur heitinn Magnússon fór með yfirstjórn landbúnaðarmála. Ég hef nokkuð oft, árlega á undanförnum árum, lesið Það í Morgunblaðinu og Ísafold, að Þetta hafi sýnt góðan hug Sjálfstfl. og þáv. landbrh. til landbúnaðarins, enda hafi Pétur Magnússon verið landbúnaðinum hollur vinur. Nú er það á hinn bóginn í sambandi við þetta mál talið núv. hæstv. landbrh. til gildis og að mér skilst Sjálfstfl. til afreka að ætla að beita sér fyrir því, að hinir háu „viðreisnarvextir“ af stofnlánum landbúnaðarins haldist næstu ár. Þetta sveiflast svo langt hvort frá öðru, Þessar aðgerðir, að hvort tveggja getur ekki verið til hagsbóta landbúnaðinum. Annaðhvort er það sú stefna að hafa vextina lága til hagsbóta fyrir landbúnaðinn eða þá það, sem hér kemur fram í þessu frv.

Hæstv. ráðherra minntist á það í framsöguræðu sinni, að það væri unnið að samningum við Framkvæmdabankann um það, að vextir af lánum af mótvirðisfé, sem þaðan er greitt inn til búnaðarsjóðanna, lækki frá Því. sem verið hefur um skeið. Þetta er mjög góðra gjalda vert. En í þessu sambandi vaknar sú hugsun: Voru ekki þessir vextir hækkaðir af Framkvæmdabankanum í samræmi við hina almennu vaxtahækkun í landinu samkv. efnahagslögunum frá því, sem verið hafði að undanförnu? Og sé þetta rétt skilið, þá er núv. ríkisstj. hér aðeins að glíma við sinn eigin draug.

Hæstv. ráðherra lét það hæfa í framsögu ræðu sinni, í upphafi hennar, að fara að minnast á gjald til búnaðarmálasjóðs og sérstaklega Það gjald, sem greitt er vegna byggingarkostnaðar við bændahöllina. Um búnaðarmálasjóð og þá baráttu, sem háð var fyrir þeirri löggjöf, er löng saga. Það var háð hér á fjórum þingum samfleytt löng og hörð barátta um búnaðarmálasjóð, þar sem fylkingar skipuðust svo, að sumir hinna mætustu þingmanna Sjálfstfl., eins og Jón á Reynistað, Pétur Ottesen og Gísli Sveinsson, stóðu með þingmönnum Framsfl. í baráttu gegn meginhluta Sjálfstfl. í þessari sögu á hæstv. ráðh. Ingólfur Jónsson sérstakan kapítula. Mér finnst þessi saga ekkert erindi eiga inn í þessar umr., og ég drep á Þetta aðeins að gefnu tilefni frá hæstv. ráðh., en ætla mér ekki að fara að rekja Þessa sögu að öðru leyti, nema þá frekara tilefni gefist til síðar í umr. En af því að hæstv. ráðh. taldi hæfa að fara að vitna í það gjald, sem bændur greiða vegna byggingarkostnaðar bændahallarinnar, finnst mér ekki verða komizt hjá því að minna á, að Það gjald er lögfest vegna beiðni og áskorunar bændasamtakanna í landinu. Þegar Það gjald var lögfest, kom það fram í þskj., að búnaðarþing hafði gert samþykkt um málið, þar sem skorað er á Alþingi að lögfesta þetta gjald. Ályktun búnaðarþings er svo hljóðandi samkv. því þskj., sem þá lá fyrir:

„Á búnaðarþingi, er háð var í febrúar Þessa árs, kom fram frá fjárhagsnefnd svo hljóðandi tillaga:

Búnaðarþing ályktar að fela stjórn Búnaðarfélags Íslands að vinna að því, að lögum um stofnun búnaðarmálasjóðs verði breytt Þannig, að sett verði í lögin ákvæði til bráðabirgða, svo hljóðandi: Á árunum 1958-1961, að báðum meðtöldum, skal greiða 1/2% viðbótargjald af söluvörum landbúnaðarins, sem um ræðir í 2. gr., og rennur það til Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda til að reisa hús félaganna við Hagatorg í Reykjavík yfir starfsemi þeirra. Skal fénu skipt milli þeirra eftir hlutfallinu tveir á móti einum. Um álagningu og innheimtu gjaldsins gilda sömu reglur og um búnaðarmálasjóð.“ — Og svo er bætt við: „Þessi till. var samþykkt með 18:2 atkv.

Og á aðalfundi Stéttarsambands bænda, sem haldinn var í Bifröst í Borgarfirði 3.–4. sept. 1958, kom fram svo hljóðandi tillaga:

„Aðalfundur Stéttarsambands bænda, haldinn í Bifröst dagana 3, og 4. sept. 1958, ályktar að fela stjórn Stéttarsambandsins að vinna að því, að lögum um stofnun búnaðarmálasjóðs verði breytt þannig, að sett verði inn í lögin ákvæði til bráðabirgða, svo hljóðandi:

Á árunum 1958–1961, að báðum meðtöldum, skal greiða 1/2% viðbótargjald af söluvörum landbúnaðarins, sem um ræðir í 2, gr., og rennur það til Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda til húsbyggingar félaganna við Hagatorg í Reykjavík í sömu hlutföllum og eignarhluti þeirra er í byggingunni. Um álagningu og innheimtu gjaldsins gilda sömu reglur og um búnaðarmálasjóðsgjaldið, sem nú er.“ Þessi till, var samþykkt með 39:8 atkv.

Afstaða bændasamtakanna til þeirrar breytingar, sem gerð var á lögunum um búnaðarmálasjóð 1958, var því skýr og afdráttarlaus. En það hefur ekki komið fram í umr. um þetta mál, að leitað hafi verið umsagnar eða álits bændasamtakanna um þau gjöld, sem á að leggja á bændur samkv. 4. gr. þessa frv. Og ég segi það sem mína skoðun, að í mínum huga vegur það mjög mikið, það er þungt á metaskálunum, hvort vissa er fyrir því. að bændastéttin og fulltrúar hennar á stéttarsambandsfundi og búnaðarþingi sætta sig við slíka skattálagningu eða óska eftir henni, ellegar að þetta sé lögfest algerlega án þess að leita álits þeirra eða jafnvel gegn þeirra vilja og óskum. Þetta er mjög þungt á metaskálunum, þegar ég geri mér grein fyrir þessu máli.

En þótt þetta mál, sem hæstv. ráðh. gerði að umtalsefni, væri svo vel undirbúið og athugað, áður en frá því var gengið hér á hv. Alþingi, þótti Ingólfi Jónssyni, þáverandi þm. Rangæinga, ekki nógu tryggilega um þá hnúta búið, því að hann flutti sérstaka brtt. um þetta mál. einmitt um þetta gjald, sem hann er nú að vitna til. Þær brtt. eru svo hljóðandi á þskj. 177 1958:

„1) Aftan við ákvæði til bráðabirgða bætist nýr málsliður, svo hljóðandi:

Gjöld þessi teljast með framleiðslukostnaði landbúnaðarvara, og skal tekið tillit til þess við verðlagningu þeirra.

2) 2. gr. orðist svo:

Þegar lög þessi hafa hlotið staðfestingu, skal Búnaðarfélag Íslands hlutast til um, að fram fari um þau almenn atkvæðagreiðsla í öllum hreppabúnaðarfélögum landsins. Þau taka gildi, ef meiri hluti þeirra bænda, sem þátt taka í atkvgr., er þeim samþykkur.“

Svona varlega vildi Ingólfur Jónsson stíga fram, þegar skattleggja átti bændastéttina 1958 að eigin ósk bændasamtakanna í landinu. Og Ingólfur Jónsson vildi 1958, að það gjald, sem þá stóð til að lögfesta, teldist með í framleiðslukostnaði landbúnaðarvara og tekið yrði tillit til þess við verðlagningu þeirra. Mér virðast spor hæstv. ráðherra stefna nokkuð í gagnstæða átt við þá braut, sem hann gekk í þessu máli 1958, því að nú er lagt til af hans hálfu, að skattur, sem áætlaður er 8 millj. á ári, verði tekinn beinlínis af launatekjum bændanna sjálfra, það reiknist ekki inn í verðlag landbúnaðarvaranna. M.ö.o.: hér er stefnt að því að koma á sérstökum launaskatti á bændastéttina, og það fé á að renna inn í stofnlánadeild landbúnaðarins.

Hvað skyldu nú verkalýðs- eða launastéttirnar í landinu, sem svo eru oft nefndar, segja, ef það yrði lagt til að leggja 2% skatt á laun þeirra og féð yrði látið renna inn í hið almenna veðlánakerfi til útlána vegna íbúðabygginga? Þessi skattur jafngildir 2% af kaupi bóndans, þó að það sé 1% af brúttóframleiðslu. Nú er það vitað mál, að húsnæðismálastofnunin hefur allt of lítið eigið fé til útlána og þarf að afla sér mikils fjármagns með lánum, aðallega með lánsfé, sem fengið er af því fjármagni, sem er í umferð í þjóðfélaginu, þannig að ef þetta er snjallræði gagnvart bændastéttinni, þá væri vissulega þörf fyrir slíkt fé hjá húsnæðismálastofnuninni líka. En ég er alls ekki viss um, að launastéttirnar í landinu tækju því með þökkum, að sú leið yrði farin gagnvart þeirra byggingarmálum. Það hefur verið vitnað til fiskveiðasjóðs eða sjávarútvegsins í þessu sambandi og borið saman það gjald, sem innheimt er af sjávarafurðum í fiskveiðasjóð. Það er ekki að öllu leyti sambærilegt. Á því er mikill eðlismunur við þetta gjald, vegna þess að það gjald, sem tekið er af sjávarafurðunum inn í fiskveiðasjóð, er reiknað inn í verðlagsgrundvöll sjávarafurða og það er metið sem einn kostnaðarliður. Þegar af hálfu Alþ. og þjóðfélagsins er athugað, hvað gera þurfi vegna sjávarútvegsins með uppbótum eða gengisfellingu eða öðru slíku, þá er þetta gjald metið þar sem einn kostnaðarliður sjávarútvegsins.

Um það gjald, sem greint er í fjórða tölulið 4. gr., vil ég aðeins segja Það, að á meðan svo er, og því miður hefur það endurtekið sig ár eftir ár, að bændur fá ekki í sinn vasa fullt grundvallarverð, hlýtur Þetta gjald í reyndinni, þó að það leggist á heildsöluverðið, að dragast frá því verði, sem endanlega kemur í vasa bændanna. Það er einn kostnaðarliður, sem dregur til sín tilsvarandi hlut af afurðaverðinu, sem á að renna í vasa bændanna.

Ég sé, að fundartimi er nú þrotinn, og skal ljúka máli mínu.