13.03.1962
Efri deild: 63. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1663 í B-deild Alþingistíðinda. (1551)

170. mál, Stofnalánadeild landbúnaðarins

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég hélt nú satt að segja, að hv. 6, þm. Norðurl. e. (MJ) þyrfti ekki að vera jafnsár, óskaplega sár, og hann var í sinni ræðu. Ég hef oft hlustað á hv. þm. verja fjárlög, sem lögð hafa verið fyrir Alþingi, þar sem oft hefur verið á hann deilt, en ég hef aldrei fundið nein sárindi í því. En sannarlega var hv. þm. ákaflega sár, þegar hann var að verja sínar gerðir gagnvart bændastétt landsins með því frv., sem hér liggur fyrir. Og vel má vera, að undirstaðan fyrir því sé sú, að hann hafi orðið að láta þar nokkuð af sínum kröfum og guggnað fyrir öðrum aðilum sér sterkari. Skal ég ekkert um það ræða, hverjir þeir kunna að vera, en vafalaust eru þeir einhverjir til, þó að hv. þm. sé nú valdamikill.

Hann ræddi mikið um það, að menn þyrftu að hafa ábyrga afstöðu í málinu. Hver hefur ábyrga afstöðu í málinu? Ég efast um, Þegar hv. Þm. fer að hugleiða þetta frv. af ró og skynsemi, að honum liði alls kostar vel gagnvart bændastétt landsins. Hann veit það ósköp vel sem bankastjóri í þeim banka, sem á mest og bezt að þjóna landbúnaðinum og bændastétt landsins, hver þrýstingurinn á aukið fjármagn til landbúnaðarins er. Það þekkir þessi hv. þm. kannske manna bezt í Alþingi. Og þess vegna getur hann varla með góðri samvizku seilzt í vasa þeirra, sem eru að sækjast eftir fjármagni til hans, og beðið þá um að leggja í sjóði hjá sér, svo að hann geti lánað einhverjum aðilum meira. Ég veit, að það er eðlilegt, að hv. þm. finni mjög fyrir þessu, enda kom það greinilega fram í ræðu hans, að hann er óttasleginn gagnvart bændastétt landsins út af þessum gerðum sínum. Og hv. þm. var ákaflega hneykslaður yfir því. — hann sagði, að ég hefði snúið út úr málinu, en hann benti hvergi á, að ég hefði farið með neitt rangt. Hann gat ekki á það bent, en á hitt benti hann, að honum fannst orð mín í garð hæstv. landbrh. ekki vera viðeigandi, vegna þess að það væri ekki rétt með farið, að það hefði hallað mjög innan landbúnaðarins, siðan þessi hæstv. ráðh. kom til valda. Nú vil ég ekki segja, að það sé eingöngu hæstv. landbrh. að kenna, það eru fleiri, sem sjálfsagt hafa þar lagt hönd á plóginn. En þá finnst mér, úr því að hv. 6. þm. Norðurl. e. minntist á þessa hluti, þá hefði hann þó átt að nefna dæmi um það, sem hefur farið til betri vegar gagnvart landbúnaðinum, síðan Þessi hæstv. ráðh. og þessi hæstv. ríkisstj. kom til valda. En það gerði hann ekki, og ástæðan er sú, að það er af svo sáralitlu að taka.

Ég benti á það í ræðu minni í dag, að það hefði fyrr átt að byggja þessa sjóði upp með tilliti til framtíðarinnar, og því héldu sjálfstæðismenn fram 1946, þegar lögin um byggingar- og ræktunarsjóð öðluðust gildi. Þá átti að byggja þá upp með fyrst og fremst innlendu fjármagni og ríkissjóður að greiða Þann vaxtamismun, sem yrði á útlánum úr sjóðunum, og aftur þeim lánum, sem sjóðirnir tækju. Þetta var hugmyndin. En vegna verðbreytinga fór það út um þúfur. Og síðan var reynt að brúa bilið með mótvirðissjóði, sem átti að verða fullnægjandi um aldur og ævi, og við höfum nú heyrt lýsinguna hjá hv. 6. þm. Norðurl. e., hvernig sú tilraun tókst. Og ég er ekki búinn að sjá það, að sú tilraun, sem verið er að gera nú, bjargi málinu um aldur og ævi, þótt hún kunni nokkuð að bjarga því um stundarsakir.

Þá minntist hv. þm. á það, að við hefðum aldrei gert neitt til þess að rétta hag þessara sjóða, framsóknarmenn, þegar við höfum setið að völdum. Þetta er ekki rétt. Bara á fimm ára tímabili fá Þessir sjóðir, ræktunarsjóður og byggingarsjóður, yfir 60 millj, kr. sem óafturkræft framlag frá ríkinu. Eftir að vinstri stjórnin fór frá völdum snögglega í árslok 1958, höfum við æ ofan í æ borið fram frv. hér á Alþingi um það, að ríkið tæki á sig gengistöp þeirra erlendu lána, sem sjóðirnir tóku, en á það hefur ekki verið hlustað af þeim þingmeirihluta, sem fer með völdin í landinu. Og ég vil benda á Það, að í árslok 1959 eru eignir þessara sjóða rúmar 100 millj. kr., þegar hæstv. núv. ríkisstj. kemst að völdum. En eftir upplýsingum hv. 6. þm. Norðurl. e. er skuldin í árslok tæpar 35 millj. kr., sem sagt, hagurinn hefur versnað í tíð núv. ríkisstj. um rúmlega 135 millj. kr., og ástæðan er sú, að þeir, sem með völdin hafa farið, hafa ekki hugsað um það í jafnríkum mæli og áður var að sjá þessum sjóðum fyrir nægjanlegu fé, þannig að þeir ætust ekki smám saman upp. Þessi ríkisstj. er búin að sitja að völdum síðan í nóvember 1959, og það er fyrst nú, sem verið er að sýna lit á því að efna fyrirheitið. sem gefið var í nóvembermánuði 1959, Þegar núv. stjórn kom til valda. málin hafa verið dregin á langinn, og það er eðlilegt af þeim sökum, þar sem ekkert hefur verið gert í þessum málum, að ástandið hafi farið versnandi heldur en hitt.

Það er alveg rétt, að þessa stofnlánasjóði vantar tekjustofna. Það vitum við ósköp vel allir, þótt við hins vegar deilum um það, hvaðan þessir tekjustofnar eigi að koma. Það er að sjálfsögðu ýmislegt, sem getur orðið tekjulind fyrir þessa sjóði, Þótt sleppt væri þeim sérstaka tekjuskatti, sem lagður er á launatekjur bænda samkv. frv. þessu. Og ég vil spyrja hv. 6. þm. Norðurl. e., hvort ekki hafi komið neitt til tals og hvort ekki sé möguleiki nú að efla þessa sjóði af mótvirðisfé, hvort ekki sé þar um tekjulindir að ræða, sem gætu komið sjóðunum að gagni í framtíðinni og aukið verulega þeirra höfuðstól í framtiðinni. Ég tel, að ef svo er, þá mundi verða hægt að leysa þetta mál á miklu farsælli hátt en lagt er til að öllu leyti með því frv., sem hér liggur fyrir.

Hv. þm. sagði, að við hefðum aldrei lagt neitt til þessara mála, framsóknarmenn. Það er ekki rétt. Eins og ég gat um áðan, höfum við lagt fram frv. á hverju einasta Þingi síðan 1958 um, að ríkið taki á sig gengistöpin á þessum erlendu lánum, eins og mörgum öðrum erlendum lánum, sem gengisbreytingin kom mjög illa við, þar eins og annars staðar hjá landsmönnum, og þeim mun verr við fjöldann vegna þess, að fyrir kosningarnar um haustið 1959 var ekki verið að segja fólkinu frá gengisbreytingu. Það var ekki á stefnuskrá þeirra, sem fara nú með völdin. Og þegar hv. 6. þm. Norðurl. e. er að tala um blekkingar, má hann gjarnan hugieiða loforðin, sem hann og hans flokksmenn gáfu fyrir haustkosningarnar 1959, því að ef nokkurn tíma stangast á loforð og efndir hjá nokkrum manni, þá er það hjá þeim, sem með völdin fara í landinu nú, því að það, sem þeir sögðu hvítt fyrir kosningarnar, varð fljótlega svart eftir kosningarnar og hefur ekki hvítnað síðan.

Hv. 6. þm. Norðurl. e. sagði, að það þýddi lítið að vera að leita til stéttasamtaka eða hlusta á þau, t.d. búnaðarþing, Búnaðarfélag Íslands eða Stéttarsamband bænda, þetta væru félög, sem væri ákaflega lítið leggjandi upp úr, fjarska lítið leggjandi upp úr. Ég skil þá, vegna hvers hv. þm. hefur ekki leitað neitt til þessara aðila og reynt að tryggja á þann hátt framgang þessa máls, þegar hann var að undirbúa þetta frv., vita, hvort einhver möguleiki væri á því. En einræðiskenndin hjá hv. þm. og hæstv. ríkisstj. er svo mikil, að slíkt kom vitanlega ekki til hugar. Það er þetta blákalda strik, hvort sem um góð mál eða ekki er að ræða, þá á að halda áfram eftir Þessu striki, hvað sem hver segir, og allt annað hlýtur að vera vitleysa heldur en núv. ríkisstj. og hennar aðilar vilja vera láta, hvaða málefni sem Þeir bera hér fram á Alþingi, því að það væri áhyggilegt, að Það væri í annála setjandi, ef tillit væri tekið til nokkurra breytinga frá andstæðingum hæstv. ríkisstj. hér í Alþingi, svo blákalt er þetta strik hæstv. stjórnarsinna og ríkisstj.

Það er nú vel séð fyrir sjóðunum í framtíðinni, sagði hv. þm., vegna þess að ef verða gengisbreytingar og verðlagið hækkar, þá hækka afurðir bændanna, Þá hækka tekjur sjóðanna, þá hækkar ríkisframlagið, og þetta er allt til samræmis, þannig að bændurnir geta alltaf fengið nóg lán, nógir peningar í sjóðunum og nóg lán. Sem sagt: fyrirheitið er áframhaldandi um enn þá hærri skattlagningu á bændurna en Þó er gert ráð fyrir í þeirri áætlun, sem fylgir þessu frv. Það er þess vegna, sem áfram á að halda á þessu blákalda striki.

Ég vil ítreka það, sem ég sagði hér í dag, að landbúnaðinn vantar mikið fjármagn til þess að geta byggt sig upp í framtíðinni til samræmis við þá Þróun, sem verið hefur innan landbúnaðarins á liðnum árum og ekki sízt áratuginn frá 1950–1960. Og það fjármagn þarf að koma annars staðar að en úr landbúnaðinum sjálfum. Hann þarf allt sitt fjármagn, og hann verður að fá fjármagn annars staðar að sér til uppbyggingar. Það er fest árlega mikið fjármagn í landbúnaði, og á Því 10 ára tímabili, frá 1950–1960, var fest mikið fjármagn í landbúnaði, og 88% af því fjármagni urðu bændurnir að leggja fram sjálfir og útvega sjálfir, aðeins 12%, og er þá talið með allt, sem fór til nýbýla í landinu, — aðeins 12% komu sem framlag frá því opinbera, en 88% urðu bændurnir að leggja fram og útvega sjálfir. Og mér finnst Það koma úr hörðustu átt, um leið og bændurnir eru að leggja í fjársjóði fyrir framtíðina, sem framtíðin nýtur fyrst og fremst, þá eigi á sama tíma að fara að skattleggja þá fyrir framtíðina. Það á bæði að taka undan og ofan af. Og ég er sannfærður um það, að þetta skilur hv. 6. þm. Norðurl. e. og gerir sitt ýtrasta til þess að breyta um í þessum efnum, eins og honum er mögulegt. Og það eru þá áreiðanlega einhver annarleg öfl, sem ráða hlutunum, ef engu fæst um þokað í Þessum efnum. Það væri mjög æskilegt að fá upplýst, hvaða öfl það eru.

Hæstv. landbrh. gat þess í ræðu sinni í dag, að ef bændurnir væru skattlagðir á þennan hátt, þá yrði kannske þægilegra að útvega þeim fjármagn. En hvaðan kemur það fjármagn, og hver setur þetta skilyrði? Hver er sá aðili? Það er ákaflega fróðlegt að fá þær upplýsingar strax, áður en þetta mál fer í nefnd. En mér skildist á hv. 6. þm. Norðurl. e., að hann væri undrandi yfir því, að það væru gerðar kröfur til ríkisins. Að sjálfsögðu má gera mikið af ósanngjörnum kröfum til ríkisins og hefur vafalaust verið gert oft og einatt. En ég vil minna þennan hv. þm. á það, að ríkið tekur nú þegar af landsmönnum um tvo milljarða í ríkiskassann, og Þess vegna finnst mér það engin goðgá, þótt örlítið brot af þessu fjármagni renni til þess atvinnuvegar, sem ríkið hefur ekki þurft að greiða neinar vanskilaskuldir fyrir, því að ég hygg, að þótt um það hafi verið rætt oft í sambandi við fjárlagaafgreiðslu og alltaf hafi farið vaxandi hluti ríkisins í þeim ábyrgðum, sem ríkið hefur gengið í ábyrgð fyrir á undanförnum árum, þá hefur það ekki verið vegna þessa atvinnuvegar hjá þjóðinni. Og því finnst mér, að það sé ekki nein ósanngirni í því. þótt ríkið greiði nokkru hærri framlög til landbúnaðarins, Þar sem það hafi sýnt sig, að hann hefur staðið í skilum þannig lagað, að ekki hefur komið neitt til kasta hins opinbera að greiða fjárhagslega úr vanskilaskuldum bændanna. Ef þetta er ekki rétt með farið hjá mér, væri æskilegt að fá það upplýst.

Þá minntist hv. þm. á það, að það væri ekkert meira fyrir landbúnaðinn að greiða Þetta eina prósent í stofnlánasjóð landbúnaðarins heldur en sjávarútveginn, sem greiðir miklu meira í sjóði, sem ganga þar til útlánastarfsemi og annarrar uppbyggingar. Þetta er ekki rétt, að ég hygg, vegna þess að það gjald, sem lagt er á sjávarútveginn, er innifalið í útflutningsverði sjávarafurða og tekst ekki af kaupi þeirra manna, sem útgerð stunda. Það er innifalið í verðinu, því endanlega verði, sem þeir fá, og tekst því ekki af þeirra kaupi, sem þeir eiga að hafa til lífsviðurværis fyrir sig og sína fjölskyldu. Þarna er því nokkur skilsmunur á. Þetta leggst eingöngu á útfluttar sjávarafurðir, en aftur á móti er skatturinn, sem lagður er á bændurna, tekinn af sölunni innanlands, en undanþegið það, sem útflutt er, og ræður þar, að ég hygg, það sjónarmið, að það sé ekki hægt að flytja landbúnaðarvörur úr landi án þess, að einhver tilstyrkur þess opinbera komi þar til. Um það skal ég ekkert segja.

Það er margt breytilegt í þessum efnum nú, og skal ég ekki fara langt inn á þá hluti. En ég er þeirrar skoðunar, að það sé ekki enn þá upplýst í þessum umr., að það sé ekki hægt að ná sama fjármagni á annan hátt samkvæmt því frv., sem hér liggur fyrir, en að ganga í vasa bændanna sjálfra. Ég minntist hér á mótvirðissjóðinn, og það eru ýmsir sjóðir hér til alls konar starfsemi og uppbyggingar í landinu, og það er ekki upplýst, að þeir kunni ekki að koma þarna að neinum notum. En ég mótmæli algerlega þeim skatti, sem á að leggja á bændastéttina samkvæmt þessu frv., vegna þess að það er ósanngjarnt á allan hátt og ekki sízt þegar maður horfir á það frá þeim sjónarhói, sem blasir bezt við manni.

Ég ætla ekki að endurtaka Það, sem ég sagði hér í dag. En það var eðlilegt, að hv. 6. þm. Norðurl. e. væri nokkuð sár, því að sannleikanum verður hver sárreiðastur.